Miðvikudagur 10.10.2012 - 18:20 - 3 ummæli

Betri strandveiðar

Okkur sem finnst ekki nóg hafa gerst á kjörtímabilinu i fiskveiðistjórnarmálum, þrátt fyrir veiðigjaldið, við verðum að muna eftir strandveiðunum sem upp voru teknar við hlið kvótakerfisútgerðar, til að gefa einherjum og nýliðum tækifæri, til að efla smáar byggðir og til að gera tilraun með vistvæna veiðimáta, að öðrum ólöstuðum.

Strandveiðunum var komið á í upphafi kjörtímabilsins, við nokkuð almennan fögnuð. Strax komu í ljós gallar á fyrirkomulaginu, og því fylgdu ýmsar aukaverkanir sem ekki var ætlunin. Lífsins gangur.

Ólína Þorvarðardóttir, duglegur og röggsamur þingmaður úr alþýðuhéruðum vestra hefur nú lagt fram frumvarp til að laga það sem aðfinnsluvert hefur reynst við strandveiðarnar – og festa þær betur í sessi. Okkur Skúla Helgasyni hlotnaðist sá heiður að vera meðreiðarsveinar.

Í frumvarpi Ólínu (dreift í þinginu í dag, hér) eru góðar breytingar. Gert er ráð fyrir því að bátarnir fái jafnan hluta heildaraflamagns hverju sinni (enginn hefðarréttur). Það kemur í veg fyrir hinar „ólympsku“ veiðar – helsta galla sóknarmarkskerfanna þar sem menn keppa hver við annan um að ná sem mestum afla og setja í hættu bát, mannskap og afla líka. Þá er losað um svæðaskiptinguna þannig að bátar á einu svæði geta klárað veiðaskapinn á öðru ef fræðingum og yfirvöldum þykir nóg veitt á upprunalega svæðinu. Gert er ráð fyrir að ekki skuli vera fleiri en þrjár handfærarúllur á bát (nú fjórar), og að aflahámark sé 650 kíló í hverri veiðiferð (nú 800). Þetta eiga að vera alvöru-strandveiðar.

Mikilvæg breyting – kannski sú mikilvægasta – er sú að herða kröfuna um eignarhald báts sem á að fara á strandveiðar þannig að þeir sem á bátnum eru eigi meirihluta í honum. Nú leika menn sér að því – einkum útgerðarmenn annarra báta og skipa – að hafa á bátnum einhvern sem ekki á í bátnum nema að nafninu til – til dæmis 1%. Með öðrum orðum er í frumvarpinu ætlast til að strandveiðimenn séu raunverulegir sjálfstæðir trillukarlar, ekki dulbúnir leiguliðar hjá kvótakóngum.

Ólína hefur unnið þarft verk með þessu frumvarpi. Ég á von á að því verði tekið fagnandi, bæði á þinginu og á bryggjunum.

Flokkar: Sjávarútvegsmál

«
»

Ummæli (3)

  • Kári Jónsson

    Handfæraveiðar eiga að vera frjálsar, 5 daga vikunnar, sennilegt að 1-2 af þeim verður bræla, hámarkið 6-800 kíló er ekkert annað en kvóti, veðurfarið mun alfarið sjá um að sókn verður í raun takmörkuð, mikilvægt er að það verði staðið við loforð um frjálsar-handfæraveiðar.

  • Halldór Guðmundsson

    Til hamingju með þetta frumvarp Mörður Ólína og Skúli, og vonandi tekst ykkur að koma því í gegnum þingið, því að komast burt frá þessum ólympsku veiðum er mikið fagnaðarefni fyrir trillukarla, allavega þá efnaminni, á minnstu bátunum.

    Ég vildi sjá þennan flota hafa algjörlega frjálsar veiðar á makríl, annahvort samhliða strandveiðum júlí og ágúst, eða að menn geti farið út úr strandveiðikerfinu 1. júli til að stunda makrílinn, því potturinn er ansi lítill.
    Sömuleiðis vildi ég hafa 4rúllur því menn eiga ekki að vera að skælast einir langt frá landi, ef eitthvað kemur upp á, veikindi eða slys, því það eru ekki rúllurnar sem stjórna aflamagni heldur veðráttan við Íslandsstrendur.
    Einnig þarf að hugsa þessi eigendamál eitthvað betur, því ef veikindi verða hjá eigenda eða slys, þá þarf að vera hægt að kalla til afleisingarmann, því annars er útgerðin komin á hausinn, og heimili viðkomandi komið undir hamarinn, og bankakerfið hlífir engum sem dæmin sanna.

  • Takk fyrir athugasemdir, vil fá fleiri, sendi Ólínu og við skoðum þetta saman.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur