Sunnudagur 29.07.2012 - 14:14 - 5 ummæli

Spinn, spinn á miðju sumri

Gúrkurnar spretta á sumrin, kringum hitt og þetta, og nú síðast segjast fréttir af gúrkuuppskerunni í garði Samfylkingarinnar – málhress almannatengill er búinn að finna út að Jóhanna segi af sér eftir mánuð, og Orðið á götunni (aldrei skilið það Eyjardálksheiti) segir frá því að ef Jóhanna hættir ekki bráðum ætli örvæntingarfullur hópur þingmanna og þingmannsefna barasta að stofna nýjan Alþýðuflokk.

Ég er greinilega ekki í þessum örvæntingarhópi enda hef ég ekkert orðið var við tíðindin – fyrir utan þrár og drauma einstakra félaga minna, sem er auðvitað eðlilegur hluti af tilveru unga fólksins. Svo man ég of skýrt eftir gömlu alþýðuflokkunum til að detta í nostalgíur.

Spyrjum að leikslokum

Aðalástæðan er í þessum spásögnum sögð fullvissa um hörmulegt gengi Samfylkingarinnar í kosningunum í apríl. Kannanir eru flokknum ekki sérlega hagstæðar þessa mánuði – en satt að segja hafa kannanir um þetta leyti lítið forsagnargildi um kosningaúrslit. Í tólf ára sögu hefur Samfylkingin gengið fjórum sinnum í gegnum þingkosningar – og kannanir árið áður hafa aldrei verið verulega nálægt úrslitunum sjálfum. Enda ráðast niðurstöður kosninga af mörgum þáttum öðrum en kannanafylgi á kjörtímabilinu, þótt þær tölur séu mikilvægar á hverjum tíma. Einn af þessum þáttum er heildarframmistaðan síðan síðast, og annar auðvitað krafturinn í kosningabaráttunni – og í hvorugri þessari deild er nein ástæða til örvæntingar af hálfu okkar í Samfylkingunni. Vorið 2007 mældist flokkurinn með 18% í mars en fékk svo 27% í maí með góðri kosningabaráttu. Þessi úrslit voru svo nýtt til að fara í afspyrnuvonda ríkisstjórn, en það er önnur saga.

Ríkisstjórnin sem skilar af sér næsta vor hefur ekki búið við vinsældir – en hinsvegar skilað miklum árangri sem nú er að verða alveg heiðskír. Fyrirfram er full ástæða til að ætla að sá árangur nýtist jafnaðarmönnum til að bjóða kjósendum nýjan samning um samstarf. Þar skiptir auðvitað máli hvaða áherslur verða uppivið hjá kjósendum og öðrum framboðum. Mér sýnist núna að stóra spurningin ætli að verða um markmið og leiðir um efnahag og lífskjör, jöfnuð, velferð og skatta. Þar þarf Samfylkingin engu að kvíða. Vonandi snúast kosningarnar líka um atvinnustefnu og græna hagkerfið, um tækifæri og hættur í umhverfismálum, um menntir og menningu – ekki heldur þar þurfa jafnaðarmenn að skammast sín.

Traust almennings hér og annarstaðar í okkar heimshluta hefur snarminnkað til helstu stofnana samfélagsins, þar á meðal þings og stjórnmálaflokka. Það eiga þessar stofnanir sannarlega skilið – þær brugðust við að stýra framhjá kreppu og hruni, og létu nota sig til að skapa aðstæðurnar fyrir hrun og kreppur. Við þennan vanda glímir auðvitað forustuflokkur í stjórnarsamstarfi á Íslandi, og enn eigum við í þessum flokki brekku eftir við lýðræðisumbætur, bæði í samfélaginu öllu og í innra starfi. En líka hér hefur Samfylkingin gert betur en önnur skipuleg stjórnmálaöfl.

Allt hefur sinn tíma

Alfa og ómega í sumarspunanum um gengi Samfylkingarinnar, hvort sem hann nú er runnin upp í Valhöllu eða nær heimatúnum, sýnast vera spurningar um formennsku í flokknum, og spinnendur láta einsog í gangi sé mikil óþreyja að vita um fyrirætlanir Jóhönnu Sigurðardóttur. Þá er að minna á þau orð Predikarans að allt hefur sinn tíma. Og enn stendur einmitt tími Jóhönnu Sigurðardóttur, sá sem koma mundi. Hvort sem mönnum er ljúft eða leitt er staðan einfaldlega þannig að hún ræður sjálf sínum málum fram að landsfundi sem líklega verður í febrúar. Gefi Jóhanna kost á sér áfram, með skýrum áherslum um árangur og áfanga næstu árin, fengi hún hiklausan stuðning, meðal annars frá yðar einlægum. Þetta kemur væntanlega í ljós í haust – í október eða nóvember. Þangað til höfum við nóg að gera.

Þrár og draumar eru hinsvegar ágæt hvatning til góðra verka. Má þá gilda einu hvort að lokum verður farin sú ferð sem þrárnar vakti.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Þú greinir ekki frá hugsanlegum formannsefnum í spunagreiningunni.

    Um leið og nöfn hugsanlegra arftaka fara óma í umræðunni hefst verulegur þrystingur á Jóhönnu.

    Nú er hin tandurhreina Sígríður Ingibjörg Ingadóttir farin að dreyma um nýjar vegtyllur og gefur því undir fótinn að fara fram sem formaður.

    Árni Páll hægri krati hefur verið nefndur á nafn, sömuleiðis Guðbjartur.

    Og þá er komið að Jóhönnu sjálfri að stíga fram og þagga niður í þessum röddum — ef hún ætlar á annað borð að halda áfram — sem þú hefur auðsýnilega tekið að þér. Fyrir hennar hönd og hennar frumkvæði?

  • Hér ertu kannski að gera að því skóna að Árni Páll sé ekki þinn maður:

    „Ég er greinilega ekki í þessum örvæntingarhópi enda hef ég ekkert orðið var við tíðindin – fyrir utan þrár og drauma einstakra félaga minna, sem er auðvitað eðlilegur hluti af tilveru unga fólksins. Svo man ég of skýrt eftir gömlu alþýðuflokkunum til að detta í nostalgíur “ — þ.e.a.s um hægri krata og sterka foringja. M.ö.o.: Jón Baldvin Hannibalsson.

    Það er auðsýnilega „no-no“ í þínum skilaboðum — enda er Árni Páll hvort sem er ekki sá innblásni maður sem JBH var á sinni tíð.

    Árni Páll er of þægilegur. Hann er afar sólbrúnn maður í bláum jakkafötum.

  • Eiður Guðnason

    Líklega þekkti Mörður Árnason gamla Alþýðuflokkinn aðeins af afspurn og í gegnum Þjóðviljagleraugu af Skólavörðustígnum. Kommúnistar hötuðu Alþýðuflokkinn. Í þeirra augum voru Alþýðuflokksmenn landssölumenn og svikarar. Um þá skrifaði Þjóðviljinn ævinlega á þeim nótum.

  • Mörður Árnason

    Ég komst til unglingsþroska seint á viðreisnarárunum og man fyrst eftir Alþýðuflokknum þá — og hann var satt að segja ekki þannig að ungt fólk langaði til að efla við hann kynni. Þó skynjaði maður strax að Gylfi Þ. Gíslason væri líklega merkilegur stjórnmálamaður. Síðar átti ég ýmiskonar samleið með Alþýðuflokknum og Alþýðuflokksmönnum, og man skýrt eftir upplifun sem blaðamaður Þjóðviljans á flokksþinginu 1984, þegar JBH vann Kjartan — þeta var nákvæmlega sama fólkið og nákvæmlega sömu umræðuefnin og á samskonar þingum hjá hinum a-flokknum, Alþýðubandalaginu. Nákvæmlega þarna varð ég sameiningarsinni. Vann svo með Alþýðuflokksmönnum á Nýjum vettvangi 1990, kynntist ýmsum þeirra vel í Þjóðvaka 1994, og svo vorum við úr nokkrum flokkum og flokkahópum að búa til Samfylkinguna næsta áratuginn. Gekk aldrei í þennan merkilega félagsskap en kallaði mig stundum ,,vin Alþýðuflokksins“, tel mig nú meðal arftaka hans í íslenskum stjórnmálum og er stoltur af því á flesta vegu.

    Skal svo blogga einhverntíma um það afhverju A-flokkarnir vekja ekki með mér fortíðarþrá eða uppvakningshvatir — en ágæti Eiður Guðnason, hlífðu mér framvegis við kaldastríðsnótum um kommúnisma og landsölustefnu.

  • Steingrímur Jónsson

    Félagi Mörður

    Vilt þú að Jóhanna Sigurðardóttir geri sömu mistök og Gordon Brown gerði þjóð sinni? Ef að Gordon Brown hefði stigið til hliðar í aðdraganda kosninganna 2010 væri sennilega ennþá stjórn verkamannaflokksins.

    Hvort sem það er málefnalegt eða ekki þá beinist mesta gagnrýnin á stjórn landsins ekki að stefnunni heldur þeim einstaklingum sem hafa staðið fyrir.

    Hvað mig varðar þá missti ég trúna á Jóhönnu Sigurðardóttur við ESB umærðina vorið 2009. Það eina sem Samfylkingin hafði samið um í stjórnarsáttmála var að ESB umsók fengi þinglega meðferð. Það þýddi einfaldlega að þó að það væri ekki samstaða um ESB málið milli stjórnarflokkanna þá var það verkefni Samfylkingar að landa málinu – eda var ljóst að með (þá) Borgarahreyfingunni, hluta Framsóknarflokks, Jóni Gunnarssyni, Þorgerði, Ragnheiði Ríkharðs og fleirum að það var meirihluti fyrir aðildarumsókn.

    Það sem ég hugsaði var: Frábært!!! Loksins er komið dæmi um það hvernig hægt er að leysa ágreiningsefni milli stjórnarflokka: Flokkarnir samþykkja að vera ósammála og láta þingið ráða!

    En Jóhanna, Össur ofl. klúðruðu málinu og fóru að hóta samstarfsflokknum. Jóhanna dró þingmenn afsíðis og þeir skiptu um skoðun.

    Þar með var stuðningur minn við Jóhönnu farinn og hefur ekki komið aftur.

    Þú hlýtur að vera sammála því, Mörður, að það er algjört aukaatriði að stjórnmálaflokkur beri nafn Samfylkingar, Alþýðuflokks eða Betri framtíðar. Aðalmálið er að við öll höfum jöfn tækifæri til að spjara okkur í þjóðfélaginu.

    Er það ekki stóra málið?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur