Þriðjudagur 24.02.2009 - 10:02 - Rita ummæli

Ánægja, afsökun, Ísfahan

Gaman að vera byrjaður aftur að blogga. Hætti eftir kosningar í hittifyrra þegar mér var hent út úr þinginu, svo var ég í vinnu við vefinn hjá Samfylkingunni, skrifaði þar meðal annars „leiðara“ og fannst hálf-kjánalegt að blogga sjálfur við hliðina, og þar á eftir var talsvert að gera við að verða sjálfstætt-starfandi fræði- og stjórnmálamaður á Reykjavíkurakademíunni, og svo kom hrunið og mótmælahreyfingin og búsáhaldabyltingin.

Illar tungur segja auðvitað að þetta nýja Eyjublogg sé bara útaf prófkjöri Samfylkingar. Touché. En bloggið er líka ákveðinn lífstíll sem ég saknaði. Á meðan bætti Linda úr og er orðinn meiriháttar Feisari (kemur fyrir ég spyr hana hvaðan hún fái laun fyrir þau störf). Ég hef einmitt hugsað mér að vera síðasti Íslendingurinn utan Fésbókar. Linda já – ég bið afsökunar þá sem gerðu ágætar athugasemdir við fyrsta pistilinn um persónukjörið. Linda einmitt heimtaði að fá að laga hér til mynd og letur með þeim afleiðingum að allar athugasemdirnar hurfu. Í þeim viðburði er örugglega falin einhver æðri speki, ég bara veit ekki hver.

Nokkrir hafa annars spurt hvaðan sé þessi sérstæða mynd. Hún er tekin á Ímamtorginu í borginni Ísfahan í miðju Íran – næststærsta borgartorg í heimi á eftir Torgi hins himneska friðar, segja heimamenn, frá 16. og 17. öld og ótrúlega glæsilegt, enda ekki leyfðar í grenndinni byggingar sem sést gæti í frá torginu – bara fjallið. Konungshöllin með súlunum til vinstri, því Ísfahan var höfuðstaður Persíu á blómatíma sínum, en ekki sjást hér moskurnar tvær við torgið, önnur stór og mikil og merkileg – hin smá og fínleg fyrir kvennaskara sjasins, Lótfollamoskan, einhver fegursta bygging sem ég hef barið augum. Við vorum þarna með Jóhönnu Kristjóns í mars í fyrra – í þeirri ferð var aðalspenningurinn á hverju kvöldi að vita hvað krónan hefði fallið mikið þann daginn. Og á Ímamtorginu í Ísfahan könnuðust menn við Ísland. Einn sölumaðurinn á basarnum taldi upp norræn lönd þegar hann sá okkur og þegar við kinkuðum kolli við „Iceland, Iceland“ brosti hann sínu breiðasta og tók upp nafnspjald Guðmundar Árnasonar fyrrverandi ráðuneytisstjóra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í menntamálaráðuneytinu. Við reyndumst vera búin að afgreiða teppamálin, sem voru vonbrigði fyrir okkar mann, og við urðum í staðinn fyrir vonbrigðum með að hann skyldi ekki þekkja Þorgerði Katrínu. Svo bara var brosað.

Annað nafn á Ísfahan er Naksj-e-djehan, hálfur heimurinn. Og okkur dvaldist á Ímamstorgi og hugsuðum um allt annað en yfirmenn í íslensku ráðuneyti.

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur