Þriðjudagur 22.11.2016 - 07:41 - Lokað fyrir ummæli

Um Landsbankaskýrsluna

Fátt kemur á óvart í skýrslu Ríkisendurskoðunar á eignasölum Landsbankanum. Eigendum bankans mátti vera ljóst strax eftir söluna á Vestia að styrkja þyrfti umgjörð um ákvarðanatöku á sölu eigna og annarra þátta sem falla utan daglegs reksturs bankans. En því miður var ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir Borgunarklúðrið.

Þó vissulega þurfi að styrkja regluverkið og verkferla þarf einnig að huga hinum mannlega þætti og samskiptum þeirra aðila sem bera ábyrgð á ákvarðanatökunni. Eftir hrun var lögum um hlutafélög breytt með það í huga að taka fyrir hugtakið „starfandi stjórnarformaður“. Sami maður getur ekki bæði starfað sem forstjóri og stjórnarformaður. Fyrir þessu liggja góð rök, t.d. á stjórnarformaður að hafa eftirlit með störfum framkvæmdastjórnar. En þetta nýja ákvæði leysir ekki endilega vandann. Það er vel þekkt í sögu stjórnarhátta fyrirtækja að það getur skapað vandamál þegar samskipti forstjóra og stjórnarformanns verða of náin. Oft er talað um að þessir aðilar setjist einir í flugstjórnarklefann og fari á flug, með aðra stjórnarmenn á almennu farrými. Í þessari stöðu hefur hinn almenni stjórnarmaður fáa möguleika til að grípa inn í atburðarásina og vara eigendur við.

Landsbankaskýrslan afhjúpar veikleika í íslenskum stjórnarháttum. Mun betur þarf að standa að vali og þjálfun stjórnarmanna. Óháðir sérfræðingar þurfa að koma að þeirri vinnu líkt og tíðkast í nágrannalöndunum. Þá þurfa félagsstjórnir og löggjafinn að huga betur að því að vernda starfsmenn sem uppljóstra um raunveruleg vandamál og áhættuþætti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur