Föstudagur 18.12.2009 - 10:19 - 1 ummæli

Bjartar vonir vakna og slokkna og vakna …

Í gærkvöldi og í morgun hefur verið bjartara yfir Bellusentri en alla vikuna áður – leiðtogafundurinn hafinn og spár um nýja gerjun virðast hafa ræst. Hillary Clinton var miklu sáttfúsari í hádeginu í gær en bandarískir embættismenn áður mörg dægur, og þegar Hillary var búin að lofa stuðningi við loftslagssjóðinn mikla gáfu Kínverjar líka eftir og sögðust vera til í eftirlit bara ef það væri innan fullveldismarka. Afríkuríkin höfðu þegar teygt sig lengra með frumkvæði Etópíumanna og lunginn af þróunarríkjunum er reiðubúinn til samninga þótt niðurstaða þeirra verði ekki í samræmi við væntingar.

Obama er kominn í hús og nú er beðið eftir að formleg ráðstefna þjóðarleiðtoga hefjist hér í stóra salnum – tónninn þar gæti sýnt hvert stefnir. Rétt áðan heyrðust dauflegir tónar frá dönskum og sænskum samningamönnum, sem eru hér í lykilstöðu, gestgjafar annarsvegar, forsætishafar ESB hinsvegar – en þar gæti verið í gangi sá leikur að draga úr væntingum til að málamiðlun seinna verði betur tekið – vonar maður að minnsta kosti.

Heldur engan en vondan?

Auðvelkt samt  að skilja þá sem ekki vilja málamiðlun og telja engan samning betri en vondan samning, sem þeir hafa til dæmis sagt báðir, Tútú Höfðaborgarbiskup og hinn virti loftslagsfræðingur Jim Hansen frá New York. Leiðtogar Túvalús og Maldíveyja segjast ekki geta skrifað undir sjálfsmorðssamning – eyjar þeirra eru á leiðinni í hafið og líklega glataðar ef hlýnun fer uppundir 2 gráður, en það er hér almenn viðmiðun, og meðal annars stefna ESB, Norðmanna og Íslendinga.

Það fer auðvitað eftir því hvað samningurinn er vondur – en ég held hann þurfi að vera ansi vondur til að vera verri en enginn. Al Gore lagði áherslu á þetta í fyrradag og benti á ósonlagssamninginn sem fyrirmynd (sá er kenndur við Montréal) – þegar hann var gerður töldu margir að samningsákvæðin væru alltof slök og árangur næðist ekki, en reyndin varð sú að samningurinn sjálfur og athyglin sem hann vakti – meðal almennings, stjórnmálamanna, vísindamanna og viðskiptaleiðtoga – leiddi til þess að skrúfurnar voru hertar í áföngum og þjóðir heims eru á góðri leið með að fella þann dreka. En nú er náttúrlega meira undir, og fólkið á Maldíveyjum, á Túvúlú og í Bangla Dess hefur ekki mikinn tíma að bíða eftir endurbótum – og kannski ekki heldur kóralrifin í Íslandshöfum þar sem upp vaxa seiði nytjafiska sem við lifum af. Þá er það líka okkar almennings í heiminum, að þrýsta á um hraðar hendur.

Saman eða sundur

Samningur hér er líka nauðsynlegur vegna þess að það er enginn anar valkostur. Nú er auðvitað ekki allt búið á morgun, Kyotosamningurinn rennur til dæmis ekki út fyrren í árslok 2012, en sérfræðingarnir tala um næstu fimm til tíu ár til að snúa við loftslagsþróuninni, síðar verði það of seint. Það merkir að samkomulag um aðgerðir þarf að nást núna. Helst í gær.

Ef enginn samningur næst hér í Kaupmannahöfn, eða bara kattarþvottarsamningur, er hætt við að ekki verði reynt aftur sömu leiðina í bráð. Þá tækju líklegast við tilraunir einstakra ríkja og ríkjablokka, svipað og Bush reyndi með sérsamningum við Indverja og fleiri, sem í orði kveðnu voru um loftslagsvána en snerust í raun öllu heldur um hefðbundin viðskipti og jafnvel hernaðarsamvinnu. Þá er líka hætt við að byr yxi undir vængjum allskyns efasemdarmanna og afneitara, til dæmis af tagi Lomborgs hins danska, sem að vísu er farinn að viðurkenna loftslagsvána en telur að hún eigi að leysast af sjálfu sér, með einum saman auknum peningum í vísindarannsóknir og tækniþróun.

Endi Kaupmannahafnarráðstefnan í klúðri kynni vera úti um þau samtök gegn vandanum sem felast í forustu Sameinuðu þjóðanna og þeim vinnubrögðum og alþjóðasýn sem undir liggur: Að allir komi að borðinu, að tillit sé tekið til margvíslegra sjónarmiða, að einnig sé virtur réttur hins fáliðaða, tekið mark á samtökum borgaranna og lokamarkmiðið sé sem almennust samstaða um tiltekna lausn. Það er létt verk að skjóta niður þessi fögru orð með dæmum frá undanförnum áratugum um yfirgang stórveldanna og tilgangsleysið hjá kjaftaskjóðum diplómasíunnar – en eigum við aðra aðferð betri? Heldur einhver að stórveldin geti hindrað loftslagsvána uppá sitt eindæmi?

En nú er leiðtogafundurinn að hefjast í Tycho-Brahe-salnum og yðar einlægur hlaupinn að athuga hvort heimurinn bjargast ekki rétt einusinni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur