Miðvikudagur 16.12.2009 - 15:23 - 10 ummæli

Fréttablaðið langflottast

Aðeins einn íslenskur fjölmiðill tímdi að senda mann til Kaupmannahafnar út af loftslagsráðstefnunni miklu. Það er Fréttablaðid sem hefur hér hinn trausta blaðamann Kolbeinn Óttarsson Proppé, og síðustu daga hefur Fréttablaðið verið langflottast – nema eitthvað sé að gerast í miðlunum heima sem ekki sést gegnum netið.

Fréttablaðið í dag segir frá raðstefnunni einsog hvert annað stórblað, með allar helstu fréttir og leiðara þar sem um stöðuna er fjallað af spöku viti – enda full ástæða til, og enginn himinhrópandi kostnaður að senda mann út í viku, og þótt þeir væru fleiri.

Sjálft Ríkisútvarpið – fréttastofa, fréttáukar, dagskrárgerð, morgunútvarp, síðdegisdagskrá, Spegillinn og svo framvegis og svo framvegis – er fjarri viðburðum í Bellusentri. Ekki einn einasti maður að flytja tídindi frá rádstefnunni um framtíd veraldar – og ekki lengra að fara en til Hafnar þar sem RÚV hafði yfirleitt sérstakan fréttaritara hér áður. Við vitum að það eru ekki til miklir peningar, og auðvitað þarf að borga reksturinn á jeppa Páls Magnussonar – en er eíthvað að brenglast fréttamatið og forgangsröðin? Kannski erfitt að útvega kostun?

Annar rótgróinn og voldugur fjölmiðill er líka fjarstaddur, en þar er það einmitt forgangsröð og fréttamat sem ræður. Þad her náttúrlega Morgunblaðið undir stjórn Davíðs Oddssonar og Haralds Johannessens, sem báðir hafa lýst þeim viðorfum að lofstslagsváin sé bara lúalegt uppátæki vinstrimanna. Leiðinlegt fyrir þá sem eftir eru af vönduðum blaðamönnum á Mogga, en svona er lífið: Davíð ræður, og þið bara haldið áfram að skrifa um Icesave og skatta og hvað það er farið ósköp illa með þá í LÍÚ.

Á meðan rúlar Fréttablaðið.

Allt í hassí

Þad er annars að frétta af ráðstefnunni að hún er komin í kluður dauðans – þróunarríkin neita öllum hálfkákstexta og heimta bæði meiri peninga og að iðnríkin standi við fyrri peningaloforð. Bandaríkjamenn segjast ekki mega fara lengra útaf íhaldssömu þingi en þangað sem Obama er þegar kominn, sem er ákaflega skammt. Rádstefnustjórinn, Connie Hedegård umhverfisráðerra Dana, hefur sagt af sér og forsætisráðherrann, Lars Lökke Rasmussen, er tekinn við til að auka þungann í fundarstjórninni – en kann svo ekki einusinni skammstafanaslangrid og er einsog álfur útúr hól.

Enn festa menn vonir sínar við frumkvæði frá leiðtogunum sem eru að safnast saman í Höfn. Framkvæmdastjóri Greenpeace, Kumi Naidoo frá Suður-Afríku, sagði þetta vel á blaðamannafundi alþjóða-umhverfissamtakanna (CAN) í hádeginu: Staðreyndirnar segja okkur að við verðum. Tæknin segir okkur að við getum. Nú þurfa stjórnmálamennirnir að ákveða að við ætlum.

Svandís glæsileg

Umhverfisráðerra Íslendinga var skörugleg á fundi um loftslagsvá og kynjamisrétti sem Norðurlönd og tvö Afríkuríki stóðu fyrir uppúr hádeginu – Svandís var fundarstjóri, og ræðumenn ráðherrar frá Danmörku, Ghana, Gambíu og Finnlandi.

Hinar íslensku áherslur á hlut kvenna í loftslagsmálunum eru hárréttar – en vilja gleymast í karlasamfélaginu meðal samningamanna og diplómata. Margvíslegar afleiðingar koma verr niður á konum en körlum, meðal annars vegna þess að í hefðbundnum samfélögum eru þær staðbundnari og háðari nærumhverfinu en karlarnir. Það er vont fyrir alla vegna þess að konurnar eru víða (víðast!) hryggjarstykkið í fjölskyldunni, bæði kjarnafjölskyldum og stórfjölskyldum. Í þriðja heiminum eru konurnar líka sá sem er ábyrgur fyrir að útvega matinn, sækja vatnið, sjá um dýrin – og allt er þetta í hættu í loftslagstengdum hremmingum.

Konur geta á hinn bóginn verið fúsari og hugkvæmari að finna lausnir, bæði í þróunarríkjum og iðnríkjum. Þær standa fyrir landbúnaði í þriðja heiminum, og eru miklu virkari daglegir neytendur í iðnríkjunum en karlarnir – og á hvorumtveggja vígstöðvum ráða þær miklu um orkumál heimilisins. Ákvarðanir kvenna og val milli ýmissa mis-loftslagsvænna kosta geta þessvegna haft mikil áhrif.

Þetta var afar áhugavert og fylgdu miklar umræður ráðstefnugesta (já, næstum bara kvenna) úr öllum heimshlutum. Svandís stjórnaði heila gillimojinu af festu en miklum sjarma, og í þetta sinn þurfa Íslendingar engan veginn að skammast sín fyrir foringja á erlendri grund.

Rúsína í þessum snotra pulsuenda var svo viðurkenning sem loftslags-kvenna-samtök veittu tveimur ríkjum fyrir góða frammistöðu við að halda fram málstað kvenna (og karla!) á þessum vettvangi – Ghana og Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Þú ert hugrakkur að hætta þér út á þessi mið Mörður.. Er reyndar sammála þér.

    Annars spái ég því að það eigi eftir að vera líflegt hjá þér hvað komment varðar eftir þessa færslu. En það er bara gaman…
    kv..

  • Voru sumir bara sendir þarna út til að spila á fiðlu?
    Skondið hvað samfylkingarmenn eru nú duglegir að hæla Fréttablaðinu.

  • Sigún G.

    Geysp…

  • Óskar Þ.

    Vinstrablaðið Fréttablaðið, málgagn Samfylkingarinnar, bregst náttúrlega ekki sínu fólki. Enda er það sama fólk ákaflega ánægt með málgagnið sitt.

  • Takk kærlega fyrir þessa færslu, Mörður. Þarf ekki að gera sérstaka rannsókn á þetta skrýtna fréttamat ? Panem et circenses.

    Til hamingju Ísland að eiga svona duglega og skýra ráðherra, og ekki síst umhverfisráðherra. Reyndar hafa þær verið þrír alvöru umhverfisráðherrar eftir kosningana í 2007.

  • Þór Eysteinsson

    Mér sýnist sem hægri stjórnin í Danmörku sé að klúðra framkvæmdinni á þessari ráðstefnu. Að minnsta kosti var fréttaritari BBC ekki par hrifinn. Menn þurfa að bíða svo klukkustundum skiptir í biðröð fyrir utan Bella Center til að komast inn, og missa af jafnvel eigin ræðum (og annarra), og þátttakendur inni eru mun færri en gert var ráð fyrir. Stærsti hluti fulltrúa þróunarríkja ruku á dyr til að mótmæla fundarstjórn umhverfisráðherra Dana, og svo virðist sem áherslur hennar og danska forsætisráðherrans séu ekki hinar sömu. Svo bætast við vafsöm vinnubrögð dönsku lögreglunar og hálfgert stjórnleysi fyrir utan meðal mótmælenda, og þar sem frjálslyndum höndum er farið um réttindi handtekina. Fréttaritarinn hélt því fram í fréttum BBC World Service að danska stjórnin sé að reyna að troða lokasamþykkt upp á ráðstefnufulltrúa með öllum ráðum, hvort sem þeim líkar betur eða verr, og þar sem taumur ríkari þjóða verður dreginn. Altént sýnist manni sem að ráðstefnan muni ekki auka hróður núverandi stjórnvalda í Danmörku.

  • það er fínnt að það hlýni. það er bara gott fyrir náttúruna að það hlýni. það hefur verið hlýrra og það bætir allt að það sé hlýrra. Gaddjöklar sem eru að meðaltali -20°c til -45°c munu ekki minnka við það að það hitni um örfáar gráður. að gaddjökull fari úr úr kannski -45°c í -40°c er alveg jafn frosin. ekki nema allt í einu sé búið að breyta náttúrulögmálunum og að frostmark sé núna fyrir neðan núllið.

  • Já frábært hjá Svandísi að gera þetta að einhverjum kvenrembuleikþætti og þiggja svo einhverja viðurkenningu frá einhverjum kvenrembusamtökum. Ekki síður frábært hjá þér Mörður að koma með þessa margþvældu lygaþvælu um að konur í þriðja heiminum sjái um landbúnaðinn. Þeir sem hafa ferðast um þróunarlöndin þurfa að vera blindir ef það fer framhjá þeim að þeir sem strita á ökrunum og annast skepnuhald eru að mestu leiti karlar, ekki konur.

    Og hvað er þetta með að konur séu „staðbundnari“, búa konur í akuryrkjuþjóðfélagi en karlarnir hoppandi og skoppandi uppá fjöllum að bíta gras?

    Svandís er trú sinni kvenrembu og lætur sem konur séu saklaus fórnarlömb meintra loftslagsbreytinga og beri enga ábyrgð á mengun í heiminum. Staðreyndin er sú að öll mengun stafar í grunnin af neyslu einstaklinga, og konur eru, eins og þú segir sjálfur, virkari neytendur en karlar. Mengun í heiminum er því frekar þeirra sök en karla. En þú, sannur samfylkingarmaður, lætur auðvitað ekki staðreyndir eyðileggja góða lýgi.

  • Ég held nú að þetta fréttablað sé sama sorpið og allt hitt. Fólk les það bara af því að það er ókeypis og nauðgað uppá mann í gegn um bréfalúgurnarþ

  • Fréttablaðið langflottast. Samfylkingin með bezta spunaliðið. Húsasmiðjan
    með fegustu jólaskreytingarnar. Bónus með lægsta verðið. Mörður Árnason
    sleipasti stjórnmálamaðurinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur