Fimmtudagur 08.11.2012 - 10:06 - 19 ummæli

Evrópuaðild – fyrir fólkið í landinu

Öllu talinu um aðildarsamningana og framtíðarstefnu í sambandi við Evrópusambandið hættir til að verða nokkuð fjarlægt og háfleygt, fyrir nú utan að þátttakendur leyfa sér óvenjumikið rugl og nöldur, jafnvel á íslenskan nútímakvarða. Jájá, það þarf að finna leið út úr gjaldeyrishöftunum, og enginn hefur bent á neina aðra í raun og veru en upptöku evru. Jájá, það eru vandamál kringum fullveldisdeilingu, bæði í EES og ESB, og Íslendingar mega ekki rasa um ráð fram. Sjávarútvegsmálin, landbúnaðurinn, byggðirnar, fjármálamarkaðirnir o.s.frv. o.s.frv. En hvað kemur þetta venjulegu fólki við í daglegu brauðstriti og amstri – sem eftir Hrun er alvarlegt mál fyrir hver einustu mánaðamót á fjölmörgum heimildum?

Margt er auðvitað óljóst ennþá um stöðuna eftir inngöngu okkar í Evrópusambandið ef af verður. Þessvegna erum við að semja. Ýmislegt af kostum og göllum við aðild kemur ekki í ljós fyrren á líður. Það er reynsla annarra þjóða sem inn eru gengnar, svo sem Svía og Finna, Eystrasaltsþjóðanna, nýfrjálsu ríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu.

Margt er líka nokkurnveginn ljóst, og varðar ekki síst hag fjölskyldnanna, almennings í landinu. Með evrunni minnkar allur kostnaður í viðskiptum okkar við evrulöndin – vöruverð fer niður. Vextir hafa verið hér alltof háir fyrir bæði fólk og fyrirtæki. Þeir lækka með inngöngu og evru, og líklega strax með tengingu krónunnar við evru. Innganga og evra mundi slá á verðbólgu með sífelldum hækkunum verðlags og launa. Verðtryggingin hverfur svo að segja með evrunni, enda er verðtryggingin hækja sem hin veika króna notar til að halda sér uppréttri.

Það rennur ekki upp paradís á jörðu daginn sem við göngum í Evrópusambandið. Sem fyrr eru Íslendingar sinnar eigin gæfu smiðir. Fyrir venjulegt fólk verður hinsvegar auðveldara að lifa, einfaldara að skipuleggja, meira öryggi við rekstur heimilisins.

Þessvegna er svo áríðandi að klára samninginn við Evrópusambandið sem fyrst og leyfa þjóðinni að taka til hans afstöðu. Fyrir okkur öll, fyrir fólkið í landinu.

 

Líka birt í Fréttablaðinu miðvikudaginn 7. nóvember.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Leifur Björnsson

    Fínn pistill Mörður.

  • Við erum rétt svo að halda jákvæðum vöruskiptajöfnuði með töluvert veika krónu. Hvernig heldur þú eiginlega að staðan yrði með sterkari evru? Nákvæmlega sú sama og þegar krónan var sterk: Neikvæður vöruskiptajöfnuður en munurinn væri sá að við gætum ekki prentað neinn gjaldmiðil til innlendrar notkunar. Evrurnar myndu bara hverfa úr landinu og hvað þá? Hvernig ættum við að borga innlend laun? Með lánum?

  • Hreggviður

    Góður pistill.

    Það verður engin Paradís á jörð en það verður mun betra en núverandi ástand.
    Eitt sem verður að passa uppá í samningunum og það er að við höldum þeim möguleikum að hafa lítil fyrirtæki. Ekki bara að halda þeim möguleika heldur bæta hann, það andæfir gegn atvinnuleysi ungra. Stórar og þungar reglur sem einungis er á færi stórra aðila að uppfylla, hefur dregið tennurnar úr litlum þjónustufyrirtækjum um alla álfuna og haldið ungu fólki frá atvinnutækifærum.

  • Ég segi Nei

    Lettneskur nágranni minn segir að þar sé enn beðið eftir ódýru lánunum sem var lofað…….Eina sem breyttist var að allt hækkaði við evru upptöku og atvinnuleysi jókst.

  • Enda er það þannig að vextir í sambærilegum Evru löndum eru ekkert lægri en á Íslandi. Kíkið t.d. á vextina á Írlandi og í Belgíu.

  • Tomas Gunnarsson

    Mér þykir það nokkuð undarlegt að íslenskufræðingur þekki ekki muninn á Evrópuaðild og Evrópusambandsaðild.

    Eða er ef til vill vísvitandi verið að reyna að fegra sinn málstað með rangri orðnotkun í fyrirsögn?

    Það er fátt sem breytist á innlendum markaði við inngöngu í Evrópusambandið sem Íslendignar geta ekki breytt sjálfir, ef vilji er fyrir hendi.

    En hér í pistlinum er svo ekkert rætt um framlög Íslendinga til „Sambandsins“ og ekkert er rætt um stóraukið atvinnuleysi sem hefur komið í kjölfar upptöku eurosins, sérstaklega í jaðarríkjum Evrópusambandsins. Þeir erfiðleikar eru þó nú farnir að skjóta upp kollinum í Frakklandi einnig.

    En eins og einn af dyggustu stuðningsmönnum Evrópusambandsins á Íslandi, þá voru stjórnmálamenn í Evrópu svo áfram um að selja kosti eurosins, að þeir hreinlega gleymdu að segja frá göllunum.

    Mörður virðist enn vera í þeim gír.

    Við flestum blasa gallarnir hins vegar við.

  • Algjörlega sammála Merði.

    Aðild að ESB er besta fáanlega skjólið fyrir fólkið í landinu gegn íslenskum stjórnmálamönnum.

  • Albert Sveinsson

    Fyrir fókið í landinu. Bara að minna þig á að þú varst einn af þessum þingmönnum sem samþykktir árna páls lögin illræmdu „http://www.althingi.is/dba-bin/atkvgr.pl?nnafnak=43879“ sem kostuðu fjölskyldur landsins stórkostlegum fjármunum http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/1223982/ og síðan er búið að dæma þau ólögleg og bankarnir eiga að endurreikna lánin en og aftur. Eru það svona þingmenn sem þjóðin þarf á þessum tímum.Allavegna var það ljóst frá upphafi fyrir hverja þessi lög voru og hverjum þeim bendist að. En við megum ekki gleyma þessum undirsátum bankan sem starfa á alþingi og til upprifjunar þá eru það þessir þingmenn sem samþykktu lögin. já:
    Álfheiður Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Björn Valur Gíslason, Guðbjartur Hannesson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Magnús Orri Schram, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson

  • Nýjustu tölur frá Grikklandi eru þær að atvinnuleysi ungs fólks er rétt tæplega 60%, vegna þess að peningarnir eru búnir.

  • „Það er fátt sem breytist á innlendum markaði við inngöngu í Evrópusambandið sem Íslendignar geta ekki breytt sjálfir, ef vilji er fyrir hendi.“

    Fyrst að þetta er svona auðvelt – af hverju er þá ekki paradís á jörð hér á á Íslandi?

    Einn helst talsmaður nei-sinna hefur líka sagt að …“það sé bara hægt að lækka vexti….“ !

    Af hverju í ósköpunum er þá ekki búið að því?

    Og hvað skýrir hinar hrikalegu verðhækkanir í könnun ASÍ, fyrir utan hækkanir á heimsmarkaði. Af hverju hefur fjörmjölk hækkað um 7-10%?

    Innlend framleiðsla? Er þetta ekki krónan og verðbólgan líka?

  • Tomas Gunnarsson

    Það þarf ekki að ganga í Evrópusambandið til þess að lækka tolla og gjöld á Íslandi. Hvers vegna er ekki löngu búið að því er önnur saga.

    „Sambandssinnar“ fullyrða svo oft að matvælaverð muni lækka við inngöngu. Það dreg ég ekki í efa. En þeir fullyrða líka að kjör bænda muni ekki versna, heldur líklega batna vegna styrkja frá „Sambandinu“. Þegar horft er til þess að flestir eru sammála um að Íslendingar myndu leggja meira til „Sambandsins“ en þeir fengu, er þá ekki ljóst hvaðan bætt kjör bænda kæmu? Það er hægt að borga fyrir matinn á fleiri en einn veg, en hann er aldrei ókeypis.

    Það er líklegt (en þó ekki örugt) að vextir myndu lækka á Íslandi við inngöngu í Evrópusambandið. En vextir eru ekki þeir sömu alls staðar í „Sambandinu“, það er matvælaverð ekki heldur.

    En það er engin „paradís á jörð“ í Evrópusambandinu, ekki frekar en á Íslandi. Atvinnuleysi er yfir 25% í Grikklandi og á Spáni. Það er nálægt 15% á Írlandi og er komið yfir 10% í Frakklandi.

    Húsnæðisverð hefur hrunið víða innan „Sambandsins“ sem utan. Lánið hafa hins vegar ekki lækkað, en það hafa launin gert víða. Þannig hefur eignarhluti almennings étist upp eða jafnvel horfið og afborgarnair orðið æ stærri hluti af launum, þeirra sem þó hafa vinnu. Hljómar kunnuglega, ekki satt?

  • Jens Jónsson

    Mig langar til að vita hvernig verður með vægi atkvæða í ESB ætla þeir sem nú vinna að jöfnun á vægi atkvæða á Íslandi líka að beita sér fyrir jöfnun á vægi atkvæða á evrópuþinginu?

  • Þessi bábilja með vöruverðið er nú orðin frekar þreytt. í nýjustu könnun ASÍ kemur í ljós að mesta hækkunin er á innfluttum vörum, íslensku landbúnaðarafurðirnar hafa hækkað lang minnst.

    Enginn veit hvernig niðurgreiðslum til svæða eins og Íslands verður háttað í framtíðinni innan ESB, þó yfirlýst markmið sambandsins séu að jafna út lífskjör og sjá til þess að gellurnar á Íslandi kosti það sama og í Belgíu, að appelsínurnar á Spáni kosti ekki krónu meira en í Reykjavík, þessu verði jafnað út með alls kyns styrkjum og jöfnunargreiðslum, þá er ekkert sem tryggir að svo muni verða áfram.

    Þrátt fyrir hörmungar efnahagsstjórn síðustu ára, er Ísland líklega enn nokkrum þrepum ofar en þjóðir innan ESB sem hafa lent í hremmingum. Að hluta til má þakka það veru Íslendinga utan ESB.

    Mörður segir margt óljóst um stöðu okkar eftir inngöngu í ESB, ef af verður. Það eru amk engar ýkjur. Ríkissjórnin sem komst til valda á Íslandi 2009 út á að lofa opinni og gegnsærri stjórnsýslu hefur svo sannarlega gengið á bak orða sinna. Þjóðinni var ekki leyft að kjósa um hvað ætti að gera með ESB, þjóðinni var ekki leyft að velja samningsmarkmiðin, ekki svo mikið sem vita hver þau nákvæmlega eru í dag, enda er stuðningur við ESB aðild að mælast sú lægsta frá því mælingar hófust.

    Það veldur því að fyrsta mál á dagskrá nýrrar ríkisstjórnar í júní 2013 verður að blása þessar tilgangslausu viðræður af. Nota þá gríðarlegu fjármuni sem hafa farið í þetta í skynsamlegri hluti s.s. atvinnuuppyggingu, treysta heilbrigðiskerfið og reyna að koma aftur á velmegun í landinu eftir áralanga kreppu sem ekki sér fyrir endann á, ekki á meðan farið er með öll helstu stefnumál stjórnarinnar eins og hvert annað leyndarmál sem enginn má fá að vita neitt um.

    Samfylking er með ca. 20% fylgi. af þeim eru 70% harðir ESB sinnar. Hinir eru í vafa, og þeim fer fjölgandi sem vilja staldra við. í Öllum öðrum flokkum er mikil andstaða við aðild. Það er þess vegna deginum ljósara að aðild verður tekin af dagskrá strax að loknum næstu kosningum. Þetta verður ekki einu sinni kosningamál næsta vor.

  • Sigurður #1

    Það er engin góð eða sannfærandi ástæða að hætta viðræðum á næsta ári.

    Engin.

    Auðvitað á að klára þetta og leyfa þjóðinni að taka upplýsta ákvörðun.

    Almenningur er fullfær um að meta þetta sjálfur, rétt eins og Icesave horbjóðinn sem okkur var boðið upp á á sínum tíma.

    Ef samningurinn verður eins slæmur og andstæðingar vilja meina þá ættu þeir sjálfur að vera manna fegnastir að það fáist þá loksins staðfest á pappír og hægt að eyða þessari umræðu í eitt skipti fyrir öll.

  • Til „Ég segi Nei“: Þessi frásögn þín er haugalygi. Þó ekki nema bara fyrir þá staðreyndarvillu að Lettland er ekki búið að taka upp evruna sem gjaldmiðil. Lettland er ennþá með Lettneskt Lat sem gjaldmiðil, og þeir verða með það þangað til þeir taka upp evruna sem gjaldmiðil.

    Hvenar það verður nákvæmlega á hinsvegar eftir að koma í ljós á næstu árum.

  • Til „Kalli“: Stýrivextir á Írlandi og Belgíu eru 0,75%. Enda eru bæði löndin hluti af evrusvæðinu.

    Stýrivextir í Danmörku sem dæmi eru -0,2% í dag. Stýrivextir í Bretlandi eru 0,25% síðast þegar ég athugaði stöðu mála þar.

  • Jón Frímann,

    Stýrivextir eru einungis kjör bankanna gagnvart Seðlabanka þeirra, eins og þú ættir að vita.

    Það sem skiptir öllu máli er hvaða vexti bjóðast venjulegum húsnæðiskaupendum. Þar er næstum engin munur á kjörum á Íslandi og í t.d. Belgíu.

  • Gjaldmiðillinn einn og sér segir lítið, heldur það sem á bak við hann stendur. sama á við um inn/útánsvexti bankanna. Vextir endurspegla einfaldlega það ástand sem er í gangi hverju sinni. Á Íslandi hefur verið haldið úti lánapólitík þar sem auðvelt er að að fá lán og lítilla ábyrgða er krafist. Það hefur leitt til mikilla útlánatapa bankanna, þeir sem standa í skilum og hugsanlega leggja fyrir peninga þurfa að blæða fyrir þessa stefnu með háum vaxtagreiðslum lána og lélegum innlánsvöxtum.

    Með inngöngu í ESB myndi vaxtastig inn/útlána á Íslandi ekki á nokkurn hátt endurspegla stöðuna á íslenskum markaði, heldur þeirri stöðu sem ætti sér stað á hverjum tíma í Þýskalandi, Frakklandi og hugsanlega í Bretlandi. Kosningar í Þýskalandi gætu t.d. breitt vaxtastiginu á Íslandi. Það er eitthvað sem fáir væru tilbúnir að kljást við.

    Best væri auðvitað að bankar á Íslandi rækju heilbrigða útlánastarfsemi, lánuðu ekki í glórulaus verkefni, færu fram á baktryggingar fyrir hluta lánaupphæðar og/eða ákveðinnar reynslu þeirra sem eru að taka lán.

    Því miður hafa enn sem komið er að minnsta kosti, fáum dottið þetta í hug, enn er verið að framfylgja svipuðum strúktúr í lána og launamálum og var í aðdraganda hrunsins. Þingmenn sjá þetta ekki, greiningadeildir sjá þetta ekki og mörgum stjórnendum fyrirtækja er fyrirmunað að sjá þetta.

    Skrýtið hvernig fólk á borð við Mörð reynir síðan að slá ryki í augu almennings með því að segja að þrír bókstafir geti breytt vaxtastrúktúr íslenskra banka, að vörurverð íslenskra verslana breytist á einni nóttu o.s.frv. Sem betur fer er íslensk alþýða ekki svo vitlaus, enn sem komið er amk. að trúa svona fagurgala.

    Íslendingar verða að minnka kaffidrykkjuna aðeins, og fara meira að framleiða hluti, bæði til eigin nota og útflutnings. Framleiða með hagkvæmum hætti og hætta þessu masi út í eitt, sem litlu skilar. Náungar eins og Mörður eru ekki að skila miklu inn í þetta annað en dægurmas sem engu skilar. Vonandi dúkkar upp á yfirborðið fljótlega stjórnmálamenn sem sjá mikilvægi þess að tala ekki endalaust um hvað þeir geta, heldur fólk sem gerir eitthvað.

  • kristinn geir st. briem

    óvenju mikið um rugl og nöldur í umræðuni mörður er senilega að tala um sjáfan sig . En lítum á björtu hliðarnar þegar við erum geingin inní evrópusambandið þá getum við lagt niður samfylkínguna því hún fer öll á ríkisjötuna í brussel. þetta virðist vera það eina sem sem á að redda íslandi huga marðar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur