Laugardagur 01.12.2012 - 08:28 - 1 ummæli

Takk, Össur

Hér er ræðustúfur um Palestínu, Bandaríkin og Össur Skarphéðinsson úr „störfum þingsins“ í gærmorgun:

Forseti – Ég kem hér í ræðustól til að fagna úrslitum atkvæðagreiðslunnar í New York í gær. Tveir þriðju aðildarríkja greiddu atkvæði með tillögunni um að Palestína fái stöðu ríkis án aðildar hjá Sameinuðu þjóðunum, sömu stöðu og Vatíkanið hefur nú. Í þessu felst viðurkenning á Palestínu sem ríki, og í þessu felst að Palestínumenn fá aðgang að öllum stofnunum SÞ – geta meðal annars lagt mál fyrir Stríðsglæpadómstólinn – sem gæti breytt viðmótinu í samskiptum almenings í palestínu og Ísraelshers.

Aðeins níu ríki voru á móti – og það er fróðlegt að skoða þann lista. Þar eru Ísrael og Bandaríkin, og svo Kanada, eina Evrópuríkið er Tékkland, en hin ríkin eru Marshalleyjar, Míkrónesía, Nárú, Palá og Panama.Um þetta þarf ekki mörg orð – nema að vegur hinna mikilfenglegu Bandaríkja Vesturheims hefur oft verið meiri um heimsbyggðina.

Það er gott, því að niðurstöður gærdagsins eru fyrst og fremst lexía fyrir Bandaríkin, fjárhagslegan, pólitískan og hernaðarlegan bakhjarl Ísraelsmanna. Sagan frá fyrri heimsstyrjöld og gegnum kalda stríðið skýrir tengsl Ísraels og Bandaríkjanna og þekking á bandarískum stjórnmálum nú og áður getur skýrt afstöðu Bandaríkjastjórnar í deilunum – hvort sem þar ráða repúblikanar eða demókratar. Maður getur skilið að ákveðnu marki stuðning þeirra við framferði Ísraelsmanna – og vandræði þeirra Obama og Clintons sem maður vonar að vilji vel – en að skilja er ekki það að fyrirgefa. Eftir Gasastríðið fyrr í mánuðinum og eftir hinn mikla utanríkispólitíska sigur Palestínustjórnar á allsherjarþinginu í gær hljóta bandamenn Bandaríkjanna að kalla eftir skýrri sýn Washingtonstjórnarinnar til málefna Miðausturlanda almennt og vandans í Palestínu og Ísrael sérstaklega. Ég fer fram á að hæstvirtur utanríkisráðherra geri þetta, kalli eftir langtímastefnu ríkisstjórnar Bandaríkjanna í þessum efnum.

Ég nota líka tækifærið og þakka honum fyrir framgöngu sína í málefnum Palestínumanna. Ég var stoltur Íslendingur fyrir réttu ári þegar við gengum fram fyrir skjöldu og samþykktum hér í þessum sal að viðurkenna Palestínuríki, og núna er ég líka stoltur Íslendingur að vita að mínir fulltrúar í New York voru meðal flutningsmanna tillögunnnar sem tveir þriðju hlutar ríkja heims samþykktu á allsherjarþingi Hinna sameinuðu þjóða í New York í gær.

 

Flokkar:

«
»

Ummæli (1)

  • „Stoltur Íslendingur“.

    Vegna framgöngu Össurar Skarphéðinssonar.

    Vá!

    Eru þessi lyf niðurgreidd?
    12

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur