Fimmtudagur 06.01.2011 - 18:03 - 6 ummæli

Vegtollum lítt fagnað

Eftir fund um vegaframkvæmdir og fjármögnun í nýja innanríkisráðuneytinu í dag sýnist mér ljóst að það þurfi að byrja uppá nýtt að skipuleggja stórframkvæmdir sem áður átti að fá lífeyrissjóðina með í og fjármagna með veggjöldum.

Lífeyrissjóðirnir eru hættir við – nema þá sem hugsanlegir lánveitendur með eins háum vöxtum og hægt er – og á fundinum í dag varð alveg skýrt að veggjöldin sem til stóð að setja á eiga ekkert skylt við framtíðarmússík um notendagjöld sem komi í staðinn fyrir skatta á bensín og olíu á nýjum og fögrum umhverfistímum. Þau eru miklu lengra undan.

Planið sem eftir stendur er einfaldlega að láta þá borga fyrir framkvæmdirnar – 29 milljarðar á Suður- og Vesturlandi, að höfuðborgarsvæðinu ógleymdu – sem aka vegina. Það verða engar hjáleiðir, og heldur enginn teljandi sparnaður við minni orkukaup og bílslit einsog er við Hvalfjarðargöngin – menn eiga bara að borga sérstaklega fyrir að keyra þessa vegi.

Á fundinum með ráðherranum voru sveitarstjórnarmenn og þingmenn í Suðurkjördæmi auk embættismanna – og svo þingmenn í samgöngunefnd alþingis. Tók eftir því að á þessum kynningar- og samráðsfundi var vesalingur minn eini kjörni fulltrúinn frá Reykjavík og nágrenni – auk Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra. Spurði reyndar út í þetta en fékk ekki svar.

Sveitarstjórnarmenn og þingmenn voru nánast á einu máli um að þetta gengi ekki svona. Ef það þyrfti að borga sérstaklega fyrir vegabætur á Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut hlyti að þurf að gæta jafnræðis – annaðhvort með öðruvísi fjármögnun, það er að segja öðrum sköttum, eða þá gjaldi á veganot alstaðar á landinu.

Þannig að nú þarf Ögmundur að hugsa sig um – sem var reyndar á móti öllu saman þegar hann var bara stjórnarandstöðuþingmaður.

Það þurf a forystumenn á SV-svæðinu líka að gera. Auðvitað stafar gríðarlegur kostnaður á blöðunum núna af því að þeir hafa látið etja sér út í miklar kröfur um vegabætur – mislæg gatnamót og tvöfalda vegi – þótt 2+1-vegir séu miklu ódýrari og næstum jafn-öruggir.

Og kannski er kominn tími til að kjörnir fulltrúar í Reykjavík og nærsveitum – bæði í bæjarstjórnunum og á þingi – fari að rumska?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Iceviking

    Hvernig væri bara að Selfysingar hættu að búa á Selfossi og keyra til Reykjavíkur til að geta mætt í vinnu !

    Er ekki annars alveg örugglega malbikaður vegur milli Flóans og Reykjavíkur ?

  • Jón G Snæland

    Ég hjó eftir því hjá Ögmundi í Kastljósi áðan. Að hann sagði að einhver þyrfti að borga notkunina. Það virðist gleymast í umræðunni að við bíleigendur erum að greiða á annað hundrað krónur af hverjum bensínlítra til ríkisins og svo má ekki sópa bifreiðarskattinum undir teppi gleymskunnar.

  • Vont er þetta fyrir Reykvíkinga, en þar sem borgin er samfélag í sjálfu sér þá bitnar þetta helst á þeim í fríunum. Það er verra fyrir þá sem þurfa að fara þangað til að vinna eða sækja þjónustu sem ekki er í boði annars staðar.

  • Málið er að það liggur ekkert svo á að gera þetta( 2+ 1 kaflarnir hafa reddað miklu og þá má bæta þeim meira við með minni kostnaði), vegirnir springa einungis á miklum sumarfríahelgum, það má bæta frekar við veginn smá saman með bútasaumi hér og þar næstu árin. Engin þörf að koma með hundleiðinlegt vegatollakerfi sem gerir öllum lífið leitt.
    Þessir vegatollar er tylliástæða til að skattpína landsmenn. Hvalfjarðargöngin borguðu sig upp fyrir hva… 2-3 árum? Var vegatollurinn tekinn af þar? Nei. Við höldum áfram að vera skattlögð óbeint af ríkinu. Ríkið tekur ekki klærnar af því sem það hefur fest þær í. Ég er alveg handviss um að ef vegatollarnir koma þá verða þeir fljótir að borga fyrir vegina en hins vegar mun Ríkið alls ekki sleppa takinu af þessari gróðalind heldur halda áfram mörg ár að taka af fólki pening.

  • Skítlegt eðli

    Ari hefur á rféttu að standa.
    Halldór E. Sig. hækkaði eitt sinn bensínið án mótmæla frá F ÍB sem blessaði gjörninginn af því að með hækkuninni átti í stðinn að fella niður bifreiðagjöldin.
    Þau eru þarna enn eins og allir vita og ráðuneyhtið gaf þá skýringu að gleymst hefði að fella þau niður!

  • Ég man ekki betur en að sænskar rannsóknir hafi sýnt að 2+1 vegur sé JAFN öruggur og 2+2. Leifður umferðarhraði þó mismikill hjá þeim.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur