Fimmtudagur 03.09.2009 - 17:46 - 16 ummæli

Hannes, fjölmiðlafrumvarpið og Bláa höndin

Það er hlegið að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni um allt land (hér til dæmis!) – en þó er kannski rétt að gera örlitla athugasemd við þann hluta kenningar hans um Davíð og hrunið sem lýtur að fjölmiðlunum.

Menn vita að nýja heimastjórnartesan er sú að allt hafi verið gott meðan Davíðs naut við – hrunið er öðrum að kenna. Eftir það glæsilega afrek að gera Íslendinga að ríkustu þjóð í heimi hafi hann hinsvegar tapað slagnum um fjölmiðlafrumvarpið – við bandalag auðmanna, Samfylkingarinnar og forseta Íslands. Síðan tóku við stjórnartaumum síðri menn og allt glutraðist niður þrátt fyrir sífelldar viðvaranir úr Seðlabankanum. Þeir sem vilja heyra meira eru örugglega velkomnir á háskólanámskeið HHS um kapítalismann í boði skattgreiðenda.

Sjóaður maður sagði einu sinni að ef nógu oft væri kveðin sama vísan færu menn að lokum að trúa henni, og varð vel ágengt framan af sínum ferli. Heimastjórnin hefur lengi reynt að leika þann leik um fjölmiðlafrumvarpið – vegna þess að það mál olli ákveðnum straumhvörfum í pólitík á þessum áratug, og markar ásamt hruninu lokin á valdaskeiði Davíðs og íslensku nýfrjálshyggjunnar.

Pólitísk átök í valdahópunum

Þeim sem þar fóru fremstir er örugglega hollt að líta gagnrýnum augum yfir átökin – það hefur til dæmis gert ágætlega Hallgrímur Helgason, sem rifjar upp að ekki var sérlega þægilegt að vera í sama liði og Baugsmenn í því máli. Þá má ekki gleyma að þeir sem andæfðu fjölmiðlafrumvarpi Davíðs (menn muna að forsætisráðherra flutti málið fyrst, ekki menntamálaráðherrann) völdu sig ekki saman sjálfir, og höfðu ekki allir nákvæmlega sömu ástæður til að vera á móti þessari ætlan.

Þessi fylkingaskipan breytir hinsvegar ekki meginatriðum málsins. Fjölmiðlafrumvarpið var á sínum tíma tilraun heimastjórnarklíkunnar í Sjálfstæðisflokknum – Bláu handarinnar – til að klekkja á þeim fulltrúum „nýju peninganna“ í viðskiptalífinu sem ekki féllust á að taka sér hina gömlu kolkrabbastöðu með ráðamönnum Flokksins. Um leið mótaðist frumvarpið af gömlum valdaviðhorfum til fjölmiðlanna í landinu. Frumvarpið hefði – bæði í fyrstu mynd sinni og hinum síðari – að auki skert mjög rekstrargrundvöll í fjölmiðlun og hindrað nútímaþróun í takt við sífelldar tæknibreytingar á þessu sviði.

Við sem einkum vildum ræða áhrif frumvarpsins á fjölmiðlun, og reyna að ná samstöðu um aðrar leiðir, urðum að láta undan síga, því fjölmiðlamálið snerist fljótt upp í átök þar sem mikill hluti þjóðarinnar hafnaði – loksins – valdhroka og gjörræði þaulsætinna stjórnarflokka, og einkum hins mikla leiðtoga. Forseti Íslands hjó að lokum á hnútinn með hárréttri ákvörðun um að skjóta málinu í til þjóðarinnar – og er miður að ráðamenn skyldu heykjast á að hlíta stjórnarskránni um þá atkvæðagreiðslu.

Í þessu samhengi er rétt að muna að andstæðingar fjölmiðalfrumvarpsins innan þings og utan vildu lög um fjölmiðla, lög sem stuðluðu að frjálsri fjölmiðlun, fjölræði og lýðræði á vettvangi fjölmiðla og spornuðu gegn ítökum og einokunarhneigðum valdahópa úr pólitík og bisness nema hvorttveggja væri.

Frjáls fjölmiðlun

Þegar Davíð var hættur og farinn reyndist ekki erfitt að ná nokkuð breiðri samstöðu um nýja skipan í þessa átt – með nefndarstarfinu 2005. Sjálfur var ég ekki ánægður með allt í því áliti, vildi ganga lengra í sumu, stíga varlegar til jarðar annarstaðar. En hér skipti mestu að menn úr öllum þáverandi flokkum náðu saman eftir hinn mikla hildarleik sem heimastjórnarliðið efndi til með frumvarpinu.

Hin efnislegu átök um fjölmiðlafrumvarpið sjálft voru svo í meginatriðum þessi: Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur vildu afar ströng takmörk á eignarhaldi fjölmiðla. Enginn einstaklingur eða fyrirtæki mátti eiga meira en afar lítinn hlut. Krosseign milli prentmiðils og sjónvarps átti að banna (mbl.is væri sennilega ólöglegur miðill samkvæmt frumvarpinu). Ýmsar aðrar stífar reglur skyldu settar um fjölmiðlarekstur, og yfir öllu saman var ríkisskipuð nefnd – en þá var einmitt formaður í útvarpsréttarnefnd Kjartan Gunnarsson. Í raun var frumvarpið skraddarasaumað gegn Norðurljósum sem þá hétu.

Við Samfylkingarmenn tókum fljótt forystu gegn frumvarpinu á þingi. Við töldum að ekki ætti að setja lög af því forsætisráðherranum væri illa við eigendur fjölmiðlafyrirtækis, hversu ómögulegir sem þeir kynnu að vera. Við neituðum aldrei eignarhaldstakmörkunum sem úrræði gegn samþjöppun á fjölmiðlamarkaði en töldum að þröng takmörk mundu verða til bölvunar fyrir rekstur fjölmiðlanna og gefa pólitíkusum færi á annarlegum áhrifum á þróun fjölmiðlunar.

Sjálfstæði ritstjórna, alvöru-RÚV

Við lögðum aðaláherslu á tvennskonar umbætur í íslenskri fjölmiðlun. Annarsvegar að efla Ríkisútvarpið sem raunverulegt almannaútvarp, sem hefði menningarlegt og lýðræðislegt forystuhlutverk á þessum vettvangi. Hinsvegar þyrfti að styrkja sjálfstæði ritstjórnar á fjölmiðlum landsins til að vega á móti áhrifavaldi eigenda.

Að lokum gerðist svo ekki neitt – nema RÚV var gert að ohf-i, sem flestir telja nú misheppnaða ákvörðun, nema kannski útvarpsstjórinn á jeppanum góða. Og hinum fjölmiðlunum hefur hnignað, meðal annars vegna hömlulítilla eigendaáhrifa. Samanber bæði stærsta og næststærsta blað landsins (en ekki DV, takk fyrir það!).

Nú er Kata Jak að fara aftur af stað með fjölmiðlafrumvarp og vonandi líka að búa til almannaútvarp úr ohf-vitleysunni í Efstaleiti. Þetta er brýnt, ekki síst vegna þess að veikir, hikandi og háðir fjölmiðlar áttu sinn þátt í hruninu og aðdraganda þess. Við þetta verk er rétt að skoða vel málflutning í kringum fjölmiðlafrumvarpið gamla og forðast vitleysurnar sem þar voru gerðar.

Og söguskoðun Bláu handarinnar er heldur ekki besta veganestið inn í lífið eftir hrun.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • þó að það nú væri að menn skelltu uppúr við þvælunni
    úr Hannesi…. hann hlýtur að hafa dottið aftur á höfuðið,
    enginn kannast við það sem hann er að segja.
    Hann er orðin jafnmikið aðhlátursefni og hinn rauði pólitíski
    djöfull á Bessastöðum, sem greinilega gerir sér ekki grein fyrir
    eigin heimsku, og í leiðinni að hafa það vit að segja af sér,
    þjóðin hatar þennan mann í dag jafn mikið og hún hlær að
    fíflinu Hannesi,,,,,,

  • Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn eru í sanni tvíburaflokkar í eðli og stefnu. Á hvorugum stað vill nokkur kannast við að stefna þeirra hafi haft nein áhryf á hrunið eða að peningarmennirnir sem styrktu flokkana og einstaka frambjóðendur þeirra um tugi miljóna hafi notið fyrirgreiðslu í samræmi við fjárfestingu sína. Allt skal selja fyrir völdin og völdin síðan seld til að fjármagna næstu valdasókn. Í hvorugum flokknum hefur neinn verið kærður þrátt fyrir stórfeld og útbreidd mútumál og hvor bendir á hinn þegar kemur að því að finna sökudólg fyrir hruninu þrátt fyrir að Thatcher-Blair stefnan hafi verið grunnurinn að stjórnmálastefnu beggja flokka og hafi skapað sama hrunið alstaðar þar sem hún komst til valda. Í báðum flokkum brást fólkið og stefnan til jafns og í báðum flokkum hefur verið haldið í bæði fólk og stefnu, að þeim undanskildum sem urðu að víkja vegna heilsufarsástæðna.

  • Turnarnir tveir í íslenskri pólitík reyndust eins og turnarnir í Hringadróttinssögu vera í leyndu bandalagi og vera uppétnir að innan af vondri hagfræðikenningu.

  • Besserwisser

    Of mikil opinber afskipti segir Heimdallur.

  • Þessi rök um að Samfylking hafi verið á móti lögunum vegna þess að þau voru sérhönnuð fyrir Jón Ásgeir, eru hlægileg rökleysa, jafnt núna og þá

    Ef lög eru sett eru þau sett yfir alla. Það stóð ekki neinstaðar í lögunum „Jón Ásgeir má ekki eiga meira en….“

    Það vita allir sem vilja vita það að ástæðan fyrir því að Samfylkingin barðist gegn Fjölmiðlafrumvarpinu var ekki útaf því að það væri eitthvað samsæri á milli þeirra og Baugs. Ástæðan fyrir því að Samfylkingin barðist gegn fjölmiðlafrumvarpinu er sú sama og afhverju aðrir í stjórnarandsstöðu berjast í 99% skipta gegn frumvörpum Stjórnar – Ef þú ert í stjórnarandstöðu þá hefur þú enga aðra hvata en að vera populisti, þar sem leið þín að valdi er fólgin í að magna upp ánægju með þig fyrir næstu kosningar og ekkert er að græða á því að vera sammála (nema að þú sért virkilega sammála – sem gerist eins og áður sagði 1% skipta)

    Ástæðan var að þetta var ekkert gæluverkefni hjá Samfylkingunni, og því auðvellt að vera tvístíga og síðan það sem æsti uppí andstöðu samfylkingamönnum: samsæriskenningin um að bak við þetta allt saman væri Kolkrabbinn ógurlegi að reyna að stíga í veg fyrir ungu spræku strákanna í Baugi (og auðvitað notaði Baugur fjölmiðlanna til að magna það upp)

    Þetta er eðli pólitíkar á Íslandi – hún skipar mönnum í flokka frá ungaaldri (eins og trúarbragð) – flokkarnir eru síðan pólaríseraðir með samsæriskenningum og umræðan er mögnuð upp af peningamönnum sem forheimska alla þá sem stíga inní þessi djöfulsins cult.

    Og þú Mörður ert nógu forrhert vitlaus til að geta ekki séð þetta augljósa mál fyrir flokksgleraugum þínum

    Djofulsins vitleysa

  • Það em breytist var að fjölmiðlafyrirtækin NFS og 365 fóru að styrkja Samfylkinguna um ca 10 milljónir á ári. Spilling og aftur spilling. Fjölmiðlar hafa lítið fjallað um spillinguna í Samfylkingunni varðandi múturnar fá Baugi, NFS, 365 og fleiri fyrirtækjum Jóns Ásgeirs. Baugsmiðlunum er beitt linnulaust í þágu eigandanna og Samfylkingin dansar með. Þegar að umræðan um fjölmiðlafrumvarpið var í hámæli þá komu hver og einn einasti þingmaður Samfylkingnanar í viðtöl á Stöð2 og NFS og fundu frumvarpinu allt til foráttu þar á meðal varst þú Mörður. Var ykkur mútað til þess að vera með þessi mótmæli. Einstakir þingmenn fengu síðan stryk frá Baugi fyrir kostningarnar árið eftir þar á meðal Jóhanna Sigurðardóttir. ( smá upprifjun, ..skjaldborg um heimilin, bjarga fólki frá því að missa heimilin sín, lækka greiðslubyrðina, bæta kjör þeirra lægst launuðu. Þetta eru frasar sem Jóhanna notaði sem mest áður en hún varð formaður Samfylkingnar: Ekki er lengur hægt að telja hana vera forsætisráðherra því að því starfi veldur engan veginn og hefur
    Steingrímur J tekið það starf yfir.)
    Mörður! Líttu þér nær og skoðau í þínum eiginn ranni og og taktu þar til og svo máttu gagnrýna aðra.

    Ingvar

  • fridrik indriðason

    sælir
    þetta er nokkurn veginn eins og ég upplifði þennan tíma Mörður þá nýkominn úr langri helgarferð til köben 2004. Fór að vinna á dv og varð fljótt hissa á stjórnmálum hér. en þá ber að geta þess að ég hafði lengi búið í sæmilega siðmenntuðu samfélagi.

  • Ég hef lengi bent á þá staðreynd að Baugur og tengd félög áttu einungis Fréttablaðið á þessum tíma.

    Sá sem að var umsvifamestur í fjölmiðlarekstri á þessum tíma var Jón nokkur Ólafsson, kenndur við Skífuna, sem að átti og rak Norðurljós. Norðurljós áttu Stöð 2 og fleiri ljósvakamiðla og höfðu þá nýlega keypt upp flest allar sjálfstætt starfandi útvarpsstöðvar á Íslandi ef að minnið svíkur mig ekki. Ég man ekki hver eignarhlutur þeirra var í prentmiðlum.

    Það er eins og það megi aldrei benda á þá staðreynd að lögin voru stórgölluð og Samfylkingin kom ekki í veg fyrir eitt né neitt. Lögin voru s-a-m-þ-y-k-k-t af þáverandi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar (þeirrar sömu og samþykkti stuðning íslenska ríkisins við innrás Bandaríkjanna í Írak árið á undan).

    Sá sem að stöðvaði fjölmiðlalögin var Ólafur R. Grímsson. Samfylkingin talaði gegn lögunum og greiddi atkvæði gegn þeim.

    Þess má líka geta að það voru allir fjölmiðlar á Íslandi á þeim tíma sem að töluðu gegn lögunum af þeirri einföölldu ástæðu að þau voru arfavitlaus þrátt fyrir ágætis tilgang og ekkert samráð var haft við hagsmunaaðila eða stjórnarandstöðu við gerð þeirra eða afgreiðslu.

  • ha hahhahahahhh Hannes Hólmsteinn , nýfrjálshyggja …bláa höndin
    …Davíð, Davíð, Davíð, DAVÍÐ ..heimdellingar eru hrokafullir og tala niður til fólks og og bla bla blabla

    „Við Samfylkingarmenn tókum fljótt forystu gegn frumvarpinu á þingi. Við töldum að ekki ætti að setja lög af því forsætisráðherranum væri illa við eigendur fjölmiðlafyrirtækis“ …einmitt , það er mergur málsins.

  • Jón H. Jakobsson

    Þvílík einföldun að halda að maðurinn (the man)þurfi að eiga fréttamiðlanna til að hafa áhrif á þá – PR campaigns (háðar af PR mönnum og Front Groups) stjórna umræðu – blaðamenn vita sjaldast þegar verið er að spila með þá, enda er þeim kennt í skóla (á trúarlegan hátt) að þeir eigi að vera hlutlægir (og í slíku námi er hlutlægni tekið sem eitthvað sjálfsagt Dogma sem blaðamanni á að vera auvellt að fylgja eftir- þvert á vísbendingar úr frægustu félagsfræði og sálfræði rannsóknum)

  • Hannes & Mörður:
    „Tveir draugar sem ásóttu vitsmuni þessarar þjóðar
    þrauka nú við að kveða hvorn annan niður.“
    Steinn Steinar.

  • hvor annan, væntanlega … þeir sem vitna í Stein verða að vitna rétt. // M

  • Getur verið að það sé brosað af Hannesi, og gert grín. Yfirleitt er það fólkið sem vill ekki, eða getur ekki svarað með rökum. Þá er griðið til einhverra ráða eins og að gera grín. Það eru ekki mótrök, heldur fólk sem annað hvort hefur ekki svör við hans kenningum, eða skilur e.t.v. ekki það sem hann er að segja.

    Samfylking barðist gegn fjölmiðlalögum. Forsetinn gerði það líka. Ekki vegna þess hvað þessi lög innihéldu, heldur hver flutti þau. Það er álíka gáfulegt og hjá þeim sem hleypa hlutunum upp í grín og vitleysu þegar það þrýtur rök.

    Mörður segir að ekki hafi verið auðvelt að vera í Baugsliðinu. Ert þú ekki eitthvað að ruglast? ertu ekki að meina að það hafi verið erfitt að vera í öðru liði en Baugsliðinu? Það hafa margir fengið að reyna síðustu árin. Mér finnst frekar eins og Hallgrímur Helga. og fleiri hafi einmitt komist áfram AF ÞVÍ þeir voru á baugseimreiðinni. Þetta voru aðilarnir sem áttu sjónvarpið, útvarpið, netið, símann og blöðin. Ekki erfitt að fá umfjöllun þegar með þurfti, meðan aðrir þurftu að dúsa úti í horni.

    Þessi leikur Samfylkingar að vera með Baugi þegar þeim það hentar, afneita þeim svo þegar það hentar betur er virkilega pirrandi. Betra er að menn standi og falli með sínum skoðunum.

  • Batman:

    Ég er að mörgu leiti sammála gagnrýni þinni, en athugasemd mín snérist ekki um áhrif fjölmiðla á umræðu eða aðferðafræði þeirra, heldur vinnubrögð og eftirásöguskýringar sem mér finnst persónulega einum of landlægar í íslenskri pólitík.

    Fjölmiðlar á Íslandi hafa árum saman sætt gagnrýni fyrir að kafa ekki nógu djúpt ofan í einstaka málefni og þeim legið á hálsi að vera vinstri eða hægri sinnaðir eftir hentugleikum og að ganga annarlega erinda.

    Svo þegar að þeir taka sig til og sinna upplýsingaskyldu sinni virðist sem einstaka stjórnmálamenn / embættismenn brjótist fram af heilagri vandlætingu og tali um pólitískar ofsóknir og einelti.

    Þessu þarf að breyta.

  • Rétt hjá Merði. Einu n ofaukið og líka vantar tvær kommur.
    Mér var talinn trú um að tvö erindi af þessu kvæði, hefðu verið samin
    um sjónvarpsþættina Hannes & Mörður á Stöð 2. Kvæðið var víst samið
    um hneykslan Jónasar Jónssonar frá Hriflu á málverki Jóns Þorleifssonar
    af Þorgeirsbola. Ég rita hér upp tvö erindi af kvæði Steins Steinars, sem
    eiga vel við um þætti þeirra Hannesar og Marðar. Ég sleppi miðerindinu.

    Ein saga berst mann frá manni sem þannig hljóðar:
    Hjá mörgum er ofstækið leiður og þrálátur kvilli.
    Tveir gamlir og útslitnir draugar þessarar þjóðar
    þreyta nú hamrama baráttu – sín á milli.

    – -+————————

    Og þó er það rétt og satt eins og sagan hljóðar
    og sérlega fyndinn og óvæntur dagskrárliður:
    Tveir draugar, sem ásóttu vitsmuni þessarar þjóðar,
    þrauka nú við að kveða hvor annan niður.

  • Þorfinnur

    Fínn pistill hjá Merði, en kommentin meira og minna tóm vitleysa.

    Til dæmis, Jón H. Jakobsson: Jón Ólafsson var búinn að selja allar sínar á eigur á Íslandi á þessum tíma, þar með talinn þennan fjölmiðlarekstur. Baugur, eða félög tengd honum, áttu Norðurljós.

    Meira ruglið…

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur