Miðvikudagur 17.08.2011 - 11:20 - 8 ummæli

Til varnar vatnalögum

Fyrir okkur mörgum sem teljum okkur umhverfissinna og náttúruverndarmenn er Guðmundur Páll Ólafsson nánast einsog heilagur maður. Svo þarft verk hefur hann unnið við að kynna íslenska náttúru og andæfa eyðingaröflum sem á hana herja.

Þessvegna bregður mér þegar Guðmundur Páll sker í dag upp herör gegn vatnalagafrumvarpi Katrínar Júlíusdóttur (Fréttablaðinu, bls. 14). Ekki síst vegna þess að í dag skilar umhverfisnefnd alþingis, og þarmeð formaður hennar, yðar einlægur – jákvæðu áliti um þetta frumvarp til þeirra sem nú fara með málið á þinginu, sem eru þingmenn í iðnaðarnefnd. Við leggjum vissulega til ýmsar breytingar, í samræmi við ágætar umsagnir frá meðal annars Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, heilbrigðiseftirlitunum og Aagot Vigdísi Óskarsdóttur lögfræðingi, einum helsta sérfræðingi okkar á þessu sviði – en erum í heildina sátt við frumvarpið og teljum að það dugi vel til að framlengja hin gömlu og góðu vatnalög frá 1923 þangað til hægt verður að fást við vatnamálin öll á nýjum grunni. Það sem nú vantar fyrst og fremst eru stjórnarskrárákvæði um sameign á helstu auðlindum og um almannarétt, plús almenn stefnuprinsipp um meðferð allra auðlindanna og siðlega náttúruvernd.

Frumvarpið sem vonandi verður afgreitt núna í september snýr við stefnu fyrri stjórnarflokka í lögunum frá 2006 – deilulögunum miklu sem við börðumst gegn af eldmóði, GPÓ, ég og miklu miklu fleiri. Eignarréttur á vatni verður samur og ákveðinn var 1923 – landeigendur nýta vatn á fasteign sinni með tilteknum hætti sem lýst er með sérstökum lagaákvæðum, að öðru leyti gildir almannaréttur. Þetta er kallað jákvæð skilgreining einkaeignaréttarins/nýtingarheimildanna – en þeir Davíð og Halldór samþykktu 2006 svokallaða neikvæða skilgreiningu, þar sem eignarréttur landeigenda og nytjaréttur var algjör nema lögin kvæðu sérstaklega á um annað.

Í greinargerð með frumvarpinu segir svo að með endurskoðun á öðrum lögum eigi að koma í nýtt horf lagaákvæðum um grunnvatn, sem árið 1998 var illu heilli flokkað með mó, kolum, málmum og öðru námutæku verðmæti sem einkaeign landeigandans.

Í Fréttablaðsgreininni finnur Guðmundur Páll það fyrst og fremst að frumvarpinu að þar sé fátt sagt um vatnsvernd. Það er út af fyrir sig alveg rétt. En þá gleymist að nú í vor, 7. apríl, voru samþykkt sérstök vatnsverndarlög, lögin um stjórn vatnamála (36/2011), þar sem innleidd er langþráð vatnatilskipun Evrópusambandsins. Flutningsmaður Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra. Þau lög eiga vissulega eftir að komast í framkvæmd – en þessi lög tvenn eru héðan í frá óaðskiljanleg, önnur um vatnsvernd og vatnastjórn, hin um nýtingu vatns og rétt landeigenda og almennings til vatns.

Ég er vanur að hlusta þegar Guðmundur Páll Ólafsson tekur til máls, og ætla að halda því áfram. Okkur hinum dauðlegu færir greinin í Fréttablaðinu hinsvegar þá huggun í amstri dagsins að jafnvel heilagir menn geta skriplað á skötunni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Eiga ekki allar auðlindir að vera sameign þjóðarinnar. Ég legg til að við gerum öll vatnsrétt upptæk og stjórnmálamenn stjórni hvernig þau verði nýtt. Bara svona af því að stjórnarhættir Sovétríkjanna eru Samfylkingarfólki svo kærir…

  • Hví kallar þú direktív, ESB „tilskipun“? Þú af öllum. Málamaður og íslenskumaður mikill.

    Direktív eru leiðbeinandi, eða rammalög.

    Tilskipun, í þessu samhengi er ekki aðeins röng þýðing, heldur röng merking – sem er jafnvel verra.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Elsku kallinn minn, með full virðingu fyrir þér, þá treysti ég GPÓ betur en þinginu.

    Kannski vegna þess að þingið hefur í gegnum tíðina sýnt sig í að ganga erinda sérhagsmuna. Bara sorrý.

  • Magnus Jonsson

    Bíddu … á þá ekki að setja einkarétt á réttindin og kvóta á nýtingu….. og ekkert framsal!!! Þetta er aðför að velferðarríkinu.

  • Hver á rigninguna? Hver á snjóinn? Hver á jökulinn?
    Hver á heita vatnið utan heimatúnsins?
    Hver á jökulána og sandinn í henni. Hver stöðvar
    milljónir tonna er berast til hafs?

    ÖLL þessi auðlind, er auðvitað s a m e i g n okkar-þjóðarinnar.
    Auðvitað geta og mega þeir er það vija nýta vatnsorkuna
    og fara þá eftir góðum og gildandi lögum. ENGINN á að geta
    kúgað milljarða fyrir ý m y n d a ð eignarétt handa sér

    Mörðru ekkert kák lengur!!! ÞIÐ verðið að tryggja réttinn.
    Aðrar þjóðir í nágreni okkar gera það til hagmuna fyrir heildina

  • Uni — já, þetta er ekki góð þýðing og gefur eiginlega í skyn að á bakvíð standi einhver einvaldskóngur. Man ekki hvað Sigurður Líndal vildi kalla þetta í staðinn (en nafngiftin ,Efnahagssvæði Evrópu’ fyrir EES er frá honum). Leiðarlög?

    Þorsteinn o.fl. — Í pistlinum er engum teflt gegn GPÓ og ekki sérstaklega hrósað alþingi Íslendinga, bara minnt á að eftir vatnastjórnarlögin frá í apríl þarf ekki sérstök vatnsverndarákvæði í vatnalögin frá 1923.

  • Þetta síðasta er náttúrulega ekki rétt hjá þér Mörður.

    Vatnastjórnunarlögin fjalla um aðferð við að afla upplýsinga um ástand vatns og gera áætlanir um vernd þess.

    Þau hafa ekki að geyma efnisreglur um vernd vatns. Í 3. mgr. 21. gr. segir einmitt: Ákvarðanir um ráðstafanir sem taldar eru í aðgerðaáætlun taka þar til bær stjórnvöld eða leyfisveitendur á grundvelli viðkomandi löggjafar.

    Meðal annars þess vegna þarf efnisreglur um vatnsvernd í vatnalög.
    Kveðja

  • Já, ágæta Aagot Vigdís, það er líklega ofsagt að engar efnisreglur þurfi í vatnalög. Skrýtið samt að hafa vatnsverndarreglur í vatnalögum eftir frv. iðnaðarráðherra en ekki vatnastjórnarlögunum eftir frv. umhverfisráðherra — en þar er væntanlega að finna ýmsar eiginelgar ,efnisreglur’ líka þegar betur er að gáð, svosem í viðaukum tilskipunarinnar. — Meginmálið er þetta: 1) Ekki hægt að tala um vatnalög og vatnalagafrumvarp án þess að hafa líka undir vatnastjórnarlögin. 2) Það þarf heildarendurskoðun — hugsanlega í einum lögum — þegar stjórnlög eru i lagi og komin sæmileg heildarstefna um auðlindirnar. 3) Verkefni dagsins er að koma í veg fyrir einkavæðingu vatns skv. lögunum frá 2006, það er gert með stjórnarfrumvarpinu sem nú er verið að ræða á þinginu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur