Sunnudagur 24.02.2013 - 18:30 - 4 ummæli

Umhverfis- og gæðastjórnunarkerfi gegn mengun andrúmsloftsins

Ýmsir draga dár að landsfundarályktunum Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll. Ekki ég. Ég tek eftir að Sjálfstæðisflokksmenn hafa nú viðurkennt hættuna frá loftslagsbreytingum og líkast til fundið út að þær séu í samhengi við losun gróðurhúsalofttegunda.

Ég skil kaflann um „Loftslagsmál og mengunarvarnir“ í ályktun þeirra um umhverfismál að minnsta kosti þannig að átt sé meðal annars við loftslagsvána þegar því er slegið föstu að

Mengun andrúmslofts spillir umhverfi, heilsu og lífsgæðum fólks.

Strax á eftir segir landsfundurinn að það sé „brýnt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda“ og hefur til þess gott ráð:

 … meðal annars með því að stuðla að innleiðingu umhverfis- og gæðastjórnunarkerfa í fyrirtæki og stofnanir.

Vakin er athygli á því að „Ísland er eitt fárra ríkja sem stendur við skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto-samkomulaginu og Íslendingar standa framar flestum þjóðum heims í notkun vistvænna orkugjafa með yfir 70% af heildarorkunotkun landsins.“

Að vísu er ósagt að líklega er einhver mesta losun á mann einmitt á Íslandi, en þá eru álverin auðvitað reiknuð með.

Og Sjálfstæðisflokkurnn ætlar að standa í lappirnar í þessu máli einsog öðrum:

Tryggja verður að Ísland njóti til fulls forystu sinnar í nýtingu endurnýjanlegrar orku í framtíðarloftslagssamningum þjóða.

Við verðum að sjálfsögðu að standa vörð um það að fá að menga meira á þeim sviðum sem við getum ekki notað endurnýjanlegu orkuna.

En samt þarf að draga úr losun úr bifreiðum. Það skilja Sjálfstæðisflokksmenn og hafa tekið afstöðu af djörfung og hreysti um það hvað eigi að taka við af bensín- og olíuhákunum. Menn tala um metan og tvinn og lífdísil en Sjálfstæðisflokkurinn er ekki gefinn fyrir mörg svör í einu. Hann vill núna rafbíla:

Leggja skal stóraukna áherslu á rafknúin farartæki.

Og hann veit hvernig á að koma þessu í kring:

Það má gera með hvetjandi aðgerðum s.s. lækkun opinberra gjalda af slíkum farartækjum.

Ekki hafði okkur hinum dottið þetta í hug. Hvað þá sett um þetta ákvæði í lögum um vörugjöld og aðra skatta. Ja, kannski fyrir metan.

Svo tek eftir því að Sjálfstæðismenn vilja líka

vernda og efla náttúrulega birkiskóga og endurheimta votlendi.

Þá styðja þeir líklega nýja nátturuverndarfrumvarpið, því þar á einmitt að vernda votlendi og birkiskóga. SAer  að vísu á móti, en hlýtur að breyta um afstöðu núna.

Sumum kann að finnast þetta ofurlítið tilviljunarkennt en mér finnst ályktunin um umhverfismál góð og skýr og einföld hjá Sjálfstæðisflokksmönnum í Laugardalshöll. Og fullt af kristnum gildum. Hlakka til að hitta þá Birgi Ármannsson og Árna Johnsen á næsta fundi umhverfis- og samgöngunefndar alþingis. Fá að vita meira um umhverfis- og gæðastjórnunarkerfin.

Flokkar: Menning og listir

«
»

Ummæli (4)

  • Árni Finnsson

    Um náttúruverndarfrumvarpið segir í ályktun landsfundar D:
    „Frumvarp um heildarendurskoðun náttúruverndarlaga er ótækt og mun missa marks, hafi tilgangur þess verið að stuðla að bættri umgengni mannsins við íslenska náttúru. Frumvarpið er ótækt því þar er gert ráð fyrir að löskuð vistkerfi verði varðveitt í núverandi ástandi en ekki bætt, ferðafrelsi takmarkað en gjaldtaka á almenning og atvinnulíf nær nýjum hæðum. Valdið sem stjórnvöldum er fengið er náttúruvernd ekki til framdráttar. Vantraust ríkir, sökum þess ríka valds sem frumvarpið ætlar ríkinu, hvaða stofnunum valdið er falið og hvernig þær stofnanir hafa beitt valdi sínu til þessa. Hætt er við að kerfið bjóði heim öfgum, af því að enginn maður hefur visku til þess að fara með valdið sem lögin gera ráð fyrir. Þannig verður ríkisstofnunum beitt t.d. gegn sveitarfélögum og landsmönnum öllum, um leið og stjórnkerfi náttúruverndar verður dýrt, flókið og óskilvirkt. Verði frumvarp þetta að lögum fyrir lok yfirstandandi þings, mun Sjálfstæðisflokkurinn beita sér fyrir því, að þau verði numin úr gildi á komandi kjörtímabili.“

  • Aðalsteinn Sigurgeirsson

    Ályktun landsfundar um náttúruvernd (http://www.xd.is/media/landsfundur-2013fl/umhverfis_loka.pdf):

    Náttúra landsins færir fólki endurnæringu, hvatningu og hugarró. Mikilvægt er að gengið sé vel um náttúruna.

    Einkaframtakið reynist vel í náttúruvernd og það þarf að nýta frekar. Huga þarf vel að náttúruperlum landsins og heimila gjaldtöku til að vernda og stýra aðgangi ferðamanna að viðkvæmum svæðum. Gistináttagjald og önnur ómarkviss gjaldtaka af ferðamönnum verði afnumin.

    Frumvarp um heildarendurskoðun náttúruverndarlaga er ótækt og mun missa marks, hafi tilgangur þess verið að stuðla að bættri umgengni mannsins við íslenska náttúru. Frumvarpið er ótækt því þar er gert ráð fyrir að löskuð vistkerfi verði varðveitt í núverandi ástandi en ekki bætt, ferðafrelsi takmarkað en gjaldtaka á almenning og atvinnulíf nær nýjum hæðum. Valdið sem stjórnvöldum er fengið er náttúruvernd ekki til framdráttar. Vantraust ríkir, sökum þess ríka valds sem frumvarpið ætlar ríkinu, hvaða stofnunum valdið er falið og hvernig þær stofnanir hafa beitt valdi sínu til þessa. Hætt er við að kerfið bjóði heim öfgum, af því að enginn maður hefur visku til þess að fara með valdið sem lögin gera ráð fyrir. Þannig verður ríkisstofnunum beitt t.d. gegn sveitarfélögum og landsmönnum öllum, um leið og stjórnkerfi náttúruverndar verður dýrt, flókið og óskilvirkt. Verði frumvarp þetta að lögum fyrir lok yfirstandandi þings, mun Sjálfstæðisflokkurinn beita sér fyrir því, að þau verði numin
    úr gildi á komandi kjörtímabili.

    Leitast skal við að nýframkvæmdir og mannvirki falli sem best að umhverfi sínu en draga verður úr vaxandi skipulagsofsa og eftirlitsiðnaði. Landsfundur telur að bæta þurfi aðkomu að áhugaverðum og vinsælum svæðum með það að markmiði að ferðamenn geti skoðað landið á öruggan hátt, enda verði tekin upp hófleg gjaldtaka á vinsælum ferðamannastöðum
    til að fjármagna viðhald og uppbyggingu ferðamannastaða. Náttúruvernd skal höfð að leiðarljósi við slíkar framkvæmdir.
    Eitt mikilvægasta verkefni Íslendinga á sviði náttúruverndar er að snúa við þeirri gróður- og jarðvegseyðingu sem hófst við landnám. Til þess þarf uppgræðslu örfoka lands, nýrækt skóga og beitarstjórnun.

    Í okkar valdi er að stýra beit á landinu til þess að náttúruleg gróðurmyndun geti átt sér stað.

  • Aðalsteinn Sigurgeirsson

    Ályktun landfundar um „Loftslagsmál og mengunarvarnir“ (http://www.xd.is/media/landsfundur-2013fl/umhverfis_loka.pdf, bls. 7)
    Landsfundur Sjálfstæðisflokksins telur, að vísbendingar um loftslagsbreytingar af mannavöldum séu sterkar. Sporna þarf gegn of hraðri hlýnun loftslags sem getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir mannkyn og lífríki jarðar.

    Landsfundur telur brýnt að dregið verði úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Þetta verði gert með sem hagkvæmustum hætti, bæði með því að draga úr beinni losun af mannavöldum og með því að stórauka skógrækt og aðra eflingu gróðurlenda í landinu, enda er skógrækt árangursrík og ódýr leið til bindingar koltvísýrings. Leitað verði leiða til að uppfylla skuldbindingar Íslendinga um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. með nýtingu koltvísýrings til eldsneytisframleiðslu úr endurnýjanlegum innlendum orkulindum og
    með skógrækt. Jafnframt því að binda koltvísýring er með aukinni skógrækt sköpuð ný og verðmæt náttúruauðlind, komandi kynslóðum til arðs og yndisauka.

    Tryggja þarf eigendum skóga rétt yfir því kolefni sem bundið er í þeim og verslun með það ef tækifæri gefst til þess í framtíðinni.

    Mikilvægt er að minnka magn úrgangs sem þarf að urða, t.d. með endurnýtingu og endurvinnslu. Hvetja ber sveitarfélög til að taka upp aukna flokkun á sorpi þar sem hún er hagkvæm. Mikil verðmæti fara forgörðum við núverandi ástand, ekki síst það landrými sem urðunin krefst.

    Þar sem aðstæður leyfa skal tækjabúnaður til orkuvinnslu úr sorpi nýttur með nýjustu tækni og mengunarbúnaði.

  • Aðalsteinn Sigurgeirsson

    Mörður hefur í pistli sínum verið að vitna til ályktana landsfundar Sjálfstæðisflokksins frá 2009:
    http://www.xd.is/landsfundur/alyktanir-landsfundar-2009/nr/778

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur