Fimmtudagur 27.09.2012 - 14:02 - 7 ummæli

Siðbót á alþingi

Í frumvarpi sem við Valgerður Bjarnadóttir og níu aðrir þingmenn höfum lagt fram á þinginu er gert ráð fyrir að alþingismenn hætti með öllu að skammta sér laun. Þetta er í þriðja sinn sem við Valgerður flytjum frumvarp um kjör þingmanna, og nú er von til að eitthvað gerist – vegna þess að margir þingmenn hafa undanfarið tekið undir gagnrýni í samfélaginu á ýmsar sporslur sem úthlutað er á þinginu. Nú síðast um gleraugu, heyrnartæki, líkamsrækt og svo framvegis aftan í sakleysislegu þingskapafrumvarpi núna í vor.

Við leggjum til að allar ákvarðanir um laun þingmanna, svokallað þingafararkaup og tengdar greiðslur, verði framvegis í höndum Kjararáðs. Nú er ákvörðun um grunnlaun hjá Kjararáði, en í lögum um þingfararkaupið eru ákvæði um að allskyns störfum og titlum á þinginu fylgi álagsgreiðslur, 5–30%. Formenn nefnda og þingflokka fá álag, formenn stjórnarandstöðuflokka, fólk í forsætisnefnd, varaformaður nefndar fær álag og meira að segja 2. varaformaður nefndar, titill sem var búinn til í fyrra í nánast fullkomnu tilgangsleysi, hann fær álag blessaður garmurinn. Staðan er núna þannig að um það bil 38 þingmenn fá svona álagsgreiðslu, af þeim 54 sem ekki sinna ráðherra- eða forsetastörfum. Bara 16 eru álagslausir – einskonar undirstétt á þinginu!

Flutningsmenn frumvarpsins eru ekki einkum að hugsa um peningaþáttinn í þessu, heldur fyrst og fremst prinsippið. Annaðhvort tekur alþingi á sig þá ábyrgð alla að ákveða laun þingmanna – eða felur öðrum, Kjararáðinu, að sjá um þetta allt. Núverandi ástand býr til feluleik með raunveruleg laun kjörinna fulltrúa. Það er í andstöðu við þá siðbót sem við erum að reyna í samfélaginu eftir hrun, og á að ljóma skærast á sjálfu alþingi.

Flutningsmennirnir ellefu eru auk mín og Valgerðar þau Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Skúli Helgason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lúðvík Geirsson, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Guðmundur Steingrímsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Fríður flokkur – hljótum að koma þessu í gegn!

 

Einnig birt í Fréttablaðinu fimmtudaginn 27. september.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Arnljótur Arnarson

    Hélt að pistillinn fjallaði um að Vigdís Hauks hefði sagt sig frá þingsetu. Vonbrigði!

  • Hvar voru sjálfstæðismennirnir, Mörður?
    Voru þeir ekki spurðir, eða kjósa þeir sjálftöku áfram?

    Gott framtak hjá ykkur, annars.

  • Mörður Árnason

    Allir spurðir, auglýst eftir meðflutningsmönnum á innra neti þingsins. Sjálfstæðisflokksmenn eru yfirleitt tregir að vera með á þingmálum annarra en sjálfs sín, veit ekki hvort það er þingflokkssamþykkt eða bara eitt af sérkennum tegundarinnar. Þetta er hinsvegar góður hópur …

  • Nýtt fyrirkomulag þ.e.að fela Kjararáði þessa ákvörðun mun leiða til þess að laun þingmanna og aðrar sporslur hækka.

    Kjararáð hefur verið merkilega fundvíst á leiðir til að hækka laun íslenskra forréttindastétta.

    Sú verður einnig raunin nú.

    Kostnaður almennings vegna þessa ofvaxna kerfis mun því aukast.

    Á Íslandi eru það alltaf skattgreiðendur sem tapa.

  • Kári Jónsson

    Mesta siðbótin felst í því að ráð og þingþjónar fái sömu launahækkanir og hlunnindi og gerist í almennum samningum, þeir velji sér verkalýðsfélag og lífeyrissjóði einsog almenningur gerir, m.ö.o. gangist undir sömu kjör og fólkið á landinu-góða. Af því að þeir eru þjóðkjörnir eru þeir undanþegnir verkföllum/verkbönnum, en gætu samþykkt/fellt kjarasamninga með atkvæði sínu. Þannig væri hægt að afleggja kjararáð, Tillaga ykkar er skref í rétta átt að frekari SIÐBÓT einsog ég legg til hér, gangi ykkur sem allra best.

  • Sigurður #1

    Hvað geir Guðbjarturinn, nýbúinn að svindla sér fram hjá kjararáði til að hækka sóegann um hálfa miljón á mánuði.

    Það er fullreynt með siðbót á Alþingi, það er vonandi að kjósendum lukkist að losa sig við fjórflokkinn allan í vor, maukspilltan og gegnumrotinn af spillingu og sérhagsmunabaráttu.

  • Ekki veitir nú af svona fyrir kosningar………

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur