Laugardagur 10.11.2012 - 09:39 - 9 ummæli

Ég vil …

Um daginn birtist hér listi um viðhorf og frammistöðu með fyrirsögninni „Ég hef …“ – hér koma fyrirheit og framtíðarhorfur með fyrirsögninni:

Ég vil …

•   klára rammann og hefja næsta kafla í atvinnu- og umhverfismálum: Græna hagkerfið

Stóriðjuöldinni í íslenskri atvinnusögu er að ljúka. Um 97% starfa í landinu eru við „eitthvað annað“ en stóriðju. Stóriðja er þar með eitt mesta umhverfismálið en eitt minnsta atvinnumálið. Með sátt um leikreglur og nýtt jafnvægi eftir samþykkt fyrstu rammatillögunnar getur hafist nýr áfangi. Virkjanleg orka er nú orðin afar takmörkuð auðlind, og það er brýnt að við einbeitum okkur að nýjum möguleikum í atvinnulífinu. Þeir felast fyrst og fremst í þróun að grænu hagkerfi sem byggist bæði á gömlum undirstöðugreinum og hinum nýju sprotum. Aðild að Evrópusambandinu veitir hér stuðning og tækifæri.

 •   að viðræðunum við Evrópusambandið ljúki með samningi og þjóðaratkvæðagreiðslu

Fyrir kosningar þarf hver einasti frambjóðandi að svara því hvort hann vill ljúka samningaviðræðunum við Evrópusambandið og leggja samninginn fyrir þjóðina. Sjálfur svara ég hiklaust: Já – og er bjartsýnn á niðurstöðuna. Önnur svör hverfast um að útiloka fyrirfram möguleika sem bjóðast við aðild. Það er óskynsamlegt, og ósanngjarnt gagnvart kynslóðum framtíðarinnar. Evrópa endar hér, sagði Hannes Pétursson. Ég segi: Evrópa byrjar hér.

•   að atvinnugreinar sem byggjast á sköpun, menntun og menningu verði viðurkenndar sem undirstöðugreinar

Áður var litið á atvinnugreinar sem byggjast á sköpun, þekkingu, menntun og menningu sem munað eða tómstundagaman. Líklega átti heimsfrægð Bjarkar mestan þátt í að eyða þeirri útnesjamennsku. Nú skipta þessar greinar sífellt meira máli í þjóðarframleiðslu og útflutningsverðmætum, og við eigum að halda áfram að búa í haginn fyrir frekari afrek á þessu sviði á næstu áratugum.

•   að við uppbyggingu velferðarþjónustunnar verði ný hugsun um þriðja æviskeiðið eitt af meginstefjunum

Eitt helsta afrek ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eftir hrun er að það tókst að verja velferðarsamfélagið í hamförunum, öfugt við ýmis önnur þau Evrópulönd sem verst urðu úti í kreppunni. Nú þarf að skipuleggja uppbyggingu í velferðarþjónustunni með batnandi hag.

Eðlilegt er að beina þar sjónum að börnunum og hagsmunum þeirra – en ekki má gleyma þriðja æviskeiðinu sem í framtíðinni á eftir að skipta meira og meira máli, bæði fyrir hvern einstakling og samfélagið í heild. Fyrsta verkið hlýtur að verða að leiðrétta kreppuskerðingar sem orðið hafa á kjörum aldraðra og öryrkja.

•   að Samfylkingin verði forystuaflið í næstu ríkisstjórn

Samfylkingin var stofnuð til að vera höfuðafl í íslenskum stjórnmálum. Hún er vinstriflokkur á miðjunni, og á að bjóða til samstarfs öðrum flokkum og hreyfingum til vinstri og fyrir miðju, fólki sem leggur áherslu á jöfnuð og frjálslyndi hvað sem líður afstöðu þess í einstökum átakamálum. Samstarf við hægrisinnuð öfl kemur fyrst og fremst til greina þegar um er að tefla mikilvæga þjóðarhagsmuni, svo sem inngöngu í Evrópusambandið, eða brýnar umbætur innanlands, svo sem að tryggja þjóðareign Íslandsauðlinda. Á því eru ekki líkur núna. Markmið Samfylkingarinnar í kosningunum hlýtur því að vera að fá nægan styrk til að gerast forystuafl í næsta stjórnarsamstarfi til vinstri og á miðju.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (9)

  • Sæll Mörður. En hvað um kvótakerfið og auðlindaskattinn? Hefurðu enga skoðun á þessu grundvallar-átakamáli þjóðarinnar? Samfylkingin lofaði réttlátum breytingum á þessu kerfi en lítið hefur orðið um efndir. Þér til umhugsunar vil ég benda þér á nýjusta færslu mína á slóðinni: http://johanneslaxdal.blog.is/blog/johanneslaxdal/entry/1267572/

    Með vinsemd og virðingu, Jóhannes Laxdal

  • Óðinn Þórisson

    Ég vil …

    Að hjól atvinnulífsins fari aftur af stað

    Að skattar verði lækkaðir og fólk og fyrirtæki

    Að þjóðin fái að koma að framhaldi esb – málsins

    Að fólk fái tækifæri til að bjarga sér sjálft

    Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að útiloka neinn stjórnmálaflokk og vera tilbúinn að fara í samstarf við þann flokk(flokka sem vilja láta gott af sér leiða með hagsmuni fólksins og fyrirtækja að leiðarljósi.

    Jóhanna hefur fært Samfylkinguna vel til vinsri – og ef næsti formaður hyggst fylgja hennar stefnu er alveg ljóst að það eru mörg sóknarfæri fyrir Sjálfstæðisflokkin að sækja fylgi til miðju og hægri krata í Samfylkingunni.

  • Jóhannes — þú hlýtur að vita minn hug í kvótamálunum — um breytingartillögur okkar Valgerðar og það sem ég hef sagt í haust — sjá t.d. tvær stuttar þingræður á http://www.facebook.com/mordurarnason?fref=ts

    Óðinn — Jóhanna fært flokkinn til vinstri? Hveyrt þetta áður en skil ekki í hverju það kemur fram. Endurreisn Íslands? Stjórnarskrármálið? Ramminn? Áhersla á velferð og jöfnuð? — Og hvernig á hægriformaðurinn að koma flokknum aftur til hægri? Með öðru 2007-samstarfi við Sjallana? Sem hafa breyst hvernig og hvenær? — Kominn tími til að menn hætti að kasta fram frösum og leggi fram rök 😉

  • Óðinn Þórisson

    Sæll Mörður og takk fyrir svarið

    Ég ska sleppa þér við að svara fyrir sp-kef – byr Steingríms J. Sigfússonar – ég treysti því að þú munir styðja að fullum þunga að upplýst verði hvað framganga SJS hafi kostað skattgreiðendur.

    Á landsfundi Samfylkingarinnar 2011 var ályktað: ,,Undir forystu jafnaðarmanna hefur ríkisstjórn og Alþingi tekist það erfiða verkefni að snúa hallarekstri ríkissjóðs í afgang…“
    Ríkisreikningurinn fyrir 2011 sýnir hins vegar 89 milljarða halla.- hvað vilt þú segja um það ?

    Björgunarleiðgangur vinstri – stjórnarinnar eftir það alþjóðlega efnahagshrun sem við lentum í – því miður ef ríkisstjórnin var í einhverfjum björguarleiðgangri þá er það lélegssti björgunarleiðangur allra tíma.

    Stjórnarskrármálið – veit ekki betur en allt það ferli hafi fengið falleinkun hjá sérfræingum sem voru að fjalla um málið í lok vikunnar.

    Með rammaáætlun átti að ná fram breiðri sátt sem átti að lifa af ríkisstjórnir en því miður var henni breytt vegna þröngra pólistískra hugsjóna.

    Það er lítil velferð að legggja niður líknardeild aldraðra á landakoti eða það viðhorf ykkar vinstri – manna að jörnuður sé að allir hafi það jafn skítt.

    Heyðii í höfundi Svavarsamningsins í morgun á rás 1 og sagðist hann vera nokkurð ánægður með SF enda velflestir uppaldir á gamla alþýðubandalaginu.

    Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert breyst frá því hann var stonaður 1929, sjálfstæðisstefnan er skýr,
    Alþýðuflokkinn var lagður niður og stofnaður var Samfylkingin 2000 sem átti að vera breiður jafnaðarmannaflokkur – er hann það í dag – held ekki.

    Hvað með auglýsingu hagsmunasamtaka Heimilanna.

    Ríkisstjórinin ætlaði að slá skjaldborg um heimilin en varð að gjaldborg.

    En nóg að sinni – vondast eftir málefnalegu svari

  • Ég vil,,,að þú hverfir úr af þingi eftir næstu kosningar,,og mín ósk mun rætast en engin þinna ;o)

  • Ég vil það sama og Mörður í málefnum samfélagsins !!

  • @Alfreö

    Sammála.

  • Af hverju barðist Samfylking gegn því að kosið væri um hvort leggja ætti í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort Íslendingar færu í aðildarviðræður við ESB? Ekki nóg að básúna íbúalýðræði í einu orðinu, og vaða svo yfir það á skítugum skónum í því næsta. Þetta ESB klúður er búið að kosta mikla peninga, búið að taka fókusinn af miklu brýnari verkefnum.

    Ríkisstjórn sem er búin að fara rúma 600 milljarða fram úr auglýstum fjárlögum er ekki búin að ná tökum á einu eða neinu hvað ríkisfjármál varðar.

    Um leið og skapandi greinar s.s. ferðaþjónusta fer eitthvað að komast á lappirnar, þá bíður skattmann með ljáinn og skattleggur greinina upp fyrir eyru. Mörður fær ekki marga í þessum greinum til að kvitta undir þessar fyrirsagnir hans.

    Eini möguleiki Samfylkingar á hægri sveiflu er að afhenda framsóknarflokki forsætisráðuneytið. Það verður að koma í ljós eftir kosningar hvernig það gengur. Það á líka eftir að reyna á útibú samfylkingarinnar í næstu kosningum, nýjum flokkum, skipuðum þekktum samfylkingarmönnum og konum.Hugsanlega fá þessi flokkar eitthvað af glötuðu fylgi samfylkingar í næstu kosningum, kannski sér fólk í gegnum svona trix?

    Nú verður samfylking búin að vera í ríkisstjórnum í bráðum sex ár. Fyrir hrun og eftir hrun. Fólk hefur allan samanburð.

    Árni Páll sagði í útvarpinu áðan að við getum ekki talað eins og allt sé í lagi. Hann sagði bara eiturlyfjasala geta greitt af þeim lánum sem atvinnulífinu væri boðið upp á. Það er punktur í þessu hjá tilvonandi formanni. Þetta er dálítið í hans höndum.

    „Ný úlpa bjargar engu, það er umgjörðin“ sagði Árni Páll. Kannski er þessi flotti jakki samfó bara ekki að virka?

  • Garðar Garðarsson

    Sammála Merði í einu og öllu sem hann segir hér.
    Margt gott sem Mörður hefur verið að gera og er tilbúinn að gera.
    Sérstaklega ánægður með að heyra hvar hjartað slær og að við eigum að vinna með vinstri- og miðjuflokkum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur