Föstudagur 01.03.2013 - 16:42 - 5 ummæli

Áfram Ísland

Við afgreiddum náttúruverndarfrumvarpið út úr umhverfisnefndinni í gær, sex nefndarmenn og eiginlega sjö með áheyrnarfulltrúa Hreyfingarinnar – sumsé Samfó, VG, BF, Hreyfingin og Atli Gísla. Framsókn ekki með en kannski ekki heldur mikið á móti – en gamli góði Íhaldsflokkurinn svíkur ekki og ætlar að berjast gegn framförum í náttúruvernd til síðasta manns. Skilja ekki hvað alþjóðaorðið conservativ merkir …

Þetta er framfaramál – fyrir grænu hreyfinguna innan flokka og utan, fyrir alla útivistarmenn og náttúruvini, og ekki síst fyrir atvinnulíf tengt náttúrunni. Auðvitað er frumvarpið ekki gallalaust – aðallega vantar í það ákvæði gegn gróður- og jarðvegseyðingu sem ættu þó ennþá betur heima í öðrum lögum, svo sem um beit búfjár – en í heildina er þetta Áfram Ísland. Nokkrir helstu áfangarnir eru:

* aukinn almannaréttur miðað við lögin nú – og þá er vissulega gengið á rétt landeigenda, en í nefndarstarfinu tókum við líka tillit til aukins ágangs á eignarlönd

* raunhæfar aðgerðir gegn akstri utan vega, með nýjum kortagrunni um vegslóða þannig að öllum sé ljóst hvenær þeir eru utan vega og hvenær ekki – hér þarf að fara varlega og vinna í samráði við útivistarmenn, landeigendur, fræðimenn og auðvitað sveitarstjórnir

* ný flokkun friðlýstra svæða í samræmi við fjölbreytni íslenskrar náttúru og alþjóðlega flokkun verndarsvæða – nýjungar eru náttúruvætti, svo sem Surtsey og Eldey, óbyggð víðerni og landslagsverndarsvæði – þetta er meðal annars mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna en mest um vert að skipulagið á friðlýstu svæðunum sé í samræmi við það sem þarf að vernda og er merkilegast á hverju svæði – þannig að ferðir manna, nytjar og önnur umsvif séu leyfð ef þau ganga ekki á þá náttúruþætti sem verið er að vernda. Í Surtsey geta bara fengið að koma vísindamenn og sérstakir gestir, en um óbyggð víðerni eiga allir að fara, hver með sínu lagi meðan þeir trufla ekki ferðir annarra.

* sérstök vernd náttúruminja – eldhraun, hverir, fossar, votlendi og vötn, birkiskógar o.fl. – aukin – er í lögum nú en hefur ekki verið virt vegna slaka í reglunum með hörmulegum afleiðingum.

Svo eru skipulagsbreytingar, svo sem kringum náttúruminjaskrá – þar verður lagður nýr faglegur grundvöllur – og reglum breytt um undirbúning og réttaráhrif friðlýsingar (svæði) og friðunar (tegundir, vistkerfi).

Hávaði

Það hefur verið talsverður hávaði kringum þetta frumvarp allt frá því í fyrra þegar Svandís Svavarsdóttir reyndi árangurslaust fá samþykktar allra brýnustu ákvæðin. Sumt af gagnrýninni á frumvarpið hefur verið réttmætt. Til dæmis er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ráðherra sjái nánast einn um alla friðlýsingu og friðun, en ein af breytingartillögum nefndarinnar er að helstu verkefnin verði samþykkt á alþingi með framkvæmdaáætlun sem samsvarar náttúruverndaráætlun nú. Þannig fá friðlýsingaráformin góða kynningu og pólitískan stuðning, sem á að hjálpa til við að koma þeim í verk.

Akstur utan vega

Mest hefur borið á deilum um akstur utan vega og kortagrunninn sem boðaður er í frumvarpinu – er reyndar að stofni til langt kominn hjá Landmælingum uppi á Skaga. Ég sé ekki betur en að eina leiðin til að sporna við akstri utan vega sé að öllum sé ljóst hvar má keyra – rétt einsog í byggð. Svo verður að tryggja að við ákvörðun um heimila slóða og óheimila sé samráð þannig að allir haghafar komi að og geti komið sjónarmiðum sínum að.

Hitinn í þessari umræðu stafar í reyndinni ekki frá eldsumbrotum kringum þetta frumvarp eða kortagrunninn heldur er eldsrótanna að leita í deilum inni í Vatnajökulsþjóðgarði – sem nú er sem betur fer verið að leiða til lykta.

Ég hef sagt um þetta almennt að allir hafi rétt til að njóta íslenskrar náttúru – og að náttúruupplifun eins sé jafnmerkileg og náttúruupplifun annars, hvort sem þar koma við sögu göngustafur, fjallaskíði, jeppi, kajak eða reiðhjól. Hinsvegar þurfum við skipulag þannig að einn hópur spili ekki ánægju annars hóps – og hættan á því er því meiri sem ferðamaðurinn er vélvæddari.

Þessi umræða hefur fætt af sér breytingartillögur við frumvarpið – meðal annars þá að við viljum fá viðurkenndan rétt ökumanna til að njóta almannaréttarins að sínu leyti. Það hefur auðvitað ekki þær afleiðingar að allir megi keyra hvar sem er en mundi meðal annars gefa ökumönnum rétt til að leita til Umhverfisstofnunar eftir úrskurði um lokaðan veg, á sama hátt og göngumenn geta kært þangað hindranir sem þeir telja óréttmætar.

Skógræktarmenn

Skógræktarmenn hafa líka haft horn í síðu frumvarpsins. Þegar gengið er á þá kemur í ljós að þeir eru í reynd að gagnrýna núverandi lög – og óttast þó einna helst um að það þrengi óþarflega að þeim við skógræktarstarfið. Um þetta má ræða heilu dagana – það er ljóst að skógræktarmenn annarsvegar og hinsvegar ýmsir aðrir hópar náttúruverndarmanna og -unnenda eiga verk fyrir höndum við að eyða langvarandi tortryggni og koma sér saman um grundvallarmál. Sá vandi á þó ekki að standa í vegi þessu framfarafrumvarpi.

Skrýtið með skógræktina – þar er mikill uppgangur, bæði í atvinnugreininni og frístundaiðjunni – en um leið er einsog skógarmenn glími við einskonar tilvistarkreppu. Finni sér ekki eðlilegan stað í samtímaþróun og hugmyndagrunni alþjóðlegrar náttúruverndar, og upplifa sig einsog í einelti – eða eru þeir það kannski? Hverjir eru þá hrekkjusvínin?

Hjól atvinnulífsins …

Svo eru SA og SI og LÍÚ, og jafnvel sum sveitarfélögin – sem fárast yfir hertri náttúruvernd vegna þess að hún spilli framkvæmdum og geri þær dýrari. Auðvitað er það að sumu leyti rétt – náttúruvernd kostar. En það kostar líka að hafa óskýrar reglur sem menn notfæra sér til að skemma land, meiða tilfinningar og spilla til  frambúðar öðrum tækifærum. Það hafa ýmsir framkvæmdamenn reynt á eigin skinni, lent með glannaleg áform í mótbyr, fjölmiðladeilur, kæruferli. Og ekki má gleyma því að náttúruvernd er sannarlega ekki andstæð atvinnulífi – heil atvinnugrein væri líklega ekki til nema vegna náttúru sem hægt er kynna sem hreina og óspjallaða, enda fagna Samtök ferðaþjónustunnar frumvarpinu. Aðrar greinar hafa líka hag af náttúruvernd – og ímynd Íslands byggist á því að við umgöngumst náttúruna sem einbeittir vörslumenn, einsog Magnús Orri félagi minn Schram hefur bent á ágætlega og rækilega.

Næsta skref

… er að koma málinu á dagskrá á alþingi. Vinnan í nefndinni hefur gert gott frumvarp ennþá betra. Manni kemur í sjálfu sér ekki á óvart að Sjálfstæðisflokksmenn ætli sér að bregða fæti fyrir málið – aftur núna eftir að þeir stoppuðu „litla frumvarpið“ í fyrra undir forustu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Ég er hinsvegar að vona að Framsóknarmenn nái vopnum sínum – hinn gamli flokkur Eysteins Jónssonar – og sjái að það yrði tvíbent í kosningabaráttunni að hafa beitt sér síðustu daga kjörtímabilsins gegn framförum í náttúruvernd.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Ég hef aldrei heyrt nokkurn tala um „conservativ“. Hreinlega efast um að það orð sé til í nokkru máli.

    Þannig að það er kannski skiljanlegt að Sjálfstæðismenn hafi ekki viljað samþykkja eitthvað plagg án þess að skilja það eða lesa, ólíkt ýmsum.

  • Svo hækkuðu þið húsnæðislá heimilanna um 1000 000 000 kr. Vel gert eða hitt þó heldur. Ættuð að skammast ykkar.

  • kristin geir st briem

    þessi lög eru eflaust jafn faglega unnin og rammaáælun þar sem nátúran áti að njóta vavans en þegar á reindi setust ráðherarnir niður og sömdu eftir því sem hentaði pólutíst að gömlum góðum íslenskum sið eins sínis mér vera með þetað frumvarp vera unið. áhverju leggiði ekki bara niður ráðuneitin og lofið ráðherunum að tala við sína fylgismenn oglátið þá skrifa frumvarpið er ekki ríkið altaf að reina að spara

  • Sigvaldi Ásgeirsson

    Gott að Sjálfstæðismenn skuli ætla að halda uppi merkjum skynseminnar, því náttúruhyggjan, sem frumvarpið byggir á, er óvísindaleg og full af bábiljum. Ég sé t.d. ekki framfarir fólgnar í því, að ætla að krefjast leyfisveitinga til að nota tegundir trjáa og jurta í landi sínu, sem voru ekki komnar til Íslands árið 1750. Sama þótt orðalaginu hafi verið breytt í „um miðja 18. öld“. Raunar er sú breyting hlægileg og mun gera skömm ykkar ævarandi. Yfir okkur er að færast miðaldamyrkur forræðishyggju í landnýtingu. Framfarasinnar um miðja 18. öld voru einmitt að berjast við slík myrkraöfl, sem vildu m.a.s. hafa forræði yfir ástarlífinu. Og bara svo því sé haldið til haga: Varúðarreglan, sem „náttúruverndarmenn“ hafa mjög miklar mætur á, er sannkallaður úlfur í sauðagæru. Þrátt fyrir alla þá minnimáttarkennd, sem hugvísindamenn ala með sér í garð náttúruvísinda, eru náttúruvísindin ekki nákvæminsvísindi í ströngustu merking þess orðs. M.a.s. atómið hefur aldrei nokkur maður augum litið. Atóm er módel, sem miklar líkur eru á að komist nærri því að endurspegla raunveruleikann, en samt fremur tilgáta en staðreynd. Afar fáar ef nokkrar niðurstöður rannsókna í náttúruvísindum eru hafnar yfir allan vafa. Því er hægt að banna allt og stöðva allar framkvæmdir á grundvelli „varúðarreglunnar“. Gættu að því!

  • Einar Gunnarsson

    Sú lífskoðun að náttúrvernd snúist helst um að „uppræta framandi tegundir í náttúru Íslands“ mætti kalla nýnáttúruvernd eða þjóðgarðyrkjuhyggju. En hún er ekki alveg ný af nálinni: http://books.google.is/books?id=fb1SpsAElIAC&pg=PA71&lpg=PA71&dq=Impatiens+parviflora;+third+reich&source=bl&ots=g_9N3VjfTO&sig=TtC_Dd4UQwAkUEvQvGTEQI_mX44&hl=is&sa=X&ei=W082UeKjE8u_PLv-gdAD&ved=0CDgQ6AEwAQ#v=onepage&q=Impatiens%20parviflora%3B%20third%20reich&f=false

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur