Miðvikudagur 30.09.2009 - 08:42 - 18 ummæli

Rétt

Fréttablaðið segir frá því að Jóhanna leggi stjórnarsamstarfið undir við lokahluta sögunnar endalausu um Icesave. Sjálfsagt mundi hún orða það öðruvísi sjálf (Sjáum til, sagði hún í gær), en þetta er auðvitað eina leiðin.

Í ljós kemur – sem enginn þarf að vera hissa á – að lánardrottnar okkar í Hollandi og Bretlandi sætta sig ekki við alla Icesave-fyrirvarana – einkum ekki þann að Íslendingar ákveði sjálfir hvenær greiðslum lýkur. Í raun var ljóst að sá „fyrirvari“ mundi setja málið allt í uppnám – vegna þess að með honum fór meirihluti alþingis út af þeirri línu þar sem ekki mátti misstíga sig: Að Íslendingar væru tilbúnir að greiða skuldir sínar – hversu djöfullega sem til þeirra var stofnað.

Mér sýnist að fyrri fyrirvarapakkinn, það sem fram kom við 2. umræðu í sumar, hafi verið í góðu lagi, ekki síst ákvæðin sem áttu að tryggja íslenska hagsmuni gagnvart regluþróun innan Evrópusambandsins. Fyrirvararnir sem bættust við milli annarrar og þriðju voru hinsvegar afar sérkennilegir, og stjórnarforystan virtist þá hafa látið taka sig á taugum. Liljuhópurinn í VG réð ferðinni í samstarfi við stjórnarandstöðuna, bæði ráðherrar og forvígismenn meirihlutans í fjárlaganefnd hugsuðu um það eitt að klára dæmið sem allra fyrst.

Utan valdasala héldu menn í putta og vonuðu að viðsemjendur – sem reyndar töldu samningum lokið – mundu sjá í gegnum fingur við Íslendinga. Eiginlega var veðjað á að þeir sofnuðu frá málinu af einskærum leiðindum, en það var nokkur ofætlan um ráðamenn í þessum gömlu ríkjum.

Meginmálið í Icesave fyrir stjórnvöldum í Hollandi og Bretlandi er annarsvegar að geta sýnt kjósendum sínum að hagsmunum þeirra er sinnt. Hinsvegar vilja menn á alþjóðavettvangi ekki fallast á að ríki geti einhliða ákveðið að falla frá skuldum sínum, allra síst ríki sem tilheyrir hinum vestræna kjarnahópi, þótt smátt sé. Fyrir okkur var meginmálið að sýna fram á að við ætluðum einmitt að gera þetta: borga skuldirnar. Þegar það væri ljóst kom vel til greina að hagræða þeim með ýmsu móti, setja fyrirvara um greiðsluþol, fara fram á upptöku samninga við ákveðin skilyrði. Að ætla að hætta á ákveðinni dagsetningu, hvernig sem málið þá stæði – það reyndust vera ævintýralegir glæfrar. Og nú er allt komið í klessu.

Þingræði, stjórnarmeirihluti

Þingræði er það að ríkisstjórn þurfi að styðjast við meirihluta á þinginu. Við höfum þingræði, en ekki til dæmis Bandaríkjamenn þar sem ríkisstjórnin er ekki formlega háð meirihluta á þingi.

Hér hefur undanfarna áratugi þróast sérkennileg tegund þingræðis þar sem meirihluti þingmanna hefur í raun lotið ráðherravilja – hlutverk alþingis hefur aðallega verið að hýsa átök stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu. Margt bendir til að þetta sé að breytast eftir hrun og búsáhaldabyltingu. Það er gott.

En breytir ekki hinu, að í þingræðisfyrirkomulagi að okkar hætti verður meirihlutaríkisstjórn að geta treyst á þingmeirihluta í stærstu málum, þeim sem samið er um í stjórnarsáttmála eða leiðir beint af stefnu ríkisstjórnarinnar. Ef sá þingmeirihluti er ekki fyrir hendi – þá er stjórnin annaðhvort fallin, eða breytist í minnihlutastjórn, sem þarf að búa sér til meirihluta á þingi eftir aðstæðum hverju sinni.

Þessvegna er það rétt hjá Jóhönnu að biðja Liljurnar að ákveða núna hvort þær vilja halda áfram eða láta stjórnarþátttöku sinni lokið hér með.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Björgvin Valur

    Rétt.

  • Kristinn Pétursson

    Ég er ósammála. Ég tel að þjóðstjórn sé nauðsynleg. en nín skoðun á þessu er hér: http://www.kristinnp.blog.is/blog/kristinnp/

  • peacemaker

    En þetta lagast allt þegar við komumst í EB?

  • Væri hreinlega ekki eðlilegra Mörður að þú skrifaðir þessa Icesave pistla þína á ensku eða hollensku?

  • Angantýr

    Eða myndir bara flytja til Hollands eða Englands?

  • Ómar Kristjánsson

    Já þetta er rétt.

  • „Meginmálið í Icesave fyrir stjórnvöldum í Hollandi og Bretlandi er annarsvegar að geta sýnt kjósendum sínum að hagsmunum þeirra er sinnt.“

    Megimálið fyrir íslensk stjórnvöldum hefði átt að vera að sýna kjósendum að hagsmunum þeirra væri sinnt. Það hefur því miður ekki verið raunin.

    Það er staðreynd Mörður, að í fyrstu grein laganna um ríkisábyrgð stendur að það sé skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að Bretar og Hollendingar samþykki fyrirvarana. Nú hafa þeir augljóslega hafnað fyrirvörunum. Því ætti staðan að vera mjög einföld. Höfnun þýðir engin ríkisábyrgð. Þá eru tveir möguleikar fyrir hendi: Að semja upp á nýtt, eða að leita úrskurðar dómstóla. Þetta er ekkert flókið.

    Hvers vegna stendur íslenska ríkisstjórnin þá í því að friðþægja þessi ríki, þegar vilji Alþingis, sem samþykktur var með öllum atkvæðum stjórnarþingmanna, þingræðismeirihlutans, er skýr?

    Hvers vegna er nú verið að semja um afslætti á fyrirvörum Alþingis sem þingmenn ríkisstjórnarinnar settu sjálfir fyrir um mánuði síðan? Og hvers vegna er það gert í skjóli leyndar? Hvers vegna er lúffað fyrir öllu sem Bretar og Hollendingar krefjast?

    Er ekki kominn tími til að Íslendingar segi „hingað og ekki lengra“?
    Með fyrirvarana við ríkisábyrgðina á bak við sig væri ríkisstjórn Íslands í fuolum rétti til að segja „því miður, löggjafarþing Íslendinga hefur sagt sitt síðasta orð í málinu, það er niðurstaða sem var gríðarlega erfitt að ná og skók stjórnkerfið hér niður að rótum. Íslenska þjóðin mun ekki samþykkja meiri byrðar en þessi fyrirvarar gefa til kynna.“

    Ýmsir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar töluðu fjálglega um það við afgreiðslu málsins á dögunum að nauðsynlegt væri að „breið samstaða“ næðist um þetta mál, til að Bretum og Hollendingum væri ljós vilji Alþingis og Íslensku þjóðarinnar. Bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn lögðu á sig gríðarlega vinnu til að ná saman um skilyrði fyrir ríkisábyrgð sem verðu Íslensku þjóðina gjaldþroti og héldu hagsmunum hennar á lofti. Það kvað jafnvel svo rammt að þessari skoðun um að breið samstaða um sterka fyrirvara væri nauðsynleg, að þingmenn samfylkingarinnar töluðu um það eftirá að „aldrei hefði staðið til annað en að setja sterka fyrirvara við þennan samning“.

    Hvar er þetta ákall um breiða samstöðu nú, þegar ríkisstjórnin ætlar að leyfa sér að lúffa fyrir kröfum erlendra ríkja sem nota AGS og frestun á efnahagsáætluninni sem kúgunartæki í málinu?

    Annað sem vert er að spyrja sig að er þetta: Á valdatíma Sjálfstæðisflokksins var það mjög hávær umkvörtun af hendi stjórnarandstöðu, smafylkingu og VG að ríkisstjórnin notaði Alþingi sem afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið. Mikið var hrópað um að löggjafinn væri fótum troðinn. Þetta bentir þú meðal annarra á á þessum tíma, og réttilega.
    Hvernig getur þetta sama fólk nú staðið fyrir því að vanvirða Alþingi algerlega á sama veg, og það á enn verri hátt þar sem aðeins er liðinn mánuður frá því lögin voru samþykkt og breyta á þeim vegna kröfu erlendra aðila? Hvernig er þetta verjandi Mörður?

    Þetta er einfaldlega nauðgun framkvæmdavaldsins á löggjafanum sem ekki verður varin með fögrum orðum um þingræði. Löglegt kannski, en fullkomlega siðlaust, og það er sorglegt ef stjórnarþingmenn skilja það ekki.

  • Þorsteinn Vilhjálmsson

    Rétt, Mörður. Þingmenn sem styðja ríkisstjórn þurfa oft að gera upp við sig hvað skiptir mestu og hugsa um liðsheild og samstöðu. Þeir sem eru í stjórnarandstöðu þurfa þess ekki; þeir geta oftast spilað í austur og vestur á sama tíma og tekið afstöðu í hverju máli um sig án þess að horfa kringum sig.

    Hugsjónir í þessu máli eru óglöggar en í sumum öðrum koma þær við sögu. Þá held ég menn þurfi stundum líka að horfast í augu við að þær geta ekki ráðið öllu í hverju einstöku máli; stundum þarf að taka meiri hagsmuni fram yfir minni, stórar meginhugsjónir fram yfir smærri sem stundum geta þurft að bíða.

  • Mörður er farinn að skrifa jafn mikið torf og Árni Páll, tala eða skrifa með svo miklu flúri að ekki nokkur maður veit hvað þeir tala um. Líklega hafa þeir ekki hugmynd um það sjálfir.

    Samfylking hefur breytt oftar um skoðanir á styttri tíma en dæmi eru um í mikilvægum málum. Það er kannski ekki skrýtið. Flokkurinn hefur setið í þremur ríkisstjórnum á einu ári. Þessi flokkur væri hafður upp á punt á Ítalíu, þannig er ferill Samfylkingar að verða.

    Það þýðir ekkert fyrir Samfylkingu að tala um að þessir eða hinir fyrirvarar Icesave hafi ekki verið nógu góðir eða eitthvað slíkt. Þetta eru fyrirvarar sem ríkisstjórn Íslands setti, Samfylking leiðir ríkisstjórnina. Þetta mál er algerlega á hennar ábyrgð, sem og flest önnur mál sem hafa farið gegnum þingið undanfarna mánuði.

    Ríkisstjórnin er búin að mála sig út í horn og jafnvel upp á vegg í flestum málum. Hún á fáa kosti aðra í stöðunni en segja sig frá verkefninu.

    Næsta mál á dagskrá er að stofna til utanþingsstjórnar. Þar sem allir flokkar sem sitja á þingi hafa átt þátt í ríkisstjórn á síðustu tveimur árum, sumir flokkar fleiri en einni, aðrir fleiri en tveimur. Síðan kom nýtt afl inn sem fólk batt væntingar við. Það liðaðist í sundur á meðan landsmenn lágu í sólbaði að flippuðu steikinni á grillinu. Það er mesta fiaskó stjórnmálasögunnar sá flokkur eða hreyfing eða hvað það nú var.

    Utanþingstjórn. Nöfn kandidata í þá stjórn óskast.

  • Jens Gíslason

    Mörður, mér finnst þú svolítið duglegur við að blanda saman skuldum ríkis og skuldum einkafyrirtækja. Má ég minna þig á að bankarnir voru einkavæddir?

    Að ríkið greiði upp skuldir allra einkafyrirtækja sem fara á hausinn gengur einfaldlega ekki upp, sama hvort skuldað er í London, Amsterdam eða Laugum í Reykjadal.

    Bankar eru kannski sérstök tegund af einkafyrirtækjum, miklir almannahagsmunir geta verið í húfi ef banki fer í gjaldþrot. Þess vegna er til innistæðutryggingasjóður.

    Í október í fyrra gaf þáverandi ríkisstjórn loforð um að allar íslenskar innistæður í bönkunum væru tryggar. Ef erlendir innistæðueigendur (eða innistæðueigendur í erlendum útibúum bankanna) vilja túlka þetta þannig að þeirra innistæður ætti að bæta líka, þá verða þeir að sækja þann rétt fyrir dómstólum.

    Við eigum alls ekki að láta undan pólitískum þrýstingi frá öðrum vestrænum ríkjum án þess að þetta fari fyrir dómstóla. Hver veit hvað þeir heimta næst?

  • Telemakkos

    Síðasta utanþingsstjórn (sú eina hingað til) var mikil hörmungarstjórn, sem þó lafði í rúm tvö ár.

    Skipandi slíkrar stjórnar væri forsetinn okkar hinn óvinsæli, sem svo fengi endalausar skammir þegar utanþingsstjórnin kæmi engu í verk við að makka málum sínum í gegnum kvarnir Alþingis.

    Ég hef raunar – alla vega sem stendur – vissa trú á því að Jóhanna standi sína vakt og Steingrímur J. haldi Lijlugróðrinum í þingflokki VG í nauðsynlegum skefjum.

  • Jens Gíslason

    Það má bæta því við að þótt ýmsir hafi lofað Bretum og Hollendingum að íslenska ríkið myndi ábyrgjast Icesave innistæðurnar að fullu þá getur enginn gert það nema alþingi, þ.a. það eru marklausar vangaveltur og spádómar.

  • Kristján Sveinsson

    Kannski var það allan tímann ljóst að viðsemjendur í ICESAVE-málinu gætu ekki / vildu ekki selja Íslendingum sjálfdæmi um það hvort þeir greiddu alla skuldina eða einungis hluta hennar.

    En hefði þá ekki Jóhanna átt að setja hnefann í borðið í sumar? Gera Liljum og öðrum grein fyrir því hver raunveruleiki samninganna væri. Gera VG-fólki ljóst að sé ekki hægt að ljúka ICESAVE-málinu innan þess ramma sem samningurinn markar sé ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi stjórnarsamstarfi. Var ekki ljóst þá þegar að engar líkur væru á að fyrirvararnir hlytu samþykki og jafn augljóst að meðan deilan stendur verður ekki framhald á AGS-planinu?

    Hversu lengi getur þessi reipadráttur haldið áfram? Hve lengi er hægt að halda áfram að auka tjón þjóðarinnar af ICESAVE-skuldbindingum Landsbankans án þess að stjórnarsamstarfið sé í voða? Settu skrúfu á málið Jóhanna!

  • Bæta má endalaust við.

    Hvaða moð er það þegar Jóhanna segir aðspurð að hún hafi ekki hitt forsætisráðherra Bretlands og Hollands til að ræða Icesave, vegna þess að „þeir sem fjalli um málið telji það ekki tímabært“. !

    Afsakið, en hvenær er það tímabært? Þegar Bretar og Hollendingar eru, í gegn um íslensku ríkisstjórnina, búnir að þvinga í gegn um Alþingi þeim breytingum á fyrirvörunum sem þeim sýnist? Eða þegar ísland situr á heljarþröm eftir sjö ár vegna þess að efnahagslegu fyrirvararnir sem voru settir af Alþingi og samþykktir af öllum stjórnarþingmönnum voru ekki virtir af ríkisstjórn íslands og þessum sömu stjórnarþingmönnum mánuði síðar?

    Hvenær er tímabært fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að spyrja Gordon Brown augliti til auglitis, hvers vegna hann krefjist þess að íslenskur almenningur greiði að fullu fyrir mistök einkarekins banka, á sama tíma og hann stærir sig að því innanlands að breskur almenningur eigi ekki og muni ekki þurfa að borga sams konar skuldir breskra einkabanka?

    Eða hefur Jóhanna spurt Gordon Brown að því á hvða grundvelli hann býsnast yfir því að íslendingar mismuni innistæðueigendum á íslandi og í bretlandi, þegar hann sjálfur tók ákvörðun um að láta innistæðueigendur á eyjunum Mön og Guernsey flakka og borga þeim ekki neitt…einmitt vegna þess að þeir eiga ekki lögheimili á fastalandi Bretlands?

    Eða hefur forsætisráðherra Íslands krafið forsætisráðherra bretlands um svör varðandi það hvers vegna Bretar og Hollendingar nota AGS sem kúgunartæki í þessari milliríkjadeilu?

    Nei. Engu af þessu, né öðrum krefjandi spurningum hafa Gordon Brown eða hans hollenski starfsbróðir þurft að svara íslensku þjóðinni.

    Hvers vegna? Jú, vegna þess að „þeir sem fjalla um málið telja það ekki tímabært“!

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Það gefur augaleið að Jóhanna og Steingrímur hafað verið afar hissa vegna þess að Bretar og Hollendingar höfnuðu Icesave fyrirvörunum, eftir að þau marg fullyrtu að hann rúmaðist innan fyrri Icesave rammans, sem var enn eitt bullið sem hefur ringt yfir þjóðina frá stjórnvöldum.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Nú hafa Samfylkingin og Vinstri græn örugglega unnið sína heimavinnu í Icesave viðræðunum, og tekið sérstaklega saman yfirlit um hversu oft Bretar og Hollendingar hafi hent sínum lagalega rétti og gengist við að greiða reikninga sem engin lagastoð er fyrir, til að liðka fyrir pólitískum fimleikum annar þjóða.

    Mörður. Gerðu okkur nú þann greiða að leggja þá fram þessi gögn sem sýna þessar þjóðir hafa hent lagalegum rétt sínum til hliðar, í góðgerðar og miskunsemi, og greiða annara þjóða reikninga, og um leið er ég viss um að það mun ganga mun betur að selja þjóðinni að sætta sig við ógjörninginn.

    Ef ekkert finnst, er ég hræddur um að ESB draumurinn verði að martröð Samfylkingarinnar, vegna aðkomu AGS/IMF og alþjóðasamfélagsins ESB í að handrukka löglausa skuld fyrir Breta og Hollendinga.

  • Ef það er vilji til þess innan Samfylkingarinnar að lýsa yfir vantrausti á þessa ríkisstjórn fellur hún og annars ekki því það er enginn innan VG sem mun gera það. Ef breytingar á ríkisábyrgðinni sem kveðið er á í lögum (og þið samþykktuð fyrir rúmum mánuði síðan) er nú orðið svo mikilvægt fyrir ykkur að þið eruð tilbúin að ganga úr stjórn daginn fyrir fjárlög eru kynnt verður það að vera ykkar valkostur. Þið munið a.m.k. ekki ná fram meirihluta á þingi fyrir þessum tillögum með hótunum, svo vel þekki ég Ögmund og Liljurnar.

  • Unnur G. Kristjánsdóttir

    Má til með að bæta við góða grein Marðar.
    Eitt af því sem prýðir góðan stjórnmálaforingja er að vita hvenær komið er nóg af vitleysunni og það er greinilega höfuðprýði Jóhönnu Sigurðardóttur.
    Það verður að klára Isseif Sjálfstæðisflokksson ekki bara út að því að allt er strand, heldur líka til að fá þjóðina til að horfast í augu við það sem gerst hefur. Fá hana til að skilja að það dugir ekkert að rífast, kenna öðrum um, stinga höfðinu í sandinn og gaspra um að við eigum að sína þessum andskotum í tvö heimana….. Við verðum að borga Isseif, pabbi hans ætlar ekki að taka ábyrgð á hönum.
    Mórallinn sem hefur orðið til í sumar að allt sé vont sem ríkisstjórnin sé að gera og að hálf ært fólk stjórni umræðunni í fjölmiðlum er ekki hollur þjóð í vanda. Trúir allt fólkið sem kenni Steingrími og Jóhönnu um Issleif að þau beri ábyrgð á tilurð hans?
    Skora á menn sem blogga að gera það undir nafni og vera málefnalegir, eins og Mörður er 😉

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur