Mánudagur 29.11.2010 - 09:25 - 37 ummæli

83.708 Íslendingar gegn Gunnari Helga

Í miðjum kliði og spuna um klúður og klandur í kosningum til stjórnlagaþings er gott að velta fyrir sér tölunni 83.708 – sem segir til um kjósendur í kjörinu á laugardaginn. Þetta er fjöldinn sem setur stjórnlagaþingið af stað: 83.708 Íslendingar, hvað sem prósenturnar segja. Og ef menn vilja í talnaleik er þetta til dæmis uppundir tvöföld atkvæðatala Sjálfstæðisflokksins í síðustu alþingiskosningum (44.369).

Vissulega veldur kjörsóknin vonbrigðum. Það veldur ekki síður vonbrigðum að bestu menn, í fjölmiðlum og háskólum, skuli gera sér leik að því að tala kosninguna niður – og taka þar með þátt í pólitískum áróðri sem hefur verið beitt gegn þessari lýðræðis- og umbótatilraun frá því í hruninu.

Hvaða fræði eru til dæmis á bakvið þá upphrópun stjórnmálafræðiprófessorsins Gunnars Helga Kristinssonar að hér sé komin versta kjörsókn í 100 ár? Hafa stjórnlagaþingskosningar verið haldnar svo oft á tímanum frá 1910 að þangað sé að leita þessa góða samanburðar? Nei, þetta eru víst tölur úr alþingiskosningum! En hér voru allsekki alþingiskosningar, heldur algert nýmæli. Aðrir hafa bent á að svipuð kjörsókn og á laugardag sé algeng í Evrópuþingskosningum ESB-ríkjanna, og enn aðrir talið að samanburðar við kjörið á laugardaginn sé miklu heldur að leita í þjóðaratkvæðagreiðslum þar sem þær eru algengar en í þingkosningum þar sem þaulvanar flokkasveitir takast á með fúlgum fjár. En 100 ára samanburð Gunnars Helga gripu andstæðingar stjórnlagaþingsins meðal Sjálfstæðismanna strax á lofti og byrjuðu svo (Sigurður Kári fremstur í foraðinu) að spinna úr kjörsóknartölunum sérstakan ósigur Jóhönnu Sigurðardóttur!

Þessir sömu Sjálfstæðismenn sátu hjá eða greiddu atkvæði gegn lögunum um stjórnlagaþingið á alþingi í fyrra. Þeir báru í staðinn fram tillögu um að þingið kysi nefnd til að ráðgast um breytingar á stjórnarskránni. Frumlegt. Í nefndinni áttu að vera níu menn.

Og hvor stofnunin ætli hafi nú meira almannaumboð – þessir 9 sem 63 áttu að kjósa, eða þau 25–31 sem 83.708 Íslendingar hafa nú kosið?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (37)

  • Gunnar Þór

    Eru þá 148.666 með Gunnari Helga?

    kjósendur á kjörskrá voru 232.374
    232.374 – 83.708 = 148.666

  • Anna Th. R.

    „Dansk-íslensk sambandslög voru lögð undir þjóðaratkvæði 19. október 1918. Var það í fyrsta sinn sem þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram ein og sér án tengsla við alþingiskosningar. Spænska veikin geisaði um landið á þessum tíma og var kosningaþátttaka dræm eða 43,8%. Þátttaka karla var tæp 60% en kvenna innan við 25%. Já sögðu 12. 411 atkvæði eða 92,6% en 999 atkvæði eða 7,4% sögðu nei.“

    Sjá hér:

    http://olafurhannibalsson.is/?page_id=67

  • Sigurður

    Ég er ekki hrifinn af þessu stjórnlagaþingi en kaus samt. Ég vil ekki gera grundvallarbreytingar á stjórnarskránni og kaus því þá sem voru á þeirri línu. Mitt atkvæði var því ekki stuðningsyfirlýsing við stjórnlagaþingið. Lít á þessa kosningu á laugardaginn sem fullkomið flopp. Stjórnlagaþingið hefur þ.a.l. afar takmarkað umboð og Alþingi hefur því fullt umboð til að höndla þær tillögur sem þaðan koma á þann hátt sem það kýs.
    p.s. hef aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn.

  • Apotekeren

    Við skulum sameinast um að hætta við stjórnlagaþingið. Það er enginn áhugi á því í landinu. Kosningaþátttakanan víða á landsbyggðinni er innan við 30%. Fólkið þar botnar ekkert í því hvernig lattelepjandi geta verið að tala um kreppu en sturta svo peningum í stjórnlagaþingsklósettið. Því miður var þetta bara dilla úr Jóhönnu sem átti aldrei að láta eftir henni. Við skulum spara pening með því að hætta við þetta.

  • Ég er stolt af því að fá að taka þátt í að velja til stjórnlagaþings. Mjög lýðræðislegt og alveg til fyrirmyndar!
    Lítil þátttaka er væntanlega bara vegna gömlu góðu hugsana-letinnar sem við þekkjum svo vel.
    Það þurfti átak til að hafa sig í að velja úr fjöldanum.

    Í huga mínum og margra hefur stjórnarskráin hingað til verið einkamál nokkurra orðuprýddra karla.

    Nú var blaðinu snúið við en það tekur tíma að átta sig á að hún er okkar mál.

  • Hvað ætli þeir hafi verið margir sem “ kusu“ Gunnar Helga í Háskólastarfið ? þrír ?

  • Taldi ekki sérstaka þörf á þessu þingi núna, en tók að sjálfsögðu þátt í kosningunum. Umræðan hefur auk þess verið gagnleg og þroskast vonandi enn frekar á meðan þingið starfar, sérstakelga ef almenningur fær að heyra hvað menn eru að spá á þinginu.

    En umfram allt, ekki reyna að ná „breiðri samstöðu“. Mér fyndist ekkert verra þótt þingið skilað „sérálitum“ ýmiskonar.

  • Endurskoðun stjórnarskrárinnar er mikilvæg og hefur staðið til frá lýðveldisstofnun. Það er meira en tímabært að fara að klára þessa vinnu.

  • PS. Sannleiksskýrslan og ný stjórnarskrá eru mikilvægar vörður á leiðinni; yfirlýsing um að við ætlum að byggja þjóðfélagið upp frá grunni. VONANDI!

    Fúaspýtur forréttindaséttanna ERU ÓNÝTAR!

    (Segi ég og skifa – en drekk þó ekki í latte)

  • Sumum líður greinilega best í drullusvaðinu upp fyrir haus!

  • Bragi Páls

    Þetta stjórnlagaþing er skrýpaleikur.

    Þar að auki er þetta sóun á peningum og kröftum þjóðarinnar nú á tímum niðurskurðar og kreppu.
    Stjórnlagaþingið mun kosta þjóðina um 1,2 mia.kr. og það eru miklir peningar handa fólki sem vill leika sér í nokkra mánuði á okkar kostnað, þegar hægt er að nota þessa peninga til betri mála, t.d. heilbriðgismála.

    Núverandi stjórnarskrá orsakaði ekki kreppuna. Nær hefði verið að fara einhvern tímann eftir núverandi stjórnarskrá.

    Svo er það forspárgildi þessara kosninga.

    Má búast við því að í framtíðinni, að svona verði kjörsókn ef landið verði gert að einu kjördæmi með persónukjöri?

    Get t.d. vel ímyndað mér að fólk úti á landi nenni ekki að kjósa í svoleiðis fyrirkomulagi, því það mun líta svo á að það sé þýðingarlaust fyrir það að kjósa, því fulltrúar utan af landi muni aldrei ná kjöri hvort sem er, því einungis þjóðþekkt fólk muni verða kosið.

  • Halldór Halldórsson

    Mörður veit sumsé að enginn hinna 83,708 skilaði auðu? Hann telur þau atkvæði kannski með sem stuðning við stjórnlagaþing í anda Séð og Heyrt?

  • Ég er viss um að þessi kosning, sú fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu, er fyrsta skrefið í raunverulegum lýðræðislegum umbótum og að þegar fram líða stundir munu þeir sem ekki sáu ástæðu til að skunda á kjörstað ekkert sérstaklega vilja hafa hátt um það.

  • Umfjöllun Marðar um kosningarnar til stjórnlagaþingsins er dæmigerð fyrir afdankaðan pólitíkus sem er fastur í umræðustíl sem flestum býður orðið við.
    Útúrsnúningar, hroki og yfirlæti. Getur aldrei tekið þátt í umræðum án þess að yfirtala, grípa frammí og glotta hæðnislega að orðræðu meints andstæðings.
    Hann er dapurt sýnishorn af þingmanni sem þjóðin hefur gefið falleinkunn í fjölmörgum skoðanakönnunum.
    Ágætur og þekktur íslenskur lögspekingur sagði í aðdraganda kosninganna til stjórnlagaþingsins: Það er ekki stjórnarskráin sem slík sem er vandamálið, heldur hitt að menn almennt virði hana. Það vantar þess vegna fyrst og fremst hugarfarsbreytingu í samfélaginu, aukið siðferði og ekki síst breytta umræðumenningu. Þessi orð eiga ekki síst alþingismenn að taka til sín. Með því væri einhver von til þess að efla virðingu þingsins.

  • Mörður um Icesave kosninguna:
    (http://blog.eyjan.is/mordur/2010/03/07/thrir-ljosir-punktar/)

    „Niðurstöðurnar virðast hafa verið nokkurnveginn þær að rétt rúmur helmingur atkvæðisbærra manna fór á kjörstað og sagði nei við úreltum samningi. Um fimm af hundraði skiluðu auðu – eða sögðu já, nánast í gríni – og um 40% sátu heima.“

    …þarna segir Mörður að 63% kosningabærra manna séu „rétt rúmur helmingur“

    Nú segir Mörður:
    „Þetta er fjöldinn sem setur stjórnlagaþingið af stað: 83.708 Íslendingar, hvað sem prósenturnar segja […] Það veldur ekki síður vonbrigðum að bestu menn, í fjölmiðlum og háskólum, skuli gera sér leik að því að tala kosninguna niður “

    Þetta er gott dæmi um heilsteyptan stjórnmálamann sem er samkvæmur sjálfum sér.

  • Tekinn Mörður 🙂

    Það er alltaf hægt að leika sér með tölfræðina og fá þá niðurstöðu sem maður vill.

  • Mörður Árnason

    Þakka hlý orð í minn garð.

    SG bendir á grein sama höfundar um Icesave-atkvæðagreiðsluna. Mig minnir reyndar að hún sé skrifuð áður en kjörsóknartölurnar urðu að fullu ljósar, og tek undir að 63% eru talsvert meira en ,,rétt rúmur helmingur“. Það skiptir ekki öllu máli, en þá einsog nú má segja að þeir sem sátu heima hafi falið kjósendunum að taka afstöðu fyrir sig — en að loknum kjördegi var ekki talið að kjörsóknin drægi úr áhrifamætti atkvæðagreiðslunnar þótt hún væri talsvert minni en nokkurntíma í alþingiskosningum (kannski í 100 ár?). Menn spurðu hinsvegar hvað úrslitin, 90 og eitthvað prósent nei, hefðu að segja fyrir framhaldið. Og spyrja enn.

    Halldór Halldórsson íhugar auðu atkvæðin — málið er bara það að hvorugur okkar veit neitt um þau á þessu stigi. Aðeins kjörsóknin er ljós, og í mínum pistli er varað við því að sú tala sé notuð til að gera lítið úr þeim fjölda öllum sem kaus og úr tilgangi fyrsta stjórnlagaþingsins frá 1851.

  • Garðar Garðarsson

    Ég fór glaður í bragði að kjósa á laugardaginn, enda söguleg stund.
    Þarna fékk sauðsvartur almúginn að kjósa venjulegt fólk án þess að stjórnmálaflokkarnir stilltu upp fyrirfram ákveðnum listum.
    Þetta er alveg einstakt, og getur varla verið lýðræðislegra.
    Þeir sem ekki kusu dæmdu sig sjálfir úr leik, sem eru reglur lýðræðisins

    Nú bíð ég spenntur eftir að það góða fólk sem verður kosið hefjist handa með að breyta stjórnarskránni til betri vegar, og gangi þeim allt í haginn.

  • Guðmundur

    Nýjasta tískuskoðunin hjá þeim sem ekki vilja breytingar er að segja að það eigi frekar að fara eftir þeirri sem er til nú þegar. Góð ábending og ekkert sem ég rengi, en þá vantar dæmi. Hvenær hefur ekki verið farið eftir stjórnarskránni og hverjir hafa gert sig seka um það? Það væri verðugt rannsóknarverkefni. Í alvöru talað, ég væri til í að sjá þessar upplýsingar.

  • Bragi Páls

    Þessi dræma kosningaþátttaka í stjórnlagaþinginu er mikið svekkelsi fyrir stjórnarflokkana, sérstaklega Samfylkinguna, sem sýnir að þessir aðilar er það sem kalla mætti; „bad loosers“.

    Núna reyna þeir að finna upp allskonar ástæður fyrir áhugaleysi og dræmri þátttöku eins og t.d. að skipulagið hafi verið lélegt, kosningarnar hafi ekki verið kynntar í fjölmiðlum, að nokkrir aðilar hafi talað kosningarnar niður, os.frv.

    Ekki er minnst á þá skýringu, að almenningur hafi einfaldlega ekki haft áhuga á þessum kosnium og fundist þær vera skrýpaleikur og lýðskrum.

    M.ö.o. fólk telur að mun brýnni mál bíða úrlausnar heldur en að semja nýja stjórnarskrá, og því séu þessar kosningar dæmi um veruleikafirringu stjórnarflokkanna og í raun flótti frá raunveruleikanum.

  • Gunnar Helgi skorar ekki hátt frekar en menntastofnunin sem veitir honum vinnu og í hógværð sinni ætlaði sér að verða á meðal 100 bestu í heimi. Vandamálið er vissulega að menntastofnanir geta sjaldnast orðið skárri en helstu kennarar og fræðimenn sem þar starfa.

    Formaður Stjórnarskrárfélagsins gaf HÍ lægstu einkunn:
    http://ding.blog.is/blog/ding/entry/1120688

  • Ég skil ekki afhverju alltaf þarf að fara að kenna einhverjum um. Það að Sig. Kári sé í einhverju forarsvaði þýðir ekki að þú Mörður eigir að vera þar líka. Talandi um í netheimum að sjálfstæðismenn hafi talað þetta niður og hádegismóar veirð með herferð og eyðilegt þetta. Pínu skondið þegar þín deild talar um að engin kjósi lengur XD og allir áskrifendur farnir frá mogganum. Hvernig hefur þá þetta lið þessi gífurlega áhrif enn????

    Ég kaus. heildarkjörsókn var lítil eða tæp 37%. Mín upplifun var ekki að einhver massíf maskína væri í gangi að rífa þetta niður. Menn töluðu með og menn töluðu á móti. Einhverra hluta vegna virðist vera að fólk hafi ekki haft trú á þessu. Það er eitthvað sem við eigum öll að rýna í og bæta. Ekki finna blóraböggla sem engir eru.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Ekki nema von að heil 9% þjóðarinnar segist bera traust til Alþingis sem þýðir alþingismanna líka, þótt að spunatrúðar Samfylkingarinnar vilja örugglega snúa því upp á bygginguna. – Gangi þér betur næst.

  • Góðir punktar Mörður. Umboð þingmanna sjórnlagaþings verður vissulega mun sterkara en 9 manna nefndar sem hefði bara orðið ein enn nefndin hvers tillögur hefðu farið ofan í skúffu.

    Það segja margir „spekingarnir“ sem finnst þetta allt óþarft, líkt og Bragi Páls hér að ofan, að „Nær hefði verið að fara einhvern tímann eftir núverandi stjórnarskrá.“ Málið er að það hefur verið farið eftir stjórnarskránni. Ég hef ekki heyrt nein dæmi þar sem hefur verið brotið á henni, nema þá helst hvað varðar skipan ráðherra. Ráðherrar hafa verið skipaðir af þeim þingflokkum sem fá umboð til ríkisstjórnarmyndunar, en ekki forsetanum eins og stjórnarskráin kveður á um. Það segir líka að forsætisráðherra fari með vald forseta þannig að þetta er í samræmi við það. Ekkert í núverandi stjórnarskrá mælir á móti því ráðherraræði sem myndaðist. Hún er einfaldlega slök.

    Hafa Bragar Páls þessa lands lesið stjórnarskrána og spáð í það hvað ákvæði hennar þýða? Ég sé engin merki þess.

    Bestu kveðjur – vonandi fara nú úrslitin að koma í ljós. Það er erfitt að bíða.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson. Á meðan allt lék í lyndi í góðærinu, naut Alþingi aðeins 29% trausts, neðst allra ríkisstofnana. Auðvitað lagði kreppan ekki þá tölu og það er ekki sambærilegt að bera saman þessar tölur miðað við þá ólgu sem ríkt hefur eftir hrunið og hina almennu gjaldfellingu sem hefur orðið á stjórnmálunum sem varð t.d. einnig fyrir skrípaleikinn sem gekk á í borginni á kjörtímabilinu 2006-2010.

  • Þetta átti að vera …“Auðvitað lagaði“ hjá mér í síðustu færslu.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Svanur. Alþingi mældist með 13% trausts eftir hrun og þá með hrunstjórnina við völd. Nýjasta mæling segir nákvæmlega 9% traust þjóðarinnar, sem er sennilega minna en bifhjólasamtökin Fáfnir myndu mælast. Núverandi stjórnvöldum hefur tekist að slá öll fyrri met hvað nánast ekkert traust varðar, sem og einkavinavæðingar og klíkuráðningar í opinber störf, sem þeir settu rétt rúmu hálfu ári eftir að þau tóku við stjórn samkvæmt rannsókn Háskóla Íslands. Aðeins 29% mælanlegt traust til Alþingis í góðæri segir aðeins eitt að þjóðin virðist velja sér óhæfa einstaklinga á þing, sem gæti hafa með það að gera að launin þykja lág og betra fólk ekki í boði vegna þessa. Löngu ljóst að björtustu vitana á ströndinni er ekki að finna við Austurvöll, nema þá helst jólatréð. Meir að segja forsætisráðherra náði ekki að munstra nánast ónothæfan seðlabankastjóra nema með að brjóta nýsett lög um að engin ríkisstarfsmaður mætti vera betur launaður en hún. Heilt og vandað fólk er yfirleitt að finna í vellaunuðum störfum, og margsannað að sjaldnast er það á Alþingi.

  • Helmingi fleiri kjósendur ákváðu að vera heima og taka ekki þátt í þessum kosningum og sýna þeim þannig það áhugaleysi sem fólk hefur á þessu máli. Af hverju þarf að gera lítið úr þeirri ákvörðun þess fólks sem það kaus? Ef miðað er við þátttöku í almennum kosningum hérlendis er kjörsókn léleg og hlýtur að vera vonbrigði fyrir stjórnarflokkana. Að halda öðru fram er bara kjánalegt.

    Vissulega kusu 84 þús manns í kosningunum (burtséð frá þeim sem skiluðu auðu) en 149 þús manns gerðu það ekki og sýndu með því sína afstöðu til þessa máls. Að gera lítið úr því og segja að fólk hafi ekki nennt að setja sig inn í hlutina (eða að fólk sé heimskt eins og Jónas Kristjánsson heldur fram) finnst mér vera yfirlæti af verstu sort.

    Það hvað Sjálfstæðisflokkurinn, eða einhver annar flokkur, fékk af atkvæðum í síðustu þingkosningum breytir því ekki að mikill meirihluti þjóðarinnar hefur ekki áhuga á þessu máli eða telur það ekki tímabært að fara í þetta mál nú. Það eru jú brýnni verkefni sem bíða úrlausnar og hafa beðið allt of lengi.

  • Ómar Harðarson

    Hver þingmaður á stjórnlagaþinginu fær atkvæði a.m.k. 3.000 kjósenda. Það er meira en margir þingmenn geta státað af sem nú sitja á Alþingi. Að því leyti get ég tekið undir með Merði í þessum pistli.

    Það hefur verið ljóst frá upphafi að stjórnlagaþingið mun ekki hafa lokaorðið um nýja stjórnarskrá. Sumir vonuðu að það gæti engu að síður sett móralskan þrýsting á þingmenn að samþykkja óbreytt hvaðeina sem frá því kemur. Það verður varla úr þessu. Alþingi var, samkvæmt leikreglunum, stjórnarskrárgjafinn og er það enn.

    Það hafa margir orðið til að skilgreina hvað kjósendur meina með hjásetu. Slíkt er bara spuni. Það var engin boykott herferð í gangi. Ný stjórnarskrá verður samþykkt af Alþingi að tillögu stjórnlagaþings. Sé meirihluti kjósenda andvígur nýrri stjórnarskrá hefði verið einfaldast fyrir hann að kjósa íhaldsmennina sem engu vilja breyta. Sá sem ekki vill taka þátt í lýðræðisþjóðfélagi leyfir um leið hinum að taka ákvarðanirnar.

    Það er hins vegar ýmislegt sem bendir til að kosningafyrirkomulagið hafi vafist fyrir þeim sem mættu og fælt aðra frá. Ég held að Alþingi gerði margt óviturlegra en setja á laggirnar rannsóknarnefnd til að kanna hvað hafi farið úrskeiðis og til að læra af mistökum sem kunna að hafa verið gerð. Það er óþarfi að munnhöggvast við GHK. Hann hefur örugglega eitthvað fram að færa handa slíkri rannsóknarnefnd.

  • Thor Kummer

    Ég held það hafi ekki verið áhugaleysi sem stóð í vegi fyrir þáttöku heldur fyrst og fremst hversu vonlaust það verk virtist vera að velja 25 fulltrúa úr yfir 500 frambjóðendum.

    Fyrir persónukjör með svo mörgum frambjóðendum þarf meiri undirbúning, meiri umræðu um málefnin og fleiri tól í ætt við kosningaleik DV, til að hjálpa kjósendum að finna góða fulltrúa sinna sjónarmiða og hagsmuna.

    Að því gefnu er persónukjör mun lýðræðislegra en listakjör því það gefur kjósendum tækifæri til að fínstilla sínar áherslur.

    Ef, til dæmis, kosið hefið verið um 5 mismunandi lista hefði hver kjósandi getað kosið á 5 mismunandi vegu.

    En með því að velja 25 úr af 522 getur kjósandi valið á 3144294455706705636731728678466181527219520 vegu (segir http://www.wolframalpha.com/input/?i=522+choose+25).

    Augljóslega felast margir möguleikar til að fínstilla sitt val þarna, en það er varla vinnandi vegur á viðeigandi tóla.

  • Mér finnst að þeir sem eru að fjalla um þessa kosningu og þátttökuleysið sem einkennir hana,ætu að athuga eina skýringu í viðbót. Ég kaus ekki, og ástæðan var þessi . 1: Mín reynsla af þessum 63 torfhausum við Austurvöll er að það er engin leið að treysta þeim yfir þvert gólf hvað þá meir í nokkru máli, það virðist engin af þessu liði vera sjálfum sér samkvæmur.2: Hvað hafa þessir gaukar farið mikið eftir skýrslunni sem átti að vera þeim til leiðbeiningar inn á rétta braut, sýnist það vera í skötulíki 3: Ég sat heima og fjöldinn allur af fóki sem ég hef rætt við og frétt af, vegna þess að í ljósi reynslunnar var og er það gefið mál að stjórn og stjórnarandstaða munu sameinast um að draga lappirnar á allan mögulegan hátt til að hunsa þetta eins og skýrsluna.Við nennum ekki að láta illa gerða pólitíkusa hafa okkur að fíflum lengur.Og það þarf enga stjórnmálafræðinga eða aðra fræðinga til að útskýra þetta .Þeir sem heima sátu eru einfaldlega orðnir leiðir á endalausum svikum og prettum núverandi manna á þingi og utan þ

  • Jón Sig.

    Góð grein hjá Merði.

  • Erlendur Fjármagnsson

    Besta og einfaldasta og fljótlegasta og ódýrasta aðferðin er sú sem alltaf hefur gefist Alþingi Íslendinga best við lagasmíð:
    Þýða dönsku stjórnarskrána.

  • Magnús K. Guðnason

    Mikið rosalega er Samfylkingarliði svekkt yfir þessari háðuglegu útreið sem stjórnlagaþingið þeirra fékk.

    Samfylkingarfýlan lekur úr þessum Svani Sigurbjörnssyni svo flestir hér á netinu verða að halda fyrir nefið til að finna ekki Samfylkingarfnykinn af honum.

    Vandlætingin skín úr hverju orði hans til þeirra sem gefa frat í þessar kosningar, enda er um algjöran farsa að ræða.

    Þetta er ekkert annað en sóun á dýrmætum tíma og fjármunum og mun verða Samfylkingunni til ævarandi skamma og háðungar.

    Þetta stjórnlagaþing er ekki fallið til farsældar á þeim kreppu og niðurskurðartímum sem nú ríkja.
    Næri væri að koma hjólum atvinnu- og efnahagslífsins af stað. Almenningur vill það frekar heldur en að borga misvitrum atvinnukverúlöntum sem komast inn á þetta þing fyrir það eitt að vera þjóðþekktir einstaklingar úr hópi hinna skrafandi og skrifandi stétta, 500-600 þús. á mánuði til rífast um fyrirkomulag stjórnskipunar Íslands.

    Takk fyrir.

  • Frosti Logason

    Hvaða skítkast er þetta útí Gunnar Helga hérna? Hann hefur einungis bent á að fyrirkomulag kosningana hafi verið misheppnað og vanhugsað.
    Sem kom svo heldur betur á daginn. Sennilega hefði mátt fá mun meiri þátttöku og sterkara umboð fyrir stjórnlagaþingið ef þetta hefði verið hugsað aðeins betur frá byrjun. Þú hlýtur að geta samþykkt það Mörður?

  • Sammála þér Mörður og mér fannst líka eftirtektarvert hversu greining Gunnars Helga var gjörsamlega sneidd einhverju sem kalla mætti fræðimennsku.

  • Í fyrsta lagi: Stjórnlagaþing, allt ferlið að kosningu meðtalinni, einkennist af lýðræðisbjartsýni. Á Íslands síðustu og vondu tímum er bjartsýni af skornum skammti og auðveldara að virkja fólk til svartsýnisathafna og niðurrifs. Í raun og veru lýsti svolítið af þessari lýðræðisbjartsýni í hinu tvöfalda skammdegi haustsins 2010.
    Í öðru lagi: Samanburðarfræði kosninga eru gamlar leikfléttur. Leikendur hafa löngum verið flokkar sem strengdir hafa verið upp á snúru frá hægri til vinstri. Svo hafa fræðimenn og hnýsar dundað sér við að færa flokkana örlítið til á snúrunni. Öll úrslit voru löngu ráðin og spurningin bara hvort grauturinn væri saltur eða saltari. Það hefur þess vegna verið tiltölulega átakalaust að mæta á kjörstað og kjósa. Að bera saman þátttöku í stjórnlagaferlinu við hefðbundnar kosningar er bæði ósanngjarnt og rangt.
    Í þriðja lagi: Allar raunverulegar lýðræðishreyfingar hafa átt erfitt uppdráttar. Lýðræði er miklu meira en hugmynd. Lýðræði er t.d. tilfinning um að vera maður með mönnum, að sjást án tillit til stöðu, efnahags, menntunar etc. Þeir sem búa í skjóli efnahagslegra yfirráða yfir auðlegð náttúrunnar (stundum kallað „veiðiheimild“) líta lýðræðið öðrum augum en hinir sem enga kvóta fengu.
    Í fjórða lagi: Úrtölur eins og að þetta sé ekki rétti tíminn til að endurskoða stjórnarskrá, að stjórnarskráin sé góð eins og hún er o.s.frv. eru algildar. Það er aldrei réttur tími til athafna, eða það er alltaf réttur tími til athafna. Það getur líka verið að stjórnarskráin sé góð og gild og óþarfi sé að hrófla við henni. Það gæti orðið niðurstaða stjórnlagaþings. Það er þá lýðræðisleg niðurstaða.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur