Fimmtudagur 03.11.2016 - 13:57 - Lokað fyrir ummæli

Launastefna í öngstræti

Launastefna íslenska ríkisins er komin í öngstræti. Ákvörðun kjararáðs sýnir vel hversu hættuleg íslensk sérviska er. Að vera leiðandi í launum þingmanna á Norðurlöndunum getur ekki verið skynsamleg stefna fyrir örríkið Ísland.

Rökin fyrir að reynslulausir þingmenn skulu fá sömu laun og reyndir dómarar halda ekki. Eru menn búnir að gleyma bankahruninu, en fyrir þann tíma voru íslenskir bankamenn með ein hæstu laun á Norðurlöndunum vegna þess að þeir báru svo mikla ábyrgð! Að láta ábyrgð trompa reynslu og þekkingu þegar kemur að launum er hættulegt eins og sagan ætti að kenna mönnum.

Það sem gerir málið núna enn vandræðalegra er sú fordæmalausa staða sem ríkir hjá íslenskum dómstólum. Dómstólar eru undir gríðarlegu álagi eftir hrunið en framboð af góðum og reyndum dómurum er mjög takmarkað. Framboð af reynslulausum þingmönnum er hins vegar nær ótakmarkað. Þegar kemur að ákvörðun launa verður að horfa heildstætt á viðfangsefnið.

Kjararáð verður að fá að starfa sjálfstætt og alþingi má ekki setja lög sem hindrar ráðið í að vinna skynsamlega og eftir viðurkenndum aðferðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur