Þriðjudagur 24.02.2009 - 00:40 - 13 ummæli

Eyðileggja þeir persónukjörið?

 

Af lýðræðisumbótum sem nýja stjórnin hefur kynnt eftir búsáhaldabyltinguna sýnist mér nokkuð sennilegt að stjórnlagaþingið nái í gegn – en held að persónukjörið verði að engu í höndum núverandi þingmanna.

Það væri verra. Ein af lexíunum sem við drógum af hruninu og frammistöðu stjórnmálamanna í upphafi kreppunnar var að flokksræðið setti almennum alþingismönnum stólinn fyrir dyrnar. Þess vegna á almenningur að hafa meiri áhrif. Tillögurnar um persónukjör eru skref í þá átt – lítið skref, en skref þó – og „stjórnmálastéttin“ hefur ekki leyfi til að klúðra þessu máli. Það má ekki gerast aftur að alþingismenn sitji þegjandi og horfi hver á annan meðan eldarnir loga.

Persónukjörstillögurnar gera ráð fyrir því að kjósandi raði frambjóðendum í forgangsröð um leið og hann kýs tiltekinn lista. Flokkarnir setja þá fram frambjóðendur sína í stafrófsröð, og kjósandinn setur 1 við eitt nafn, 2 við annað og svo framvegis einsog hann nennir. Kjörnir þingmenn verða þá einfaldlega þeir sem fá flest vegin atkvæði. Höfundar tillagnanna, Þorkell Helgason og Gunnar Helgi Kristinsson, gera líka ráð fyrir að flokkar geti haft þetta einsog verið hefur, og bjóði kjósendum þá ekki aðra röðun en þær marklitlu útstrikanir sem nú tíðkast. Þriðja leiðin var svo sú – ég  veit ekki hvort hún verður með í frumvarpinu – að kjósendur hafi persónukjör en framboðin raði þó sjálf mönnum á listann. Það hefur Þorkell með brosi á vör kallað „áróður á kjörstað“ – kjósendur ráða þá vissulega röð frambjóðenda en framboðið lýsir vilja sínum og hvetur „eigin“ kjósendur til að raða eftir flokkslínunni: 1 á efsta mann, 2 á næsta og svo framvegis.

Sumum finnst þetta ómerkilegt, vilja beint lýðræði strax og helst þjóðaratkvæðagreiðslur á netinu, og aðrir vilja geta kosið fólk af öllum listum, nú eða í einmenningskjördæmum. Slíkar breytingar nást ekki fyrir kosningarnar í vor vegna þess að þá þarf að breyta stjórnarskránni. Til þess þarf en tvær þingsamþykktir með kosningum á milli. Um þetta er einmitt stjórnlagaþingið.

En tregða þingmanna stafar þó yfirleitt ekki af því að þeir vilji ganga lengra. Þvert á móti er þar áberandi japl og jaml og fuður – sem fyrst og fremst stafar af því að þeir eiga alltof margir erfitt með að taka persónulega hagsmuni sína út úr myndinni. Sjálfstæðisflokkurinn maldar í móinn og talar um tímaskort. Hættan er sú að aðrir þingmenn noti afstöðu íhaldsins sem afsökun fyrir að falla frá málinu.

En sumar af athugasemdunum við þessa nýju skipan eru auðvitað gildar.

Ein er sú að þetta verði ruglingslegt og það sé hætta á að kjósendur skilji ekki fyrirkomulagið og geri vitleysur. Þetta er rétt – en eru ekki tímar einsog þessir upplagðir til að reyna nýjungar? Pólitískur áhugi er mikill og almenningur er reiðubúinn að notfæra sér réttarbætur einsog þessar. Þar að auki höfum við alltaf verið nokkuð góð í kerfisbreytingum, frá hægri umferð gegnum núllin tvö af krónunni yfir í rafrænar skattskýrslur. Það var ekki síður flókið.

Önnur er sú að frambjóðendur á hverjum lista séu of margir. Í núverandi skipan eru 10–12 þingmenn í hverju kjördæmi, sem þýðir lista uppá 20–24 frambjóðendur. Þetta er ansi mikið að raða. Og hvað með heiðurssætin? – Líka réttmæt athugasemd. En það þarf ekki að raða öllum. Og ættu framboðin kannski að fækka á listunum til að auðvelda kjósendum valið? Sleppa heiðurssætunum? Það er auðvitað áskorun fyrir framboðin að hugsa þetta upp á nýtt. Er það ekki bara fínt? Ekkert er ómögulegt í þessu ef við viljum raunverulega að kjósendur fái þennan rétt.

En prófkjörin? spyrja margir. Þau eru þegar farin af stað, og eiga svo aftur að vera prófkjör í kosningunum? – Alveg rétt. En þá gætu framboðin einmitt notað þá reglu að raða sínu fólki upp eftir úrslitum í prófkjörinu, og hvatt kjósendur sína til að virða þá röð. Prófkjörin væru þá einmitt forkosningar eða skoðanakönnun. Flokkarnir þurfa eftir sem áður að stilla upp í sætin. Og núna þurfum við að þora.

Enn er sú röksemd tínd til að það sé ómögulegt að hafa mörg kerfi í gangi – hugsanlega sumsé tvö eða þrjú með afbrigðunum í persónukjörsframboðunum. – Það er líka nokkuð til í þessu. Á móti kemur að hvert framboð getur valið sér eina af þessum þremur aðferðum, þá sem því hentar best og er í mestu samræmi við hugmyndagrunn flokksins. Ætli íhaldsmenn mundu ekki velja gömlu aðferðina? – anarkistar örugglega óraðaðan lista, og enn öðrum hentaði þá millileikurinn með leiðbeinandi röðun.

Ætli hér sé ekki komin gamla góða samtryggingin? Flokkur sem vill hafa sína röð á frambjóðendum, honum líkar ekki að aðrir flokkar bjóði kjósendum að ráða. Þessvegna sé best að allir sitji í sömu súpunni, og að enginn hreyfi sig út úr gamla sýsteminu.

Sjálfur hafði ég það mest á móti persónukjöri að með því mundi prófkjörsstemmingin framlengjast alveg fram á kjördag. Framboðin gætu leyst upp í átök milli einstakra frambjóðenda á listanum (það er nóg samt!) og á venjulegum degi í kosningabaráttu mundu frambjóðendur fara að rífast hver við annan um það hver fengi að fara á fimmhundruð manna vinnustaðafund á Lansanum  og hver færi að hitta fimm varahlutakalla í Höfðunum. Hver fær að fara síðasta kvöldið í sjónvarpsumræðurnar, og hver verður látinn hella upp á kaffið á kosningamiðstöðinni?

Svo hugsar maður næst að ef framboð lenda í erfiðleikum af þessu tagi – þá eiga þau ekki skilið að fá mörg atkvæði. Persónukjör mundi einmitt krefjast meiri aga af frambjóðendum, og þeir þyrftu að vera alveg vissir um að þeir vildu í raun og veru bjóða sig fram hver með öðrum fyrir sameiginlegan málstað.

Ef eitthvað í líkingu við persónukjörið gerist ekki einmitt fyrir kosningarnar í vor – hvenær þá? Gleymum því svo ekki að í þessum efnum eru minniháttar mistök ekki bönnuð. Það er hægt að laga kosningakerfið seinna – það er nú hvorteðer ekki stokkið fullskapað út úr höfði Seifs. Einhverjir mundu kannski falla sem annars hefðu náð. Og hefur það ekki gerst áður?

Starfið er margt – og nú þarf að taka til höndum út um allt samfélagið. Það er eðlilegt að fá í hnén. En látum þá endilega ekki eyðileggja fyrir okkur persónukjörið. Það skiptir máli að stíga skref fram á við. Og núna þurfum við að þora.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

»

Ummæli (13)

  • Þakka þér fyrir þessa þörfu grein Mörður – það er orð með sönnu að nú þurfum við að þora.

    Hvet almenning sem hefur áhuga á að fá skýr svör varðandi þetta mikilvæga málefni að koma á borgarafund í Iðnó á fimmtudagskvöld þar sem verður fjallað um persónukjör og kosningalög.

  • Þetta undirstrikar enn einu sinni þörfina á stjórnlagaþingi þjóðarinnar þar sem við erum ekki með alþingimsmenn og ráðherra innanborðs!

    Þótt Alþingismenn séu ágætisfólk – þá einhvernveginn detta þeir alltaf í þá gryfju að verja eigin hagsmuni. Þetta einkennir þingmenn allra flokka!

    Tökum sem dæmi aðstoðarmenn þingmanna.

    Þeir gátu ómögulega komið sér 3 saman um heilan aðstoðarmann – heldur vildu þeir allir 3 x 1/3 aðstoðarmann – þar sem fjárveitingin var fyrir 1/3 starfskrafti.

    Reyndar tel ég miklu farsælla að 1. varaþingmaður fái laun til þess að vinna með félögum sínum í þinginu en að hver þingmaður fái 1/3 aðstoðarmann.

    Það hefur verið farsælt í borgarstjórn þar sem varaborgarfulltrúar fá þóknun – og þurfa reyndar að sitja jafnframt í nefnd – svo þeir geti starfað að borgarmálunum og verið reiðubúnir þegar þeir þurfa að taka sæti.

  • Mörður Árnason

    Góðar athugasemdir — og fundurinn á fimmtudagskvöld verður fróðlegur. Ég kemst ekki fyrren seint. — Afsökunarbeiðni til þeirra sem áður höfðu brugðist við með ummælum, þau duttu út við útlitslagfæringar á bloggsíðunni!

  • sælir
    ef þú kemst aftur á þing, megum við þá eiga von á því að þú notir ávallt atkvæði þitt með flokkslínuni þó það gangi gegn þinni persónulegu skoðun….Tek þig fyrir einstakling sem hafir sjálfstæða skoðun og sért tilbúinn að standa á henni. Er það alveg útilokað að Höskuldur sé einfaldlega að vinna vinnuna sína og standa á sinni sannfæringu. Eigum við kannski alltaf að rísa upp þegar þingmaður kýs á annan veg en flokkurinn sagði og snúa hann niður og henda honum út af þingi….

  • Ég er að pússa mína potta og skerpa mínar sleifar.
    Þetta er ekki hægt.
    Enda Framsókn til vandræða eins og ætíð.

  • Stýrir þú búsáhaldabyltingunni… var hún kannski bara pólitíkst verkfæri Samfylkingar til að losna úr óvinsælli ríkisstjórn ?

  • Er s.s. þingmaður sem situr á þingi fyrir annan flokkinn af tveimur sem myndaði meirihlutann, og var helmingur ríkisstjórnarinnar, sem mótmælin beindust helst gegn að hóta mótmælum gegn þingmanni sem neitar að fylgja línu minnihlutastjórnarinnar?

    Hvernig er það, var ekkert rætt um að efla þrískiptingu ríkisvaldsins í kringum þessa byltingu?

  • Já… óþolandi þegar að menn fylgja ekki þessum æðislegu flokkslínum sínum og „stay the course“…

    gersamlega óþolandi…

    Burt með ykkur öll…

    Og þó D-ið sé ljótast, þá er engin prinsessa þarna, aðeins skelfilega ljótar systur…

    ps: Ekki lamdi ég á minn teflonhúðaða eggjaspælara fyrir þig, heldur gegn þér!!! HALLÓ

  • Já Mörður minn, ég vissi ekki að þú hefðir verið við stjórnvölinn í búsáhaldabyltingunni…

  • Síðasta málsgreinin er alveg einstaklega klaufaleg, Mörður. Búsáhöld voru lamin í andstöðu við ráð- og dáðleysi Samfylkingar, rétt eins og Sjálfstæðismanna. Ótrúlegt að það þurfi að vera með söguupprifjun vegna atburða síðustu mánaða.

  • Nei, Stefán Bogi, sagði ég það? Var annars einhver við stjórnvölinn þar — nema þá Hörður? En við munum kröfurnar á Austurvelli: 1) Kosningar, 2) Burt með ríkisstjórnina, 3) Nýja stjórn í Fjármálaeftirlitið, 4) Nýja bankastjórn í Seðlabankann. Þrjár komnar, ein eftir.

  • Mörður: Hvað með aðgerðir til bjargar heimilunum, bætta stjórnarskrá, láta reyna á Icesave skuldbindingar fyrir dómstólum, o.s.frv?

    Svo eru kosningar ekki komnar, þannig að þið getið ekki strikað það af listanum fyrr en að kjördegi loknum. Svo er hálf ríkisstjórnin enn við stjórnvölinn. Þannig að 1,5 komið, 2,5 eftir

  • Hvað er málið með þetta prófkjör? Af hverju eru menn að óska eftir einhverjum tilteknum sætum á lista? Mér finnst þetta gersamlega út úr kú. Er ekki lang rökréttast að menn einfaldlega bjóði sig fram til þingmennsku fyrir flokkinn sinn í tilteknu kjördæmi og sá sem fær flest atkvæðin hlýtur efsta sætið á lista o.s.frv.?

    Þessi framboð í tiltekin sæti lyktar langar leiðir af flokksræði.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur