Mánudagur 12.11.2012 - 13:09 - 2 ummæli

Hálft Ísland verslar á netinu

Helmingur íslenskra netverja keypti sér eitthvað gegnum netið í fyrra, árið 2011, segir Hagstofan: bækur, tónlist, símainneign, föt, skó, miða í leikhús og á íþróttaleiki, farmiða, hótelgistingu, handverk og svo auðvitað hugbúnað. Þetta kemur fram í ágætu fylgiblaði Fréttablaðsins í dag um Netverslun.

Hvað sem okkur þykir gaman að fara í búðir er netverslun að verða einn helsti vettvangur venjulegra heimilisviðskipta á Vesturlöndum. Í Bandaríkjunum – þar sem verslun gegnum póstinn á sér langa hefð – er staðan orðin sú að margar vörur seljast meira gegnum netið en í hefðbundnum verslunum. Raftæki, bækur, matvara, húsgögn, tónlist og myndbönd. Það eina sem Kanar kaupa ennþá miklu frekar í búðum en á netinu eru lyf og heilsuvörur.

Hér var póstverslun eitt sinn stunduð af talsverðu kappi – með pöntunarlistum eða katalógum – bæði við verslanir í útlöndum og milli héraða innanlands. Svo lagðist þetta mestanpart af með bættum samgöngum og aukinni verslun í dreifbýli. En er nú komið aftur með netinu, sem bæði greiðir almenningi leið að markaðstorgi um allan heim, og opnar nýja kosti fyrir fólkið í mesta dreifbýlinu þar sem nú er verið að leggja niður verslanirnar.

Gallinn hjá okkur er úrelt regluverk og gjaldafrumskógur – en nú er að birta til. Verið er að skipa þann starfshóp sem þingið samþykkti að setja í málið núna í haust, og hann á að skila tillögum strax næsta haust.

Hér er tillagan um þetta – fékk einróma samþykki á alþingi – yðar einlægur fyrsti flutningsmaður , með góðri hjálp ýmissa annarra framfarasinnaðra alþingismanna.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Hugsað til framtíðar !!

  • Vífill Sigurðsson

    Einu sinni á ári gerirðu skattskýrslu, .það kostar ekkert ef þú græjar það sjálfur. Þú borgar skattinn af húsinu þínu og þú þarft ekki að láta reikna út þann skatt eða borga fyrir útreikninginn. Eins er fáránlegt að þurfa að borga fyrirtæki fyrir að gera innflutningsskýrslu. Þú sleppur ekki við að borga 550 kall fyrir að fá að borga toll eða jafnvel borga ekki tollinn.
    Gott mál Mörður að taka til í þessu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur