Föstudagur 27.07.2012 - 11:47 - 11 ummæli

Illugi staðfestir leiftursóknina

Morgunblaðið birtir í dag grein eftir Illuga Gunnarsson í stúkuplássinu á miðopnu (undir stórri mynd af Ólafi Ragnari Grímssyni í London!), og þar staðfestir Illugi þá nýju stefnu flokksformanns síns frá um daginn að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að boða meiri niðurskurð í velferðarþjónustu og samfélagsinnviðum.

Þetta er fagnaðarefni – því það voru ekki allir alveg vissir hvað Bjarni var að meina. Stundum hrekkur ýmislegt upp úr mönnum í sjónvarpsviðtölum, ekki síst í pólitískri lognmollu á miðju sumri. En nú er þetta klárt. Illugi og Bjarni hafa undanfarin ár myndað einskonar pólitískt tvíburamerki innan flokksins, voru fyrir nokkrum árum gagnrýnir á Davíðsarminn og gældu við Evrópusambandið, berjast nú við að halda flokknum í einu lagi og sjálfum sér í fararbroddi. Þeir sem fylgjast með frá degi til dags vita að það sem Bjarni segir hefur hann borið undir Illuga, og það sem Illugi segir er einsog formaðurinn hafi sagt það.

Hægri – vinstri

Illugi rekur þau almælt sannindi að menn eiga ekki að safna skuldum, því þær hefna sín síðar með afborgunum og vöxtum, og í tilviki ríkisins dregur aukin vaxtabyrði úr útgjaldamöguleikum, rýrir lífskjör okkar sjálfra síðarmeir, kemur niður á næstu kynslóðum. Þessvegna á að skera meira niður, segir Illugi. Passar sig að tala ekkert um Sparisjóð Sjálfstæðismanna í Keflavík og hallaaukninguna hans vegna á ríkisreikningnum 2011, hvað þá um fyrri hrunreikninga.

Niðurskurðinum á svo að fylgja mikil lækkun skatta. Lítur vel út. Minnka ríkisbáknið, fá meiri peninga sjálfur. Þá gleymist að bæði fjölskyldur og fyrirtæki byggja afkomu sína að verulegum hluta á sameiginlega sjóðnum, og niðurskurður í sameiginlegum útgjöldum kemur fljótt niður á fólki og atvinnulífi með margvíslegum hætti.

Ríkisstjórnin sem tók við eftir hrun ákvað – með stuðningi frá AGS – að fara aðra leið. Hana kalla tæknimenn stundum „blandaða“: Spara einsog hægt er í ríkisbúskapnum, þar sem sumstaðar hefur verið skorið inn að beini einsog heyra má kvartað daglega um, en halda þó velferðarþjónustunni í þolanlegu lagi þannig að samfélag okkar tæki ekki eðlisbreytingum, verja einsog verða mætti kjör lág- og meðaltekjuhópa, hlífa menntakerfinu, styrkja innviði, þar á meðal í samgöngum, þannig að grunnþættir væru fyrir hendi til endurreisnar og sæmilegrar framtíðar. Að auki þarf ríkissjóður að fá tekjur, meðal annars með hærri sköttum. Þeir þyngdust fyrst og fremst hjá tekjuhærri hópunum og þeim fyrirtækjum sem voru vel aflögufær. Eftir skattahækkanir er skattastig á landinu þó heldur lægra en í flestum grannlandanna. Með þessu móti hefur tekist í stórum dráttum bæði rústabjörgun log endurreisn, og skal þó ekki gert lítið úr vandræðum ótal fjölskyldna vegna skuldavanda og atvinnuþrenginga. En nú skynja allir að það er bjartara framundan en mörg síðustu missiri – þrátt fyrir nýja reikninginn frá Sjálfstæðismönnum í Keflavík.

Alþjóðleg endurspeglun

Þessar mismunandi stefnur endurspegla auðvitað ákafa umræðu um efnahagsmál utan landsteinanna, ekki síst í Evrópulöndum, en þeir Illugi og Bjarni eru þó einkum í samhljómi við breska íhaldsmenn og repúblikana í Bandaríkjunum.

Leið Illuga, Camerons og Romneys, að skera niður og lækka skatta, veldur því að eignamenn og stórfyrirtæki fá meira í sinn hlut en hagur lág- og meðaltekjuhópa versnar. Hún dregur úr samneyslunni, ójöfnuður eykst, samstaða minnkar í þjóðfélaginu. Ávinningur fyrirtækja og atvinnulífs, sem til stóð að högnuðust á öllu saman, verður í heildina óburðugur, því átök aukast á vinnumarkaði, erfiðara verður að fá menntað vinnuafl, og kaupmáttur minnkar meðal alls almennings.

Í Evrópulöndum þykir sýnt að niðurskurðarleiðin – sem Merkel kanslari predikar einkum fyrir öðrum þjóðum en sinni eigin – hefur gert illt verra í ríkjum einsog í Grikklandi, á Írlandi, í Portúgal. Hægristjórnin á Spáni virðist stefna í sömu átt og Illugi vill hér, en um árangur af þeirri línu er mjög efast innanlands og utan, þar á meðal á hinum frægu mörkuðum. Á móti setja bæði stjórnmálamenn, svo sem Hollande Frakklandsforseti, og fræðimenn, svo sem hinn bandaríski Krugman, svipaða leið og hér hefur verið farin, nefnilega að verja velferð og lífskjör, fjárfesta í innviðum og frumkvæði í atvinnulífi. Engum á meginlandinu dettur svo í hug að lækka skatta í nýfrjálshyggjustíl.

Botninn í Borgarfirði

Illugi Gunnarsson á svo sannarlega skilið þakkir fyrir að setja fram hina nýju leiftursóknarstefnu Sjálfstæðisflokksforystunnar skýrt og afdráttarlaust – og skiptir þá litlu þótt stefnumótun þeirra Bjarna kunni öðrum þræði að spretta af sókn hægriafla innan flokksins. Ennþá er botninn samt suður í Borgarfirði hjá þeim félögum. Þeir verða að segja okkur meira: Hvar á að skera niður? Á Landspítalanum? Í Háskóla Íslands? Í fjárveitingum til samgönguframkvæmda? Barnabætur og ellilífeyrir?

Til svara gefast Illuga og Bjarna góð tækifæri við umræðu um fjárlög núna í haust. En þá þarf að tala skorinort.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Sæll Mörður, samanlagður fjárlagahalli síðustu þriggja ára nemur um 350 milljörðum og er hann langt um meiri en áætlanir AGS gerðu ráð fyrir. Þær áætlanir miðuðust við að afgangur yrði að rekstri ríkissjóðs á næsta ári.

    Allir viðurkenna að umframhallarekstur hefur leitt til þess að það markmið mun ekki nást. Matsfyrirtæki á borð við Moody’s benda á að skuldastaða ríkissjóðs sé áhyggjuefni. Skuldasöfnun dagsins í dag verður eðli málsins samkvæmt að skattbyrði morgundagsins.

    Nú spyr ég þig hvort að það sé ekki stefna þíns flokks að ná ekki markmiði um afgang í ríkisfjármálum á næsta ári? Ef svo er telur þú að því markmiði verði náð eingöngu með hækkun skatta?

  • Gunnar J.

    Sæll Mörður,

    Ertu að grínast með Sparisjóð Keflavíkur? Hann var endurreistur af þinni ríkisstjórn árið 2010. Þó að einhverjir sem þar hafa unnið kjósi Sjálfstæðisflokkinn þá er ansi bratt að hlaupa svona frá því risa stóra klúðri.

    Það er í samræmi við hugmyndafræði ykkar að hafa starfandi „samfélagslega“ sparisjóði og þess vegna voru þeir endurreistir og fór sem fór. 100% á ykkar reikning.

    Virðingarfyllst,
    Gunnar J.

  • Þetta eru ágætar fréttir og gott að fá þetta á hreint.

    Vonandi hefst leiftursóknin sem fyrst.

  • Illa rekinn sp-kefsjóður, rangar upplýsingar (jafnvel falsaðar) um eignastöðu sjóðsins eru 100% á ábyrgð stjóra og stjórnenda sp-kefsjóðsins, sem flestir eru með skirteini í sérhyglisflokknum,sem kenndur er við sjálfstæði,að ógleymdum formanni verkalýðsfélags kef,sem jafnframt var formaður lífeyrissjóðsins,sem flestir suðurnesjamenn/konur eiga eftirlaunin sín,þeir gengu um einsog þeir ættu hann einir, enda búið að gera þeim það kleift með afnámi regluverksins (frelsi án ábyrgðar) Gunnar J. Það sem er í boði ríkisstjórnarinnar er að þeir ganga ennþá lausir meintir ræningjarnir, vegna þess að kennitöluflakk hefur ekki verið afnumið og þarafleiðandi ekki eignaupptaka á meintum ræningjum Gunnar J. Ég vænti þess að Mörður og sem flestir aðrir þingþjónar láti til sín taka á komandi kosningavetri og kippi þessu í lag, Þar sem svik og prettir eru,þar eru sérhyglissjálfstæðismenn/konur í áberandi meirihluta,þannig er veruleikinn.

  • Meh. Neyðin rak VG til hægri efnahagslega og hefði rekið XD til vinstri efnahagslega, stjórnmálamenn elta skoðanir fólksins. Ég er fullkomlega ósannfærður um að niðurstaðan hefði orðið mjög ólík því sem hún er í dag.

    Gaspur í stjórnarandstæðingum er yfirleitt nákvæmlega það, gaspur, sama hvaða flokkur er í því hlutverki.

  • Þórarinn Örn Andrésson

    Ekki það að ég búist við því að Mörður svari hér nokkru af því að hann virðist ekki leggja í það svona vanalega.
    En málið er eimmitt það sem Halldór nefnir hér að ofan. Ríkið er rekið með mjög miklum halla og við þannig aðstæður er ekki annað hægt en að skera niður og spara. Hallinn er það mikill að það er ekki hægt að brúa hann með skattahækkunum einum saman.
    Það sem ekki er hægt að skilja er afhverju Merði finnst í lagi að núverandi kynslóð passi sín opinberustörf og sitt velferðarkerfi en ætli að láta næstu kynslóðir um að borga það. Hvernig á næsta kynslóð að borga fyrir sitt velferðarkerfi?

    Það sem Illugi staðfestir, ef svo má að orði komast, er leiftursókn í það að reyna að jafna útgjöld og tekjur ríkissjóðs. Það er allt og sumt.

  • Þórður Björn Sigurðsson

    Sæll Mörður

    ,,Blandaða leiðin“ gæti átt séns ef ekki væri fyrir ósjálfbæra skuldastöðu. Þess vegna þarf að endursemja um allar opinberar skudir svo afborganir og vextir ógni ekki velferð þjóðarinnar.

    Um óskynsemi ,,leiftursóknarinnar“ erum við sammála.

    Bestu kveðjur,
    Þórður Björn

  • Haukur Kristinsson

    Niðurskurður í ríkisútgjöldum eða “sparnaður” er óhjákvæmilegur. Og ekki aðeins hér á skerinu, heldur í öllum Evrópulöndum. Við lifum ekki endalaust um efni fram.
    Lækkun skatta er hinsvegar bull afturhaldsmanna í takt við bandaríska repúblíkana. Skýrt kom í ljós í London þessa dagana að þeirra maður, Mitt Romney, er “silly”. Eða eins og Carl Lewis sagði; margir Bandaríkjamenn ættu aldrei að fara út fyrir landsteinan.
    Það sam mætti segja um margan mörlandann. Til dæmis forsetagarminn. Dabbi var nógu skynsamur og hélt sig mest heima.
    Annars þurfa vinirnir Bjarni Vafningur og Illugi Níundi ekki að draga upp neinar áætlanir um ríkisrekstur. Sjallarnir verða ekki í næstu ríkisstjórn. Innbyggjarar muna enn vel eftir aulagangi Dabba + Dóra. Vilja ekki að íslenska ríkið verði rekið eins og Saga Capital, Sjóvá eða SpKef.
    Næsta ríkistjórn verður mynduð af Jafnaðarmönnum undir nýrri forustu, event. Stefáns Ólafssonar, Vinstri grænum og 2 nýjum flokkum.
    Vill einhver veðja?

  • Mörður Árnason

    Menn hafa lesið pistil minn illa ef þeir gagnrýna mig fyrir að vilja ekki sparnað í ríkisrekstri. Það er hárrétt hjá Hauki að hvorki Íslendingar né grannar okkar í Evrópu — fer ekki lengra í bili — geta leyft sér að lifa um efni fram. Það gerðum við einmitt á góðæris- og eignagleðitímunum þegar Illugi var aðstoðarmaður Davíðs og fólki var talin trú um að gervihagvöxturinn væri náttúrulögmál. Eftir hrun hefur hinsvegar reynt á leiðir, og gerir enn í grannlöndunum. Okkar leið hefur verið niðurskurður án þess að eyðileggja innviði og félagslegar grunnstoðir, og henni hafa vissulega fylgt skattahækkanir. Leiðin sem Bjarni og Illugi boða er meiri niðurskurður, sem ekki fer annarstaðar fram en í velferðarþjónustu og menntakerfi, plús skattalækkanir í gömlum nýfrjálshyggjustíl sem hvergi hefur gengið upp, allra síst hér á bóluárunum.

    Þetta er einsog ég segi pólitískt val — en hugsanlega er það rétt hjá Páli að jafnvel xD hefði ekki lagt í leiftursóknarlínuna missirin eftir hrun, því í hana vantar efnahagslega skynsemi einsog nú er löngu í ljós komið í Grikklandi, Portúgal, Írlandi. Atvinnulaust fólk án velferðarnets er ekki burðugir þátttakendur í hagkerfinu og búa ekki til ýkja mikinn hagvöxt með vörukaupum sem neytendur …

    Fróðlegt að sjá hvað sumir eru viðkvæmir fyrir Sparisjóði Snillinganna í Keflavík … líklega verst reknu fjármálastofnun á landinu og er þá mikið sagt! Með neyðarlögunum var sá einn uppi að verja innistæðueigendurna — og það kostaði einfaldlega 20 milljarða þegar upp var staðið. Þeir sem hæst hafa um þetta hljóta að benda á aðrar lausnir hugsanlegar, gagnvart jafnræðisreglunni annarsvegar og hinsvegar gagnvart eigendum innistæðna á Suðurnesjum, ekki síst lífeyriseigendum. Hitt er svo rétt að manni finnst skrýtið að ábyrgðarmenn SpKef skuli yfirhöfuð ganga lausir …

  • Einstaklega sannfærandi fréttaskýring.

    Vona að Samfylkingin fari ekki á taugum og leiti í smiðju þeirra félaga fyrir næstu kosningar.

  • Ómar Kristjánsson

    það sem sjallar eru líka skelkaðir við eða vilja ekki er, að núv. stjórnvöld muni hugsanlega framkvæma einhverjar ,,vinsælar“ aðgerðir og slíku fylgir oft peningaútlát – sem muni svo koma þeim vel í komandi þingkosningum. þessvegna hamra þeir á þessu sko. Að það eigi að skera niður etc.

    Strategían er þá að downplaya fyrirfram hugsanlegar aðgerðir núv. stjórnvalda o.s.frv. – og síðan er þeir etv. fara í stjórn geti þeir svo sagt: Fv. stjórnvöld eyddu svo miklu og nú verður að skera heilbrigðiskerfið og skólann við trog.

    það er þannig sem strategían er sirkabát. Allt hannað á auglýsingastofum og PR deildum í skúmaskotum Valhallar.

    Eg mundi segja að vandi Sjallaflokks þessu viðvíkjandi er, að BB jr. er ekkert góður leikari. Frekar ósannfærandi þegar hann kemur í lykilatriðum fram á sviðið og eins og ekki vel inni í söguþræðinum og skilji ekki alveg handritið sem verður til að leikur hans er, á köflum, afar vandræðalegur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur