Mánudagur 28.09.2009 - 08:38 - 6 ummæli

Tæknikratar tapa

Ósigur þýskra jafnaðarmanna vekur athygli – þeir tapa þriðjungi fyrra fylgis og hafa ekki fengið verri útreið í sögu Þýska sambandslýðveldisins. Það hjálpar þeim ekki að Kristilegir fengu heldur enga glæsikosningu – Merkel býr til klassíska þýska hægristjórn en einn helsti forystuflokkur jafnaðarmanna um heiminn hrekst í stjórnarandstöðu með þeim smáflokkum sem hann hefur í nokkrum áföngum eflt svo að litlu munar nú á hinum gamla jafnaðarflokki Brandts og samanlögðum Græningjum og Vinstrimönnum.

Hér fer í senn fram mörgum sögum – en í stuttu máli hefur SPD ekki tekist að sannfæra kjósendur í Þýskalandi um að einmitt hann sé burðarflokkurinn sem eigi að hafa forustu á erfiðum tímum. Til þess sveigði hann þó af braut „inn á miðjuna“ – sem er sósíaldemókratískt dulmál um hægristefnu – og skildi við það eftir verulegt rúm fyrir ábyrgðarlítinn en veltalandi vinstriflokk hins hugumstóra Lafontaines, sem eittsinn var einmitt kallaður til Íslands að ræða endurnýjun í hreyfingu jafnaðarmanna. Löngu áður hafði SPD mistekist að aðlaga sig öflugri umhverfisvakningu í Þýskalandi, sem þar hefur þó sett sterkan svip á pólitík, og í kosningunum nú hirtu Grænir sín típrósent fyrirhafnarlítið þótt þá skorti sannfærandi forystumenn og fáir teldu þá á leið í landstjórnina.

Gerhard Schröder var á ýmsan hátt merkur stjórnmálamaður – en viðskilnaður hans varð ekki jafnaðarflokknum til heilla, og síðan hefur þar staðið samfelld forystukreppa. Kurt Beck hélt sig utan samstjórnarinnar með Merkel og tók eiginlega þá afstöðu að hafa flokkinn í hálfgildings stjórnarandstöðu. Það var athyglisverð lína vegna þess að hún passaði þrátt fyrir allt við stöðuna – stjórnin með Kristilegum var nánast nauðungarstjórn þar sem hvorugum flokknum tókst upp – en hinn kumpánlegi Kurt formaður varð fórnarlamb vondrar stöðu í könnunum og vondra úrslita í fylkiskosningum. Flokkselítan gerði aðsúg að Beck undir forystu hins gráa Steinmeyers,  sem nú hlýtur að sjá sína sæng útreidda – og náði aldrei neinu sambandi við þýskan almenning og allra síst við þá samfélagshópa sem jafnaðarmönnum eru dýrmætastir – verkalýðshreyfingu, ungt fólk, menntamenn, konur.

Einn vandi þýska flokksins eftir talsverða stjórnarsetu í Bonn og Berlín og ekki síður víðsvegar í fylkjunum („löndunum“) er auðvitað sá að þar sækja til áhrifa allskonar „fagmenn“ í pólitík, tæknikratar sem oftar en ekki líta á stjórnmál sem karríer þar sem leysa þurfi sem best ýmis praktísk verkefni – en hafa í sjálfu sér engan stórkostlegan áhuga á málefnunum, lítinn skilning á aðstæðum almennings eða þeirra hópa sem SPD á helst við söguleg tengsl, ekki glóð í hjarta eða eld í æðum þrátt fyrir ýmsar gráður í hinum og þessum stjórnmála-, stjórnunar- og fjölmiðlafræðum. Þetta er hægt að ráða við ef helstu forystumenn eru alvörufólk í stjórnmálum og kunna að nýta hæfni tækifærissinnuðu teknókratanna án þess að láta þá móta pólitíkina. Voðinn er hinsvegar vís þegar té-té-liðið kemst sjálft til valda. Það sýna þýsku kosningarnar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Áhugavert. Ég er sammála þér og er soldið uggandi yfir því hvað tæknikratisminn er áberandi hjá okkur í Samfylkingunni þessa dagana.

  • Það hefur líklega einnig staðið þýskum sósíaldemókrötum fyrir þrifum að þeir voru í hægristjórn undir forystu Angelu Merkel og ætluðu að halda áfram í þeirri stjórn þó að það næðist vinstrimeirihluti. Að því leyti bauð flokkurinn ekki upp á neinn raunverulegan valkost.

    Þetta er mjög svipað því sem norski Verkamannaflokkurinn bauð upp á 2001 og fékk þá skell, eða 24% atkvæða. Eftir að norskir kratar stóðu að myndun öflugrar vinstriblokkar hafa þeir hins vegar unnið sigra í tveimur þingkosningum í röð.

  • Eru ekki allir kratar að tapa þessa dagana?

  • Gagarýnir

    Hárrétt skilaboð fyrir íslendinga. Það átti að fá fagmenn í verkið en ekki einhverja dýralækna. Þetta byggðist á reginmisskilningi á hlutverki stjórnmálamanna. Það verður aldrei neitt fag. Eins og Kissinger sagði einhvertíma þá er svigrúm stjórnmálamanna til ákvarðana mest þegar minnstar upplýsingar liggja fyrir. Þetta er því oftar en ekki „leap of faith“. Og fátt um handfesti nema flokkslínuna.

  • Stefán Snævarr

    Einum kennt öðrum bent Möddi, þú ert að vara við þróuninni í Samfó hvar tæknikratar og hægrikratar hafa sig mjög frammi.
    Kveðjur frá Kaliforníu
    S

  • Stefán Benediktsson

    Sverrir hefur rétt fyrir sér. Kjósendur vantaði annan kost. Af því að Steini gaf ekki kost á vinstra samstarfi verðlaunuðu þeir FDP til að koma Merkel að. En nú þarf hún að taka tillit til 15% flokks en ekki 5% eins og þeir voru alltaf í gamla daga.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur