Mánudagur 02.03.2009 - 08:47 - 8 ummæli

Mataræði risaeðlna

Það var mikil hamingja hjá okkur stuðningsfeðgum þegar við fundum á Borgarbókasafninu Risaeðlubókina frá Skjaldborg. Textinn er að vísu nokkuð fræðilegur en það kemur ekki að sök því sonurinn (fjögurra ára en bráðum fimm og svo sex) er ekki langt kominn í lestrarlistinni og föðurnum gefst því nokkurt svigrúm til túlkunar – en myndirnar eru stórkostlegar og þar sjást mörgþúsund risaeðlur við ýmis tækifæri alstaðar á hnettinum, nema á Íslandi sem hefur þann alkunna galla að þar eru mjög fá dýr og engar risaeðlur.

Þarna eru myndir af stórum eðlum með langan háls að borða lauf af trjánum, og myndir af eggjum og ungum, en meiri athygli vekja eðlur á tveimur fótum með mjóar hendur en rosalegan kjaft með beittum tönnum, og sérstaklega þegar þær eru að slást eða elta önnur dýr.

Mikil harmsaga er það svo þegar kemur að endalokum risaeðlnanna. Það þarf að skýra út hvað loftsteinn er og hverjum ósköpum hann getur valdið en í Risaeðlubókinni er einmitt mynd af téðum loftsteini að lenda á jörðinni með eldglæringum og hávaða, og síðan af trjám sem eru dáin og stórri dáinni eðlu og annarri sem er mjög lasin í öllu rykinu. Þetta vekur ýmsar spurningar, einkum þegar flett er á næstu opnu með myndum af dýrunum sem af lifðu: fuglar og stórir kettir, svín og einhverskonar apar sem stuðningsfaðirinn staðhæfir að seinna verði að mönnum. Af hverju dóu ekki þessi dýr líka? Jú, þau voru svo lítil og földu sig niðrí í jörðinni þegar loftsteinninn kom, eða flugu burt á himninum. En hvernig vissu þau að loftsteinninn var að koma? Var ekki ryk líka í himninum? Og þetta tígrisdýr með stóru tennurnar, hvernig komst það ofan í jörðina?

Þegar ekki verður lengur dvalið við þessa tilvistarspurn er aftur flett á uppáhaldsstaðina, sem einkum eru bardagaatriði og meðfylgjandi borðhald. Á einum stað er stór svört eðla að taka litla græna eðlu í kjaftinn og önnur stór eðla með munninn fullan af blóðugu kjöti en hinar litlu eðlurnar forða sér á miklu stökki yfir fenin. Svo er eðla að éta stóran fisk og reyndar nokkrar niðrí sjónum við aðskiljanleg veisluhöld. Mikla athygli vekur mynd af knálegri eðlu með mikil horn og digran hala, í kringum hana hlaupa margar grimmar eðlur smærri og ætla að bíta hana og éta svo, en rétt hjá er hávaxin eðla, afar tannhvöss, og eru áhöld um það hjá okkur feðgum hvaða afstöðu sú hafi til atburða. Ég held því fram að hin síðastnefnda sé vinur ofsóttu eðlunnar og ætli að koma að hrekja stóðið burtu en sá fjögurra ára telur að hún sé að bíða eftir að bardaginn klárist og ætli að éta þá sem eftir verða.

Í miðri þessari umræðu þagnar stuðningssonurinn, horfir nokkra stund á atganginn og segir svo: Já, en af hverju kaupa þær sér ekki bara hamborgara?

Ég ætlaði annars að blogga eitthvað um tíðindin í Samfylkingunni – en stranda einhvernveginn alltaf á þessu með hamborgarana …

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Diplodocus

    Tær snilld.

    En meðal annarra orða: Eru ekki einmitt fáeinar risaeðlur á vappi í prófkjörinu ykkar?

  • Ja, mér er nú nær að halda að risaeðlurnar hafi verið felldar í prófkjöri afþví hamborgararnir þeirra voru svo bragðvondir.

  • G. Ævar Hilmarsson

    Það voru risa – eðlur tekin fyrir vændi hér um daginn. ( Hreðjuverkakonur)

  • Benedikt

    Eru eðlur virkilega eðlna í eignarfalli? Ég hefði tippað á að það væri „til eðla“. En ég vil ekki rengja íslenskufræðinginn.

  • Ég hélt það væru einmitt nokkrar risaeðlur í flokkunum sem trúa því að þær séu ómissandi?

  • Þetta er miklu skemmtilegra en tíðindi úr Samfylkingunni.

  • Mörður Árnason

    Jú, Benedikt, Árni Böðvarsson sagði að maður ætti alltaf að setja -n- í eignarfall veikra kvenkynsnafnorða alltaf þegar það er hægt. Og -eðlna finnst mér bara nokkuð gott. En stundum er best að nota bara ekki eignarfall fleirtölu af veikum kvenkynsnafnorðum!

  • Páll J.

    Ég vil nú benda á það (sem höfundur reyndar áttaði sig örugglega á en taldi ekki á fjögurra ára barn leggjandi) að kettir, svín og apar lifðu af atburðina einmitt vegna þess að þau voru alls ekki til á þessum tíma… þetta var að öllum líkindum allt sama litla snjáldrukvikindið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur