Laugardagur 31.10.2015 - 12:33 - Lokað fyrir ummæli

Hver vill kaupa banka?

Hver vill eiga banka á Íslandi? Þetta er spurning sem margir velta fyrir sér. Ríkið þarf að losa um eignarhald á stórum hluta í bankakerfinu á sama tíma og kröfuhafar Arion banka. Það stefnir því í heimsmet í brunaútsölu á bankaeignum. Ekki sér enn fyrir endann á íslensku bankabraski sem hófst í byrjun þessarar aldar.

Seðlabankinn hefur áhyggjur af rekstri íslenskra banka sem er skiljanlegt. Arðsemi af reglulegum rekstri þeirra er óviðunandi, sérstaklega þegar leiðrétt er fyrir íslenskt vaxtastig og íslenska áhættuþætti. Hvers vegna ættu menn að fjárfesta í íslenskum bönkum þegar hægt er að fá betri og öruggari fjárfestingu í sænkum bönkum, svo dæmi sé nefnt? Ein leið til að koma í veg fyrir það er að viðhalda höftum. Þau eru mikilvægur þáttur í að “hámarka” söluverð á íslenskum bönkum.

En hver eru þá gæði íslenskra banka í dag? Vissulega hafa þeir mikið eigið fé, en hvað eru menn tilbúnir að borga fyrir það? Það veltur á ýmsu, en næsta öruggt er að ef höftin hverfa á undan sölu verður kaupverðið undir bókfærðu virði. Meðalmarkaðsverð banka í Evrópu í dag er um 90% af bókfærðu virði og þýski stórbankinn Deutsche Bank selst á hálfu bókvirði. Líklegt er að íslensku bankarnir liggi einhvers staðar þarna á milli.

En arðsemi á eigið fé er ekki eini þátturinn sem fjárfestar horfa á. Gæði lánabókarinnar er stór þáttur og sagan segir okkur að í örríkjum, þar sem allir þekkja alla, er varasamt að vanmeta þennan þátt. Vandamál í íslenskum bankarekstri má nær alltaf rekja til lánabókarinnar. Spurningin sem eðlilega vaknar er, hversu stór hluti lánabókarinnar eru örugg lán sem munu borgast tilbaka? Hvernig var staðið að endurskipulagningu lána eftir hrun? Er lánabókin full af vildarvinalánum, en sala á Símanum og Borgun bendir til að vildarvinaþjónusta bankanna sé mun umfangsmeiri en menn vilja viðurkenna? Þá er það spurningin um samþjöppunaráhættu í lánabókinni. Íslenskar hótelbyggingar hafa nær allar verið byggðar á ábyrgð íslenskra fjárfesta með lánsfjármagni frá bönkunum. Slíkar fjárfestingar eru ekki áhættulausar og gætu allar súrnað á sama tíma. Hvað þá? Eignir á efnahagsreikningi geta því auðveldlega verið ofmetnar.

En hvað með fjármögnun bankanna? Kostnaður við hana getur verið vanmetinn. Innlán eru enn ríkistryggð sem skekkir verðlagninguna og þá er skuldabréfaútgáfan nær öll sértryggð sem eykur áhættu fyrir innistæðueigendur þegar ríkisábyrgð hverfur. Bönkunum hefur ekki tekist að gefa út skuldabréf, á viðráðanlegu verði, sem geta tekið á sig tap, ólíkt bönkum í nágrannalöndunum. Skuldabréf sem ekki eru sértryggð eru í eðli sínu víkjandi, í ljósi neyðarlaganna, og hafa lægri réttarstöðu en innlán. Fjárfestar eru tregir til að halda á slíkum bréfum nema til skemmri tíma, og verðið er líklega of hátt fyrir skynsaman rekstur bankanna. En án virks markaðar með víkjandi skuldabréf er erfiðara að meta þá áhættu sem markaðurinn leggur í rekstur bankanna. Það vekur líka upp þá spurningu, hvers vegna ættu fjárfestar að vilja kaupa hlutabréf ef enginn vill kaupa víkjandi skuldabréf?  Það gera menn því aðeins, að þeir hafi áhuga á völdum og áhrifum sem hlutabréf veita og svo hugsanlegu gróðatækifæri fái þeir hlutaféð á brunaútsöluverði og með seljandaláni. Þessi staða sýnir vel hversu óþroskaður íslenskur fjármálamarkaður er.

Það er því varla hinn undirliggjandi rekstur sem menn eru spenntir fyrir heldur brasktækifæri í spilavítisarmi bankanna. Enda hafa flestar þær stofnanir sem aðeins stunda venjulega viðskiptabankaþjónustu, þ.e. sparisjóðirnir, gefist upp eða farið á hausinn. Það bankakerfi sem nú mun rísa eftir formúlu stjórnmálastéttarinnar verður ekki áhættulaust fyrir heimilin. Menn þurfa ekki annað en að horfa á rekstur RÚV og ÍLS til að sjá hvert getur stefnt. Ef höftin verða losuð fá sparifjáreigendur hins vegar val. Þeir geta látið sparifé sitt í vörslu íslenskra sjórnmálamanna og vildarvina þeirra eða t.d. í vörslu kanadískra banka sem stjórnað er af fagfólki.

Eina von Íslendinga til að geta endurreist og rekið trúverðugt bankakerfi er að fá erlenda fagaðila með í hluthafahóp bankanna. Ef allir bankarnir enda í höndum Íslendinga munu áhættufælnir sparifjáreigendur hefja útrás með sitt fé. Þannig er erlent eignarhald á bönkunum tengt afnámi hafta og í raun nauðsynlegt skilyrði fyrir varanlegu afnámi þeirra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur