Fimmtudagur 07.05.2009 - 14:40 - 16 ummæli

En af hverju aðrar kosningar?

Það étur hver upp eftir öðrum að þing og ríkisstjórn sitji ekki út kjörtímabilið af því að það þurfi kosningar til að ganga í Evrópusambandið. Ef við ákveðum að sækja um þá verði kosningar eftir ár eða tvö – en ekki ef sú ákvörðun dettur niður milli stóla.

Þetta sé staðan eftir að Sjálfstæðisflokkurinn kom með málþófi í veg fyrir að gamla þingið, og núna það nýja, gæti samþykkt stjórnarskrárbreytinguna um hvernig á að breyta stjórnarskránni. Nú þarf tvær samþykktir á þinginu með kosningum á milli en þessu átti að breyta yfir í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingu sem þingið hefði samþykkt.

Allir eru sammála um að það sé illur kostur að ganga inn án stjórnarskrárbreytingar sem heimili að Íslendingar deili hluta fullveldis síns í yfir- (eða öllu heldur sam-) -þjóðlegum stofnunum. Það höfum við að vísu þegar gert með EES-samningnum og samstarfi um mannréttindamál án stjórnarskrárbreytinga, en auðvitað er aðild að Evrópusambandinu þvílíkt skref að ekki má leika neinn vafi á því gagnvart stjórnarskrá lýðveldisins. Og ef við næðum nú samningum við ESB eftir ár eða tvö þá þarf að breyta stjórnarskránni.

Menn sjá þetta yfirleitt fyrir sér sirka svona:

1. Ákveðið að sækja um aðild, núna í sumar (maí, júní).

2. Samningur liggur fyrir. Segjum í apríl næsta vor – Eiríkur Bergmann telur í nýrri grein að hann gæti legið fyrir innan árs frá umsókn ef allt gengur vel.

3. Stjórnarskrárbreytingar samþykktar á alþingi í maí 2010.

4. Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að ESB og þingkosningar haustið 2010 (saman eða sitt í hvoru lagi).

5. Ef þjóðin vill aðild taka stjórnarskrárbreytingar gildi við samþykkt á nýju þingi, haustið 2010.

6. Samningar eru undirritaðir, staðfestingarferlið hefst í ESB-ríkjunum (sjá grein Eiríks), gæti tekið hálft til eitt ár.

7. Ísland gerist formlegur aðili að Evrópusambandinu við hátíðlega athöfn á Hrafnseyri við Arnarfjörð á 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar, 17. júní árið 2011.

8. Við fáum evruna eftir tveggja ára veru í hreinsunareldinum, ERM II, og nokkur misseri í viðbót við að ná Maastricht-skilyrðunum um litla verðbólgu, lága vexti, góða stöðu ríkissjóðs og þokkalegt gengi. Hátíðleg evruathöfn á Þingvöllum á 70 ára afmæli lýðveldisins, 17. júní 2014.

Eða þannig.

Hver var tilgangurinn?

ESB leysir ekki öll okkar mál, sögðum ég og félagar mínir í kosningabaráttunni (tja, sumir sögðu það reyndar …) – en það er heldur engin lausn til án ESB.

Það er eðlilegt og afar íslenskt að vilja fara strax þangað sem maður ákveður að fara – en aðal-segullinn við Brussel núna er þó fyrst og fremst tvíeinn: Evran sjálf og svo sá efnahagslegi álitsauki sem okkur yrði að því að tilkynna ákvörðun um aðild að ESB og evru.

Ljóst er að evran kemur ekki fyrren að loknum löngum ferli – sjá til að mynda grein Eiríks. Fiffið við evruna í núverandi stöðu var heldur ekki að fá hana heldur að allir vissu að hún er að koma. Að komast í skjól af evrunni frá núverandi berangri – að bæði innlendir og erlendir handhafar krónu og ýmissa bréfa sem henni tengjast viti að þessi gjaldmiðill fer ekki á áramótabrennu heldur breytist að lokum í evrur. Traust vex, trúverðugleiki eykst. Hjálpar okkur upp.

En til þess þurfum við ekki endilega að vera gengin í Evrópusambandið. Við þurfum fyrst og fremst að vera á leiðinni þangað. Ef samningar nást um greiða för okkar í myntsamstarfið, og hugsanleg sérstök ERM-tengsl þar sem vikmörk lækkuðu kerfisbundið í takt við árangur íslenska hagkerfisins – þá er engin sérstök ástæða til að fara í kosningar á miðju kjörtímabili, að minnsta kosti ekki meðan þokkalega gengur hjá ríkisstjórninni og þingmeirihluta hennar.

Í staðinn situr vinstristjórnin góða út kjörtímabilið og ferillinn verður svona:

1. Ákveðið í sumar að sækja um aðild.

2. Samningur liggur fyrir næsta vor. Sérsamningar um flýtimeðferð í átt að evru.

3. Aðild samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2010.

4. Stjórnarskrárbreytingar – sem hafa legið fyrir óformlega frá vori 2010 – samþykktar á vorþingi 2013.

5. Þingkosningar í maí 2103, stjórnarskrárbreytingar samþykktar á sumarþingi, júní 2013.

6. Samningar undirritaðir, staðfestingarferlið hefst í ESB-ríkjunum.

7. Ísland gerist formlegur aðili að Evrópusambandinu á Þingvöllum 2014 og gengur um leið inn í Myntbandalagið á sérstakri undanþágu (nú eða þá einhverjum misserum síðar).

Nákvæmar dagsetningar eru ekki höfuðatriðið, heldur þetta: A. Evran skiptir mestu máli við fyrirhugaða/væntanlega/hugsanlega ESB-aðild. B. Evran fæst ekki strax en við getum komist fljótt í skjól af evrunni. C. Ekki skiptir í því sambandi meginmáli hvort við göngum í ESB árinu fyrr eða síðar. D. Stjórnin getur setið út kjörtímabilið ef henni og þjóðinni sýnist.

Nú kann sumum kann að þykja skrýtið að varaþingmaður leggist á sveifina gegn kosningum sem fyrst 🙂 – en það er líka óheppilegt að tjalda til einnar nætur eða fárra – fyrir ríkisstjórn sem er svona einstæð í Íslandssögunni, á við svona mikil verkefni að glíma, og þarf svona sárlega á öllu sínu að halda.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • „… en það er heldur engin lausn til án ESB.“

    Vá! Bara ekki til? Engin? Alls engin?

    Það er ekki hægt að taka mann alvarlega sem skrifar svona.

  • Einar Pétur

    Skynsamlega mælt Mörður. Eitt í einu. Eitt skref í einu. Á endanum náum við á leiðarenda, en þó ekki án þess að leggja af stað, og það gerum við núna. Hvað ætli þjóðhátíðarblaðran kosti á Þingvöllum 2014? 10 Evrur.

  • Nýi Dexter

    Ég flyt til Noregs ef þú og þitt fólk verðið ofaná. Lifi frjálst Ísland, án landráða- og óhæfra stjórnmálamanna!

  • Elías Pétursson

    Fyrsta skrefið hjá ykkur gæti verið að fá VG með, nú eða að fá stjórnarandstöðuna til þess að kjósa gegn samstarfsaðila ykkar í stjórn.

  • Leiðin frá kosningaloforðunum hefst á hænufetum. Svona stórt kosningaloforð verður líka að svíkja smám saman en ekki allt í einu!

  • Sigurður B.

    Greinargott hjá þér, Mörður, og yfirvegað verð ég að segja þó ég sé ekki Samfylkingarmaður, né neitt sérstakelga fylgjandi ESB eða Evrunni.

    En ef ákveðið verði að fara í ESB, þá er þetta eðlilegt ferli.

    Þú virðist vera sá eini sem sérð þetta í eðlilegu ljósi ólíkt öðrum sem halda að við getum getum gengið í ESB í einum hvelli og að ESB sé einhver kvikk-fix lausn.

    En eins og þú lýsir þessu Mörður, þá er þetta besta og eðlilegasta leiðin.

  • Þjóðin samþykkir aldrei þessa bölvaða vitleysu upp úr þessum pólitísku afgöngum sem heitir samfylking núna. Þetta fólk hefur enga hugmynd um hvernig á að leysa fjárhagsvanda þjóðarinnar. Það eina sem þeim dettur í hug er að kaupa sér tíma með þessarri arfavitlausu hugmynd að ganga í ESB. ESB ætlar ekki að gefa okkur Íslendingum fimmeyrings virði í nokkru.

    Það eina sem þetta lið í ESB hefur lagt til málanna gagnvart okkur Íslendingum er að koma í veg fyrir að við náum lögum varðandi icesave skuldir Landsbankans og aðrar skuldir sem þessir útrásarvíkingar stofnuðu til. Þeir hafa sem sagt reynt sitt besta til að hafa af okkur fé. Við þetta lið vill samfylkingin binda sitt trúss nú.

    Mörður hvernig væri að þið í samfylkingunni reynduð að lesa ykkur til svo sem eins og einu sinni að einhverju gagni, í stað þess að gyrða niður um ykkur um leið og minnst er á ESB.

    Af hverju lesið þið ekki upphátt fyrir ykkur og aðra Lissabonn sáttmálann?

    Þar er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að Íslendingar missi yfirráðin yfir nýtingu hafsvæðisins við Ísland. Þessutan liggur það fyrir að Íslendingar eru að afsala sér sjálfsákvörðunarrétti á fjölmörgum öðrum sviðum með inngöngu í ESB.

    Innganga í ESB mun hafa þær afleiðingar til lengri tíma að rústa Íslenskan sjávarútveg og landvinnslu ásamt því að þurka út bændastéttina og framleiðslu þeirra í þeirri mynd sem það er nú, að ógleymdum matvælaframleiðslufyrirtækjum greinarinnar sem þúsundir manna vinna við.

    Þetta þýða tillögur samfylkingarinnar í reynd með inngöngu í ESB. Síðan er smekkleysan toppuð hjá Merði með því að henda sjálfstæðinu fyrir róða og selja landið og miðin á sjálfum fæðingardegi og fæðingarstað frelsis og sjálfstæðishetju okkar Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri ! Þvílíkur vesaldómur.

    Fyrr skal ég dauður liggja og sjálfsagt margir aðrir líka áður en þetta verður. Ég held að þjóðin láti þetta kratabull seint yfir sig ganga.

  • Mörður
    Hvernig liggja stjórnarskrárbreytingar fyrir óformlega?

  • Mörður

    Jú, Friðjón, átt er við að frumvarpið sé tilbúið með góðum fyrirvara þannig að öllum sé ljóst hvað er á seyði. Einsog nú er í pottinn búið verður að rjúfa þing og boða til kosninga ef alþingi samþykkir tillögu um breytingu á stjórnarskrá — þessvegna eru slíkar tillögur ekki lagðar fram fyrr en á síðasta þingi kjörtímabils nema til kynningar. Þessa tillögu væri eðlilegt að kynna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu þótt hún yrði ekki lögð fyrir þingið fyrren síðasta veturinn.

    Já, Trajan, einmitt á Hrafnseyri. Það er til þess að þú getir fengið reglulega góða útrás þegar þar að kemur — en haltu þér þá endilega á lífi til að njóta ánægjunnar! Svakalega hlýtur annars ástandið að vera ferlegt hjá þeim í Finnlandi, Svíþjóð, Írlandi, Danmörku, Skotlandi, Baskalandi, Brutaníu, Portúgal, Möltu og öðrum sjávarútvegs- og landbúnaðarþjóðum á borð við okkur. Allt í eymd og volæði, kúgaður og matvælalaus lýður afrændur auðlindum gengur hnipinn til þrælavinnu sinnar þúsundum saman. Allt útaf Lissabonsáttmálanum — 🙂

  • Hvad ef „óformlegu“ breytingarnar verda felldar?
    Hvad ef andstædingar ESB standa fyrir málthófi vid thinglok? Ertu ekki ad leggja theim vopn í hendurnar?

    Planid gerir ekki rád fyrir neinum hnökrum og er thví óraunhæft.

  • Raun sannri ferill ef allt gengur eðlilega fyrir sig gæti orðið þessu líkt:
    1. Ákveðið í sumar að sækja um aðild
    2. ESB tekur erindið fyrir í desember 2009
    3. Fyrirkomulag samninganna tekur 2-3 mánuði
    4. Samningar hefjast í mars – apríl 2010
    5. Samningur liggur fyrir á bilinu maí – nóvember 2011
    6. Kynning á samningnum með þjóðarinnar til ágústloka 2012
    7. Þjóðaratkvæðagreiðsla haustið 2012
    8. Ef málið verður fellt endar ferillinn hér, annars …
    9. Stjórnarskrárbreytingar samþykktar á vorþingi 2013
    10. Þingkosningar í apríl 2013
    11. Stjórnarskrárbreytingar samþykktar á sumarþingi júní 2013
    12. Samningar undirritaðir, staðfestingarferlið hefst í ESB – ríkjunum
    13. Ísland gerist formlegur aðili að Evrópusambandinu árið 2015
    14. Ísland gengur í myntbandalagið árið 2018-2020

    Gleymum svo öllum allri sérmeðferð, það er ekkert þannig í boði.
    Spurning er hinsvegar hvað við ætlum að gera hér heima á meðan, því það skiptir mestu máli fyrir okkur öll en ekki hvort við verðum aðilar að ESB eftir 5 ár eða svo.

  • Ég held að ferli BG hér að ofan sé mun raunsærra en önnur sem hér hafa verið nefnd. Ferlið mun taka allan næsta áratug.

    Með krónuna sem framtíðarmynt fáum við það ástand sem við höfum búið við undanfarna áratugi, reglulegar efnahagssveiflur og verðbólguskot, hæðir og lægðir EN lágt atvinnuleysi.
    Með Evrunni fáum við atvinnuleysi EN lægri verðbólgu og minni efnahagssveiflur.

    Undanfarna 6 áratugi eða svo höfum við þróast úr því að vera ein vanþróaðasta þjóð Evrópu í að vera í fremstu röð. Það hefur okkur tekist meðal annars vegna eða þrátt fyrir krónuna. Krónan hefur aldrei verið lykilmynt í heiminum en hún hefur ekki komið í veg fyrir þessa þróun. Sé okkur alvara getum við gert krónuna að því sem hún var. Ekki kannski leiðandi gjaldmiðli í alþjóðlegum viðskiptum en nothæfum fyrir íslenskt efnahagslíf.

    Vandamál íslensku krónunnar er vissulega skortur á trúverðugleika. Ef við viljum byggja upp þann trúverðugleika þá verður okkur að vera alvara með það og byggja upp trúverðugleika krónunnar. Svo virðist á ferli BG að við þurfum að gera það, hvort heldur sem við ákveðum að ganga í ESB eða ekki, því það eru 10 ár þangað til við tökum upp Evruna og við getum ekki beðið þangað til eftir ljósinu. Við byggjum upp trúverðugleika krónunnar með því að vanda til þeirra aðgerða sem tökumst á hendur í efnahagsmálum.

    Það er alveg öruggt að við byggjum ekki upp þann trúverðugleika ef við höldum áfram að tala krónuna niður og ákveðum með sjálfum okkur að hún sé ónýtur gjaldmiðill.

    Í dag er krónan að vinna okkur gagn með því að gera íslenskt samfélag samkeppnishæfara í alþjóðlegu samhengi, þ.e. lækka laun í erlendri mynt. Lönd eins og Spánn eru í mjög slæmri stöðu eins og við, með Evruna og þar er atvinnuleysið 17,4% þar sem myntin vinnur ekki að því að gera spænskt efnahagslíf samkeppnishæfara. Fleiri lönd Evrópu eru í svipaðri stöðu með tveggja stafa atvinnuleysi.

    Er hlutskipti Spánar eftirsóknarverðara en hlutskipti Íslands þessi misserin?

    Er ALVEG ÖRUGGT að við veljum atvinnuleysið umfram efnahagssveiflurnar?

    Af tvennu illu þá kýs ég þá rússíbanareið sem við höfum verið í undanfarna áratugi með lágu atvinnuleysi frekar en meiri stöðugleika og meira atvinnuleysi.

  • Sýnist þetta raunhæft, Mörður, bæði stjórnskipulega og stjórnmálalega séð – með smá fyrirvara um rými fyrir málþóf öðru sinni í boði þeirra sömu eins og Friðjón bendir á.

  • Getur Lissabonsáttmálinn ekki tafið þetta ögn? Írar verða kannski að
    kjósa um Lissabonsáttmálann í mörg ár áður en rétt lýðræðisleg niðurstaða
    fæst. Er þú að þýða Lissabonsáttmálann á íslenzku? Hvernig gengur?
    Er sáttmálinn ekki svolítið snúinn?

  • Langt í frá óraunhæft, Mörður. Því má bæta við að það er ekki bara Ísland sem mun hafa gagn af aðild Íslands að ESB. Lítum á þrjú atriði. Fyrsta; ESB vill gjarnan ná sem flestum – öllum – löndum vesturhluta Evrópu inn áður en útvíkkunin heldur áfram í austurveg. EES aðild í 15 ár gerir að staða Íslands er önnur en t.d. Tyrkja. Annað; ESB hefur aldrei litið á sjávarútveg sem mikilvæga grein, enda flokkuð sem hluti landbúnaðar. Þetta er að breytast og þess vegna er þátttöku Íslands í nýju sjávarútvegsferli ESB óskað. Þriðja: Ísland er sérstaklega mikilvægt land fyrir (endur)uppbyggingu ESB. Það fer ekki milli mála að Evrópa framtíðarinnar byggir á umhverfisvænni pólitík. Ísland á bæði mikilvæg fiskimið, forðabú sívaxandi hóps fólks sem vill vistvænni mat og svo orkulindir sem eru endurnýjanlegar og/eða lausar við (CO2)mengun.
    Ég held að hagsmunir ESB séu talsvert miklir af aðild Ísland og styrkir það vissulega samningsstöðuna. Þess vegna mun ESB vilja hraða ferlinu, þegar það er á annað borð komið af stað.

  • Kristján E.Guðmundsson

    Mig langar að gera hér smá athugasemd. Eins og allir sem eitthvað til þekkja, s.s. stækkunarmálastjóri ESB, Olle Rehn hafa bent á, þarf það ekki að taka langan tíma að semja um aðld Íslands að ESB, við erum þegar búin að taka yfir tvo þriðju af lögum og regluverki sambandsins í gegnum EES. Hins vegar er eðlilegt að strax og samningur liggur fyrir verði hann, sjálfstætt, lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Stjórnarskrárbreyting á ekki að koma til á undan því ef samningurinn er felldur þarf ekki þá breytingu ! Verði hann samþykktur, (sem ég svo sannarlega vona), þarf þing að samþykkja stjórnarskrárbreytinguna og í kjölfarið boða til almennra kosninga til Alþingis og síðan nýja samþykkt hins nýja þings. Allt þetta þarf til að við getum orðið formlegir aðilar að ESB. Og þá fyrst getum við komist í „hreinsunareldinn“ ERM II, og hafið ferlið að Evrunni. Mér sýnist því augljóst að kjörtímabilið verði stutt, tvö ár og varla eru menn hræddir í Samfylkingunni við að fara út í kosningar eftir að hafa unnið aðildarkosningar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur