Mánudagur 03.09.2012 - 12:10 - Rita ummæli

Nýr jeppi í Skuggasundinu

Við hæfi að fagna því nú í septemberbyrjun að tekið er til starfa nýtt ráðuneyti sem sér um umhverfis- og auðlindamál – ráðherra Svandís Svavarsdóttir, til hamingju Svandís, og þið hin öll sem hafið barist fyrir þessu, þar á meðal umhverfisráðherrarnir Þórunn Sveinbjarnardóttir og Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisverndarfólk og áhugamenn um nútímalega stjórnsýslu.

Ætlunin er sú að lagt sé á ráðin um allar auðlindir lands og hafs á einum stað í stjórnarráðinu, einmitt þar sem fjallað er um önnur umhverfismál, náttúruvernd og skipulag. Þar verði sagt fyrir um nýtingarþol þeirra og vernd í nafni alvöru-sjálfbærni, en annað ráðuneyti annist svo stjórnun og þjónustu í þágu atvinnuveganna. Ekki ný hugmynd og í gangi um öll Norðurlönd – en hefur hér mætt mikilli andspyrnu íhalds og sérhagsmuna í pólitíkinni og meðal atvinnurekenda sem stundum láta einsog Páll Watson sé mættur á svæðið ef þeir þurfa að sinna einhverju sem byrjar á umhverfis-.

Jón Gunnarsson alþingis- og hvalveiðiáhugamaður er varla með hýrri há eftir þessar breytingar. Hans hugmynd um stöðu umhverfismála í stjórnarráðinu er sú að í hverju ráðuneyti eða skrifstofu atvinnuveganna sé svolítið afherbergi þar sem sinnt er umhverfismálum. Þannig séu þau málefni á hæfilegum stað í skipuritinu og til þess séð að góðir menn geti farið með athugasemdir úr afherbergjunum einsog passar stórkörlum. Hélt lengi að þetta væri bara fixídea hjá Jóni – en svo sá ég að Samtök atvinnulífsins eru sama sinnis …

Framfarastökkið: Veiðimálastofnun!

Það slær aðeins á fögnuðinn yfir hinu nýju ráðuneyti að breytingin virðist felast fyrst og fremst í nýju heiti fyrir skrifstofurnar við Skuggasund. Eina ríkisstofnunin í hinu nýja ráðuneyti umfram þær sem heyrðu undir það gamla er Veiðimálastofnun. Með fullri virðingu fyrir merkilegum vatnafiskarannsóknum á þeirri góðu stofnun verða þetta seint taldar grundvallarbreytingar í starfseminni. Í frétt á vef ráðuneytisins nýja eru reyndar talin líka landshlutaverkefni í skógrækt – stórkostlegt! – og svo ÍSOR, sem er alls ekki stjórnsýslustofnun heldur fyritæki í ríkiseigu og ætti eiginlega að vera í fjármálaráðuneytinu.

Fyrir utan stofnanir landbúnaðarins – kannski rétt að bíða með þær þangað til ljóst verður um ESB? – var stóri bitinn auðvitað Hafró. Þessi breyting hefði verið í alvöru ef Hafró með rannsóknir sínar og ráðgjöf hefði flust í heilu lagi til umhverfis- og auðlindaráðherrans. Það varð ekki – hagsmunatengslin reyndust greinilega of sterk. Í staðinn fær nýi um- og auð að skipa menn í stjórnina.

Það var sannarlega aumt – og ekki mikill völlur á hinu Græna framboði að standa svona að málum, því þessi skipting milli ráðuneytanna tveggja hlýtur að vera fyrst og fremst á ábyrgð þeirra Steingríms J. Sigfússonar og Svandísar Svavarsdóttur.

Jeppans dæmi

Ég er bjartsýnismaður af viljastyrk, hvað sem skynseminni líður, og ætla að halda áfram að fagna þessu ágæta ráðuneyti og hinum nýju umhverfis- og auðlindatímum. Umhverfisráðuneytið hefur vaxið og eflst á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðnir eru síðan það varð til.

Sem kunnugt er hófst ferill þess í jeppanum hjá Júlíusi Sólnes – sem reyndar var og er sannur umhverfissinni með sínum hætti. Ég er viss um að nýja ráðuneytið á líka eftir að vaxa fram úr þeim þrönga ramma sem VG-ráðherrarnir hafa nú skapað því.

PS daginn eftir:

Menn hafa spurt mig hvort þetta sé virkilega rétt um SA og Jón Gunnarsson. Ágætt að hafa það alveg á hreinu — bæði atvinnurekendasamtökin og hinn ágæti skuggaráðherra Sjálfstæðisflokksins í hvalveiði- og stóriðjumálum vilja hluta umhverfisráðuneytið í sundur og henda bitunum inn í ,,deildir“ annarstaðar í stjórnarráðinu.

Úr ályktun SA jan. 2011:

Samtökin benda á að jafnframt verði könnuð sú hagræðing sem náðst getur með því að skipta verkefnum umhverfisráðuneytis milli iðnaðarráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis án þess að slaka á efnislegum kröfum í umhverfismálum.

Úr þingræðu JG 13.9. 2011:

Einhverjir þingmenn hafa sagt að umhverfisráðuneyti ætti að vera meginráðuneyti allra ráðuneyta. Í mínum huga er umhverfisráðuneytið dæmi um ráðuneyti sem má leggja niður. Þar væri hægt að spara alveg heilmikið. Það ættu að vera umhverfisdeildir í atvinnuvegaráðuneytunum þannig að við tryggðum hagsmuni á vettvangi, þá hagsmuni sem ber að verja þar.

 

 

Flokkar:

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur