Fimmtudagur 17.12.2009 - 10:29 - 4 ummæli

Yes We Can – en þorir hann?

Löngu er ljóst að ekki yrði undirritaður bindandi samningur hér í Höfn um næstu skref eftir Kyoto, en menn vonast enn eftir „ákvörðun um ákvörðun“ — að ríki heims sameinist um samningsramma,  helstu útlínur samnings og ekki síst tímafrest til undirritunar. Gore hefur lagt til að það verði í Mexíkó í júlí á næsta ári. Ef þetta tekst í Kaupmannahöfn hefur til nokkurs verið fundað – en ef ráðstefnunni hér í Bellusentri lýkur með allt upp í loft, eða með einhverri skítareddingu til að bjarga andlitinu á helstu leiðtogum veraldar – þá er hætt við að ekki takist að ná samkomulagi næstu misserin – þangað til það verður of seint, eða kostar fórnir sem illmögulegt verður að ná saman um.  

Margt hefur samt gerst hér í viðræðunum síðasta sólarhringinn – Afríkumenn hafa sýnt samningsvilja með því að slá af fjárkröfum, Kínverjar lýst því yfir að þeir þurfi enga peninga frá iðnríkjum, Bretar og Frakkar sýnt frumkvæði – en eitt hreyfist ekki og það er afstaða Bandaríkjamanna sem öllu ræður, þeirrar þjóðar sem mest mengar, bæði alls og á mann, eina iðnríkisins sem ekki var með í Kyoto-skuldbindingunum.

Todd Stern sem stjórnar sendinefnd Kana hefur sagt að engin von sé til þess að þeir breyti afstöðu sinni sem kynnt hefur verið um samdrátt – sem nær alltof skammt, eða verði með í nýrri Kyoto-bókun. Það geti ríkisstjórnin því miður ekki gert af því hún hafi ekki þingið með sér. Þeir tregðast þessvegna við öllum kröfum þróunarríkjanna, óraunhæfum jafnt sem sanngjörnum, og nú er staðan orðin þannig að ef ekkert hreyfist af hálfu Bandaríkjanna er þetta búið spil hér í Kaupmannahöfn, þótt sjálfsagt komi aðrir – ESB-leiðtogarnir einkum – og reyni að plástra yfir svöðusárið.

Yes We Can

Þetta er skrýtin staða fyrir Barack Obama – því hann hefur þegar gengið lengra en nokkur annar Bandaríkjaforseti í loftslagsmálum. En ekki nógu langt. Og eitt af því sem hindrar Obama í að ganga lengra er sú byltingartilraun á ameríska vísu sem nú stendur yfir í þinginu vestra í heilbrigðis- og tryggingamálum. Þar munar mjóu – og Obama-menn óttast að ef lengra verði gengið í loftslagsskuldbindingum falli bæði málin um sjálf sig.

Þetta má skilja, en ekki afsaka: Það er einfaldlega of mikið undir hér í Höfn, og nú er spurt um hugrekki Obama. Yes We Can, sagði hann í kosningabaráttunni, og hann getur vissulega ráðið úrslitum síðustu dægur Kaupmannahafnaráðstefnunnar – en þorir Obama?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Jóhannes Laxdal

    Og meðan menn bulla útí eitt í útlöndum þá breytist ekkert heima fyrir.
    Er ekki betra að byrja að taka til heima hjá sér?

  • Jú, Jóhannes. Við skulum passa að þvo okkur vel um hendurnar í brennandi húsi.

  • snævar guðjónsson

    Sæll Möddi

    Svona til umhugsunar.

    Haldór Laxnes skrifaði einhverstaðar, ef 1% daraugasagna væru sannar, nægir það sem sönnun fyrir því að draugar eru til.

    Jostein Gaarder benti á i útvarpspistli i NRK um daginn, ef 5% gagnasafnsins um upphitun jarðar væri sannað rétt, þá væri það næg ástæða til að aðhafst eitthvað.

    Þú ert á leiðinni upp í flugvél og færð að vita frá áreiðanlegum heimildum að það eru 5% líkur á að flugvélin muni hrapa. Mundi þú fara um borð? Ekki ég.

  • Barbarossa

    Þessi setning er ósönn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur