Sunnudagur 24.03.2013 - 16:55 - 8 ummæli

1937, 1947, 1949, 1959, 1989

Greinin sem í núgildandi þingsköpum er númer 71., um takmörkun ræðutíma, hefur verið í þingskapalögunum síðan á 19.öld. Þessari heimild hefur ekki verið beitt oft – en um það eru þó fimm dæmi:

Hinn 7. apríl 1937 voru ákafar umræður í efri deild Alþingis um frumvarp um Síldarverksmiðjur ríkisins, sem tveir þingmenn Framsóknarflokksins fluttu. Þegar önnur umræða hafði staðið í þrjá heila klukkutíma lagði forseti til að framvegis tæki hver ræða ekki nema tíu mínútur. Tillaga forseta um að stytta ræðutíma var samþykkt með 10 atkvæðum gegn 3. Í ríkisstjórn voru þá Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, forsætisráðherra Hermann Jónasson. Forseti neðri deildar var Einar Árnason.

Hinn 16. desember 1947 var til umræðu í neðri deild stjórnarfrumvarp um dýrtíðarráðstafanir. Eftir átta klukkustunda umræðu lagði forseti til að ræðutími hvers þingmanns yrði tíu mínútur, enda væri alllangt liðið á nóttu. Tillagan var samþykkt með 16 atkvæðum gegn 6. – Í ríkisstjórn voru Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, forsætisráðherra Stefán Jóhann Stefánsson. Forseti neðri deildar var Barði Guðmundsson.

Hinn 30. mars 1949 fjallaði þingið um þingsályktun til staðfestingar á aðild Íslands að Nató, það var síðari umræða. Forseti sameinaðs Alþingis lagði til við upphaf umræðunnar tillögu um að hún stæði ekki lengur en þrjár klukkustundir alls. Tillagan var samþykkt með 29 atkvæðum gegn 13. – Sama ríkisstjórn var við völd og í desember 1947. Forseti neðri deildar var Barði Guðmundsson.

Hinn 4. desember 1959, skömmu fyrir þingfrestun, lauk í neðri deild fyrstu umræðu um stjórnarfrumvarp um ýmis fjármál. Umræður hófust á þriðja tímanum eftir hádegi, en miklar umræður höfðu verið í þinginu um önnur mál. Laust eftir miðnætti lagði forseti til að umræður yrðu takmarkaðar eftir klukkan eitt um nóttina. Tillagan var samþykkt með 21 atkvæði gegn 18. – Í ríkisstjórn voru Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur (viðreisnarstjórnin), forsætisráðherra Ólafur Thors. Forseti neðri deildar var Jóhann Hafstein.

Hinn 13. apríl 1989 flutti utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) árlega skýrslu um utanríkismál. Klukkan rúmlega þrjú um nóttina ákvað forseti með tilvísun til þingskapagreinarinnar að stytta ræðutíma þeirra sem enn voru á mælendaskrá í tvær mínútur, að því er virðist án athugasemda.* Í ríkisstjórn voru Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Framsóknarflokkur, forsætisráðherra Steingrímur Hermannsson. Forseti sameinaðs alþingis var Guðrún Helgadóttir.

 

—- — — —

*) Athugasemdir komu raunar fram síðar, sbr. Mbl. 29. apríl 1989, bls. 29.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Það er löngu tímabært að þessari vitleysingasamkomu sé slitið Mörður. Þið getið svo notað kosninga baráttuna til að sannfæra kjósendur um að ykkur sé treystandi. Þetta snýst ekkert um málþóf. Þetta snýst um stjórnleysi þingsins, stjórnleysi og frekjuyfirgang þingmanna og ráðleysi ríkisstjórnarinnar. Mál er að linni.

  • Garðar Garðarsson

    Hvað er vandamálið Jóhannes Laxdal ef ekki er málþóf í gangi? Þá fara menn bara í málefnalega umræðu um stjórnarskrána og ganga svo til atkvæðagreiðslu, og þannig efna þingmenn loforð sem veitt var þegar stofnað var til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Til hvers var þjóðaratkvæðagreiðslan 20. okt. ef ekki á að hlusta á afgerandi vilja landsmanna sem kom þarna í ljós?
    Ef menn reyna síðan að koma í veg fyrir lýðræðislega atkvæðagreiðslu með málþófi þá skal auðvitað bjarga lýðræðinu með því að beita 71 gr. þingskapa.

  • Garðar, þú þarft ekkert að spyrja. Staðreyndin er sú að það er ekki eining innan stjórnarflokkanna um að klára málið. Ef þú hefur fylgst með þessari leiksýningu sem nú er í gangi þá ættirðu að vita að það er bara einfaldlega ekki meirihluti fyrir stjórnarskrárfrumvarpinu. Þess vegna er málið í hnút. Og þessi tillaga Árna Páls, Katrínar og Guðmundar Steingríms er til að ekki þurfi að greiða atkvæði um stjórnarskráfrumvarpið. Þá myndu nefnilega svikararnir þurfa að afhjúpa sjálfa sig. Þetta liggur í augum uppi. Ástæðan er ekki málþóf. Ástæðan er sundurlyndi innan stjórnarflokkanna enda er málið illa unnið. Það verður bara að segjast eins sorglegt og það nú hljómar

  • Jon Vidar Gunnarsson

    Hvers vegna hafa ekki enn fundist níu þingmenn á Alþingi sem eru tilbúnir að láta reyna á vilja Þingsins til að takmarka ræðutíma og fara með málið í atkvæðagreiðslu?
    Eina sýnilega skýringin er að þeir þori ekki að ganga gegn flokknum af ótta við eigin stöðu . Því finnst mér undarlegt að heyra þingmenn koma fram hvern af öðrum og tala ákaft með málinu. En einmitt það hef ég séð á útifundum síðustu vikurnar.
    Ef við gefum okkur að 3 þingmenn Hreyfingarinnar myndu styðja slíka tillögu þá vantar einungis 6. þingmenn til viðbótar ? Fleiri en það hafa lýst yfir eindregnum stuðningi við framgang málsins en þó er 71. greinin enn ónýtt málinu til framdráttar.
    Eru þingmenn upp til hópa fólk sem er ómarktækt? Svo virðist í mjög mörgum tilfellum vera og því er ekki undarlegt að illa sé fyrir lýðræðinu komið.
    Við fáum allavega að kjósa fljótlega svo einhverjar breytingar munu verða.
    Vonandi fá einhver nýju framboðanna mikið fylgi því annars verður hér óbreytt ástand.

  • Garðar Garðarsson

    Jóhannes ég er þér algjörlega ósammála, því sjaldan hefur verið eins vel og lýðræðislega unnið að nokkru máli fram til þessa. Nú vantar bara að alþingismenn gangi til atkvæðagreiðslu og þá kemur í ljós hver viljinn er, og það hlýtur að vera það lýðræðislegasta í stöðunni eða hvað?

  • Ómar Kristjánsson

    það náttúrulega, að þegar reglunum var breytt í samb. við ræðutíma, að þá var það þannig í gamla daga að menn áttu það til að tala lengi. Var náttúrulega ekkert vit í því þó stundum væri margt frólegt sem kæmi fram.

    Eg man eftir umtalinu um þegar reglum var eitt sinn breytt, að hugmyndafræðin var að gefa möguleika á snarpari umræðum. Spurningum, stuttum svörum og andsvörum o.s.frv.

    það sem hefur síðan gerst, að mínu mati, er misnotkun á þessu kerfi. það er ekkert vit í að horfa uppá vitleysisgang þeirra framsjalla í kringum þetta. Þá var nú bara held ég talsvert meira vit í 3 klukkatíma ræðum Hjörleifs. Talsvert meira vit.

    það er líka athyglisvert þega aðildin að Nato var samþykkt 1949 – að þá voru umræður 3 klukkutímar. 3 klukkutímar í einu merkilegasta máli eftir lýðveldisstofnun. Eg hef lesið í kringum það og þá sögðu þeir sjallar eitthvað á þá leið, að engin ástæða væri til að hafa umræður lengi því öll sjónarmið hefðu komið fram í útvarpsumræðum daginn áður.

  • Olafur Jonsson

    Málþóf fyrir jól og meira og minna stundað síðan eftir jól allt gert til að nýja stjórnarskrá þjóðarinnar nái ekki fram að ganga. Það var vitað að Mólþóf yrði stundað þegar nýja stjórnarskráin kæmi til afgreiðslu og átti strax að setja fram hvernig tímasetning yrði á umræðunni eftir að frumvarpið kom úr nefnd og hefði þá ekkert verið því til fyrirstöðu að samþykkja málið með loforði 32 viljugra þingmanna.

    Þá kom þessi hálfvita tillaga Árna Páls. Katrínar og Guðmundar sem var algert klúður og virðist hafa haft þann eina tilgang að eyðileggja málið fyrir Þjóðinni. Núna eru tveir möguleikar í stöðunni að setja stjórnarskránna a dagskrá með mjög takmörkuðum ræðutíma eða takmarka ræðutimann á breytingartillögunni og samþykkja breytingartilög Margrétar Tryggvadóttur og málið er leyst. Þetta getur forsætisráðherra knúið fram ef hún hefur bein í nefinu.

  • Ég vona að þessari reglu verði beitt. Ég vona þó jafnframt að stjórnarliðar í dag viti að þeir geti lent í henni sjálfir ef og þegar þeir sitja í stjónarandstöðu í framtíðinni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur