Fimmtudagur 17.12.2009 - 16:32 - 5 ummæli

Votlendið með – ef þeir semja

Íslenska samninganefndin hefur náð góðum árangri hér í Kaupmannahöfn – ef yfirhöfuð verður af samningum. Merkasta afrekíð er líklega að hafa náð endurheimt votlendis inn í framlengda Kyoto-bókun, sem ekki var í hinni fyrri, þannig að Íslendingar geti talið sér til tekna hvern endurnýjaðan votlendisrúmmetra í kolefnisbókhaldi framtíðarinnar.

Þetta er mikill ávinningur. Annarsvegar vegna þess að  með þessu eigum við kost á því að vinna okkur inn tiltölulega létta kolefnispunkta – bara moka ofan í skurðina! Hinsvegar gefur ákvæði af þessu tagi Íslendingum færi á að slá tvær flugur í einu höggi – ef ég má nota svo léttskapaða myndlíkingu um alvörumál – að berjast gegn loftslagsváanni og greiða svolítið af skuld kynslóðanna vð landið, gródri, fuglum og landslagsfegurð til ágóða. Þetta mundi líka setja kraft í endurheimtarvinnu sem liggur held ég nokkurnveginn niðri í augnablikinu eftir dauflegt starf einhverrar nefndar hjá Guðna frá Brúnastöðum.

Á fundi Svandísar ráðherra og samningamannanna núna áðan með öðrum íslenskum þátttakendum og athugendum hér í Bellusentri var samningafólkið að vonum glatt með þessa niðurstöðu og aðrar í sérstökum hagsmunamálum Íslendinga. Þær eru að sönnu ennþá í hornklofum í samningatextunum og bíða lokastaðfestingar – sem er svo háð því að samningar náist á annað borð, hér í Höfn eða á næstu fundum. En hér hefur verið vel að verki staðið og um þvert á væntingar. Yðar einlægur taldi til dæmis í fyrradag í þessu bloggi að votlendið væri alveg vonlaust – en nú skal ég glaður éta hattinn minn (eða öllu heldur ullarhúfuna sem varð eftir heima á Laugavegi og er sárt saknað í Eyrarsundskuldanum!).

Kynjatillit og græn orka

Þau í samninganefndinni telja upp fleira en votlendið – auðvitað ESB-samninginn sem setur loftslags- og losunarmálin í nýja stöðu, en að auki er inni í tæknikafla annars aðalplaggsins áhersla á endurnýjanlega orkugjafa sem okkur gagnast, og svo hafa íslenskar áherslur á kynjatillit – stöðu kvenna og hlutverk gagnvart loftslagsvánni – ratað á trausta staði í samningsdrögunum.

Hér hafa að sjalfsögðu komið við sögu bandamenn á hverju sviði um sig – Japanar eru til dæmis áhugasamir um votlendisendurheimt, og kvennabandalagið nær víða um heiminn einsog hér var rakið í pistli í gær. Allt um það hafa ráðerra og ríkisstjórn og samningamenn staðið sig prýðilega að halda fram hagsmunum Íslands, öfugt við ýmsar hrakspár, svosem hjá hinum ágætu leiðarahöfundum á Mogga.

Hillary með peninga

Rétt fyrir hádegið kom Hillary Clinton í Bellasentur og tókst að lyfta nokkuð hugum manna úr djúplægðum morgunsins – einkum með yfirlýsingu sinni um stuðning Bandaríkjastjórnar við þróunarsjóðinn mikla sem hefur verið ein af aðalkröfum þróunarríkjanna. Hún nefndi 100 milljarða dollara, sem er sama tala og ESB-leiðtogar hafa talað um, en setti svosem í staðinn fram kröfur um fullt gagnsæi í aþöfnum þróunarríkjanna – Þorunn fylgdist með blaðamannafundinum og giskar á að það orð – transparency – hafi komið út úr Hillary svona fimmtán sinnum.

Þott hér sé heldur bjartara yfir eftir tölu Hillarýar og aðra sáttatilburði í dag er allt enn algerlega óvíst um úrslit og framhald. Okkar menn þorðu engu að spa á fundinum áðan, en í loftinu liggur að ef samkomulag tekst verði það um ,,tvöfalt spor“ — annarsvegar  framhald á Kyoto-bókuninni og hinsvegar samhliða samning þar sem Bandaríkin eru med svipaðar skuldbindingar og önnur iðnríki, og öflugustu þróunarríkin – til dæmis Kína, Indland, Suður-Kórea — taka líka á sig skuldbindingar. Sum þeirra ef til vill ekki um samdrátt heldur hægari aukningu! Við þetta bættust svo örugg fyrirheit um fé frá i- til þ-ríkja í nafni loftslagsréttlætis — ,,climate justice“.

Líbía talar við mannkynið

Á meðan þessu fer fram stígur hver þjóðarleiðtoginn af ödrum í ræðustól og talar af gríðarlegri snilli og krafti og innsæi. Ég hlustaði áðan á Morales frá Bólivíu, hann sagði nokkurnveginn að í heiminum væru bara tveir kúltúrar. Það eru kúltúr dauðans, nefnilega kapítalisminnn, og kúltúr lífsins, nefnilega sósíalisminn. Þetta þótti 17 ára unglingnum inni í mér meiriháttar ræða. Fullorðnari öfl í heilabúinu voru samt eitþvað að nöldra um hvernig þessi kenning leysti loftslagsvandann – þangað til gerð var málamiðlun um að bíða eftir framlagi Ahmadínedjads Íransforseta til fræðanna um gott og illt í henni veslu.

Annars eru þetta forsetar og forsætisráðherrar mestanpart, en líka umhverfisráðherrarnir sem hingað til hafa borið hitann og þungann – Svandís talar einhverntímann um miðnættið fyrir okkar hönd þótt Jóhanna sé mætt í borgina.

Fyrir sum ríkin tala svo aðrir ráðherrar eða ráðamenn eftir atvikum – en ekkert ríki kemst þó með tærnar sem Líbíustjórn hefur hælana við að sýna markmiðum ráðstefnunnar fullkomna fyrirlitningu. Fyrir hönd Gaddafís eyðimerkurljóns talar hvorki forsætisráðherra hans né umhverfisráðherra né nokkur annar ráðherra — heldur forstjóri Olíufélags ríkisins.

Takk fyrir að Gaddafí stjórnar ekki nema í Líbíu. Nóg er nú samt standið á Goddastöðum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Það er bara einn galli. Íslenskir bændur eru langt komnir með að þurrka upp allt votlendi á láglendi Íslands. Ef það á að breyta því, þá þarf að fara að moka aftur ofan í skurði.

    Reyndar er þetta einnig skaðlegt fuglalífi og öðru slíku, en náttúruvernd er ekki hátt skrifuð hjá íslendingum.

  • Er það ekki landanum líkt að reyna að svindla út kolefnispunkta fyrir að gera það sem við ættum að gera strax, þegjandi og hljóðalaust og skammst okkar fyrir að hafa ekki gert fyrr??

    Mér virðist að þarna sé verið að gera það sama og alltaf gagnvart þróunarríkjum, traðka á þeim, lofa þeim bótum og aðstoð , sem svo mun helst felast í því að leyfa alþj.stórfyrirtækjum að blóðmjólka þau heimafyrir?

    Svo bara get ég ekki skilið þessa hugmynd um að það sé hægt að kaupa og selja aðgang að andrúmsloftinu og skipta því milli landa,kaupa það og selja, en ég skil svosem ekki allt.

    Trúir þú því að þessi ráðstefna muni breyta einhverju sem skiptir máli fyrir plánetuna jörð?

  • Mörður Árnason

    Já, ég held hún geti gert það, með samningi sem er sanngjarn, fullur metnaðar og bindandi, eða einsog hér er sagt með enskri skammstöfun: FAB, sem oft er stytting á ,meiriháttar’ en nú á ,fair, ambitious, binding’. Þá er einmitt ekki meiningin af alþjóðafyrirtæki blóðmjólki þróunarlönd — þótt lengi hafi verið beðið eftir réttlætinu. Sá samningur gengur út á þessa skiptingu og ,sölu’ aðgangs að andrúmsloftinu eða réttara sagt að þeir borgi sem menga andrumsloftið. Þetta er engin hugmynd lengur — Íslendingar eru aðilar að svona kerfi með Kyoto, og þess skammt að bíða að mengararnir borgi í krónumog aurum. Spurningin er hversu hratt þetta gerist.

    Á hinn bóginn koma peningar við sögu milli þróunarríkja og iðnríkja — og eru eitt helsta deiluefnið. Þeir peningar eru hugsaðir sem gjald til að ná ,réttlæti’ þar sem auður iðnríkjanna byggist á stöðugri mengun andrúmsloftsins, og þróunarríkin geta eki lengur ,náð’ þeim með sömu aðferðum. Þessvegna er svo mikilvægt að þau noti þann pening sem tilboða stendur til að þróa græna tækni og hagnast öðruvísi á náttúruauðlindum sínum en að ganga á þær með til dæmis skógareyðingu.

    Við Íslendingar erum ekkert barnanna best í þessum málum, þótt loftmengun frá iðnaði og samgönguym sé tiltölulega nýleg. Við verðum líka að draga saman og breyta því í lífsháttum okkar sem eykur loftslagsvána – án þess ég sé að boða einhverjar meiriháttar umbreytingar. En við þurfum eki að skammast okkar neitt fyrir það framlag til samdráttar kolefnislosunar að endurheimta votlendi — það er ekkert svindl heldur dregur beinlínis úr losun og um leið vinnum við íslenskri náttúru mikið gagn. Við áttum að vera búin að þessu fyrir löngu, það er alveg rétt — og ,,við“ áttum kannski aldrei að fara út í alla þá framræslu og uppþurrkun sem menn streðuðu við langt frameftir 20. öld. Það er bara önnur saga. Ef Íslendingar vilja svo bæta við þann samdrátt sem vonandi verður ákveðinn næstu dægur, eða þá næstu mánuði, um 20-30-40% til 2020, þá eru fleiri verkefni vissulega fyrir hendi!

  • Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér hvort að það sé búið að hugsa þetta mál alveg til enda, þ.e. hvernig eigi að fylgja eftir stefnu um endurheimt votlendis. Hvaða land á að endurheimta? Hver á það í dag? Á bara að endurheimta ríkisjarðir eða á að endurheimta land í einkaeigu. Ef svo er, hvernig verður slíkt í framkvæmd. Mun ríkið kaupa upp land til að endurheimta, verða settar kvaðir á landeigendur?…

  • Mörður Árnason

    Ja, P’etur, eeg held adh um thetta see ekkert handfast — thaa er bara komidh adh okkur adh buua thessa stefnu til …

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur