Sunnudagur 30.05.2010 - 07:31 - 9 ummæli

Og hjartað brann

Ömurlegt að horfa upp taparana í nótt – forustumenn hefðbundnu flokkanna: Stórsókn Hönnu Birnu, traustsyfirlýsing hins endurnýjaða Sigmundar Davíðs, ofsalega ósanngjarnt fyrir VG, og svo Dagur sem hélt sínu og vel það í glæstum varnarsigri rétt áður en fjórði maðurinn rann líka út í sandinn.

Þetta er ekki leiðin til að læra af því sem fram fór í gær – þar sem kjósendur kusu einmitt gegn svona aðferðum og talsmáta og vinnubrögðum: Ég er gull og gersemi, þið skituð á ykkur í hittifyrra, þúsund sinnum sterkari hvað sem þú segir.

Eina sem tók úrslitunum af alvöru var Jóhanna.

Hinir spunnu og spunnu þótt ekkert væri efnið í klæðin: Bjarni spann og Dagur spann og Grímur spann og Hulda spann og hjartað brann og aldrei fann hún unnustann.

Óska Besta og Fólkinu á Akureyri til hamingju – Einari Erni og Óttari í Ham og öllum hinum nýju stjórnmálamönnunum. Nú þarf að vanda sig. Og er farinn með Ferðó og Landvernd á Reykjanestá að skoða náttúru og virkjanaspjöll.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Kristján Sveinsson

    Þá ertu aftur kominn á þing Mörður og er það gott eftir atvikum. Til hamingju með starfið.

    Forystufólk tapliðsins var ærið tragískt í hlutverki sínu og gerði það aumkunarverðara með þvættingi sínum um varnarsigra og annað í þeim dúr. Það er sjálfsagt búningsbót að bera sig sæmilega og æðrulaust þegar bjátar á en heimskulegt og firrt að horfast ekki í augu við staðreyndir þegar þær blasa við.

    Það er rétt að óska nýliðum á stjórnmálavettvangi velfarnaðar. A.m.k. þegar þeir eru á borð við Besta, sem hefur ýmislegt geðþekkt í fari sínu. Nú hafa þau fengið tækifæri og ég ætla að bíða með að fagna þeim þangað til þau fara, því þá veit ég hvað þau hafa gert.

  • Má ég minna þig á Mörður að rúmlega tveir þriðju landsmanna kusu „gömlu spilltu fjórflokkana“.

    Hvað gerir þennan minnihluta þriðjung svona afskaplega gáfaðan?

  • Spurningin er: Tókst Reykjavík að vekja Samfylkinguna?

  • Náttúruspjöll? Eru þetta ekki atvinnuskapandi aðgerðir Árna?

  • Einar Guðjónsson

    Svo að staðreyndirnar séu á hreinu þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn 42,1% í Reykjavík í kosningunum 2006 en fær nú fimm hönnubirnur og 33,6% sem er samdráttur á tekjuhliðinni um 20%. Hefðbundið hefur flokkurinn iðulega fengið miklu meira fylgi í hreppsnefndarkosningum heldur en í þingkosningum.
    Samfylking fékk 26,8% greiddra atkvæða árið 2006 en 19,1% í gær. Það er samdráttur upp á 28,7%.
    VG banki fékk 13,23% í kosningunum 2006 en 7,1% í gær. Það er 46 % minna fylgi en þeir fengu 2006. Þannig að VG banki tapar í raun mestu.
    Auðvitað er þetta áfellisdómur yfir þeirri fasistastjórn sem hér hefur ríkt í rúmt ár miklu meira en nokkuð annað því nú hefur sýnt sig að VG stendur fyrir ekki neitt nema að styrkja smábanka á Akureyri og sama má eiginlega segja um Samfylkinguna.

  • Hilmar Ólafsson

    Heiðarlegur pistill hjá þér og gott að undanskilja ekki eigin flokk.

    Velkominn á þing og vonandi geturðu látið gott af þér leiða.

  • Leiðinlegt að Hjálmar komst ekki inn :/

  • Ef þið ætlið að verða jafnaðarmannaflokkur sem hægt er að kjósa stoltur þarf að:
    1) Búa til rannsóknarskýrslu um Samfylkinguna sem er jafn óvægin og hin. Það þarf að gera upp við mistök fortíðar. Þetta þarf að gera til að grundvöllur stefnunnar byggi á bjargi en ekki hálfsannleik og feluleik eins og núna er.
    2) Henda út öllum þingmönnum og bæjarstjórnarmönnum (stærri bæjanna) sem voru í þessum hlutverkum fyrir hrun. (Það verður að henda þeim út, þeir fara ekki sjálfviljugir). Einhverjir óverðugir verða fyrir þessu en við því er ekkert að gera. Þetta þarf að gera til að flokkurinn öðlist traust.

    Gerið þetta og við, þessir þúsundir jafnaðarmanna sem kusum Besta munum koma til baka.

  • Dagur vann mikinn varnarsigur í Reykjavík. Samfylking á landsvísu með sína skjaldborg (?) hefur brugðist og það bitnar á Degi. Í ofanálag valdi Árni Páll þennan krítíska tíma til að mála afar dökka mynd af komandi fjárlögum og hvernig þau komi til með að bitna á bótaþegum. Árni sem hefur reynst getulaus í ráðherraembætti og er ekki að leita lausna öfugt við Dag virðist kominn í formannsslag og ákvað að það væri mikilvægara en að styðja Samfylkinguna í Reykjavík. Eru að myndast einhverjar blokkir í SF? Ég bara spyr. Karl Th. var strax í nótt búinn að dæma, og nú kemur þú með þinn dóm. Mér þykir í lagi að óbreyttir flokksmenn og bloggarar leggi sitt mat á niðurstöður en þegar þungavigtarmenn og þingmenn tjá sig með áfellisdómum um sína félaga akkúrat þegar þeir eru að semja um meirihlutasamstarf, er ekki drengilegt og sæmandi. Það er spurning hvort hann (Dagur) gangi sterkur eða lemstraður til samninga. Hefur hann gott bakland? Stendur flokkurinn að baki honum? Er hann á vetur setjandi?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur