Sunnudagur 11.03.2012 - 10:02 - 9 ummæli

Ekkert hægt að gera

Elítuvitnin í Þjóðmenningarhúsinu segja frá því með hryggðarsvip að ekkert hafi verið hægt að gera sirka eftir 2006. Þar með sé fráleitt að Geir Hilmar Haarde hafi brugðist ráðherraskyldum sínum.

Og þarmeð séu þau sjálf, hvert og eitt, laus undan ábyrgð, að minnsta kosti eftir 2006 (nema aumingja Baldur …).

Af því nokkur þessara vitna eru forystumenn í Samfylkingunni er sérkennilegt fyrir okkur félagsmenn í þeim flokki að hafa samþykkt sérstaka afsökunarbeiðni í árslok 2010 þar sem hinu gagnstæða er haldið fram, með rót í rannsóknarskýrslu alþingis – nefnilega að ábyrgð Samfylkingarinnar í hruninu liggi í því að

þótt ekki hafi verið mögulegt að afstýra bankahruni eftir að Samfylkingin tók sæti í ríkisstjórn í maí 2007 hafi margt brugðist sem hefði mátt gera til að takmarka tjónið.

Vegna þessa bað Samfylkingin

íslensku þjóðina afsökunar á þeim mistökum sem hún ber ábyrgð á í aðdraganda hrunsins

– og hét bót og betrun, meðal annars með umbótum í eigin starfi. Nýsamþykktar siðareglur flokksins eru meðal annars til vitnis um að það fyrirheit var gefið í alvöru.

Afsökunarályktunin frá 4. desember 2010 var samþykkt eftir skýrslu umbótanefndar sem stofnuð var til að skoða flokkinn og hrunið. Þar er auðvitað byggt á rannsóknarskýrslu alþingis um ábyrgð ríkisstjórnar Geirs H. Haardes á því að hafa ekki dregið úr afleiðingum bankakreppunnar sem verða mátti. Í ljósi vitnisburðanna í Þjóðmenningarhúsinu eru fróðlegir þessir kaflar í þessari skýrslu:

Samfylkingin sá … vanda bankanna í sama ljósi og samstarfsflokkurinn og var þrátt fyrir mikla sérfræðiráðgjöf og undirbúningsvinnu ekki fær um að greina á milli innri vanda og ímyndarvanda. Upplýsingar um raunverulega stöðu mála, þar á meðal viðvaranir sem komu fram með ýmsum hætti frá áramótum 2008, sem og gagnrýni erlendra sérfræðinga á bankakerfið féllu í grýttan jarðveg.

Samfylkingin átti sér sjálf sérfræðinga, sem meðal annars höfðu fyrir kosningar samið hagstjórnarstefnu flokksins í bæklingnum Jafnvægi og framfarir, en:

Samfylkingin nýtti ekki öflugustu sérfræðingana til að greina vandann, né var upplýsingum deilt með þeim hætti að þær nýttust til fulls eða að af þeim væri hægt að draga réttar ályktanir.

Samfylkingin brást 2007–2009, landsmönnum, kjósendum sínum og ekki síst sjálfri sér:

Þannig blasir við að Samfylkingin fylgdi ekki eftir eigin stefnu um fagmennsku og ábyrgð. Hún missti því af tækifærinu til að taka mark á og bregðast við þeim viðvörunum í efnahagsmálum sem lágu fyrir áður en stjórnarsamstarfið hófst og urðu stöðugt meiri og alvarlegri eftir því sem á leið. Hún missti líka af tækifærinu til að hefja með skýrum og áþreifanlegum hætti þá endurskoðun á starfsháttum stjórnsýslunnar og stjórnmálamanna sem hún þó hafði boðað.

Við höfum gert margt vel síðan í Samfylkingunni, reynt með verkum okkar við landstjórnina og í sveitarstjórnum að leggja nýjan grundvöll að almennri velsæld og siðlegu stjórnarfari. Innanflokks sömdum við umbótaskýrsluna og höfum stigið mörg góð skref við að bæta starfshætti og stefnuvinnu.

Stundum finnst manni samt að ýmsir foringjar okkar hafi eiginlega ekki mátt vera að því að læra af eigin þáttöku í hrunstjórninni. Og þarf þó ekki annað til en að lesa skýrslur sem flokkurinn lét skrifa, ályktanir sem við samþykktum sjálf.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Haukur Kristinsson

    Gerði allt sem í hans valdi stóð, segja menn um Geir Haarde. Allt sem hann gat gert. Hann var forsætisráðherra, þar áður fjármálaráherra til margra ára og átti sinn þátt í einkavinavæðingunni. Nú, ef hann gerði allt sem hann gat, þá var hans geta ekki upp á marga fiska.
    Hvað eru svona slappir menn að vilja upp á dekk. Hefðu ekki verið betra fyrir manninn að læra til kokks, til dæmis? Eða láta sér nægja að vera einkabílstjóri Dabba, með kaskeiti, flotta hanska “und alles”.
    By the way, sat ekki kella hans í stjórn FL Group? Einu versta glæpafélagi bólunnar? Hvað á það að þýða að kona forætisráðherra sitji í stjórn fjármálafyrirtækis? Af hverju eru ráðuneytisstjórar að braska með hlutabréf banka? Slíkt gerist ekki einu sinni í bananalýðveldi. En hér á Sjallalandi gerist það og þykir bara hið besta mál. Svo eru innbyggjarar hissa, ógeðslega hissa, þegar allt fer fjandans til. Og ætla sér að fela skussunum enn einu sinni að standa í brúnni.

  • Tek ofan hatt minn fyrir þér, Mörður.

    Hefðu fleiri kjark þinn og hreinskilni væri betur komið fyrir þessu samfélagi.

    Allt sem þú segir er rétt og skömm þeirra sem nú hvíþvo sig í Landsdómi mikil.

    Allt þetta fólk verður að víkja.

  • Okkur, sem höfum kosið Samfylkinguna, verður hreinlega óglatt af þessu skrumi og falsi. Aldrei mun ég treysta eða trúa einu einasta orði sem kemur frá ykkur.

    Svik ykkar á kosningaloforðum um skjaldborgina og allt uppá borðið, verður
    ykkur dýrkeyp og traustið mun taka ykkur kynslóð eða meir að vinna upp.

    Jóhönnu verður minnst sem almesta skrumara í pólitík, sem Ísland hefur átt og er þá mikið sagt. Ingibjörg Sólrún ætti að vera fyrir Landsdómi og Hæstarétti fyrir landráð.

    Engu verður trúað sem þið segið – ENGU. Allt hefur reynst skrum eitt, lygi og fals.

  • Alma Jenný Guðmundsdóttir

    Mörður hafðu þökk fyrir grein. Að líta í eigin barm í hverju sem er – verður ævinlega til góðs fyrir alla. Ég hef gagnrýnt – en þótt það erfitt – flokksmenn hafa brugðist illa við.
    Ég harma að fleiri flokkar ætli ekki að taka til í sínum ranni – ranni sem virkilega þarfnast uppgjörs. En til er ráð til að koma í veg fyrir að slíkt fólk komist að og það er að mótmæla hástöfum í stjórnarviðræðum – stjórnarmyndun með þeim flokkum sem ekki hafa gert slíkt upp.

    Takk – þetta eflir okkur.

  • Halldór Guðmundsson

    Eftir mini krísuna 2006, átti að stöðva útþenslu bankanna, með því að hækka byndiskylduna verulega, og það þarf ekkert EES samþykki fyrir því, það er bara bull. Fjármálakerfið endaði í að vera 12-14 falt hagkerfið, í Englandi segja þeira að 2-3 földun sé hámark.Og þarna liggur orsök fyrir Hruninu.
    Þannig að Hrunvaldurinn er fundinn.

  • Ég get líka tekið hatt minn ofan fyrir þér Mörður. Ótrúlega hreinskilinn og gagnrýninn á það sem miður hefur farið í þínum flokki. En við sjáum nú fyrrverandi formann þinn ISG í vitnastúkunni.
    Konan sem vildi taka allt að 40 milljarða EVRA lán til þess að færa bönkunum.

    Nú sver hún allt af sér eins og þessi elíta öll og pólitíkin færði henni í staðinn hálaunað snobbjobb í Afganistan af öllum stöðum.

    En eftir að vera búinn að fríja alla ykkar eigin meðvirku og óhæfu ráðherra höfðuð þið síðan geð í ykkur til þess að láta Geir sitja einan á sakamannabekknum.
    Ótrúlegur tvískinnungur og tækifærismennska hjá þessum flokki þínum, sem þér er eiginlega vorkunn með að þurfa að dragnast með ! Því satt best að segja ert þú einn af örfáum þingmönnum þessa flokks sem ert ærlegur maður !

  • Inga Sigrún

    Takk fyrir þessa upprifjum Mörður – hún er mikilvæg.

  • Ásgeir Sig.

    Mörður, það stefnir allt í nýtt hrun á Íslandi.

    Atvinnuleysið er enn mjög hátt, skuldir ríkisins gríðarlega háar, framkvæmdir og fjárfestingar eru sögulega í lágmarki, og eldsneytisverð er að sliga heimilin og fyrirtækin í landinu sem fer brátt að bitna á efnahagslífinu.

    Hér hafa núverandi stjórnvöld tækifæri til að koma í veg fyrir þetta væntanlega hrun, en þið veljið að gera ekki neitt.

    Þið berjist fyrir háu eldsneytisverði, vinnið markvisst gegn ýmsum fjárfestingum vegna þess að þessar fjárfestignar eru ykkur ekki pólitískt þóknanlegar, og hleyptuð AGS inn á gafl hjá okkur svo skuldir ríkissins hafa margfaldast.

    Þið lítið svo á að hækkandi eldsneytisverð bitni bara á hina borgaralega Íslandi sem býr í úthverfum, og þar sem að þið miðbæjarrotturnar teljið að þetta ekki vera ykkar kjósendur, þá sé í lagi að þetta fólk blæði fyrir hátt eldsneytisverð.

    En þið veljið að gera ekki neitt og það mun koma rækilega í bakið á ykkur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur