Mánudagur 01.10.2012 - 08:29 - 17 ummæli

Bjarni segir nei

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur gefið sínum mönnum línuna gagnvart nýrri stjórnarskrá: Hann ætlar að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október.

Fróðlegt. Ný stjórnarskrá var ein af kröfum almennings eftir hrunið – af því sú gamla átti auðvitað sinn þátt í öllu klandrinu – þar er skipting framkvæmdavalds og löggjafarvalds óglögg, óljóst verksvið og starfshættir forseta, ríkisstjórnar og alþingis, fáorður kafli um dómstóla og ekki minnst á Hæstarétt. Aðferðir virks lýðræðis í stjórnarskránni takmarkast við einstakar þjóðaratkvæðagreiðslur, í hana vantar sárlega ákvæði um sameiginlegar auðlindir – og hún ber þess í heild sinni merki að vera barn síns tíma, siðbúinn ávöxtur byltingarhreyfinganna kringum 1848 þegar barist var fyrir frelsi frá alráðum konungum og áþján lénsveldis. Síðan er hálf önnur öld rúmlega.

Og Bjarni segir nei.

Við stofnun lýðveldis breyttu landsfeðurnir því sem þurfti fyrir umskiptin úr konungsríki í sambandi við gamla herraþjóð en einsettu sér að ganga síðar til heildarendurskoðunar í samræmi við nýja tíma. Síðan hefur starfað ótal stjórnarskrárnefnda á vegum ríkisstjórnar og alþingis en aldrei haft kraft til breytinga nema þeirra allra brýnustu – málamiðlanir sem allir þurftu að vera sammála um og urðu þessvegna flestar hverjar hvorki fugl né fiskur. Nú var ákveðið að fara öðruvísi að og boða til sérstaks þings til þessara verka, óháðu sífelldri pattstöðu í stjórnarskrármálinu á alþingi. Ýmsir stjórnmálamenn, fræðimenn og hugsuðir höfðu reyndar fyrir löngu bent á þessa leið, enda þekkt úr sögunni og samtímanum – meira að segja til íslensk fyrirmynd frá 1851 sem kóngurinn kæfði með herliði í Kvosinni („Vér mótmælum allir“).

En Bjarni – hann segir nei.

Hin nýju stjórnarskrárdrög eru sprottin úr lýðræðisjarðvegi sem þjóðin sjálf yrkti eftir hrun. Ný stjórnarskrá var eitt af ráðum almennings til að ná valdi á samfélagi sínu úr höndum gráðugra kaupsýslumanna og misviturra stjórnmálamanna, og í kosningunum vorið 2009 gerðu Íslendingar skýrar kröfur til stjórnmálaflokkanna um að greiða leið nýrra grundvallarlaga – þvælast að minnsta kosti ekki fyrir þeim.

Bjarni segir: Nei.

Ferlið hófst með því að boðað var til þjóðfundar – sem lagði grunninn að framhaldsstarfi með umræðum sínum heilan dag í Laugardalshöll. Þessum fundi var fagnað um allt land sem vísbendingu um að við ættum betri tíma í vændum ef við kynnum að standa saman. Þjóðfundurinn dró upp þau gildi sem höfð skyldu að leiðarljósi og vísaði veginn við endurskoðunarstarfið. Það er merkilegt – en um leið sjálfsagt – að allar helstu tillögur stjórnlagaráðsins má rekja til umræðna og niðurstaðna á þjóðfundinum, þar sem störfuðu eitt þúsund fulltrúar valdir af handahófi – þjóðin sjálf án dilkadráttar.

Bjarni Benediktsson hinsvegar veit betur – hann segir nei.

Það má lengi deila um einstök atriði í kosningafyrirkomulagi og um æskilega kjörsókn, en ekki verður um það deilt að framboð 522 Íslendinga til stjórnlagaþings sýndi mikinn áhuga á því verkefni, og með fullri virðingu fyrir öllum hinum frambjóðendunum var það einvalalið sem hlaut kosningu á þingið. Það tók síðan til starfa, vegna tæknilegra mistaka undir heitinu stjórnlagaráð. Þessir fulltrúar einsettu sér að ná saman um þau atriði sem mestu máli skiptu, og samþykktu að lokum frumvarpsdrög sín samhljóða.

Það gerir ekki Bjarni Ben. Hann segir nei.

Alþingi hefur samkvæmt núverandi stjórnarskrá síðasta orðið – eða réttara sagt það næstsíðasta, því að eftir að alþingi samþykkir breytingar á stjórnarskránni þarf að kjósa nýtt þing sem síðan getur samþykkt breytingarnar endanlega. Í þinginu þótti fagnefndinni, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þó eðlilegt að leita álits þjóðarinnar á drögunum frá stjórnlagaráðinu. Þar var samþykkt að efna til almennrar atkvæðagreiðslu í landinu um drögin og fara um leið fram á svör við nokkrum brýnum spurningum um einstök atriði í drögunum, svo sem um sameign á helstu auðlindum. Alþingismenn úr fjórum flokkum sögðu já við þessari tillögu um atkvæðagreiðslu, nema

Bjarni Benediktsson og félagar, og nokkrir Framsóknarmenn, sem sögðu nei.

Þetta er sosum ágæt vinna hjá stjónlagaráðinu, segir Bjarni Benediktsson. Hefur ekki tjáð sig um vinnuna hjá þjóðfundinum – sem meðal annars var boðað til að tillögu Sjálfstæðisflokksmanna. Örugglega skítsæmileg vinna líka. En við í Flokknum erum sem kunnugt er snillingar, og viljum ekki að fólk sé að fikta við hluti sem við kunnum miklu betur á. Þjóðin? Hún hefur bara því miður ekki vit á þessu.

Þessvegna segir Bjarni nei.

En kannski er núna kominn tími til að þjóðin segi nei við Bjarna Benediktsson?

 

Einnig birt í DV 26. september.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Elín Sigurðardóttir

    Loksins fær þjóðin tækifæri til að segja nei við ESB.

  • Hreggviður

    Elín Sigurðardóttir.
    Þessi tugga sem þú og margir fleiri tyggið í síbylju er svo heimskuleg og einsleit að engu tali tekur. Það skal allt keyrt til andskotans í þessu landi og allt gert á bak við þessa tuggu þína. Ekki hrófla við einu né neinu og dýrka og dá spillinguna eins og hún var, allt undir þessu söngli um nei við ESB. Þið tuggumeistarar fáið tækifæri til að segja nei við ESB þegar að því kemur, en væri ekki í lagi hjá ykkur að líta aðeins upp úr þessari möntru og skoða önnur mál líka? Þú ert kannske með forritaðan kubb í hausnum sem segir nei við öllu sem ekki kemur úr réttum ranni?

  • Elín Sigurðardóttir

    Er fólk virkilega að segja nei við Bjarna 20. október? Þessi pistill er svo heimskulegur að engu tali tekur.

  • Elín var við einhverju öðru en heimsku að búast frá Merði?

  • Fínn pistill. Verði af þeim breytingum sem stjórnlagaráð leggur til mun verða lýðræðisvæðing á Íslandi. Það óttast hagsmunaaðilar sem halda óbeint í valdataumana og vilja tryggja sína sérhagsmuni. Það gera þeir m.a. með því að reka áróðursvél í Hádegismóum. Og þess vegna segir Bjarni sem er fulltrúi þessara aðila nei. Að segja nei er andstætt hagsmunum þorra þjóðarinnar.

  • Kári Jónsson

    Góð yfirferð hjá Merði, spillingar-öfl allra tíma, hafa hag af því að ala á sundrungu. Ef einhver einstaklingur er ólýðræðislegur þá heitir hann Bjarni Ben, hann er formaður í mesta sérhyglis-apparati í allri evrópu, þessi flokkur heitir Sjálfstæðisflokkur. Mætum á kjörstað 20.okt. og segjum JÁ.

  • Pétur Rasmussen

    Mér er orðið fullljóst að mjög margir sjálfstæðismenn eru á móti tillögum að stjórnarskrá sem liggja fyrir en hef ekki ennþá skilið af hverju. Er það af því að aðrir fengu hugmyndina á undan eða hafa þeir rök gegn því sem er í tillögunum?

  • Ómar Kristjánsson

    Að sjálfsögðu segja Sjallar nei. þeir eru á móti öllum úrbætum varðadi þetta land hérna. það er ekki eins og það sé leyndarmál. Á móti öllu.

    þeirra upplegg er eðli máls samlvæmt að halda sérhagsmunaklíkum og Sjallaelítu við völd og við kjötkatlana. Flokkurinn er til þess og einskis annars.

    Svo tala einhverjir Sjallar um að það þurfi ,,að skipta út mönnum“ í flokknum eða í komadi framboðsátökum. Eh til hvers? þeir eru me alveg sömu stefnu og fyrir Sjallahrun. þeir eru með nákvæmlega sömu stefnuna og leiddi til Sjallahrunsins. Eg get eigi séð að það skipti máli hvort afglapi sá er ýtir landi fram af bjargbrún heitir Baddi, Gulli eða Böddi.

  • Ekki-sf Trúboði

    Það er því miður Mörður ekki hægt annað en að segja NEI við 1.spurningunni og hve alla til að ger hið sama.

  • Það verða ekki bara einhverjir „vondir“ Sjallar sem munu segja NEI við þessari heimskulegu skoðanakönnun, sem er askrift að misnotkun stjornmalamannanna a raunverulegum skoðunum þjoðarinnar.

  • À þingi neytendasamtakanna var borin upp samþykkt um að banna verðtryggingu á neytendalánum og var hún samþykkt með 71%atkvæða, en Mörður sagði nei.

  • Smá tilbreyting að sjá Sjalla segja nei, og eftir að hafa hlustað og horft á ultrakomma og krataheybrækur í 30 ár steyta hnefa froðufellandi og mótmæla öllu sem borið hefur verið fram af öðrum en þeim sjálfum..þá er þetta í raun drepfyndið……öllu alvarlegra er þó að sjá hversu menn eru tilbúnir að styðja áfram nauðgun og rán á þjóðinni sem þessi afleiða verðtrygging er….í þágu peningaaflanna,,,,,er kanski ennþá verið að múta ykkur þingmönnum bakvið tjöldin eins og gert var hér áður í stórum stíl ??

  • Mörður Árnason

    Jon — rétt, en þú gleymir auðvitað að geta þess að í boði var önnur tillaga gegn verðtryggingunni — betri að mínu viti.

  • Hreggviður

    Ég byrjaði að vinna á sumrin 1964, þá ellefu ára gamall. Síðan árvisst um sumrartímann fram til 1970, eftir það fullvinnandi alla daga. Fram til 1983 borgaði ég í lífeyrissjóð, eftirlaunasjóð og alles, en 1984 átti ég ekki nema sem nemur brjóstsykurspoka í þessum sjóðum.
    Það er óhæfa að færa umræðuna í farveg vitleysu í þessum málum, en staðreynd er að strax við hrunið átti að frysta þessar helvítis verðbætur á lán. Til þess fannst ekki döngun á þingi og því stendur fólk uppi í dag eignalaust rétt eins og ég eftir óðaverðbólguna alla saman og þá var sparnaðinum stolið daglega. 1983 hækkuðu lánin mín um heil 100 % og þá voru engar úrlausnir, nei ó nei, borga eða út á götu.
    Það þarf annað og meira en upphrópanir á götuhornum, það þarf vit og fyrirhyggju gott fólk, nóg komið af vitleysunni eins og hrunið sannaði fyrir okkur.

  • Magnus Jonsson

    Petur Rasmussen: það er að stærstum hluta vegna þess að spjöldin í hliðum kjörklefanna voru svo illa hönnuð, ég hef lsið að þessi mistök séu þungarviktarmálið..

  • Ég segi líka NEI. Ég vil ekki leggja tilllögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá.
    Í fyrsta lagi af því hvernig þetta stjórnlagaráð/þing er til komið og allt klúðrið í kringum það. Þetta var bara ekki rétt að skipa það í trássi við lög og reglur.
    Í öðru lagi af því að mér líst ekki á allar hugmyndirnar.
    Ég hinsvegar örugglega já við persónukjöri og jöfnun atkvæða.

  • Sigrún Pálsdóttir

    Frábær samantekt hjá Merði Árnasyni. Sótti sjálf á fund um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá um daginn og komst að því að það er aðeins á nokkurra ALDA fresti sem maður fær annað eins tækifæri til að hafa áhrif á þróun íslensks samfélags. Hver fúlsar við slíku? Líklega bara Fúll á Móti.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur