Laugardagur 31.03.2012 - 13:33 - 9 ummæli

Meira myrkur!

Gott tækifæri í kvöld til að átta sig á myrkurgæðum og ljósmengun, stjörnuhimni og orkusóun – nú á að slökkva á jörðinni eina klukkustund, milli 20.30 og 21.30 meðan líður „stund jarðar“ – earth hour / jordens time / l’heure de la terre … um allan heim.

Borgin ætlar að slökkva á flestum götuljósum – sem vonandi verður gert í fleiri sveitarfélögum, og við erum hvött til að draga líka úr ljósum heima hjá okkur einsog hægt er. „Jarðarstundin er vitundarvakning í umhverfismálum þar sem bæði yfirvöld og borgarar í hverju landi hugsa um að hver og einn geti lagt sitt af mörkum til að efla virðingu gagnvart umhverfinu, sporna gegn sóun og temja sér nægjusemi við nýtingu auðlinda,“ segir á Reykjavíkurvefnum um þennan klukkutíma sem nú er vonast til að framkalli meira myrkur en nokkru sinni síðan 30. mars var tekinn frá fyrir þennan viðburð fyrir fimm árum. Það var víst í Sidneyborg beint fyrir neðan fæturna á okkur. Hálfu ári fyrr, 28. september 2006, var reyndar gerð myrkurtilraun í Reykjavík og slökkt á götuljósum einsog hægt var – þá sást að götuljósin eru engan veginn ein um að eyða myrkri í borginni, Þar hjálpast að stofnanir og fyritæki með mikla þarflitla flennilýsingu, kastljós að merkum byggingum sem lýsa upp miklu meira svæði en ætlunin var, og auðvitað við íbúarnir með allskyns ljósagang sem upp er komið í hálfgerðu hugsunarleysi. Reyndar er þetta líka hönnunarmál, því það skiptir verulegu máli að fólk geti átt kost á ljósum með skermum og takmörkun lýsingar á þokkalegu verði, til að lýsa upp það sem þarf að lýsa upp en ekki gjörvallt nágrenni sitt og jafnvel innum glugga hjá grönnunum.

Menn hrista ennþá hausinn yfir svona ræðum: Getur blessað fólkið ekki fundið uppá einhverju merkilegra að tala um? – en samt er um allan heim að vaxa skilningur á göllum við ljósmengun – óþarfri lýsingu sem skerðir myrkurgæði. Upphafið er hjá stjörnufræðingum og stjörnuáhugamönnum, sem sífellt hafa þurft að flýja lengra og lengra frá byggðum til að skoða næturhimininn. En sú sýn lokast líka venjulegu fólki og uppvaxandi kynslóðum. Á venjulegri skýlítilli nótt í Reykjavík sjást í mesta lagi nokkrir tugir af stjörnum. Vetrarbrautin er varla til nema sem uppsláttarorð í alfræðibókum. Og ferðamenn sem vilja skoða norðurljósin þurfa sífellt meiri akstur langt útfyrir höfuðborgarsvæðið.

Nú er komin af stað nefnd sem Svandís umhverfisráðherra var svo væn að skipa til að fara yfir myrkurgæði og ljósmengun – formaður er einmitt yðar einlægur. Við höfum fengið á okkur ýmislegt ágætt grín, nokkrar hnútur, en margir eru líka einlæglega glaðir að stjórnvöld skuli sýna málinu áhuga. Við ætlum okkur að kanna stöðuna á Íslandi, kynna okkur hvað er verið að gera best í öðrum löndum, og leggja fram ráð um aðgerðir hér og mælikvarða sem hægt sé að miða við hjá sveitarfélögum, stofnunum og fyrirtækjum.

Jarðarstund einsog í kvöld getur vakið almennan áhuga á myrkurgæðum og yndi næturhiminsins – það þarf nefnilega myrkur til að njóta ljóss. Veðurspáin er að víu ekkert sérlega hagstæð hinum alstirnda næturhimni en slökkvum samt í kvöld. Í klukkutíma frá hálf-níu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Með fullri virðingu fyrir þér, þá var nú myrkrið aldrei talið til sérstakra gæða þegar ég var að alast upp.

  • Sigurður Unuson

    Garðyrkjumaðurinn hlýtur að geta séð hversu mikilvægt myrkur er plöntur til að vaxa, þó það sé jafnvel ennþá mikilvægara fyrir dýr og þá sérstaklega manninn að leggja út af vananum upplifa myrkrið.

  • Sælir.
    Þið ættuð nú að reyna kveikja á nokkrum perum greyin mín.
    Ekki sjáið þið ljósið handa við hornið.

    Myrkrið hefur verið tengt við öll hin illu myrkraöfl.

    Ég læt ljósið loga í kvöld svo orkuveitan fái fleiri krónur frá mér og komist fyrr út úr sínum erfiðleikum sem stjórnmálamenn og aðrir vitleysingar komu henni í.

  • Eyjólfur

    Best að skella þvottavélinni í gang tómri kl 20:30 til að núlla út nokkra vitleysinga.

  • Eiríkur S. Þorláksson

    Mörður Myrkrahöfðingi, er ekki nóg myrkur á Íslandi?

    Með er með langt skammdegi, frá seinni hluta okt – seinni hluta feb., svo við ættum að fagna birtunni.

    Margir eru hræddir í myrkvi, auk þess að margir leggjast í þunglyndi út af myrkvi, svo hvers vegna á eyða tíma og fjármunum í myrkvirannsóknir?

    Þetta er eitt fáránlegasta gæluverkefni sem ég hef vitað um. Og eru þau orðin mörg síðan vinstri-stjórnin tók við.

  • Eyjólfur

    Þetta svínvirkaði. Um það bil 25 vel meinandi (en illa upplýstir) granólahippar núllaðir út. Success!

  • Eru virkilega engin takmörk á helv,,vitleisunni sem þessari óstjórn dettur í hug til að koma bitlingunum til skósveina sinna,,,,ljósmengun??? Að bera svona rugl á borð hjá fólki lýsir vel því áliti sem þú hefur á kjósendum,,þú munt uppskera eftir því í næstu kosningum,þá losnum við loksins endanlega við þig

  • Sæll Mörður; og aðrir gestir, þínir !

    Myrkur dálæti þitt; er fyllilega í samræmi við tómhyggju og vesaldóm flokks ræksnis, ykkar kratanna – og þá Steinaldarhyggju, sem þið farið fyrir, fremstir rusl flokkanna, 4ra.

    Hvarvetna; þar sem gætir einhverrra athafna, í eðlilegu og uppbyggilegu atvinnulífi landsmanna, skuluð þið jafnan leggjast, eins og mara, á viðkomandi.

    Gildir þar einu; hvort : Sjávarútvegur – Landbúnaður eða Iðnaður, eigi í hlut, og bezt væri ykkur Möppu lifnaðar áhangendum komið, í iðjuleysis- og niðurrifs Musterum, Brussel valla.

    Þar um slóðir; ilmar loftið, af rakspíra hvítflibbanna – sem og ilmvötnum blúndukerlinganna, ekki; Olíu- og Glussa af höndum vinnandi fólks.

    Með kveðjum; öngvu að síður, úr Árnesþingi /

    Óskar Helgi Helgason

  • Eiríkur S. Þorláksson

    Já, stjórnastefna vinstriaflana er tómt myrkur.

    Þetta lið vill að við brjótumst til fátæktar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur