Miðvikudagur 16.12.2009 - 09:57 - 3 ummæli

Loftslagsaðild að ESB!

Í gær gekk Ísland í Evrópusambandið – hér í Bella Center í Kaupmannahöfn.

Það er að segja í loftslagsmálunum. Við höfum nú tekið undir boð ESB um 30% samdrátt og gefið fyrirheit um að takast á hendur sömu skuldbindingar og „aðrar“ Evrópusambandsþjóðir. Þegar kominn er nýr samningur í Kyoto-stíl verðum við inni í ESB-pakkanum.

Þetta er auðvitað algerlega rökrétt. Sem EES-ríki átti Ísland þegar formlega aðild að losunarheimildakerfi sambandsins, en var í þeirri stöðu að engin starfsemi á landinu féll undir kerfið. Þetta er svo að breytast því næstu ár kemur flugið inn og svo álverin, og þá væri staða Íslendinga orðin undarleg og óþægileg ef stefna okkar í loftslagsmálum færi á svig við stefnu sambandsins.

Þessi nýja loftslagsaðild að ESB úreldir endanlega hið víðfræga „íslenska“ ákvæði. Það passaði aldrei við viðskiptakerfið, og var þessvegna í raun á svig við EES-aðild. Ákvæðið var einusinni-mál, og það vissu allir sem vildu vita – þótt Framsóknar- og Sjálfstæðismenn hafi fyrr og síðar reynt að beita því sem einhverjum sérstökum íslenskum ávinningi í gömlum og góðum þjóðernisstíl.

Loftslagsaðildin er af þessum sökum ekki alveg óvænt – en það er hinsvegar nokkuð sérkennileg staða að þetta gerist undir forustu umhverfisráðherra úr VG. Sýnir líka breytingarnar á þeim flokki – raunveruleikinn er tekinn við og lausnir á vanda dagsins leiða menn (a.m.k. suma!) gegnum skýjaborgaþokuna til skynsamlegrar niðurstöðu. Og ráðherrarnir á undan henni eiga líka sinn þátt í þessum merkilega viðburði, ekki síst Þórunn Sveinbjarnardóttir sem hér flögrar einmitt um salina, glöð og reif að vanda.

Kvennafundur

Íslenski ráðherrann, Svandís Svavarsdóttir, er annars í sviðsljósinu hér á loftslagsráðstefnunni í dag þegar fram fer eini viðburðurinn sem Íslendingar standa fyrir, nefnilega um konur og loftslagsvána – hver staða kvenna er gagnvart ógnum framtíðar og hversu mikilvægt það getur reynst að konur – ekki síst í þriðja heiminum – bregðist við.

Gerið okkur stolt!

Þetta verður fróðlegt, en ekki siður að sjá hverju breytir koma um 130 þjóðarleiðtoga hingað í Bellu. Í gær var settur sá hluti ráðstefnunnar með mikilli viðhöfn – mér fannst skemmtilegastur Karl Bretaprins sem flutti ákaflega áreynslulausa og séntilmannlega ræðu, svona einsog það væri síðdegisteboð í hallargarðinum, en samt launhvassa, og sagðist að lokum vonast eftir árangri hér á ráðstefnunni. Það væri nefnilega þannig að síðari kynslóðir mundu ekki dæma okkur eftir því sem við segðum heldur því sem við gerðum, sagði Karl, veifaði svo blöðunum sínum og brosti næstum feimnislega og bað ráðstefnufulltrúana að gera okkur stolt: Please make us proud.

Svipað og yrði sagt í teboðinu fyrir breska landsliðið í póló.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Óskar Þ.

    Á nú litla Ísland að fara að fórna sér fyrir fjöldann?

    Það er allt gert til að þjónkast ESB.

    Ekki veit ég hvernig við getum skorið niður meira í útblæstri hjá okkur.

    Sennilega verðum við að fara að nota seglskip, leggja flugsamgöngur af að mestu, og ekki veit ég hvernig álverin geta skorið meira niður hjá sér. Þau eru öll komin með hreinsibúnað.

    En tilgangurinn helgar meðalið. Það er allt gert til að sýnast og til að komast í „himnasæluna“ ESB sem er að gera út af við Írland, Grikkland, Eystrasaltslöndin, Spán, Portúgal o.fl. lönd.

  • Óskar Þ.

    Ps.

    Þessi loftslagsráðstefna er skrýpaleikur og það kemur ekkert að viti úr henni.
    Þar að auki fær harðstjórinn og níðingurinn Robert Mugabe að koma þarna, og það sem er fáránlegast af öllu að enginn er að mótmæla honum sem undirstrikar og þessi loftlagssirkus er bara leikhús fáránleikans og að mótmælendur þarna úti er heimskir aular.

  • Jeppalúði

    Þessi ráðstefna er bara enn ein leiðin til að arðræna almenning.Mengunarskattar og allt kjaftæðið um að hlýnun jarðar sé okkur að kenna.Og Óskar Þ. eru það bara heimskir aular sem mótmæla fáranleika ?
    Og er eitthvað verra að Mugabe sé þarna en Kalli pretaprins og aðrir vestrænir leiðtogar?
    Þetta lið er allt í orði en ekkert á borði.Talar um verndun umhverfisins í beinni úr jeppanum sínum.Talar um umhverfisvænar samgöngur en heldur úti handónýtu almenningssamgangnakerfi og hefur aldrei komið í strætó.
    Talar um að minnka útblástur en dreifir byggð á víð og dreif með „grænum“ svæðum inná milli
    Leggur reiðhjólastíga í endalausa króka kringum einkabílaæðar,setur margföld umferðarljós á gangandi og hjólandi vegfarendur til þess að greiða fyrir bílaumferð.
    Og nýjasti brandarinn:ESB leggur skatt á BIO-diesel frá USA.
    Tilgangurinn er bara enn einn skatturinn í safnið.
    Mengunarskatt á skútur !!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur