Laugardagur 09.05.2009 - 08:43 - 61 ummæli

Játningar hins útstrikaða, og fleira

Magnús Siguroddsson var um daginn óhress með blogg hér á síðunni um ákveðinn pólitíkus og taldi að ég ætti að líta mér nær: „Þú bloggar ekkert um 656 útstrikanir sem þú fékkst í síðustu alþingiskosningum.“ En nú er einmitt komið að því, svona meðan við bíðum eftir nýrri ríkisstjórn.

Menn sem taka þátt í stjórnmálum eiga að íhuga útstrikanir þegar þær eru svona margar, taka mark á þeim og reyna að finna út hvaða skilaboð felast í þeim. Og ég fékk margar útstrikanir, frá um 5% af kjósendum, og þeim fækkar ekkert þótt viðkomandi hafi ekki náð kjöri, þótt útstrikanir hafi aldrei verið fleiri, þótt tveir aðrir frambjóðendur á mínum lista í Reykjavík norður hafi verið strikaðir oftar út.

Ég finn fernskonar skýringar á þessum 656 útstrikunum.

Í fyrsta lagi umhverfispólitík. Ég greiddi einn Samfylkingarmanna atkvæði gegn Helguvíkursamningnum á þinginu í vor (Þórunn sat hjá) þegar ég var þar sem varamaður, og sat auðvitað undir ásökunum um að vilja ekki að fólk hefði vinnu og svo framvegis. Ég lét þar líka í ljós miklar efasemdir um hvalveiðiákvörðun Einars K. Guðfinnssonar og hvalveiðiviðbrögð Steingríms J. Sigfússonar þegar hann varð ráðherra – þótt ég vissi vel að slíkar efasemdir væru ekki fallnar til skyndivinsælda. Umhverfismenn hafa átt nokkuð á brattan að sækja í kreppunni, þá skapast eftirspurn eftir töframönnum sem draga uppúr hattinum framkvæmdir og atvinnu og erlendar fjárfestingar, en þolinmæði minnkar gagnvart framtíðarlausnum og hægari en öruggari skrefum í atvinnumálum.

Í öðru lagi vinstrisvipur: Fræðimenn og álitsgjafar eru sammála um að margir þeirra sem áður kusu Samfylkinguna hafi nú farið yfir á VG, en Samfylkingin fengið í staðinn Evrópusinnuð atkvæði frá Sjálfstæðisflokknum – einsog „að láni“. Slíkir kjósendur vilja ýmsir gefa til kynna þeir séu ekki „venjuleg“  S-atkvæði, og nota til þess útstrikunina. Með réttu eða röngu er yðar einlægur oft talinn til vinstri í Samfylkingunni, og það álit styðst vissulega við pólitíska ferilsskrá þar sem ekki fer mikið fyrir dáleikum hans og Sjálfstæðisflokksins.

Í þriðja lagi er svo einfaldlega það að mörgum líkar misjafnlega við persónuna Mörð Árnason einsog hún birtist á vettvangi stjórnmála og fjölmiðla. Og til þess hafa menn fullan rétt. Það stafar meðfram af göllum þess sem um er rætt, sem oft fer ekki varlega, er málglaður og stundum stóryrtur úr hófi fram, getur virst – eða verið – hrokafullur í fullvissu sinni um ágæti málstaðarins, og ætti sannarlega að kunna sér það hóf í ræðu og riti að meiða ekki persónur þótt hitni í málefnakolunum. Í fyrri kosningum hefur yðar einlægur líka fengið talsvert af slíkum útstrikunum, og veit upp á sig skömmina.

Í fjórða lagi kunna svo að koma sérkennilegar innanflokksástæður sem ég átta mig ekki á til fulls. Ég stóð mig ekki vel sjálfur í prófkjörinu en varð þá líka var við ákveðinn andróður án þess að geta fest á honum hendur. Þegar uppstillingarnefnd tók svo til starfa skapaðist þar skrýtinn samblástur sem að lokum beindist gegn mér í þessu blessaða varamannssæti, og ég þurfti í restina að taka verulega á með góðri hjálp margra félaga minna til að verja við frágang listans þann árangur sem þó hafði náðst í prófkjörinu. Vel má vera að í kosningunum sjálfum hafi þetta skuggabox haldið áfram, eins ófagurt og það nú var — og er?

Enn ein skýring sást í bloggi rétt eftir kosningarnar, sú að útstrikanir á mig hafi verið varnarviðbragð stuðningsmanna Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur þegar ljóst varð síðustu daga fyrir kosningar að hún mundi verða mjög útstrikuð. Að það væri sniðugt að jafna út áhrif af straumnum gegn Steinunni með því að strika út manninn fyrir neðan. Þetta er auðvitað rugl, orðið til útaf fréttum um íhaldið í Suðurkjördæmi þarsem stuðningsmenn Árna Johnsens eiga að hafa beitt ámóta brögðum. Auðvitað kunna einhverjir vinir Steinunnar að hafa hugsað þessu líkt og einstaka maður látið það eftir sér í kjörklefanum, en að fólk hafi skipulagt svona held ég enganveginn, og veit að minnsta kosti að sjálf kom Steinunn Valdís hvergi nærri.

Voilà! Ef þessi greining er í námunda við raunveruleikann – þá ætti ég bara að vera stoltur af umhverfispartinum. Skilja kjósendurna sem komu inn úr hægrikuldanum, og fyrirgefa þeim. Vera hugsi yfir innansveitarkrónikum og skyggnast um gáttir allar áður gangi fram. Og horfa auðmjúkur í spegil vegna útstrikana sem teljast dómur um persónu, fas eða framgöngu.

Og verð ég þó í miðri þeirri auðmýkt að minna á að ómuletturnar hefjast með því að brotin eru egg. Og sá sem hræðist fjallið og einlægt aftur snýr … og svo framvegis. En maður á svo sannarlega að vanda sig. Hvernig sem þetta nú allt saman veltist.

Meiri játningar

Að þessum játningum loknum er rétt að taka fram að ein ástæða er allavega ekki fyrir þessum 656 útstrikunum – að ég hafi fengið prófkjörsstyrki frá FL og Baugi. Svoleiðis styrkir eru reyndar teljandi á fingrum annarrar handar í mínu tilviki, af því ég hef forðast eftir megni að fá fé til þessa annarstaðar en úr eigin vasa. Í prófkjöri 2003 fékk ég samt 200 þúsund krónur, um fimmtung af þáverandi útgjöldum frambjóðandans, að gjöf frá góðum félaga úr KR. Og þegar prófkjörið 2007 var búið kom til mín guðfaðir minn, þekktur eðalleikari hér í bæ, viðurkenndi að hin kristilega leiðsögn hefði verið nokkru minni en lofað var forðum, og taldi svo upp úr veskinu sínu tuttugu fimmþúsundkalla. Ég bara horfði á hann og hélt í mér vatninu. Svo hefur pabbi stundum rétt mér pening einsog í gamla daga, og auðvitað hefur ýmis önnur hjálp verið framreidd af hlýhug og elskusemi þótt ekki sé í beinhörðum peningum.

Styrkirnir – og borgarstjórnin

Viðurkenni að ég var hissa vikuna fyrir kosningar á milljónastyrkjunum sem fólk hafi fengið, þar á meðal flokksfélagar mínir og keppinautar í prófkjörum Samfylkingarinnar, og finnst þeir eiginlega ekki siðlegir. Þetta er auðvitað búið núna og verður vonandi aldrei meir, en þessi skuggi eltir fólkið áfram í pólitíkinni, og líka flokkinn þess og aðra frambjóðendur, einsog sást hjá okkur núna.

Rétt hjá Helgu Völu: Við í Samfylkingunni þurfum að hreinsa þessi styrkjamál alveg út fyrir næstu kosningar.

Ekki síst vegna þess að næstu kosningar eru sveitarstjórnarkosningar, og það hlýtur að vekja athygli okkar í Reykjavík hvað margir af þeim sem voru í fréttum vegna styrkja koma einmitt úr borgarstjórn Reykjavíkur: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Björn Ingi Hrafnsson, Helgi Hjörvar. Er þetta tilviljun? Eða er samgangur stjórnmálamanna og peningavalds kannski nánari í sveitarstjórnum en á þinginu? Án þess að saka neinn um neitt eru sveitarstjórnirnar öðruvísi en þingið að því leyti að þar fer sama fólkið með löggjafarvald og framkvæmdarvald, og margar ákvarðanir í sveitarstjórnum snerta hagsmuni verktaka og viðskiptamanna ýmiskonar miklu beinna en atkvæðagreiðslur á alþingi. Er það tilviljun að hinir ofantöldu hafa allir komið við sögu hjá stórfyrirtækjum borgarinnar, veitum og höfn?

Þið íhugið þetta – og ég held svo áfram með mína sex hundruð fimmtíu og sex … 😉

Flokkar: Óflokkað

«
»

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur