Föstudagur 04.09.2009 - 20:04 - 7 ummæli

Asni klyfjaður gulli

Landsvirkjun hefur í áratugi hagað sér einsog ríki í ríkinu – rekur hér erindi sín leynt og ljóst einsog hvert annað samviskulaust fjölþjóðafyrirtæki.

Þetta er samt opinbert fyrirtæki, áður meira að segja að hluta í eigu tveggja sveitarfélaga, en kannski einmitt þessvegna hafa því liðist starfshættir og vinnubrögð sem fyrir löngu hefðu sett venjulegt einkafyrirtæki út af sakramentinu hjá viðskiptamönnum, stjórnvöldum og almenningi. Þar skiptist á einörð valdbeiting í krafti gríðarlegs peninga- og sérfræðingaveldis og svo það gamla ráð að senda asna klyfjaða gulli að þeim borgarmúrum sem ekki falla við fyrsta högg.

Og hér þarf að segja að þetta er ekki að kenna allskyns fínu fagfólki og verkmönnum í fyrirtækinu sem vinna sín störf af trúmennsku .

Kannski var þetta í gamla daga svolítið einsog með General Motors í Bandaríkjunum: Það sem var gott fyrir Landsvirkjun hlaut að vera gott fyrir Ísland. Nú er ástandið á General Motors einsog það er – og manni sýnist Landsvirkjun heldur ekki vera í toppformi.

Breyttar aðstæður í efnahagsmálum, stjórnmálum og umhverfismálum hljóta að leiða til þess að Landsvirkjun stokki upp í sjálfri sér og starfsháttum sínum, geri sér grein fyrir hlutverki sínu í samfélaginu og fari einkum að umgangast Íslendinga af virðingu. Og kannski íslenska náttúru líka?

Úrskurður samgönguráðuneytisins um mútusamninga Landsvirkjunar við Flóahrepp hlýtur að vekja nýja stjórn Landsvirkjunar til umhugsunar – að ógleymdum stjórnum annarra orkufyrirtækja sem að þessu leyti hafa fetað í fótspor Lalla frænda. Nýja stjórnin hlýtur að setjast á rökstóla með væntanlegum forstjóra um breytingar á öllum starfsháttum í þessu öflugasta fyrirtæki almennings á Íslandi.

Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar var í Sjónvarpsfréttum í kvöld að bregðast við í mútumálinu. Af þeirri frammistöðu að dæma er þetta brýna endurskoðunarstarf því miður ekki hafið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Það er búið að vera orðrómur um þetta síðan 2003

  • Mörður, finnst þér eðlilegt að almenningur beri kostnað af þessum verkum?Hvað þá til með kostnað við mat á umhverfisáhrifum, nú eða leyfisveitingar af ýms tagi? Af hverju ætti einhver annar en framkvæmdaaðilinn að bera slíkan kostnað. Það er ekkert annað en ódýr populismi að æpa á torgum um mútur í þessu sambandi

  • Það er einkennileg árátta hjá sumum sem telja sig til hugsjónafólks að berjast gegn því sem getur orðið okkur til bjargar. Fólki sem bjó við fátækt og þröngan kost á fyrri hluta síðustu aldar kemur þessi barátta einkennilega fyrir sjónir.

    Virkjanir í neðri hluta Þjórsár eru ódýrustu virkjanakostir sem finnast í dag. Að auki eru þær náttúruvænar og hafa góða orkunýtingu. Það verður ekki hinsvegar ekki sagt um jarðhitavirkjanir sumar hverjar sem fengið hafa að vera í friði fyrir gagnrýnendum fram undir þetta.

    Þeir sem muna Þjórsá óbeislaða í vetrarham með ísmyndun, grunnstingli, krapastíflum og flóðum eru líklega ekki fjölmennir í hópi mótmælenda.

    Hávær mótmælendahópur gegn Þjórsárvirkjunum samanstendur af sérhagsmunaliði og nytsömum sakleysingjum sem telja sig vera að berjast fyrir náttúruvernd.

  • Halla Guðmundsdóttir

    Heyrðiu Sverrir það er orðið ansi langt síðan Þjórsá var óbeisluð og verður það nú ekki héöan af svo það er ekki þörf á að hræðast feikna jökulflóð af hennar völdum í byggð. Það er ekki náttúruvænt að gjörbreyta til eilífðarnóns ásýnd einnar fegurstu sveitar Suðurlands. Eldri borgarar hér í sveit skrifuðu allir sem einn undir áskorun til þessarar hreppsnefndarnefnu sem hér er, til að fá þessum ákvörðunum breytt. Væntanlega hafa þeir a.m.k. sumir hverjir alist upp við þröngan kost. Vinnubrögðin í samstarfi þessarar hreppsnefndar og Landsvirkjun eru engu lík. Ekki kalla okkur sérhagsmunaseggi eða heimskingja sem reynum að standa í lappirnar gegn þessu ofríki. Þú hefur ekki hugmynd um hvað hér er við að etja.

  • Besserwisser

    Asni klyfjaður glópagulli?

  • Hræddur er ég um að ofstækið hafi nú orðið skynseminni sterkara. Þetta mál er allt saman þvæla frá upphafi til enda og fráleitt að ræða um mútur. Það sem gerist væntanlega í framhaldi af þessum arfavitlausa úrskurði er að Flóahreppur skilar til Landsvirkjunar greiðslunum og sendir síðan Landsvirkjun reikning fyrir sömu upphæð, sem Landsvirkjun eflaust greiðir með skilum. Vitlausari getur þessi della væntanlega ekki orðið.
    Umhverfisfasistar hafa farið mikinn í þessu máli, en sama er hvernig þau þenja sig, eftir stendur að aðrar sjálfsagðari virkjanaframkvæmdir eru vandfundnar. Miðlunin er til staðar og umhverfisáhrifin eru sáralítil; Urriðafossinn sem hinir sjálfskipuðu umhverfissinnar láta svo mikið með finnst varla og alls ekki sem foss, nema að nafninu til. Ef eitthvert vit er í rafmagnsframleiðslu yfirleitt þá eru virkjanir í neðri Þjórsá borðleggjandi kostur. Virkjum Þjórsá!
    Til að það fari ekki á milli mála þá bý ég í Flóahreppi;)

  • Mörður : Þér finnst sem sagt frekar að fámenn sveitarfélög eigi að bera undirbúningskostnað vegna virkjanaframkvæmda ?
    Eða er þetta ódýr leið hjá þér til að koma höggi á Landsvirkjun ?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur