Föstudagur 30.03.2012 - 15:14 - 19 ummæli

„Nasty Party“

Sjálfstæðisflokknum tókst í gærkvöldið að koma í veg fyrir að umræðan um þjóðaratkvæðagreiðsluna kláraðist á réttum tíma. Engum kom á óvart að það gæti tekist, með málþófi þennan eina dag sem var til stefnu – spurningin var bara hvort þeir hefðu lyst á því að beita þessum brögðum gegn jafn-sjálfsögðum áformum, eða tækju kannski þátt í því með okkur hinum að móta réttu spurningarnar og koma stjórnarskrármálinu áfram í samtali við almenning í landinu.

Auðvitað féllu Sjálfstæðismenn fyrir freistingunni. Töluðu stanslaust í allan gærdag og komu í veg fyrir að málinu lyki á tilsettum tíma. Beðið var um fund þingflokksformanna þegar sýnt var að ræðuhöldum yrði að linna til að hægt væri að klára atkvæðagreiðslu fyrir miðnætti. Þar mætti Ragnheiður Elín Árnadóttir með uppáhaldsorðið sitt eitt í farangrinum: Nei.

Sjáum til — aðrar leiðir kunna að vera til að sama marki.

Það er athyglisvert að afgreiðslan stöðvaðist ekki á Framsóknarmönnum þrátt fyrir ýmsar athugasemdir frá fulltrúum þeirra í umræðunni og nefndarstarfinu. Það var að lokum Sjálfstæðisflokkurinn einn sem vildi ekki að landsmenn gætu tjáð sig um stjórnarskrárdrögin í kosningunum í júnílok – vildu heldur ekkert samráð um spurningarnar – nefndu aldrei annan hugsanlegan heppilegri tíma fyrir atkvæðagreiðsluna – í fullkomnu samræmi við andstöðu sína við stjórnarskrárvinnuna frá upphafi.

Í umræðunni um fiskveiðistjórn og veiðigjöld er það sama uppá teningnum. Sjálfstæðismenn hafa fengið línuna frá LÍÚ í gegnum Davíð og Moggann, og berjast á móti öllum breytingum sem færi okkur nær jafnrétti, atvinnufrelsi og skynsemi í sjávarútvegi og ráðstöfun sameiginlegra auðlinda. Það lýsir ágætlega grunnafstöðu flokksins að í báðum þessum málum hafa þeir hamast gegn hugtakinu þjóðareign – og hafa í því skyni grafið upp þrætubók sem upphafsmenn hennar úr lagadeildinni hafa sjálfir gefist upp á.

Þetta sýnir með öðru að Sjálfstæðisflokkurinn er að einangrast í íslenskum stjórnmálum. Hann neitar að takast á við mistök sín og hugmyndafræðilegar villur frá Davíðstímanum, og er hægt og hægt að færast enn lengra til hægri en árin fyrir hrun.

Reyndar ekki ólík þróun og hjá breska Íhaldsflokknum á árunum eftir valdaskeið T Margrétar Thatcher. Sá flokkur hafnaði því líka lengi að horfast í augu við arfleifð Thatcher-áranna, og reikaði lengi um í myrkviðum hægri-öfga undir forustu leiðtoga sem þeir vilja helst gleyma núna að hafi nokkurn tíma verið til. Það tók heil þrettán ár – og ótrúleg mistök Verkamannaflokksins – að ná aftur nægum trúnaði kjósenda til að komast aftur í stjórn, raunar samsteypustjórn með Frjálslyndum.

Á þessum tíma var Íhaldsflokkurinn í Bretlandi einmitt kallaður „the Nasty Party“. Það heiti á um þessar mundir ágætlega við Íhaldsflokkinn á Íslandi.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Sæll Mörður algjörlega sammála þér,ein ath, í ljósi fyrirsjáanlegrar andstöðu hefði mátt ætla að málið hefði átt að koma strax á dagskrá eftir jólafrí, en ekki á síðustu dögum tilskilins frests,þess vegna ber ríkisstjórnin ábyrgð á þessu jafnframt,eða ætti ég að segja kvislingarnir í ríkisstjórninni.

  • Sammála Kára.

    Stjórnarmeirihlutinn átti að koma mun fyrr fram með málið.

    Klúður.

  • Skrítnar vangaveltur.

    Kíktu á andriki.is og þá kviknar ljósið

  • Hreggviður

    Má ekki segja að með því að þingfesta kjánaskap Bjarna Ben &co, Geirsgrátinn, hafi verið fyrirséð að önnur brýn mál lentu í málþófshakkavélinni og rynnu út á tíma? Var þingforsetinn að „jamma“ með í þeim leik?

    Svona sem leikmanni finnst mér verkstjórninni á þingi ábótavant og kjánaskapurinn látinn yfirtaka á öllum sviðum, dansað eftir pípum fáránleikans með öðrum orðum.

  • Kristján G. Kristjánsson

    Sammála Kára. Annars:
    „aðrar leiðir kunna að evra til að sama marki“

    Freudian slip? „vera“ = „evra“?

    Sjálfstæðisflokkurinn mun þó stoppa evruna líka, og mun ekki þurfa að hafa meira fyrir því en að stoppa þetta mál í gær.

  • Mörður Árnason

    Örugglega freudískt 😉 — en leiðrétti þetta samt … takk // Mörður

  • Ég treysti því að þið látið ekki Sjálfstæðisflokkinn komast upp með að traðka bæði á vilja meirihluta Alþingis og kjósenda.

    Það er skylda ykkar, ríkisstjórnarinnar og meirihluta Alþingis, að sjá til þess að það verði ekki. Ykkur ber að tryggja að kjósendur geti sagt álit sitt á frumvarpi að nýrri og endurskoðaðri stjórnarskrá 30. júní í sumar.

    Annað væru, að mínu áliti, ekkert annað en svik. Aðeins þarf til vilja og kjark og skyldurækni.

    Þið hafið hér tækifæri til að endurheimta eitthvað af virðingu og stuðningi landsmanna. Grípið það.

  • Ómar Kristjánsson

    Auðvitað ber Sjallaflokkur einn og óskiptur ábyrgð á nastýheitunum. Eh það var hann sem málþófaðist!

    Sérkennilegt hvernig innbyggjarar hérna hlaupa strax til og réttlæta Sjallíska bræðralagið.

  • Ómar – réttæti er ópólitískt.

    Að vera að dunda sér við að kenna þingmönnum sjálfstæðisflokksins um vandræðaleg vinnubrögð þingmanna VG og Samfylkingar er náttúrulega bara kjánalegt.

  • Ómar Kristjánsson

    Auðvitað er það SF&VG að kenna að Sjallíska Bræðralagið er undirlagt af spillingarmarnipúleringu ásamt nastýheitum allrahanda.

    þetta vita menn.

  • Gunnar Gunnarsson

    Fremstur málþófsmanna á Alþingi um árabil hefur verið Mörður Árnason og helstur þingdóni. Tvær konur þar af önnur samflokkskonan Ólína Þorvarðardóttur hrukku undan dónaskap hans út úr þingnefnd – eða var ekki svo Mörður?

    Mörður er nasty þingmaður.

  • Já og það er spurning með t-ið í fyrra orðinu.

  • jæja, sjallarnir hafa haft meistarana í málþófi í mörg ár til að læra af…virðist þeir hafi pikkað eitthvað upp af þeim.

  • Hreggviður

    Hreint ótrúlegt að lesa sum kommentin hérna.
    Höfundar þeirra sjá ekkert athugavert við framgöngu sjalla, sjá ekki sólina fyrir þeim. Trúlega gætu framámenn sjalla gert hvað sem er, jafnvel það ljótasta sem hægt er, samt myndu þessir kommentörar mæra dæmið í hástert.

  • Burtu með ykkur alla gömlu þreyttu vargana sem búnir eruð að rífast og skammast eins og smábörn sl 30 ár.
    Fjórflokkurinn verður að átta sig á þeirri staðreynd að þjóðin er komin með uppí kok af þessum ónytjungum sem ekki geta stjórnað og skaffað sæmileg lífskjör með neinu móti, nema handa sjálfum sér, styrktaraðilum sínum og pólitískum viðhengjum hingað og þangað……og á kostnað annara.

  • Klúður, ófyrirgefanlegt klúður. Það verða fleiri en Sjálfstæðismenn sem verða rassskelltir í næstu þingkosningum.

  • Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, orðar þetta ágætlega í dag í pistli sem Mörður – og ansi margir fleiri – hefðu gott af að lesa. Pistilinn, sem endar á orðunum „það er mikil blessun, en alls ekki bölvun, að þjóðin skuli ekki verða spurð álits“, finnið þið hér:

    http://www.visir.is/althingi-tharf-ad-vanda-sig/article/2012703319923

    Nú erum rétt um 390 dagar til næstu þingkosninga, og ef eitthvað réttlæti er til í heiminum mun Mörður, og 62 vinnufélagar hans af svipuðum kalíber, þurfa í kjölfar þeirra að mæla göturnar og leita sér að nýrri vinnu. Allt þetta fólk á þingi er algerlega óbrúkanlegt í þetta starf.

  • Jóna Jóns

    Eins og ástandið er á landinu legg ég til að ríkisstjórnin taki sér mest 2 vikur í sumarfrí. Hér þarf að bretta upp ermar og allt of margt hefur verið látið danskast og árangur ríkisstjórnarinnar er klén eftir hrun.
    Farið að vinna gott fólk – til þess eruð þið kosin og fáið greitt.

  • Jóna Jóns; Það er ekki spurningin um magn…heldur gæði.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur