Mánudagur 22.10.2012 - 09:02 - 8 ummæli

LÍÚ „útfærir“ þjóðareignina

Einhver allra skýrasta niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardaginn var svarið við spurningu númer tvö, um auðlindirnar:

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, lýstar þjóðareign?

Um 82,5% þeirra sem tóku afstöðu sögðu já við þessari spurningu – og hafa þar með markað stefnu til frambúðar um þetta efni – eitt helsta átakamál í íslenskum stjórnmálum síðustu áratugina. Svarið byggist á 34. grein í tillögum stjórnlagaráðs, þeirri sem svo hefst:

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.

Og lýkur svo:

Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Og bregður þá svo við að þeir sem alls ekki vildu að spurning sem þessi kæmist á dagskrá, og héldu því meðal annars fram að hugtakið þjóðareign væri ekki til – og tókst í leiðinni að gleyma Þingvöllum, Íslandsklukkunni og Skarðsbók 😉 – eru farnir að tala um nýju stjórnarskrána sem brot á þeirri gömlu. Framkvæmdastjóri LÍÚ sagði  í Ríkisútvarpinu í gær að samþykktin hefði ekki komið á óvart af því allir flokkar hefðu verið fylgjandi „einhvers konar“ ákvæði um auðlindir:

Síðan skiptir auðvitað máli hvernig það er útfært. Sú útfærsla sem stjórnlagaráðið hefur lagt fram gengur ekki upp vegna þess að raddir hafa heyrst um að það eigi að upphefja öll réttindi og allan rétt sem þegar er til staðar.

Þetta er sagt svona í fyrsta sinn svo almenningur heyri, en þýðir væntanlega að LÍÚ ætlar sér í tvöfalt lagaþras – fyrst með aðstoð hollvina sinna á alþingi og síðan fyrir dómstólum.

Það er ánægjulegt að LÍÚ er hætt að berjast á móti hugtakinu þjóðareign. Allt annað í fullyrðingu Friðriks J. Arngrímssonar er svo einfaldlega rangt, hvað sem LÍÚ eyðir mörgum milljónum í ný lögfræðiálit. Útgerðarmenn eiga ekki fiskinn í sjónum, það tiltaka núverandi lög sérstaklega, og hafa engan þann rétt eða réttindi sem viðurkennd þjóðareign í stjórnarskrá upphefji. Við allar breytingar þarf að sjálfsögðu að gæta meðalhófs, og flestir forvígismenn breyttrar fiskveiðistjórnar hafa sagt eðlilegt að núverandi handhafar kvóta fái tíma til að laga sig að nýrri skipan í samræmi við skýr þjóðareignarákvæði í stjórnarskrá. Ekkert nýtt í því.

Friðrik er núna í því hlutverki að flækja málin – enn er hægt að koma í veg fyrir þessi ósköp hjá kvótakóngunum sem hafa hann í vinnu – að vísu varla lengur með því að stoppa stjórnarskrána á þessu kjörtímabili – en eftir næstu alþingiskosningar mætti láta samþykkja nýja „útfærslu“ …

 

Flokkar: Menning og listir

«
»

Ummæli (8)

  • Ég trúi því ekki að Mörður sé að tala gegn betri vitund og sé alveg 100% heiðarlegur í þessu.

  • Það besta við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar var hið stórkostlega tap Sjálfstæðisflokksins og talsmanna hans eins og t.d. LÍÚ. Áróður þeirra bítur ekki lengur og meira segja fjármagnið virðist ekki hjálpa þeim nema að takmörkuðu leyti. Niðurstaðan er alveg skýr, auðlindir þjóðarinnar sem ekki eru í einkaeign verða í þjóðareign þ.m.t. fiskimiðin. Þar sem flokkurinn virðist ekki viðurkenna mistök sín í stjórn landsins og vegna þeirra áforma að bjóða fram að nýju alla helstu hrunverjana, Sjóð 9, Askar Capital, Vafning, Baug auk smábófa sem hlotið hafa dóm fyrir þjófnað á byggingarefni og umboðssvik o.s.frv. o.s.frv. þá er það ljóst að hann má ekki komast í stjórn landsins í bráð.,

  • Sjóð 9 ? En Illugi er með læknisvottorð og nú hafa þau hjónakornin komist að þeirri niðurstöðu að 78% þjóðarinnar hafi fellt drög að nýrri stjórnarskrá. Sölvi Helgason hefði ekki getað reiknað betur forðum daga.

  • Kári Jónsson

    Skilaboðin eru skýr, eftir að ný-stjórnarskrá er samþykkt, verður að úthluta nýtingarréttinum að fiskimiðunum á jafnræðis-grundvelli og fyrir fullt verð.
    Þess vegna eru áður framkomin frumvörp um fiskveiðistjórnun ófullnægjandi og á skjön við niðurstöðu á spurningu 2 (34gr) stjórnlagaráðs, þar sem þjóðareign og nýtingarréttur eru ekki ágreiningur á meðal þjóðarinnar, gefst þingþjónum kostur á að nálgast fiskveiðistjórnun í öðru en niðurnjörvuðum kvóta á hvert skip. Mestu skiptir hinsvegar að sameiginleg (þjóðareign)auðlind verði úthlutað á jafnræðis-grundvelli og fyrir fullt verð (markaðsverð), ég óska öllum þingþjónum farsældar í verkinu framundan, þar sem almannahagsmunir verða hafðir í fyrsta sæti.

  • Bjarni Kjartansson

    Mörður. Í gildandi lögum er sérstaklega tekið fram í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða, að ´thlutunin gefi engan rétt umfram úthlutunin feli í sér eitt ár í senn.

    Framhjá þessu hefur verið littið OF lengi.

    Svo eru lagatæknar að tala um, að ,,eignaréttur þróist!!!!!“ Semsé þróist frá einum til annars. Slíkt var nefndur þjófnaður í minni bernsku.

  • Olafur Jonsson

    Samfylkingin gælir enn við að „gera samkomulag“ við nú verandi kvótahafa! Þjóðin vill ekkert samkomulag við núverandi kvótahafa. Það verður tafarlaust að brjóta niður múra EINOKUNNAR um kvótann og skipta um kerfi. Núverandi kvótahafar stand að sjálfsögðu jafnfætis öðrum í því en n.b. þeir skulu borga skuldir sínar. Engar meir afskriftir ekkert meira hanky panky við bankanna.

    Samfilkingin hefur verið svo upptekin af auðlindagjalds hugmyndinni sinni að þau eru algerlega blind á hvernig sé hagkvæmast fyrir þjóðina að haga fiskveiðistjórninni. Að sjálfsögðu er sama hvaða kerfi er notað það er alltaf hægt að innheimta auðlindagjald. Sérstaklega ef allur fiskur fer á markað.

    Síðan er samfylkingin út á þekju hvað varðar í hvað á að nota auðlindagjaldið og heldur að þetta sé einhver uppspretta fjár til að sóa í reksturinn. Nei þessum peningum verður að verja af skynsemi þar sem þeir koma að sem mestum notum við að byggja upp innviði þjóðfélagsins og nýtist sem lýfeyrissjóður okkar allra.

  • Magnus Jonsson

    Þetta atriði er stóra málið, þetta var ástæðan fyrir mestmegnis að vinstri stjórn var að veruleika 2009. Nú er 2012 og ekkert hefur breyst.
    Byr í seglin hjá nýju fólki

  • Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson

    Ég hlustaði á viðtal við Illuga Gunnars og Helga Hjörvar í gær. Mér fannst Helgi og Illugi ná mjög vel saman.
    Illugi var auðmýkri gagnvart niðurstöðunni en t.d. formaðurinn. Hann viðurkenndi að vel mætti taka tillit til niðurstaðna atkvæðagreiðslanna á laugardag. Þetta er breytingartónn hjá Sjöllum, sem er vel.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur