Fimmtudagur 15.11.2012 - 07:20 - 7 ummæli

Við lok stóriðjualdar

Þeir eru til – jafnvel í mínum góða flokki – sem frá því fyrir hrun hafa boðað þá patentlausn að virkja allt sem hægt sé að virkja og reisa álver í hverjum firði. Hafa svo einn og einn þjóðgarð, og eiga börn og buru, grafa rætur og muru.

Þetta hefur reynst tálsýn. Vissulega eru í gangi virkjunarframkvæmdir – Búðarháls, Reykjanes, Sauðárveita, Hellisheiði til skamms tíma – en skortur erlendis á áhuga og fjármagni annarsvegar og hinsvegar margvíslegt klúður og skipulagsleysi hjá athafnasnillingunum innanlands hefur komið í veg fyrir framkvæmdirnar sem öllu skyldu bjarga. Eða hvar eru megavöttin 435 sem fyrir hálfum áratug áttu að renna í stóra drauminn í Helguvík?

Þegar horft er víðar má sjá að við erum enn að nálgast vatnaskil í atvinnumálum og tækniþróun á Íslandi. Af sögunni þekkjum við sjávarútvegsbyltinguna þegar þilskipin leystu árabátana af hólmi. Þá hófst skútuöld. Og lauk með skipsvélunum skömmu eftir aldamótin 1900. Úr landbúnaði þekkjum við vélaöldina sem hófst á millistríðsárunum en fór fyrst á skrið eftir stríð – olli miklum framförum í búskap en átti sinn þátt í þjóðflutningunum í þéttbýlið. Nú er henni að linna, og bændur leita með vélum sínum nýrra tækifæra í lífrænni ræktun og margskonar heimaiðnaði. Við getum rakið hverja væðinguna af annarri í atvinnuháttum marga síðustu áratugi – með risi og hnignun, stundum hvellum – en þótt oft hafi fullmikið gengið á hefur atvinnlíf okkar allajafna orðið auðugra að lokum. Að minnsta kosti reynslunni ríkara.

Stóriðjuöldin sem hófst á Íslandi á sjöunda áratugnum með framkvæmdunum við Búrfell og Straumsvík – nú er hún að renna sitt skeið. Vegna þess meðal annars að orkan í vatnsaflinu og jarðvarmanum er takmörkuð auðlind. Stefán Arnórsson prófessor hefur sagt að sennilega nemi óvirkjað virkjanlegt vatnsafl um tveimur Kárahnjúkavirkjunum. Það er auðvitað mikið – en um leið hlálega lítið þegar menn athuga að þeir kostir sem eftir standa virkjanlegir eru erfiðari og dýrari en þær virkjanir sem búnar eru. Um jarðvarmann veit svo enginn. Þegar allir voru uppgefnir eftir átökin um fljótin fyrir austan vonuðust ýmsir eftir að jarðvarminn mundi leysa málin. Síðan hefur hver vandinn rekið annan við nýtingu háhitans og það eitt augljóst að í þessu efni verður að fara fram af fyllstu varúð og gera ráð fyrir löngum tíma fyrir rannsóknir og tilraunavinnslu.

„Lowest Energy Prices“ – búið spil

Umhverfis- og náttúruverndarsjónarmið – sem voru nánast ekki til á Íslandi um 1960 – flækja allar ráðgerðir um framkvæmdir, bæði á öræfum og í útivistarsvæðum nálægt þéttbýli. Orkufyrirtækin hafa loksins uppgötvað að þau geta ekki selt orkuna á undirverði. Tímar kynningarbæklingsins um billegustu orku í heimi – „Lowest Energy Prices“ – eru liðnir. Og við höfum eftir þessa fjóra-fimm áratugi uppgötvað að stóriðjan sjálf á óvíða verr heima en á Íslandi, vegna einstakrar náttúru landsins, vegna fjarlægðar þess frá hráefnum og mörkuðum, vegna þess að byggðamunstur hentar ekki – og vegna þess að við viljum ekki að stóriðjufyrirtækin ryðji burt öðrum atvinnugreinum eða standi í vegi.

Framtíðin byggist á þekkingu, sköpun, rannsóknum, menntun og menningu – í bland við þær grundvallargreinar sem til langframa verða að treysta á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda okkar: Sjávarútveg, ferðaþjónustu og landbúnað.

Af þessum margvíslegu ástæðum er stóriðjuöld að ljúka. Það sýnir ágætlega umfangsmikið starf að rammaáætluninni sem nú er á leið í gegnum þingið. Þegar unnið hefur verið úr upplýsingum fagmanna og gætt varúðarsjónarmiða teljast aðeins 16 virkjunarkostir tækir í svokallaðan orkunýtingarflokk. Flestir þeirra eru jarðvarmakostir sem þarf að rannsaka miklu betur til að þeir standist umhverfismat, eftirlit orkuyfirvalda, grandskoðun fjárfesta. Einhverjir þeirra – og biðflokkskostanna – verða að virkjunum, vonandi með takmörkuðum náttúruspjöllum. Aðrir verða verndarnýttir – í þágu barna okkar og barnabarna, fyrir ferðamennsku, útivist, rannsóknir og lífsgæði, á þeirri öld grænna atvinnugreina sem upp er að renna á Íslandi.

 

 Líka birt í DV 14. nóvember.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Því miður Mörður þá tekst þér ekki að fjalla um þetta á málefnalegan hátt. Heldur með ótrúlegum sleggjudómum og hálfsannleik. Það kemur fram í netmiðlum í dag að bara álverið í Straumsvík hefur keypt verkfræðiþjónustu fyrir 11 milljarða ísl. króna frá árinu 2009. Sem sagt frá hruni. Og því má ætla að önnur álfyrirtæki (Norðurál og Fjarðarál) hafi gert annað eins. Og þetta er bara verkfræðiþjónusta. Ótalið er þjónusta iðnaðar-, verka- og önnur aðföng. Segðu mér þá eitt, munar sem sagt ekkert um þetta ?
    Ég get vel tekið undir þetta með Helguvík og vandræði Orkuveitu og sölu á HS-Orku, sem klúður. En það breytir því ekki að sú góða staða sem þó er á íslensku atvinnulífi hefur orðið til vegna þess að orkan hefur verið nýtt. Þetta er einfaldlega staðreynd sem menn þekkja og hafa enga sérstaka pólitíska meiningu. Sjálfur er ég stuðningsmaður ríkisstjórnar og Sf. En menn eins og þú sjá til þess að íhaldið hrifsar aftur völdin, vegna þess að þið eruð svo skratti einstrengingslegir. Svo þverir. Og svo ómálefnalegir þegar orkunýting og álfyrirtæki eru annars vegar.

  • Sverrir Kr. Bjarnason

    Mörður rekur söguna í hnotskurn á afar málefnalegan hátt. Hvergi í þessum pistli hans er að finna sleggjudóma eða hálfsannleik. Niðurstaða hans er sömuleiðis málefnaleg og vel rökstudd.

  • Já Sverrir, eigum að byrja á frasanum „Lowest Energy Prices“ og horfa þá til t.d. Búrfellsvirkjunar og álversins í Straumsvík frá um 1970 eða fyrir meira en 40 árum. Hefur það orðið okkur til tjóns á einhvern hátt eða við sem þjóð „tapað miklu“? Búrfellsvirkjun er í dag skuldlaus og malar gull fyrir eiganda sinn sem er blessunarlega þjóðin. Álverið skapar mörgum vinnu, hálaunuð störf, bæði beint og óbeint. Þetta tel ég dæmi um hálfsannleik og að afvegaleiða umræðu um atvinnulíf og verðmætasköpun. Þetta einfalda dæmi um virkjun og álver sýnir að stefnan var rétt á sínum tíma. En að sjálfsögðu á ekki að byggja upp of einhæft atvinnulíf og sjálfsagt að gagnrýna of mörg álver. En þau sem byggð hafa verið hafa skilað sínu.

  • Arni Finnsson

    Vek athygli á því sem fram kemur í skýrslu McKinsey & Company, Charting a Growth Path for Iceland og kynnt var hér nýverið. Á bls. 71 segir:

    \“Iceland uses fewer workers to generate a single TWh than does Norway. However, the Icelandic system generates far lower gross value added per TWh than does Norway, indicating a major need for a different approach to resource development and power allocation in the future.
    As a consequence the capital productivity of the energy sector is the lowest of all industries in Iceland (see Appendix B).\“

    Þetta þýðir að orkan til stóriðju hefur verið seld á alltof lágu verði. Við erum að helmingi minna fyrir orkuna en Norðmenn og McKinsey brýnt að nálgast nýtingu orkuauðlinda á Íslandi með nýjum hætti.

    Sjá: http://www.mckinsey.com/locations/Copenhagen/our_work/How_We_Work/~/media/Images/Page_Images/Offices/Copenhagen/ICELAND_Report_2012.ashx

    Þessi skýrsla er einn einn naglinn í kistu stóriðjustefnunnar og ég hygg að Mörður geti staðið við hvert orð grein sinni „Við lok stóriðjualdar.\“

  • Árni Finnsson, það er sjálfsagt mál að Landsvirkjun og aðrir reyni að hækka orkuverðið, kannski þá þannig að það jafnist á við Norðmenn, þótt það sé draumsýn að mínu viti. Skilst að nýr forstjóri Lv sé að reyna þetta. En hækkun orkuverðs til stóriðju mun hækka raforkuverðið almennt, sem nú er t.d. minni en helmingur eftir því sem aðrir í Evrópu greiða.
    En Íslendingar geta líklega fyrst farið að tala um hækkun verðs, þegar og ef sæstrengur verður lagður. Getur verið að lagning sæstrengs sé þá með samþykki Náttúruverndunarsamtakanna sem þú ert fulltrúi fyrir ?
    En það breytir því ekki að hingað til hefur orðið verðmætasköpun og mikil atvinna vegna nýtingu orkukostanna, m.a. til stóriðju.

  • Steinn Eldjárn Sigurðarson

    Gunnar: Hvar í greininni nákvæmlega haldur Mörður því fram að nýting orkunnar hafi ekki verð verðmæta og atvinnuskapandi?

    Hann er að tala um að nú sé búið að virkja heppilegustu svæðin, og það sé óráðlegt að halda áfram. Tímarnir hafa breyst, tækifærum í orkunýtingu fer fækkandi með aukinni nýtingu, en önnur tækifæri koma í staðinn.

    Ég mæli með því að telja upp að tíu og lesa greinina aftur 🙂

  • Minn kæri Steinn, sjá eftirfarandi :
    „Orkufyrirtækin hafa loksins uppgötvað að þau geta ekki selt orkuna á undirverði“ og í tengslum við frasann „Lowest Energy Prices“. Í þessari umræðu lítur Mörður (og fleiri) á að orkunýtingin hafi ekki (eða lítið) verið verðmætaskapandi, hvað þá atvinnuskapandi. Allir sem hinsvegar til þekkja, einstaklingar og fyrirtæki, vita að svo er ekki. Og í sérstökum tengslum við hugtakið lægsta orkuverðið, sem sannanlega á við um íslenska smásölu-orkukaupendur (mig og þig), þá er líklega eina alvöru ráðið að leggja sæstreng út til Evrópu til að hækka. Og þar sem m.a. Árna Finnsyni finnst orkuverðið lágt og kannski þá verðmætasköpunin ekki næg, styður hann og fleiri þá hugmynd að leggja sæstreng?
    Mörður segir líka að stóriðjan henti ekki hér á landi vegna „einstæðrar náttúru landsins“. Allir geta sagt þetta, líka t.d. Norðmenn. En ef stóriðjan hentar ekki, hentar þá ferðamannaiðnaðurinn með ca 2 milljónir ferðamanna á ári eitthvað frekar ? Það held ég ekki. Kannski það henti best að við látum landið algerlega í friði og flytjum öll eitthvert annað.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur