Miðvikudagur 07.03.2012 - 18:06 - 15 ummæli

Ábyrgð

Auðvitað er gaman að vita hverjir mæta í Þjóðmenningarhúsið, og sjá fræga fólkið ganga inn og út í allskonar nýjum fötum, og sjá hvað sumir verða vandræðalegir að svara spurningum – og óvenjuskemmtilegir brandarar hjá Davíð um tengda aðila og bankastjórana sem tóku fimm milljarða fyrir að segja góðan daginn (Seðlabankastjórinn hefur vonandi fengið að heilsa nokkrum sinnum fyrir 300 milljarðana í ástarbréfunum) – en það er samt ekki það sem  landsdómsmálið snýst um, og þetta teater sem kannski hefði átt að vera í beinni útsendingu snýst heldur ekki fyrst og fremst um persónuna Geir Hilmar eða þá aðra sem koma þarna við sögu, og þetta snýst ekki einusinni um pólitík – – – heldur um ábyrgð.

Og hvað svo? Auðvitað er Geir eitthvað ábyrgur, segja margir, en gat hann nokkuð gert – voru þetta ekki Davíð og Halldór, og aðallega bankastjórarnir, en allra helst bara alþjóðlega fjármálakreppan? Og erum við ekki þar að auki öll ábyrg? sem kusum þessa pólitíkusa og klöppuðum fyrir bankaútrásinni og æptum Vi køber Parken! – og vorum líka gráðug og keyptum fermetra og flatskjái og þriðja bílinn?

Ábyrgð — þrjár gerðir

Í 8. bindi rannsóknarskýrslunnar, greinargerð sérhópsins  um „Siðferði og starfshætti …“ er reynt að svara einmitt þessari spurningu um ábyrgð. Þar er lögð áhersla á að þótt fjölmargir beri ábyrgð, og jafnvel hver fullorðinn Íslendingur sinn hluta ábyrgðarinnar, verði að greina að nokkrar gerðir af ábyrgð, sem hver um sig hefur sína sérstöku alvöru og kallar á sín sérstöku viðbrögð – frá hinum ábyrga og frá þeim sem hann hefur brugðist með því að gæta ekki ábyrgðar sinnar.

Þau Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal og Kristín Ástgeirsdóttir greina að þrjár gerðir ábyrgðar, sem mætti kalla verknaðarábyrgð, hlutverksábyrgð og félagslega samábyrgð.

Ábyrgð af verknaðinum

Þetta segir í skýrslunni um athafnarábyrgðina:

Í fyrsta lagi er réttmætt að draga einstakling til ábyrgðar fyrir tilteknar afleiðingar sem rekja má til athafna hans eða athafnaleysis. Meginskilyrðin sem þarf að uppfylla eru að einstaklingnum hafi verið sjálfrátt og hann hafi mátt vita hverjar afleiðingar athafnir hans eða athafnaleysi mundu hafa. Rannsókn á þessum þáttum getur skorið úr um sekt eða sakleysi viðkomandi, bæði í lagalegu og siðferðilegu tilliti. Þótt andvaraleysi og meðvirkni þorra almennings hafi átt sinn þátt í að skapa skilyrði fyrir því að þjóðfélagið þróaðist á þann veg sem það gerði, má ljóst vera að óbreyttir borgarar þessa lands hafa ekki gerst sekir um athafnir eða athafnaleysi sem tengja má beinlínis falli bankanna. Mál tiltekinna einstaklinga sem voru í lykilaðstöðu sem stjórnendur eða eigendur bankanna eru hins vegar í athugun hjá sérstökum saksóknara. Um sekt þeirra eða sakleysi verður skorið fyrir dómstólum. Siðferðilegt ámæli þeirra verður metið af almenningi í ljósi málavaxta.

Þetta eru auðvitað banksterarnir og fylgifiskar þeirra. Kannski líka hugmyndafræðingar nýfrjálshyggjunnar, þeir sem á undan fóru og stökktu vígðu vatni á hina nöktu gróðahyggju?

Hlutverk með ábyrgð 

Um hlutverksábyrgðina segir svo þetta hér:

Í öðru lagi er höfðað til ábyrgðar einstaklings í ljósi þeirrar stöðu sem hann gegnir eða hlutverks sem hann hefur. Spurning um ábyrgð snýst þá um það hversu vel eða illa viðkomandi hefur gegnt þeim skyldum sem fylgja stöðu hans eða hlutverki og hvort hann hefur staðið undir þeim væntingum sem réttmætt er að gera til hans í ljósi þeirra. Umræðan um ábyrgð í þessari skýrslu [snýst] að miklu leyti um þessa hlutverkabundnu ábyrgð. Spurt hefur verið hvort bankastjórnendur, regluverðir, endurskoðendur, eftirlitsaðilar, embættismenn, stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn hafi rækt eða vanrækt þær skyldur sem fylgja hlutverkum þeirra. Hér þarf ekki að vera bein tenging við tiltekna athöfn eða athafnaleysi heldur nægir í sumum tilvikum að vísa til þess að stjórnandi eða ráðherra eigi að sjá til þess að hlutirnir gangi eðlilega fyrir sig á tilteknu sviði – þeir eru „á hans vakt,“ eins og sagt er. Það liggur í hlutarins eðli að óbreyttir borgarar – allur almenningur – gegna engum hlutverkum sem koma sérstaklega til skoðunar þegar leitað er svara við því hverjir beri ábyrgð á hruni bankanna og tengdum efnahagsáföllum.

Helstu stjórnmálaforingjar við völd í aðdraganda hrunsins, a.m.k. frá einkavæðingu bankanna 2002–2003. Geir H. Haarde. Hinir þrír. Háembættismenn. Fjölmiðlamenn. Og líka einfaldir alþingismenn, jafnvel í stjórnarandstöðu. Hér er afsökunarbeiðni yðar einlægs í þessu hlutverki, frá 3. mars 2009.

Félagsleg samábyrgð

Og að lokum samábyrgð okkar allra – eða margra að minnsta kosti:

Hvað er þá átt við þegar sagt er að við berum öll ábyrgð á því sem gerðist? Ein leið til að átta sig á þessari hugsun er að skoða þriðju hugmyndina um ábyrgð, félagslega samábyrgð. Hér er horft til þess hvernig einstaklingar og hópar hafa stuðlað að því að viðhalda hugsunarhætti, hegðunarmynstri og verðmætamati sem býr í haginn fyrir tiltekna starfsemi. Dæmi sem stundum er tekið til að varpa ljósi á þetta er þegar borgarar vestrænna neyslusamfélaga kaupa fatnað sem er framleiddur í fátæku ríki af fólki, oft á barnsaldri, sem býr við illan aðbúnað og smánarlaun. Beint og óbeint njótum við góðs af vinnu þessara einstaklinga og stuðlum að gróða stórfyrirtækja sem notfæra sér neyð þeirra um leið og þau gera þeim kleift að sjá fjölskyldum sínum farborða. Hér er á ferð kerfisbundið ranglæti þar sem erfitt er að benda á einstaklingsábyrgð en langflestir stuðla þó að með því að njóta góðs af því með einum eða öðrum hætti.

Má yfirfæra þessa hugsun með einhverjum hætti á íslensku þjóðina í aðdraganda bankahrunsins? Vitaskuld eru aðstæðurnar gjörólíkar. Öfugt við dæmið um arðrænda fólkið í saumastofum stórfyrirtækjanna er það að miklu leyti sama fólkið sem naut góðs af  „góðærinu“ og beið skaða af hruninu. Hafa má að minnsta kosti tvennt til marks um samábyrgð íslensks almennings á þeim efnahagsáföllum sem hér hafa orðið. Í fyrra lagi það að Ísland er sjálfstætt lýðræðisríki og í lýðræðisríkjum bera borgararnir ábyrgð á réttilega kjörnum stjórnvöldum. Bankarnir voru til að mynda einkavæddir, létt var á regluverkinu sem átti að veita þeim aðhald og kynt undir þenslu og vexti með margvíslegum efnahagsaðgerðum – allt var þetta gert í lýðræðislegu umboði almennra kjósenda. Stefnan fór ekki leynt og sá stjórnmálaflokkur sem leiddi þessar breytingar á íslensku fjármálaumhverfi naut mikils fylgis kjósenda. Eins og fram kemur í Viðauka II sem fylgir þessari skýrslu, sýndi til að mynda Gallup-könnun frá 2005 að 86% þjóðarinnar töldu að útrásin væri góð fyrir íslenskt atvinnulíf. Það segir sína sögu að 74% kjósenda Vinstri grænna, sem voru þó neikvæðastir þeirra sem svöruðu könnuninni, töldu að útrásin væri góð fyrir íslenskt atvinnulíf og einungis 7% þeirra álitu að útrásin væri beinlínis „slæm“ fyrir íslenskt atvinnulíf. …

Og ráð hópsins um siðferði og starfshætti til hinna samábyrgu eru meðal annars þessi:

Ætli þjóðin að draga uppbyggilega lærdóma af því sem gerst hefur er mikilvægt að hún horfist í augu við afleiðingar af framferði íslenskra bankamanna og vanrækslu stjórnvalda en leggist ekki í afneitun og sjálfsréttlætingu. Leiða má rök að því að eins konar ranghverfa hinnar útbelgdu sjálfsmyndar Íslendinga sem fram kom í ímyndarskýrslu forsætisráðuneytisins og fleiri skyldum plöggum hafi birst í eftirmálum hrunsins sem sú afstaða að vinaþjóðir okkar hafi brugðist. Slík fórnarlambshugsun er ógagnleg og hún felur í sér óraunsæja og skaðlega afstöðu til annarra þjóða. …

Sjá prýðilegt framhald bls. 230 og áfram.

Hver sinn ábyrgðarskammt – en við skulum hafna tilraunum til að koma ábyrgð af verknaði sínum eða vanræktu hlutverki yfir á aðra – jafnvel allan almenning – alla þjóðina – einsog mjög ber á í Þjóðmenningarhúsinu um þessar mundir.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Nú?

    Eru réttarhöldin þá ekki uppgjör við nýfrjálshyggjuna og helstefnu Sjálfstæðisflokksins?

    Þau voru það um daginn.

  • Illugi Jökuls virðist halda, að réttarhöldin séu uppgjör við Davið Oddsson.
    Aðrir Samfylkingarmenn eiga í jafn miklum erfiðleikum að átta sig á, til hvers þessi réttarhöld sem þeir sjálfir settu upp, eru.

    Ég verð að vera sammála Samfylkingarmönnum, ég átta mig ekki á til hvers þessi réttarhöld eru.

    Eitthvað virðist hafa farið úrskeiðis við skipulagningu þeirra, á skrifstofum ríkisstjórnarflokkanna. Það standa beinlínis allir á gati, nema einna helst Landsdómendur og saksóknari, sem virðast vita nákvæmlega að þessi farsi er fullkomlega tilgangslaus.

    Hinsvegar vakna áhugaverðar spurningar, sem verður ekki svarað, t.d. af hverju Ingibjörg Sólrún vildi skuldsetja Ísland um 6-7 þúsund miljarða.
    Jamm, sex til sjö ÞÚSUND miljarða

  • Hver er þín ábyrgð ?

  • Mörður Árnason

    Jú, Óli, á það er einmitt drepið í pistlinum, og tengt sérstaklega í þingræðu um ábyrgð í mars 2009. Reyndar merkilegt að lesa þessa stuttu umræðu aftur núna því menn haff því miður ekki komist miklu lengra en ég og Ásta Möller á þessum tíma. Hér er hlekkurinn aftur (smella svo á ,næstu ræðu’): http://www.althingi.is/altext/raeda/136/rad20090303T133226.html

  • En það er engin ábyrgð ef maður gat ekki og vissi ekki 😀

  • Jakob Bjarnar

    Ég þykist ekki vera svo vel með á nótunum að geta kveðið uppúr um sekt eða sakleysi Geirs, né einu sinni hvort hann eigi að sæta ákæru. Og ekki er ég refsiglaður maður og gráturinn hefur verið með þeim ósköpum að það liggur við að mér finnist að við ættum bara að leyfa honum að fara. En, það yrði náttúrlega aldrei á þeim forsendum að hann eigi að sleppa því fleiri ættu að vera þarna. Hvurskonar hundalógík er það? Við fellum ekki niður ákæru á hendur einhverjum á þeirri forsendu að vitað sé að einhverjir aðrir hafi sloppið með meintan glæp sambærilegan eða svipaðan.

    En, ég var að horfa svipmyndir frá þessu nú áðan í sjónvarpsfréttum og ég hef aldrei séð annað eins, í nokkrum einustu réttarhöldum. Þarna var Geir, hinn ákærði, skælbrosandi og tók á móti vitnum með handabandi og kveðjum, rétt eins og þeir væru að koma í heimsókn heim til hans. Er þetta eitthvað grín?

  • Haukur Kristinsson

    Eftir aðeins þrjá daga ætti öllum að vera ljóst hversu brýnt það er fyrir okkar samfélag að þessi vitnisburður á sér stað fyrir Landsdómi. Að vísu hefðu fleiri en Geir ræfillinn átt skilið pláss á sakamannabekk, en “shit happens”. Því er haldið fram af mörgum að þegar árið 2005 hafi flestum verið ljóst hvert stefndi, en kjarkleysi og vanhæfni hafi komið í veg fyrir erfiðar ákvarðanir. Ég er þessu ekki sammál, ég held nefnilega að flestir hafi í flónsku sinni og incompetence reiknað með því að þetta mundi reddast, eins og svo margt annað hingað til hér á skerinu. Minna má á ferðir ráðamann til útlanda og fyrirlestrar þar um styrk og ágæti íslenskra fjármálastofnanna. Til að mynda endurmenntamálaráðherrans. En ein mynd er þegar kristal skýr; flestir, ef ekki allir sem að málunum komu voru vanhæfir. Ekki síst starfsmenn Seðlabankans og FME, því þar áttu “professionals” að sitja.

  • Hannes I. Hallgrímsson

    Bíðið við, var það stjórnmálamönnum að kenn að bankar sem voru hlutafélög í einkaeigu féllu?

    Hvað hafa Davíð, Geir, o.fl. með það að gera?

    Þeir höfðu ekkert eigendavald yfir þessum bönkum og gátu því ekki skipað þeim fyrir.

    Þessi bankar voru sjálfstæð hlutafélög og störfuðu samkvæmt regluverki ESB í gegnum EES-saminginn, en sá samningur gengur út á að það skuli vera frjálst flæði fjármagns á milli landa og hindranir og eftirlit skulu vera í lágmarki.

    Kannast einhver við þetta?

    Hvað segið þið kratar sem eruð svo hrifnir af ESB og öllu sem þaðan kemur?

    Hefiði Ísland verið einræðisríki og Geir verið einræðisherra, þá hefði hann getað hundsað EES-saminginn og þjóðnýtt bankana ef þeir hefðu ekki farið að vilja hans og látið handtaka stjórnendur þessar banka hefðu þeir ekki farið að vilja hans og látið loka þá inni án dóms og laga.

    En sem betur fer er Ísland ekki einræðisríki, þó svo að núverandi stjórnvöld séu með tilburði í þeim efnum.

  • Ekki SF - trúboði

    Samfylkingin ber aldrei ábyrð á einu eða neinu – það er alltaf einhverjum öðurm að kenna.

  • Haukur Kristinsson

    Ég held að bullinu í Hannesi I. sé best svarað með þessum pistli Egils, sem var að birtast.

    „Það er stundum talað um grand narrative.

    Stóru söguna sem liggur á bak við allt hitt.

    Stóra sagan í Landsdómsmálinu er frekar einföld.

    Þarna koma helstu valdamenn landsins í langan tíma hver af öðrum.

    Og játa að þeir hafi verið algjörlega búnir að missa tökin á landstjórninni.

    Það er í raun grundvallaratriðið í vörn þeirra. Eini munurinn á frásögn þeirra er í raun hvenær allt hafi verið komið í óefni. Sumir fara alveg aftur til ársins 2005.

    Í raun virðist hafa verið stjórnleysi hér um langt skeið – en hafi einhver stjórnað, þá voru það fjármálamenn sem fengu að keyra allt fram af bjargbrúninni.“

  • Sigurður #1

    Það á eftir að skrifa skýrsluna um þegar Steingrímur og Jóhanna einkavæddu allt bankakerfið á einni nóttu og afhentu erlendum vogunarsjóðum það.

    Og Alþingi kom hvergi nærri.

    Sá afleikur á eftir að verða þjóðinni dýr.

  • Man ekki eftir að ákæruvald hafi tjáð sig mikið á meðan málsmeðferð er í gangi.

  • Þorsteinn Vilhjálmsson

    Bestu þakkir fyrir þetta, Mörður. Fínt að fá svona upprifjun. Ætti að vinna gegn of einfölduðum hugmyndum. — Mér finnst Landsdómur fara vel af stað og vera líklegur til að gera gagn, bæði með upprifjun og með nýjum upplýsingum. Vonast til að dómurinn sjálfur gefi að lokum læsilegt yfirlit, en annars geri það einhver annar. Aðalatriðið verður upplýsingaflæðið en ekki dómsorðið. — Mig grunar að þeir sem hafa barist gegn Landsdómi muni ekki skrá það með stolti í ferilskrána sína þegar upp er staðið.

  • Hannes I. Hallgrímsson

    Haukur Kristinsson;

    Veruleikafirring þín er algjör.

    Þegar bankarnir voru einkavæddir voru ekki ríkisafskipti af þeim lengur.

    M.ö.o. stjórnmálamenn höfðu ekki eigendavald yfir þeim og gátu ekki og máttu ekki skipta sér af starfsemi þeirra.

    Hlutverk stjórnmálamanna var að fara með landstjórn en ekki stjórn fjármálakerfisins. Það á að vera í höndum annarra aðila skv. EES-samingnum.
    Landstjórnin var í fínu lagi á þessum tíma, skuldir Íslenska ríkisins litlar sem engar og góður afgangur á ríkisfjármálum.

    Bankarnir fóru á hausinn vegna glæfralegra fjármálagjörninga eigenda þeirra, auk þess að smákrakkar voru ráðnir í helstu lykilstöður innan bankanna.
    Æskudýrkunin var orðin svo mikil að fólk eldra en 35 ára fékk ekki vinnu í bönkunum.
    M.ö.o. algjört reynsluleysi var innan bankanna og því fór sem fór.

    Vinstrimenn vilja með öllu móti klína bankahruninu á pólitíska andstæðinga sína í pólitískri krossför sinni, í staðinn fyrir klína bankahrunina á eigendur bankanna og stjórnendur þeirra.

  • ég veit ekki hvernig þið fáið það út að landsstjórn sé sé það sama og bankastjórn? En eins og ég skil það er það svo, ef ég stjórna landinu sé ég um samfélagslegansjóð landsins samanber ríkissjóð en ef ég er bankastjóri sé ég um sjóð bankans og fjárfestingar. Hvernig get ég borið ábyrgð á þessu öllu í einu og þá sérstaklega þegar að bankaræningar eru við stjórn bankanna nei ég held ekki!!!!!!!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur