Miðvikudagur 29.04.2009 - 07:39 - 11 ummæli

VG og ESB: Textinn sjálfur

Vinstriflokkarnir tveir hljóta að koma sér saman um Evrópusambandsumsókn, hvaða leið sem menn velja að henni og hvað sem hún er látin heita. Auðvitað hafa stjórnmálamenn úr öðrum flokkum gert mikið úr ágreiningi þeirra um þetta, og svo auðvitað Morgunblaðið, en þeir hafa sér til afsökunar að yfirlýsingar Steingríms J. Sigfússonar og Atla Gíslasonar hafa verið nokuð á skjön við þá málamiðlun sem náðist um ESB á landsfundi VG. Þar eru ítrekaðar efasemdir um að aðild samrýmist hagsmunum Íslendinga — þó að nú væri — en líka talið að ekki verði úr skorið nema með þjóðaratkvæðagreiðslu. Merkilegt að setningin um atkvæðagreiðsluna er orðuð jákvætt, það eigi að leiða þetta lykta með þjóðaratkvæði; í staðinn fyrir hefðbundna neikvæða orðun: Því aðeins í ESB að þjóðin hafi samþykkt samning.

Þegar maður les ályktun landsfundarins frá í vor kemur líka í ljós að VG hefur ekki (lengur a.m.k.) á stefnuskránni atkvæðagreiðslu um aðildarumsókn, tvöfalt þjóðaratkvæði, einsog Sjálfstæðisflokkurinn nú og Framsókn áður. Það skiptir miklu máli. Í þessu ljósi er að vænta athyglisverðra tíðinda úr Evrópunefnd stjórnarmyndunarviðræðnanna þar sem þeir fara fyrir félagi Ögmundur og félagi Össur.

Í fílólógíunni er æðsta boðorðið að taka aldrei mark á neinu nema textanum sjálfum, og hér er textinn sjálfur, Evrópukafli landsfundarályktunar VG um utanríkismál:

,,Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.  Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og að hliðsjón verði höfð af væntanlegum stjórnarskrárbreytingum og hvað eðlilegt getur talist þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um framsal og fullveldi.“

Norge sa nei

Steingrímur og Atli og svo framvegis — auðvitað hljótum við að virða skoðanir þeirra, sem byggjast bæði á raunverulegum rökum, óvissu og ótta um framtíðina innan ESB, og á gamalli afstöðu og tilfinningum. Steingrímur hefur alltaf haft sterk norræn tengsl, ekki síst norsk, og Atli var í framhaldsnámi í lögum í Ósló, sömu vetur og ég var þar að grúska í grísku og sanskrít.

Ég kom þangað rúmum tveimur árum eftir atkvæðagreiðsluna 1972, og það var hetjuljómi yfir þessari þjóð í augum róttæklinga um alla Norður-Evrópu. Ekki síður hjá íslenskum námsmönnum í Ósló. Þegar ég kom fyrsta sinn í heimsókn til góðs vinar míns á Studentbyen Sogn dró hann út skúffu í skrifborðinu sínu þar sem hann geymdi einsog helgan dóm blað frá því daginn eftir atkvæðagreiðsluna með flennifyrirsögn yfir þvera forsíðuna: NORGE SA NEI.

Þetta var auðvitað mikill sigur gegn hinu alþjóðlega auðvaldi, og þann sigur hafði unnið bandalag róttækra ungmenna, ekki síst námsmanna, gamla vinstrið, hluti af krötunum, bændur og sjómenn — gegn stóru flokkunum, meirihluta vinnuveitenda, forustu verkalýðshreyfingarinnar, flestum álitsgjöfum og fjölmiðlum. Einmitt gegn ,,elítunni“ — og engin furða að Steingrímur hafi búið sér til eina slíka til að tala gegn í Sjónvarpinu um kvöldið.

Seinna fann maður út að þarna höfðu ráðið harðir hagsmunir meðfram hugsjónaglóðinni — og þótt margt væri vel gert í áróðri brá mér aðeins við plakatið þar sem sæti litli græni Noregur var í einu horninu en Evrópa vonda á leiðinni að gleypa hann með stórum reykspúandi strompum og bakvið vængir þýska arnarins frá 1933-45. Uppúr þessum atburðum spratt svo á vinstrikantinum ákaflega þreytandi þjóðlegur og bernskur maóismi sem ýmsir Íslendinganna létu heillast af — þar á meðal Atli Gíslason þótt hann héldi lengstaf fullum sönsum.

Fyrir sjálfum mér átti það svo að liggja að dveljast nokkur námsdægur í Frakklandi þar sem gafst önnur sýn að Evrópusambandinu — með vígvellina austur af, sífelld minnismerki í hverju þorpi um hina föllnu í fyrra stríði og seinna, litlu skildina í París um þá sem féllu í andspyrnuhreyfingunni og frelsuninni, áminningar stórar og smáar um hina stríðshrjáðu álfu, svo fagra samt og fjölbreytta og gáfaða og auðuga.

Í Noregi fengu þeir hinsvegar olíu og eru enn að segja nei.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Sæll Mörður Árnason.

    Þú bloggar ekkert um 656 útstrikanir sem þú fékst í síðustu alþingiskosningum.
    Þú Bloggar bara Þráinn sem fékk aðeins 300 útstrikanir við sama tækifæri.

  • Mörður Árnason

    Væri kannski nær að útstrikararnir 656 blogguðu um mig! — en þetta er góð hugmynd og ég lofa bloggi seinna um útstrikanirnar. Maður á að taka slíkar ábendingar í fullri alvöru og reyna að finna út af hverju kjósendur bregðast þannig við. Er að því, Magnús.

  • Ég veit ekki hvort 656 útstrikanir segja nokkuð um stjórnmálamannin Mörð Árnason. Hann á að njóta þess í mínum huga að vera trúr sínum skoðunum.
    Það er ekki mjög algengt í pólitík og hentistefna er mun vænlegri til vinsælada. Þess vegna búa flestir alvöru hugsjónamenn við það böl að fá eitthvað af útstrikunum í kosningum í mörgum tilfellum (þó ekki öllum) er það ákveðinn gæðastimpill. Það eru ekki staðlaðar forsendur fyrir útstrikunumkjósenda svo þetta verður að metast hverju sinni.
    Útstrikanir Árna Jónsen eru af allt öðurum toga, einnig Katrínar , Steinunar
    Valdísar og Guðlaugs Þórs. Þó ég sé ekki skoðanabróðir þinn Mörður og finnist þú fabúlera stundum eins og í óráði um ESB, Þá átt þú að njóta sannmælis fyrir að vera trúr þínum skoðunum og ekki á mútujötunni.

  • Steingrímur og Jóhanna finna lendingu í þessu máli enda komin á lokasprett síns pólitíska ferils og minnug um dóm sögunnar. Sá aðili sem sliti þessum viðræðum mundi alla ævi þurfa að búa við að hafa svikið félagshyggjuöflin á Íslandi á ögurstundu og hvorug hafa tíma til að láta mynnast sín fyrir eitthvað annað.

  • Nýi Dexter

    Þá er bara eitt vandamál eftir. Við, meirihluti þjóðarinnar erum á móti þessu. Eða á að svelta okkur til hlýðni með aðgerðaleysi og algjörum skorti á framtíðarsýn? Að frátöldu ESB.

  • Sæll Mörður og til hamingju! Því þú minnist gamalla daga í Osló og 25. september 1972 þegar Norge sagði NEI, er ekki úr vegi að nefna að líklega hefur atburðarás sögunnar breytt ESB eins mikið og ESB hefur breytt atburðarrásinni. Það kanski erfiðara að viðurkenna en að sjá að þetta ljóta og vonda skrímsli frá 1972 hefur fært aðildarlöndunum meira gott en vont. Enda þótt íslendingar og norðmenn hangi utaná, vegna EES, þá dettur fáum í hug að hallmæla Evrópuverkefnunum á sviði mennta og vísinda. Leiti Ísland inn í NAFTA (EFTA Norður Ameríku) eins og frú Maddox í London Times stingur að íslenskum ráðamönnum, verða íslendingar að hætta þessu evrópusamstarfi og fá hvað í staðinn? Það er svo sem hægt að halda áfram með EES og þverskallast við að taka þátt í ákvörðunarferlinu. En þá ættu menn líka að hætta að tala um lýðræðishalla.
    Kveðja frá Osló.

  • Mörður Árnason

    Það er rétt, Albert, það Evrópubandalag sem Norðmenn höfnuðu 1972 er ekki sama Evrópusambandið og við ætlum að semja við núna. Félagslega hliðin breyttist mikið á níunda áratugnum undir forustu Delors, og nú er komið norrænt bandalag með inngöngu Svía og Finna. — Ég er enn þeirrar skoðunar að Norðmenn hafi gert rétt í að segja nei 1972! og er jafnhrifinn af þeirri sögulegu uppreisn og þeir Atli og Steingrímur (og þú …) en held að þeir hafi gert mistök 1994. NAFTA? — Nei, það er ekki leiðin — enda gerir það ekkert fyrir gjaldmiðilinn sem núna er öskrandi nauðsyn.

  • Eiríkur Bergmann sérlegur sérfræðingur Samfylkingarinnar í Evrópumálum segir á bloggi sínu í dag:“ Evrópusambandið fer ekki í aðildarviðræður við ríkisstjórn sem er klofin í afstöðu sinni til aðildar. Slíkur viðsemjandi er ekki trúverðugur“.
    Ef rétt reynist þýðir þetta á mæltu máli, að þótt yfirstandandi viðræður VG og Samfylkingar leiði til einhvers konar niðurstöðu í Evrópumálunum þá nær ekki sú málamiðlun að breiða yfir alvarlegan klofninginn.
    Þess vegna er aðeins tvennt í stöðunni. Ef Samfylkingin ætlar sér að vera trúverðug gagnvart kjósendum sínum getur hún ekki myndað ríkisstjórn með VG. Evrópustefna flokksins er þá í uppnámi og með VG í farteskinu nær Samfylkingin ekki eyrum Evrópusambandsins.
    Hinn kosturinn er sá, að Samfylkingin ýti Evrópumálunum til hliðar og einbeiti sér að innanlandsmálunum. Með því væri aðal hindrunin úr vegi fyrir stjórnarsamstarfi VG og Samfylkingar.
    Sennilega verður þetta niðurstaðan. Samfylkingin hefur jafnan verið þekkt fyrir að haga seglum eftir vindi og að sjálfsögðu alltaf með þjóðarhag í huga.

  • Guðmundur Guðmundsson

    „Fyrir sjálfum mér átti það svo að liggja að dveljast nokkur námsdægur í Frakklandi þar sem gafst önnur sýn að Evrópusambandinu — með vígvellina austur af, sífelld minnismerki í hverju þorpi um hina föllnu í fyrra stríði og seinna, litlu skildina í París um þá sem féllu í andspyrnuhreyfingunni og frelsuninni, áminningar stórar og smáar um hina stríðshrjáðu álfu, svo fagra samt og fjölbreytta og gáfaða og auðuga.“

    Í ljósi sögunnar er skiljanlegt að íbúar Mið- og Vestur-Evrópu sætti sig við ESB til þess að varðveita friðinn. Það er margt á sig leggjandi fyrir hann en mér finnst það ekki öflug röksemd fyrir því að Íslendingar gangi í ESB. Við erum vopnlaus smáþjóð í tvö þúsund kílómetra fjarlægð frá vígvöllum Evrópu. Við ógnum engum og enginn ógnar okkur.

    Frá sjónarhorni íbúa á meginlandi Evrópu er e.t.v. vit í spurningunni: „Hvort viltu ESB eða stríð?“, en það er lítið vit í því að spyrja Íslending sömu spurningar. Við þurfum ekki að lúta ólýðræðislegu skrifræðisbákni til þess að búa í friði.

  • Merkilegt blogg sem ég las í dag um hið „Norræna velferðarsamfélag“ sem VG vilja byggja ..og þá með Samfylkingu. Í þessu bloggi er svolítið verið að vleta fyrir sér hvernig menn ætla að byggja upp velferðarsamfélag að norrænni fyrirmynd með algerri einangrunarstefnu í Evrópumálum – það reynist í mínum huga altént ómögulegt.

    Örþrifaráð þeirra sem eru rökþrota í þessu máli benda á að Norðmenn eru utan ESB og eru bara nokkuð keikir. Fæstir vilja beinan samanburð á Noregi og t.d. Danmörku hvað þeirra atvinnulíf varðar en Noregur er með olíu……… já og ekkert annað. Danir eru auðvitað með örflugt atvinnulíf og mjög fjölskrúðugra en það Norska.

  • Annars tók ég eftir merkilegu í Fréttablaðinu í dag að þú varst að tala um hávaða á börum. Ég man ekki betur en áður en þú bauðst þig á þing að þú og konan þín hefðu verið blindfull í Þjóðleikhúskjallarnum um hverja helgi. Þegar staðnum var lokað þá færðir þú drykkjuna þína yfir á Píanóbarinn. Satt að segja þá varaði ég fjölda manns við að kjósa þig vegna þess að þú ert ekki á þingi fyrir almenninginn. Það að þú skyldir fá mikið af útstrikunum kemur mér ekki á óvart. Þú ert bara þarna í gamla Alþýðubandalagsflokknum um hugsa um sjálfan þig.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur