Miðvikudagur 01.12.2010 - 10:45 - 13 ummæli

Glæsilegt stjórnlagaþing

Þegar komin eru 25 andlit á stjórnlagaþingið breytist strax viðhorf til þess í samfélaginu – neikvæði nöldurtónninn víkur fyrir því sem okkur Íslendingum finnst skemmtilegast af öllu – að spá og spekúlera í náunganum!

Góður hópur, mestallt úrvalsfólk sýnist manni – og það spillir ekki fyrir að sjálfur „á“ ég eina sex þingmenn í hópnum, og fjórir-fimm í viðbót komu sterklega til greina. Sakna líka nokkurra, til dæmis Jóns Ólafssonar heimspekings sem var ofarlega á mínum seðli og þeirra Stefáns Gíslasonar og Ásdísar Hlakkar Theodórsdóttur … og auðvitað miklu fleiri. Þar á meðal er Hjálmtýr Heiðdal kvikmyndagerðarmaður sem ég hlaut að kjósa í eitt af efstu sætum eftir að könnunin á DV.is tilkynnti að hann stæði mér næst í stjórnarskrárlegum málefnum. Við vorum 82% sammála. 🙂

Er þetta ekki að meirihluta til frjálslynt fólk mislangt til vinstri við miðju – einsog Íslendingar eru flestir þegar okkur tekst að hafa þokkalegt vald á ráði og rænu? Mér sýnast líka að þeir af hinum kjörnu sem má telja til hægri í almennri pólitík séu frekar vel heppnuð skynsemiseintök af því tagi, varla neinir öfgahægrimenn og lítið um hólmsteinunga. Gott úrtak úr þjóðinni.

Kynjahlutfall er innan marka þvert á hrakspár margra úr hópi kvennaforystukvenna sem hafa tamið sér undarlega óbeit á kosningum og persónuvali. Vel má finna að búsetudreifingu. Merkilegir stjórnmálaskýrendur, nú síðast hinn knái og síuppbyggilegi varaþingmaður Sigurður Kári Kristjánsson úr Reykjavík, telja að þar með sé búið að afgreiða stefnuna um landið allt eitt kjördæmi. Um það er annarsvegar að segja að þetta hreina persónukjör – gallað sem það var í ofurfjölda frambjóðenda – á lítið skylt við þingkosningar þar sem menn eru kosnir eftir almennri afstöðu í pólitík í einhverskonar flokkum, hvernig sem kjördæmakerfi er háttað. Á hinn bóginn skal fúslega viðurkennt að við áróðursmenn um einskjördæmiskjör höfum ekki útfært þá hugmynd með til dæmis persónukjörsmöguleikum þannig að einstakir kjósendahópar, meðal annars ýmsir héraðsmenn, eigi kost á að sameinast um „sinn“ frambjóðanda á lista stjórnmálasamtaka. Þetta hefur staðið nokkra hríð uppá okkur – en kannski sér stjórnlagaþingið um málið?

Það er líka skrýtið tuð sem strax kemur upp um þessa 25 að þar sé alltof mikið af þjóðþekktu fólki. Við hverju bjuggust menn eiginlega? Að það yrðu kosnir á stjórnlagaþingið 25 frambjóðendur sem enginn þekkir? Hér er samt líka galli í kosningakerfinu sem þarf að skoða: Það miðast við að kjósandi velji fyrst og fremst einn fulltrúa, og svo næsta og þarnæsta til vara. Mér sýnist eðlilegra að hafa kosningakerfi sem miðast við að hver kjósandi velji hóp manna á svona samkomu.

Kannski hefði verið best að hafa kerfið sem notað var með ágætum árangri í Alþýðubandalaginu sáluga – þar var kosið í miðstjórn og álíka stofnanir með krossum en hægt að setja tvöfalt vægi á þrjá frambjóðendur og þrefalt vægi á aðra þrjá. Þetta var bæði lýðræðislegt og tiltölulega einfalt kerfi sem tryggði að einstakir hópar kjósenda – menn úr kjördæmum, ungliðar, fólk úr verkalýðshreyfingunni, uppreisnarmenn gegn ráðandi flokksöflum – gátu komið sínum mönnum að. Hér má auðvitað hafa þá mótbáru að þetta hafi ekki dugað flokknum til langlífis – en því skal svarað þannig að flokkurinn gaf upp öndina þrátt fyrir sitt ágæta kjörkerfi en ekki þess vegna.

Hvað sem líður almennri ánægju með úrslit kosninganna til stjórnlagaþings dregur kjörsóknin úr vægi þess – það er ósanngjarnt en óhjákvæmilegt. Þá skiptir miklu að þingmennirnir nýju vinni vel saman, forðist fjas og reyni að ná fljótt samstöðu um grundvallaratriði máls. Það verður náttúrlega snúið – því slík samstaða má heldur ekki byggjast á lægsta samnefnara í viðhorfum þannig að sá ráði sem hægast vill fara. Nýja þingið er kosið til að ná árangri.

Ef eitthvað er að marka yfirlit DV í dag um viðhorf hinna nýkjörnu í könnuninni um daginn – þá er engu að kvíða.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Það virðist nú enginn botna í talningunni. Hver hannaði þennan óskapnað? Verða heildarniðurstöður birtar í nafni gagnsæis og nýrra tíma?

    http://www.dv.is/frettir/2010/12/1/geta-islendingar-ekki-haldid-svo-mikid-sem-einar-kosningar-sem-eru-i-lagi/

  • Halldór Halldórsson

    Nákvæmlega eins og ég spáði fyrir; lítil kjörsókn og „Séð og Heyrt“-þing kosið. Það sem á eftir að koma í ljós er að „þingið“ mun komast að niðurstöðu sem Alþingi stingur strax undir stól. Niðurstaðan? Einn- til einn og hálfur milljarður í ekki neitt!

  • Sigurður

    Elín: Það vill svo til að þeta kerfi er við lýði í fjölmörgum löndum. Það er búið að sýna fram á að ekkert kerfi nýtir hvert atkvæði betur þó við skiljum ekki alveg til hlýtar hvernig, langar að benda þér á klippu inn á youtube þar sem þetta kerfi er ágætlega útskýrt ásamt því hvar það er notað: http://www.youtube.com/watch?v=73S5wZKQDos

    Halldór: Bíddu aðeins meðan ég hringi á vælubílinn. Af hverju í ósköpunum að tala þetta niður í skítinn fyrirfram? Leyfum þessa að fara fram fyrst, það getur vel verið að það lendi þar en fyrr má nú aldeilis rota en dauðrota!

  • Kreppukrati

    Góð grein hjá Merði. Vel hefur tekist til með val á frambjóðendum og það er af hinu góða að ekki skuli vera fleiri útnáraþingmenn en raun ber vitni. Það gæti orðið til þess að sanngirni gagnvart þjóðinni yrði meiri í framtíðarfyrirkomulag kosninga. Eins og þetta er núna, að það þurfi fjóra úr Mosó á móti einum frá Þingeyri er náttúrulega ekki viðunandi.

  • Sigurður. Frambjóðendur eru að kalla eftir heildargögnum. Mér þykir það ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að þau verði birt. Öll atkvæði hafa verið talin þannig að það ætti ekki að vera vandamál.

  • Apotekeren

    Ekki að undra að Mörður sé afskaplega ánægður með þetta mannval. Mikið til vinstrafólk úr Séð-og-heyrt/Silfri/Spegli.

    Heyri ég latte…

  • Skrýtið að vilja „hópkosningu“ til svona þings.

    Þú hefðir þá viljað ríghalda í aðferðarfræði Valhallar og láta lista ganga eins og gert er í prófkjörum hjá Flokknum?

    Og ykkur ábyggilega líka.

    Var einhver að tala um Nýja-Ísland?

  • Vilhjálmur Þorsteinsson, handlangari Björgólfs Thors

    … finnst þér það glæsilegt val Mörður?
    Liggur kannski hálf HRUN stjórnin enn í makindum?

    Fulltrúi Deutsche Bank AG, City og Wall Street?

    Er einhver venjulegur og heiðarlegur krati eftir í Samfylkingu
    varðliða hrunavalda?

  • Þetta tal um fræga og að þeir hafi haft forskot er ekki sanngjarnt finnst mér. Allir Íslendingar geta tekið þátt í þjóðmálaumræðunni. Þar er enginn undanskilinn. Það fer svo eftir málflutningi þeirra hvort fólk er sammála eða ekki. Nema náttúrulega ef um sjálfstæðismann sé að ræða 🙂
    Þekkt fólk er kosið vegna þess að kjósendur telja sig þekkja fyrir hvað það stendur ekki fyrir hvað það er. Á því er reginn munur. Allt tal um fræga virkar hjákátlega á mig. Varðandi dreifingu atkvæða þá getur hún eðli málsins samkvæmt ekki speglað kjördæmi eða aldur eða kyn. Persónukosningar snúast um persónur ekki póstnúmer

  • Uni Gíslason

    „Lítil“ kjörsókn dregur ekki úr vægi Stjórnlagaþingsins. Vægið gæti varla verið minna hjá Alþingi, en hjá fólki yfirleitt hefur Stjórnlagaþingið nákvæmlega jafn mikið vægi og hve góðar tillögurnar eru sem frá Stjórnlagaþinginu koma.

    Lélegar tillögur = lítið vægi. Einföld stærðfræði. Alþingi vegur þetta Stjórnlagaþing afskaplega létt, hvernig svo sem kjörsókn var.

    Þó 100% kjörsókn hefði verið, þá eru ósköp fáir sem fá sinn fulltrúa inn hvort eð er miðað við 530 frambjóðendur. Ánægja með niðurstöðuna hefur þannig ekkert með þátttöku í kosningunum að gera.

    Aðeins niðurstöður Stjórnlagaþingsins. Stundum er eins og gamla fólkið á Íslandi sé svo gamalt að það skilur ekki lengur.

  • Uni Gíslason

    (með fullri virðingu fyrir „gamla fólkinu“ auðvitað)

  • Sannalega glæsileg niðurstaða. Það verður skemmtilegt
    sjónarspil þegar það kemur saman.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur