Þriðjudagur 01.12.2009 - 09:27 - 8 ummæli

57. greinin

Á kjörtímabilinu 2003–2007 beitti stjórnarandstaðan í þremur málum því vopni sem hún taldi sig hafa eitt saman gegn yfirgangi ráðherra og stjórnarmeirihluta, að setja á miklar ræður til að knýja fram samkomulag um málalok eða frestun máls – og til að vekja athygli almennings á því sem um var að vera.

Menn deildu þá um þessa aðferð og kölluðu málþóf, sem það sannarlega stundum var, þegar ræðumenn voru farnir að lesa úr bókum og tala um daginn og veginn. Flest settum við þó metnað okkar í að halda þokkalega röklegar tölur, reyna að finna nýja fleti og gefa yfirsýn um málið sem ræða skyldi. Stundum tókst það, stundum ekki.

Strax á næsta kjörtímabili, þegar fyrri fylkingar á þingi höfðu stokkast upp, urðu allir sammála um að breyta reglunum. Stjórnarandstaðan fengi meiri rétt og betri aðstöðu en í staðinn legðust af málalengingar og málþóf. VG-arar andæfðu nokkuð en það var vegna þess að þeim þótti of langt gengið með breytingunum, voru hinsvegar flest sammála í grundvellinum.

Meginbreytingin var að ræðutími í 2. og 3. umræðu var tiltekinn en hafði áður verið óheftur af öðru en raddböndum og þvagblöðru. Hinsvegar var tekinn upp sá siður að eftir aðra ræðu mætti þingmaður tala eins og oft og honum  sýndist, þó aðeins í fimm mínútur hverju sinni.

Þetta er glufan sem Sjálfstæðisflokks- og Framsóknarmenn hlaupa nú í gegnum þegar þeir eru búnir með fyrstu ræðuna og aðra ræðuna og öll andsvörin hver við annan. Gunnar Bragi Sveinsson úr Framsóknarflokknum í Skagafirði hefur víst talað 79 sinnum við þá umræðu Icesave-málsins sem yfir stendur, og er þó ekki þingmanna málsnjallastur eða áheyrilegastur.

Öll rök máls eru löngu komin fram, ótal sinnum, ekkert nýtt gerist í umræðunni, sem fyrst og fremst samanstendur af upphrópunum, væli og þæfingi um fundarstjórn forseta.

Úr hófi fram

Í þingsköpunum eru fleiri reglur en þessi um endalausu fimm mínúturnar. Þar er líka grein um takmörkun ræðutíma og slit umræðna. Hún er númer 57 og hljóðar svo:

Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd.

Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum.

Sömuleiðis geta níu þingmenn krafist þess að greidd séu atkvæði um það umræðulaust hvort umræðu skuli lokið, umræðutími eða ræðutími hvers þingmanns takmarkaður. …

Þá er að athuga hvort umræðan um Icesave-málið kunni að hafa „dregist úr hófi fram“. Hvað ætli Gunnari Braga Sveinssyni finnist um það í næstu sjötíu og níu ræðum?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • „Öll rök máls eru löngu komin fram…“

    Var ekki Steingrímur að lýsa því yfir í gær að svo væri ekki? Að hann byggði afstöðu sína að hluta á leynirökum sem ekki mætti útskýra í ræðustól Alþingis?

    Mér þykir það sjálfsagt að umræðum í svo stóru máli ljúki ekki fyrr en fjármálaráðherra, í það allra minnsta, hefur gert fulla grein fyrir afstöðu sinni.

  • Uni Gíslason

    Meirihluti þingmanna getur þannig endað umræðurnar þegar þeim sýnist…? Því eru þessar umræður ennþá í gangi?

  • Það er örugglega ekki meirihluti á þingi fyrir að beita þessu ákvæði.

  • Kjartan Rolf Árnason

    Þá er að sjá hvort þingmeirihlutinn hafi kjark til að beita þessu ákvæði í einhverju augljósasta málþófi sem um getur, – annars má alveg eins fella ákvæðið úr gildi ef enginn vilji er til að beita því. En það væri dapurt, eins og allur þessi málþæfingur. Stundum verður einfaldlega að taka af skarið.

  • Einar Ólafsson

    Þetta málþóf veldur þjóðinni miklu tjóni.

  • Icesave hefði átt að samþykja fyrir löngu, en að möguleika stjórnarandstöðu til að beita málþófi sé basically bannaður…?

  • Uni Gíslason

    Mér þykir það sérstakt sé ekki meirihluti á þingi til í að enda umræðurnar ef á annað borð er meirihluti á þingi til þess að samþykkja frumvarpið.

    Það er alveg klárt að stjórnarandstaðan hefur fengið að segja álit sitt á frumvarpinu og rúmlega það – enda sumir, eins og flokksbróðir minn Gunnar Bragi Sveinsson, farnir að endurtaka sig ansi ríflega.

    Hver einasti þingmaður stjórnarandstöðu sem hefur áhuga á að segja skoðun sína á málinu hefur gert svo – oft. Þá nær umræðan ekki lengra og ferlið heldur áfram þangað til kosið verður um málið.

    Að halda áfram umræðum á meðan finnst einhver í stjórnarandstöðu sem nennir að fara upp í ræðustól er tilgangslaust. Líka fyrir stjórnarandstöðuna.

  • Uni Gíslason

    http://www.visir.is/article/20091203/FRETTIR01/298536169

    Því heldur Björgvin því fram að stjórnarandstaðan hafi þingsköpin með sér og geti því haldið þinginu í gíslingu með málþófi?

    Er það rétt hjá honum, eða getur meirihlutinn endað umræðuna eins og Mörður heldur fram?

    Ég fæ það ekki til að passa, m.v. það sem Mörður vitnar í hér efst, að meirihlutinn geti ekki endað umræðuna þegar þeim sýnist.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur