Miðvikudagur 14.11.2012 - 08:04 - 11 ummæli

Öruggt húsnæði

Ungt fólk á byrjunarreit í húsnæðismálum hefur lengst af átt tvo kosti og hvorugan góðan: Að hrekjast á milli leiguíbúða með öllum þeim óþægindum sem það veldur barnafjölskyldum – eða sökkva sér í skuldir, verðtryggðar eða gengistryggðar, einsog tíðkaðist í hrundansinum.

Að hluta liggur skýringin í öfgafullri séreignastefnu sem hægriöflin hafa rekið hér áratugum saman með þeim hörmulegu afleiðingum sem nú koma á daginn skýrar en oftast áður. Hinn hluti skýringarinnar er sú staðreynd að vinstri öflin, verkalýðshreyfingin og lífeyrissjóðirnir hafa ekki barist nógu hart fyrir þessu mikilvæga máli.

Í grannlöndunum hefur öruggt húsnæði á hagkvæmum kjörum verið hið klassíska verkefni jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingar. Árangurinn þekkja margir sem hafa stundað nám í þessum löndum, leigt námsmannaíbúðir og svo flutt sig yfir í leiguíbúðir á almennum markaði, í kaupleigu- eða búseturéttarkerfi að námi loknu. Stundum er lokastigið séreign, en þá ekki fyrren fólk hefur komið almennilega undir sig fótunum.

Þótt hér hafi eftir hrun verið gert meira en víðast hvar erlendis fyrir húsnæðisskuldara blasir við sú staðreynd að í súpunni situr verulegur hópur fólks sem keypti íbúðir sínar á bóluverði. Er í reynd komið aftur fyrir byrjunarreitinn. Og nú er mætt til leiksins ný kynslóð og við blasa sömu tveir kostir. Þetta fólk veltir auðvitað fyrir sér þriðju leiðinni, að hefja búskap í öðrum löndum – yfirgefa Ísland. Í þessari stöðu hljótum við foreldrar þeirra, afar og ömmur að spyrja þess sama og Sumarhúsabóndinn: Hvað er þá auður og afl og hús?

Traustur, almennur leigumarkaður, öflugt búseturéttarkerfi og alvöru kaupleigukerfi er eitt brýnasta verkefni næstu ára. Það er ekki bara hagsmunamál þeirra sem í hlut eiga. Foreldrar sem kynslóð eftir kynslóð hafa þurft að lána börnum sínum veð svo þau geti tekið þátt í hinu íslenska húsnæðiskaupafjárhættuspili eiga hér líka hagsmuna að gæta. Beinir hagsmunir atvinnulífsins, verkalýðshreyfingar, lífeyrissjóða og ríkis af því að ungt fólk fái öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði eru augljósir. Hér má enginn liggja á liði sínu.

 

Líka birt í Fréttablaðinu 14. nóvember. Vek athygli á merkilegri grein Gylfa hjá ASÍ um húsnæðismál hér — kannski er að birta til? 

Flokkar: Húsnæðisskuldir

«
»

Ummæli (11)

  • Haraldur Ingi Haraldsson

    Því miður er ekki bara við hægri öflin að sakast hvað varðar hina illviljuðu séreignastefnu.

    Hver ætli sé ástæða þess að vinstri öflin og verkalýðshreyfingin hafa aldrei barist fyrir siðlegum leigumarkaði eins og við sem höfum búið erlendis þekkjum. Þar er ég t.d. að tala um Skandinaviu, Holland og Þýskaland?

    Þetta er ráðgáta. Erlendis leigja en algengt að 40 – 60% þjóða leigi íbúðir og í þeim löndum sem ég áður nefndi hafa þeir ríkulegan búseturétt og önnur eðlileg réttindi. Það er ekkert sem styður það að hér á landi sé þjóðin það vel stæð að allir hafi efni á að eignast íbúðir sínar (!!!!)

    Sjánlega er ekkert að gerast í þeim efnum hjá vinstri (?) sinnuðum stjórnvöldum. Líklega á að láta markaðinn um að skapa leiguumhverfið enda glymja hófajárn frjálshyggunnar hátt í svellum Samfylkingarinnar

  • Haraldur Ingi Haraldsson

    Niðurlagið rataði ekki á síðuna fyrir klaufsku en það var efnislega þannig að ég get ekki verið meira sammála Merði um það sem hann skrifar þar á eftir og greiningu hans á ástandinu.

    En þarna verða stjórnvöld og verkalýðshreyfing að koma að af fullu afli. Það dugar engin Árna Pálska að mínu mati.

  • Arnar Ívar Sigurbjörnsson

    Séreignastefnan er ein leið til að ávaxta sitt fé.
    mörður hefur allt í einu ofur áhuga á hinum ýmsu málum þar eru húsnæðis mál inni. Tíma setningin er engin tilviljun, kosningar í vor. Hann minnist ekkert á úrræði fyrir heimilin í landinu.
    Býr Mörður í leiguhúsnæði?
    Ég er á móti miðstýringu hverju nafni sem hún nefnist.
    Á fundinum í gær um málaferlin gegn verðtrygginguni talaði Mörður Árnason bara um séreignastefnuna og fann henni allt til foráttu. Staðreyndin er samt sú að húsnæði er oft eini lýfeyrisjóður margra. Það vill hann eyðileggja með miðstýingu. Að fólk eigi ekki neitt en lifi á ölmusu ríkisins.

  • Mörður Árnason

    Jamm, Arnar Ívar — hafa skal það sem betur hljómar.

    Ég bý í húsnæði sem við Linda höfum verið að borga af frá árinu 1989, sem betur fer engar stórskuldir núna en þetta var ekki auðvelt á tíunda áratugnum. Ég tel að við eigum að byggja upp fjölbreytt húsnæðiskerfi — og finnst fínt að fólk eigi húsin sín — ef og þegar það getur. Ég er hinsvegar á móti kasínóævintýrum og skuldaþrældómi. Ég býð engar hókus-pókus-lausnir fyrir heimilin, og tel að margt hafi verið gert — en ekki nóg, sbr. tillögu mína um lífeyrisgreipslur inn á húsnæðishöfuðstól: http://blog.pressan.is/mordur/2012/10/24/ny-leid-ut-ur-skuldavandanum/

    Og var ekki á fundinum í gær, því miður, upptekinn við að skrifa nefndarálitsdrög um rammaáætlun allt kvöldið. Þannig að ég talaði ekki neitt um neitt í Háskólabíó, því miður.

    Já, og ég er í prófkjöri. Er það ekki þá sem á að sýna úr hverju maður er?

    Tölum betur saman seinna …

  • kristinn geir st. briem

    óska merði til hamingu er áægður með þessar hugmindir en hið fræga en.
    Held að séu til nokkur leigufélög á íslandi er mikill munur á þeim og á öðrum norðurlöndum. ert kanski að skána.En afhverju að tala um öfgafull séreignastefnu. það var nú ekki um auðugan garð í fjármálum að grisja í gamla daga men gátu anað hvort keipt fasteign eða láta peníngana gufa upp í bankanum svo ég sé ekkert öfgafult við það. men gera húsnæði ekkert ódyrara að herða byggíngareglugerðirnar hef lítið álit á gylfa ef hann vildi þá gæti hann lækað vexti hjá lífeyrisjóðunum þeir gætu einig stofnað húsnæðisfelög eins og þróunnin er mundi ekki veita af ef menn missa húsin umvörpum. það hráir gylfa eins og marga samfylkíngarmenn hann er mestur í kjaftinumm

  • kristinn geir st. briem

    þar sem ég get ekki gert athugasemd við gylfa þá vil ég benda á að sum lán hjá ibúðalánasjóð bera 1% vexti veit ekki hvort er búið að breita því eða í hve miklu magni er lánað. þau lán eru lánuð með tapi ef marka má gilfa.Gæti einhverju leiti skýrt þennan mismun.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Hingað til hefur húsnæðismarkaðurinn á Íslandi snúist um að byggja dýrt, og selja enn dýrara.

    Hlutverk byggingarfyrirtækja er fyrst og fremst að skila eigendum sínum arði.

    Byggingarverktakar hafa því ekki áhuga eða vilja til að byggja litlar íbúðir sem síðan má leigja eða selja á hóflegu verði.

    Þessi markaður mun því varla af sjálfsdáðum sjá um að útvega ódýrt húsnæði sem allir eru sammála um að vanti svo sárlega á höfuðborgarsvæðið. Það ætti að vera orðið ljóst.

    Hver á þá að byggja allt þetta ódýra húsnæði sem allir vita að vantar í Reykjavík ?

    Hinn „frjálsi“ húsnæðismarkaður er enn verulega afskræmdur eftir þá svæsnu fasteignabólu sem var blásin upp fyrir hrun. Bólan hefur í raun aðeins skipt um mynd og færst yfir á leigumarkaðinn. Enn skekkist myndin síðan af jöklapeningum sem mynda óeðlilega pressu á markaðinn.

    Til að byggt verði ódýrt húsnæði þarf nýja hugsun og nýja nálgun. Í dag sjá sveitarfélögin fólki fyrir grunnþörfum eins og vatni, orku, skólagöngu, heilsugæslu osfrv. Þetta þykir sjálfsagt.

    Hins vegar þykir það „Tabú “ að sama sveitarfélag sjái einnig um að útvega jafn sjálfsagðann hlut eins og húsnæði. Fólk sér strax fyrir sér „Bæjarblokk“ með tilheyrandi kumbaldavæðingu.

    Þessi hugsanavilla er hluti af þeim hnút sem húsnæðismálin eru komin í.

    Í Svíþjóð eiga sveitarfélögin víða uppundir helming af íbúðum á viðkomandi svæði í fjölbýli. Þetta eru yfirleitt leiguíbúðir og í þeim býr þverskurðurinn af þjóðfélaginu.

    Fyrir um hálfri öld áttuðu sænskir stjórnmálamenn sig á að Hefðbundinn húsnæðismarkaður væri ekki í stakk búinn til að útvega ódýrt húsnæði.
    Þar greip ríkið inn í og lét byggja yfir miljón íbúðir á 10 ára tímabili. Með stöðlun og magninnkaupum náðist verð niður og þumalputtareglan var að leigan færi ekki yfir 25 % ráðstöfunartekna. Þessi markaður hefur allar götur síðan þrifist til ca helminga á við íbúðir og einbýli sem fólk á sjálft.

    Enn búa Svíar að þessu framsýna átaki. Á Íslandi vantar einhvers konar staðfærða útfærslu á svona prógrammi. Eitthvað sem fyllir skarðið sem myndaðist þegar verkamannabústaðir voru lagðir niður.

    Annars blasir við ný „braggavæðing “ á leigumarkaði höfuðborgarinnar.

    Á Íslandi er enn látið viðgangast að fólk búi í bílskúrum, iðnaðarhverfum og kjallarakompum við okurleigu.

  • Arnar Ívar Sigurbjörnsson

    Rétt Mörður.
    Ég bið innilega afsökunar. það rétta er.
    Helgi Hjörvar var á fundinum. Bið aftur afsökunar á þessum mistökum.
    Með bestu kveðju Arnar

  • Slæm þessi hægri stefna í fasteignamálum, og enn verra með þessa öfga hægri menn og konur sem hefa stjórnað þessu meira eða minna síðustu áratugina:

    Félagsmálaráðherra 1987-1994: Jóhanna Sigurðardóttir
    Félagsmálaráðherra 2009-2013: Guðbjartur Hannesson
    Félagsmálaráðherra 2009- 2010 Ögmundur Jónasson
    Félagsmálaráðherra 2006-2007: Siv Friðleifsdóttir
    Félagsmálaráðherra 1994-1995: Sighvatur Björgvinsson
    Félagsmálaráðherra 1993-1994: Guðmundur Árni Stefánsson
    Félagsmálaráðherra 1991-1993: Sighvatur Björgvinsson
    Félagsmálaráðherra 1987-1991: Guðmundur Bjarnason
    Félagsmálaráðherra 1980-1983: Svavar Gestsson
    Félagsmálaráðherra 1978-1980: Magnús H. Magnússon
    Félagsmálaráðherra 1970-1973: Eggert G. Þorsteinsson

    Sem sagt, vinstri menn í félagsmálaráðuneytinu tæp 30 af síðustu rúmu 40 árum á Íslandi. Ekki þarf að orðlengja það við íslenskufræðinginn að það eru félagsmálaráðherrar sem fara með þennan málaflokk, þó hin allra síðustu ár hafi verið erfitt að henda reiður á hver sé að stjórna hverju þá og þá stundina, því með fækkun ráðherra, hefur þeim nefninlega fjölgað jafnt og þétt og erfitt að skilja hver stjórnar hverju orðið.

    Það er í lagi að vera með vitleysu, getur jafnvel verið gaman af henni stundum. Svona rugl hins vegar, er eiginlega skrefinu of langt gengið. Húsnæðismál á Íslandi síðustu 40 árin eru nær eingöngu verk jafnaðarmanna og pótindáta þeirra. Jafnaðarmenn hafa á tyllidögum hreykt sér af því hvernig allir Íslendingar hafa getað eignast þak yfir höfuðið. Álitið sér það til tekna Núna er allt í komið í rugl eftir óstlitna setu Samfylkingar í ríkisstjórn í bráðum sex ár, og þá er bara bent á eitthvað annað. Ekki mjög stórmannlegt það?

    Ekki má heldur gleyma að hin svo kallaða peninga-stefnunefnd var að hækka vexti um 0,25% í morgun, sem er kannski einhver besta jólagjöf sem vogunarsjóðirnir gátu hugsað sér, enginn að fá kartöflu í skóinn á þeim bænum. Hins vegar hækka afborganir lána hjá þeim sem eru að basla við að greiða niður húsin sín við þessa einföldu vinstri ákvörðun hinnar nýskipuðu nefndar seðlabankans. Falleg jólagjöf? Nei ekki svo mjög.

    Eins og skáldið sagði forðum, þegar því þótti nóg komið „ekki meir ekki meir“.

  • Séreignastefnan er ekki slæm í sjálfu sér – ef til eru aðrir færir og skynsamlegir valkostir.
    En þar hefur hnífurinn staðið í kúnni – stefnan allir í séreign hefur leitt af sér baráttu um áratugaskeið hjá þeim sem verst hafa orðið úti.
    Fagna því mjög að nú skuli komið annað hljóð í strokkinn – vona svo innilega að það verði ekki þaggað niðum af Íhaldinu með vorinu.
    Áfram Mörður og áfram Jafnaðarmenn !!!!

  • Nú streyma inn hugmyndir og jafnvel loforð. Við sem trúðum loforðunum um „skjaldborgina“, „Nýtt Ísland“ þegar kerlingin rausaði á þingi vitum nú betur. Gott fólk – ENGIN í fjórflokkunum hefur annað í huga en að segja eitthvað sem fólk vill heyra, það hefur venjulega skilað þeim þingsæti.

    Nú erum við vonandi vitrari og látum þetta upphafna raus þeirra sem vind um eyru þjóta.

    Við skulum skapa SJÁLF okkar nýja Ísland og það verður ekki með þessu fólki svo mikið er víst.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur