Miðvikudagur 26.09.2012 - 08:17 - 1 ummæli

Svona eiga sýslumenn að vera

Þótt ég sé eldheitur aðdáandi Jóhönnu Sigurðardóttur í pólitík og viti að margt hefur breyst undir hennar forustu síðustu ár er ég ekki öðrum Íslendingum trúaðri á skilvirkni og vinnuhraða í Stjórnarráði Íslands.

Þessvegna kom það mér ánægjulega á óvart þegar forsætisráðherra svaraði fyrirspurn frá mér á þinginu um mótun málstefnu í stjórnarráðinu.

Alþingi samþykkti sérstakan viðbótarkafla um málstefnu í stjórnarráðslögin í fyrra, þar sem segir að öll gögn skuli þar vera til á íslensku nema í undantekningartilvikum, og réttur tungunnar virtur, en líka tryggður réttur þeirra sem Stjórnarráðið þjónar og eru ekki vel mæltir á íslensku, landsmanna af erlendum uppruna og útlendinga. Ennfremur um rétt Íslendinga sem nota táknmál og punktaletur. Greininni lýkur með þeirri áminningu úr lögunum um íslenska tungu og táknmál að mál það sem er notað í starfsemi Stjórnarráðsins eða á vegum þess skuli vera „vandað, einfalt og skýrt“.

Þessi málstefnugrein kom inn í þáverandi allsherjarnefnd þar sem ég starfaði þetta haust, og tillagan um hana fékk eindreginn stuðning í nefndinni og þinginu þvert á flokka. Það var reyndar helst að tortryggni gætti einmitt hjá embættismönnunum í Stjórnarráðinu … og þessvegna vildi ég vita hvort eitthvað hefði gerst.

Svar Jóhönnu var „vandað, einfalt og skýrt“ – mállega og efnislega. Vinna að málstefnu er í gangi í samráði við Íslenska málnefnd og Málnefnd um íslenskt táknmál. Í ágúst fékk forsætisráðuneytið drög að þessari stefnu með margvíslegum tillögum í samræmi við lagatextann:

* Tryggja rétt fólks til að kynna sér á íslensku það efni sem frá íslenskum stjórnvöldum kemur og öll helstu gögn sem varða meiri háttar ákvarðanir íslenskra stjórnvalda.

* Sérstaklega þarf að huga að því að tryggja þennan rétt fyrir þá sem nota íslenskt táknmál.

* Íslenska sé mál Stjórnarráðsins og öll vinnugögn séu á íslensku nema sérstök rök séu fyrir notkun annarra mála.

* Skipuleggja málfarsráðgjöf innan Stjórnarráðsins.

* Vefur Stjórnarráðsins sé aðgengilegur fötluðu fólki og standist alþjóðlegar viðmiðunarreglur.

* Allt útgefið efni á vegum Stjórnarráðsin s, svo sem skýrslur, greinar og fréttir, sé á íslensku.

* Starfsmenn Stjórnarráðsins hafi greiðan aðgang að öllum helstu handbókum um íslenskt mál og sé gefinn kostur á hagnýtum námskeiðum um málnotkun og stafsetningu.

* Tryggja réttindi manna af erlendum uppruna í samskiptum við Stjórnarráð Íslands með því að bjóða þeim túlkaþjónustu eftir föngum.

Nú eru verið að athuga þessi drög hjá hverju ráðuneyti, sagði forsætisráðherra, og þar er meðal annars metinn kostnaður – sem ekki getur verið verulegur þótt hugsanlega þurfi að láta út eitthvert stofnfé. Kostnaður við þetta á reyndar að skila sér fljótt aftur í aukinni skilvirkni og betri þjónustu.

„Stefnt er að því að ljúka við gerð málstefnunnar nú á næstunni,“ sagði Jóhanna svo, „og ég sé fyrir mér að hrinda megi mörgum af þeim atriðum sem fram koma í drögunum fljótt í framkvæmd.“

Svona eiga sýslumenn einmitt að vera. Og þá er að vita hvernig gengur í sveitarfélögunum að vinna þetta sama verk í samræmi við svipaða grein í nýlegum lögum um sveitarstjórnarmál. Fyrirspurn til Ögmundar bíður svars.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Sigurður Viktor Úlfarsson

    Sæll Mörður,

    Gott hjá þér að hnykkja á þessu máli. Það er grundvallaratriði að stjórnarráðið gangi á undan með góðu fordæmi hvað snertir íslenskuna og að þeir sem nýta sér t.d. táknmál hafi sambærilegan aðgang að upplýsingum og aðrir.

    Hvernig er annars staða þessara mála hjá RÚV? Ég veit að á síðu 888 í textavarpinu er eitthvað um textun en er það notað í t.d. fréttatímum, Silfri Egils, Kiljunni og öðrum íslenskum þáttum? Hvað með RÚV+ (klukkutíma seinna) er hægt að nota þetta þá? Það hlýtur að vera ein helstu rökin fyrir ríkissjónvarpi að tryggja að allir sitji við sama borð hvað snertir upplýsingar og upplýsta umræðu.

    Kveðja,

    Sigurður Viktor Úlfarsson

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur