Fimmtudagur 28.03.2013 - 09:42 - 30 ummæli

Árangur

Er glasið hálf-fullt eða hálf-tómt? Eigum við að velta okkur upp úr vonbrigðunum eða gleðjast yfir því sem vel hefur gengið? Vissum við alltaf að þetta eru asnar – eða ætlum við að gera betur á morgun?

Það gekk mikið á síðustu daga þingsins – og hér með skal viðurkennt að í mínum huga er ekki sérlegur ljómi yfir þessum þinglokum, fyrst og fremst auðvitað út af afdrifum stjórnarskrármálsins. Mér finnst hinsvegar svikabrigsl og formælingar út í hött. Þessi vegferð var einfaldlega erfið og áhættusöm – í þeim aðstæðum að stjórnarflokkarnir voru komnir í minnihluta eftir brottflug flestra hinna rokgjörnu einda, fjögurra úr VG og líka ágæts drengs úr mínum flokki. Hreyfingarfólkið stóð sig vel en hefði þurft að standa sig ennþá snarpar og vera ennþá fórnfúsara, og svo þurfti að eiga við fýlupoka í stjórnarflokkunum sem voru ýmist á móti einstökum pörtum stjórnarskrárinnar, svosem jöfnu vægi atkvæða, eða þótti þetta brölt alltsaman frekar ómerkilegt og allsekki nógu róttækt. Litla leikritið hjá snyrtipinnunum í Bjartri framtíð — og svo Framsóknarflokkurinn – muniði sem veitti hlutleysi fyrir síðustu kosningar með skilyrði um stjórnlagaþing, ja, Framsóknarflokkurinn …

Stjórnarskrármálið vakir samt – eftir feikimikla vinnu, og næsta verkefni er að safna liði. Ekki gleyma að við höfum þrátt fyrir vonbrigðin síðustu vikur náð miklum árangri. Fyrir liggur klár stjórnarskrártexti sem mikill fjöldi fólks hefur átt þátt í að hugsa, semja, bæta, berjast fyrir. Stjórnarskráin er á dagskrá, og nú er viðurkennt að hún er í höndum þjóðarinnar, ekki séreign stjórnmálahöfðingja í bakherbergjum eða lögfræðigráskeggja í akademíum.

Já, ég hefði viljað beita 71. greininni og fá þjóðareignina í gildi. Já, ég var hundfúll yfir þessu kléna breytingafrumvarpi, og greiddi því ekki atkvæði í gær. En í dag vil ég halda áfram.

Gleymum ekki árangrinum. Við höfum einmitt verið snillingar í því mörg framsýnt fólk og jafnaðarmenn og græn og falleg og gáfuð – að ná miklum árangri en átta okkur ekki á því fyrren löngu seinna – þegar aðrir njóta eldanna.

Sigrarnir — náttúruverndin í gegn

Og þrátt fyrir stjórnarskrárdramað unnust sigrar síðustu vikurnar. Mér stendur næst að í gær komst í gegn náttúruverndarfrumvarpið, sem gæti orðið nýr grundvöllur að sambúð okkar við landið, feikilegt framfaraskref og eitt allra merkilegasta umhverfismálið síðustu fjögur ár – ásamt rammaáætluninni og verkefnalistanum sem kenndur er við græna hagkerfið.

Þetta var ekkert auðvelt, og síðustu sólarhringana stóð yfir snúin samningalota – til þess eins að fá málið á dagskrá í atkvæðagreiðslu gegnum málþófsmúr B/D, því meirihlutinn á þinginu var alveg klár: Allir gegn Framsóknarsjálfstæðisflokki, 38–25. Lykillinn var að gefa eftir nokkra mánuði í gildistöku, sem auðvitað þýðir að ef hér myndast grár meirihluti getur hann breytt frumvarpinu – en hefði hvort sem var getað breytt lögunum. Og svo var búin til talsverð löggjafar-barbabrella kringum greinarnar um utanvegaaksturinn, án þess að fórna neinum grundvallarávinningum. Þar vorum við áður búin að laga frumvarpið þannig að vélvætt útivistarfólk á að geta unað vel við, sem þarf að vera til að allir leggist á árar í sömu átt.

Það var merkilegt að vinna í náttúruverndarfrumvarpinu. Ekki síst vegna þess hvað margir voru uppteknir af málinu. Flott fólk sem vann Hvítbókina og lagði drög að frumvarpinu, fjöldi manns sem síðan hafði áhyggjur af einu, kom með ábendingar um annað. Sextán þúsund manns skrifuðu undir texta út af utanvegaakstrinum! Mér fannst það að vísu ekki góður texti – en í slíkum fjölda undirskrifta kemur vel fram hvað margir tengjast náttúrunni nánum böndum og hvað Íslendingum er ekki sama um landið sitt. Og það er sannarlega gott. Utanvegaaksturinn og almannarétturinn eru þó ekki nema einn hlutinn af þessari löggjöf. Sjáið sjálf hér og hér.

Nýju náttúruverndarlögin leggjast beint inn í kosningabaráttuna núna strax eftir páska. Þau eru til til dæmis um ávinninginn síðustu fjögur ár, upp úr hruninu og gegnum þokuna, vitnisburður um mikinn árangur sem vonbrigði síðustu dægra mega ekki spilla.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (30)

  • „Er glasið hálf-fullt eða hálf-tómt? Eigum við að velta okkur upp úr vonbrigðunum eða gleðjast yfir því sem vel hefur gengið?“

    Gott að þú skulir vera kátur Mörður og ég samfagna þér vissulega með áfangann í náttúruvernd, en öllu lengra nær samfögnuður minn ekki.

    Aðal máli stjórnarinnar var fórnað á altari hrossakaupa eða eins og formaður Samfylkingarinnar kýs að kalla það, í nafni „sátta“
    Það voru þá sáttir..

    Það stoðar lítitt að ætla að fela ræfildóm flokksmanna með því að benda á “ fýlupoka og snyrtipinna“ úr öðrum flokkum.
    Nær væri að horfa til nýja „sáttakóngsins“ og kannski staldra aðeins við og skoða í hvaða átt hann er að fara með flokkinn.

    Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið sterk kjölfesta flokksins og það er ástæða til þess að þakka henni ötula baráttu sína fyrir fólkið í landinui og þá ekki síst í stjórnarskrármálinu, en á sama tíma er dapurt til þess að hugsa að sá sem við henni tók skuli vera á hraðferð við það að eyðileggja flokkinn.

  • Hjálmar Sveinsson

    Góð og jákvæð grein Mörður. Mitt í svikabrigslastorminum. Bestu þakkir fyrir þitt merka framlag til nýrra og mikilvægra náttúruverndarlaga.

  • Hvað áttu við með þessu.? „Fyrir liggur klár stjórnarskrártexti sem mikill fjöldi fólks hefur átt þátt í að hugsa, semja, bæta, berjast fyrir. Stjórnarskráin er á dagskrá, og nú er viðurkennt að hún er í höndum þjóðarinnar, ekki séreign stjórnmálahöfðingja í bakherbergjum eða lögfræðigráskeggja í akademíum“.
    Áttu við að stjórnarskráin sem þjóðin samdi, þ.e. þjóðkjörið stjórnlagaráð, verði að veruleika?

  • kristin geir st briem

    en afhverju var samfylkíngarleiðin altaf best stjórnarskrármálið fór ekkert að hrefast fyr enn þið þurftuð á hreifínguni að halda til að géta verið starfhæf stjórn svo ekki kenna öðrum um seinagangin í stjórninni það að mál skildu koma fram eftir síðasta skiladag var ekki gott það er ástæða fyrir skiladeigi að vera stöðugt að vera skipta um ráðherra tala nú ekki um ef það var úr sitthvorum flokknum var ekki gott . Lenti í smárifrildi við landbúnaðarráðuneitið á sama tíma og var verið að sameinast sjávarútvesrráðuneitinu var með skjal frá þeim með leitarnúmeri þeir fundu ekki skjalið svo ég gét ýmindað mér ríngulreiðina sem allar þessar ráðuneitisbreitíngar hafa valdið og heilu skjalasöfninn seu komin á flækíng

  • Jón Einarsson

    Skammist ykkar, Þið eruð búin að hafa þjóðina að fíflum, almeningur hefur haft fyrir því að setja sig inn í málefnin og kjósa í tvígang. Hlusta á margar klukkustundir af efni, lesa margar greinar og leggja sig fram við að vera þátttakendur í þessu ferli. Ég er með einhverja ógeðstilfinningu núna, vitandi það að fólkið sem stiur á þingi mun verða flaðrandi upp um okkur kjósendur næsta mánuðinn. Já skammist ykkar.

  • Magnus Jonsson

    Þvílikt rugl, utanvegaakstur svik núverandi flokka haf hleypt illu blóði í fólk…… nú vonar maður að sem flestir úr þessum helv.. gerspillta fjórflokki verði atvinnulausir hið fyrsta!!!

  • Mörður Árnason

    Takk allir fyrir athugasemdir — Pétur, ég leyfi mér að vona að þessi mikla vinna (sjá líka athugun Jóns Einarssonar) verði ekki til einskis og veit reyndar að hún hefur þegar skilað miklu. Það skiptir auðvitað máli hvað kemur upp úr kjörkössunum en líka mikilvægt að það hafa orðið ,,eigendaskipti“ á stjórnarskránni — þjóðin hefur tekið hana til sín frá lögspekistjórnmálastéttarbakherbergjasérfræðingunum. En pólitík og félagsmál eru aldrei einsog í íþróttunum — sigurinn er aldrei fullkominn og tapið heldur aldrei algjört og endanlegt. Þessvegna vil ég að við veltum okkur ekki of lengi uppúr vonbrigðunum.

  • Já, það hafa orðið „eigendaskipti“ á stjórnarskránni. Þjóðin fékk hana á verðtryggðu láni í óðaverðbólgu.

  • Haukur Kristinsson

    Það þarf dirfsku til að tala um „árangur“ í fyrsta pistlinum eftir þingslok í gær.

    Nær væri að tala um árangur stjórnarandstöðunnar, því hann var glæsilegur.

    Þetta hafði Jónas um alþingi að segja. Litlu við það að bæta.

    „Efast um, að nokkurs staðar á Vesturlöndum sé eins ömurleg stofnun og það alþingi, sem lauk störfum í nótt. Sekust er stjórnarandstaðan, sem breytti þingstörfum í skrípaleik málþófs. Nærri jafnsekir eru stjórnarsinnar, sem misstu tök á liðinu og misstu við það kjark til að stjórna. Niðurstaðan var að svíkja okkur um stjórnarskrána. Hún hafði verið í löngu ferli og hlotið eindreginn stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta var ekki okkar alþingi, þetta var þing sérhagsmuna. Þetta var siðblint alþingi. Næsta þing verður vonandi ekki skipað neinum þeim þingmanni, sem sveik þjóðina að þessu sinn.“

  • Sæll Mörður, takk fyrir þitt framlag á þingi, hvort sem það var svo gott eða vont fyrir þjóðina, þakkir eigið þið samt skildar.
    Sammála því sem Birgitta sagði í gær, að hún liti á sig sem þjónn þjóðar, samfélagsþjónn. Kann að vera að þú lítir á þvi sem einn slíkan, vissulega hefur þú lagt áherslu á náttúrumál og er það vel
    En betur má duga skal, staðreyndirnar eru þessar, og það veistu sjálfur, þó svo að þú viljir ekki velta þér upp úr vonbrigðum stjórnarskráfrumvarpsins og fiskveiðifrumvarpsins, að þessi mál verða aldrei, aldrei tekin upp aftur ef FLokksmenn eða Framsóknarmenn verða nálægt því að vera í meirihluta.
    Þessu verður drekkt af öðrum málum, komist þeir til valda. Þeir munu ekki beita sömu stjórnun á þingi og Ásta Ragnheiður hefur beitt sér fyrir. Þar mun ekki minnihlutanum vera veitt hið einasta svigrúm, Mörður, þetta vita allir.
    Skipanir frá Hádegismóum, Kaupfélagi Skagfirðina og LÍÚ munu sjá til þess.
    Það verður lestarslys á næsta kjörtímabili, það verður sett „Eimreið“ af stað sem mun keyra yfir farþegana sem bíða á pallinum.
    Þess vegna eru vonbrigðin enn meiri,vitanandi að svona mun fara, að þið lögðuð ykkur ekki meira fram , sérstaklega í stjórnarskrárfrumvarpinu.
    Mörður, hvað gerðist þar eiginlega. Samkvæmt talningu, þá var meirihluti fyrir frumvarpinu í heild, afhverju var ekki lagt af stað og málið klárað ?
    Hver er eiginlega staða Valgerðar í þingflokknum, Samfó yfir höfuð ?
    ÁPÁ er aldeilis búinn að snýta henni duglega, það er ljóst.
    Á hverju heyktust þið ?
    Ég hef stutt ykkur í Samfó duglega í tali og skrifum, en nú fer ég úr lestinni og finn mér aðra lest að taka. Þetta bara gengur bara ekki upp.
    „Nýtt Ísland“ og allt það.
    Þið létuð Illuga, Birgi Ármanns og Vigdísi fara illa með ykkur.
    Þeirra, ásamt LÍÚ er sigurinn, ykkar er klúðrið.
    Mörður, takk fyrir lítið en takk samt.

  • Einar Steingrimsson

    „Stjórnarskrármálið vakir samt – eftir feikimikla vinnu, og næsta verkefni er að safna liði.“

    Já. En þótt margir myndu kjósa þig (og Valgerði Bjarnadóttur), Mörður, ef við þyrftum ekki að kjósa heila flokka, þá er tvennt nokkuð ljóst hér:

    Það var ekki Samfylkingin sem samdi stjórnarskrána.

    Eftir það sem gerst hefur síðustu dag dettur engum heilvita manni í hug að reyna að fá Samfylkinguna með í það lið sem vill berjast fyrir nýrri stjórnarskrá.

    Svo er bara að vona að formaður Samfylkingarinnar fái sína þrjátíu silfurpeninga með skilum.

  • Einar Steingrimsson

    Það segir svo kaldhæðnislega sögu um hið frábæra íslenska stjórnmálakerfi að refsing Samfylkingarinnar, sem felst í því að kjósendur yfirgefa hana, verður væntanlega til að þú, Mörður, sá þingmaður flokksins sem helst hefur barist gegn svikum hans, dettur út af þingi. Af því að við sem ekki getum hugsað okkur að kjósa fólk eins og Árna Pál getum þá ekki kosið þig.

  • Jónas Bjarnason

    Sæll vertu Mörður og takk fyrir skrif þín, Ég er ykkur mjög sár vegna þess, sem ég kalla bara svik. Innkoma formanns ykkar, Árna Páls, var til lítils eða minna en það. Og eitthvað varð hann að koma með. Og það reyndist vera mús. Jahérna. – Ein spurning. Hefur jeppaakstur utan vega farið mjög í taugarnar á þér? Þú hefur kannski fengið þitt í náttúruverndarlögunum og metið það á móti „stjórnarskrármissinum.“

  • Sæll Mörður,
    Nátúruverndarlög eiga eftir að valda vanda td,gr 31 og 32 .
    Kortagrunnur er landlýsing án skráningar á notkunn.
    Takmörkun á innmerkingu vegslóða á grunnkort var gerð hér á landi um 1980 varð af þessu meiriháttar vandamál–hjá björgunarsveitum , ferðamönnum,flugmönnum ofl.
    Ákvæðið er bara ritskoðun á landskráningu og mun valda vanda.

  • Árni Finnsson

    Sagt er að forseti Bandaríkjanna geti vonast til að ná í gegn einu stóru máli á hverju kjörtímabili (Clinton kom engum stórum málum í gegn). Á seinna kjörtímabili forsetans verður hann að ná fram sínum málum á fyrstu tveimur árum tímabilisins. Hann verður því að velja þau mál sem hann ætlar að ná í gegn.

    Á sama hátt má segja að umhverfisráðherra geti náð fram einu stóru máli. Það gerði Svandís Svavarsdóttir með samþykkt frumvarps til laga um náttúruvernd. Frumvarpið var vel undirbúið og vel úr garði gert.

    Mörður á miklar þakkir skildar fyrir að lóðsa málið í gegnum þingnefnd.

    Svandís kom líka í gegnum þingið Rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða en það mál erfði hún frá fyrri ríkisstjórn(um).

    Á hinn bóginn fór ekki í gegnum þingið frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Það er EES mál og undarlegt að þingheimur skuli ekki sjá sóma sinn í að drusla því máli í gegn. Þar ræður miklu minimalismi stjórnarandstöðunnar hvað varðar tilskipanir ESB í umhverfismálum; þ.e.a.s. gera eins lítið og hægt, ríghalda í handbremsuna af alkunnum ótta framsóknar – sjálfstæðisflokks við allt sem snýr að umhverfisvernd.

    Í athugasemdum við frumvarpið segir:

    „III. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningar þessarar eru athugasemdir ESA við innleiðingu Íslands á einstökum ákvæðum tilskipunar 85/337/EBE. Eru athugasemdir ESA tilkomnar vegna dómsniðurstöðu Evrópudómstólsins eins og að framan greinir. Að mati ESA uppfyllir Ísland ekki ákvæði tilskipunarinnar hvað varðar viðmið þau sem fram koma í 1. og 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Er markmið lagasetningar þessarar að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar að þessu leyti og koma til móts við athugasemdir ESA ásamt því að gera einstakar lagfæringar á lögunum sem þörf er talin á.
    Upphaflega var tilskipun 85/337/EBE innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 63/1993. Hefur tilskipun 85/337/EBE þrívegis verið breytt; með tilskipun 97/11/EB sem innleidd hefur verið í íslenskan rétt með setningu núgildandi laga nr. 106/2000, tilskipun 2003/35/EB og tilskipun 2009/31/EB. Verða tilskipanir 2003/35/EB og 2009/31/EB teknar inn í EES-samninginn á næstu missirum.“

    Nýtt þing þarf því að hysja upp um sig brækurnar til að komast hjá dómi.

  • Eini ljósi punkturinn í málinu er að þetta mál sýnir fólki vonandi endanlega hverslags rusl stjórnmálamenn eru og að orðstýr Jóhönnu verður sá sem hún á skilið.
    Einnig þýðir þetta væntanlega dauða Samfylkingarinnar og er það vel.

    Það er alger veruleika firring að kenna Sjálfstæðis- og framsóknarflokknum um málið. Það var Samfylking fyrst og fremst sem drap málið með undirlægjuhætti, bleyðuskap og hrossakaupum. Sá aumingjaskapur gerði hins vegar stjórnarandstöðunni kleyft að haga málum eins og þeim þóknaðist.

    Nú skulum við bíða og sjá hvað Jóhanna og Steingrímur ætlar að gera fallegt fyrir hrægammanna. Í skjóli nætur hafa þau með fulltingi Seðlabankans verið að semja við liðið (sem nb við megum ekki vita hverjir eru en líklega er hluti af eigendum þeir sem ÁÐUR rændu og settu bankana á hausinn).

    Nú skal öllu tjaldað til fyrir þetta fólk og endahnúturinn rekinn á glæpinn.

  • Og mörður – glasið er tómt hvað Samfylkinguna varðar og virðinguna fyrir Alþingi..

  • Garðar Garðarsson

    Mörður, af hverju eru þið í stjórnarflokkunum að eyðileggja svona fyrir ykkur á síðustu metrunum? Af hverju gátuð þið ekki staðið í lappirnar og látið reyna á þingmeirihlutann í stjórnarskrármálinu og staðið þannig við loforð ykkar? Hver segir að 2/3 hluta nýs þings muni greiða fyrir stjórnarskrárfrumvarpinu þegar núverandi þing gat ekki einu sinni gert það með einföldum meirihluta? Ég kaus þig og margt annað gott fólk í Samfylkingunni og að mörgu leyti hafið þið staðið ykkur vel við mjög svo erfiðar aðstæður, en hvernig þið brugðust okkur sem kusu með nýrri stjórnarskrá þ. 20. október er ekki hægt að fyrirgefa í bráð og nú mun ég leita eins og margir aðrir til þeirra afla sem munu gefa allt í að stjórnarskráin sem við studdum verði að veruleika.

  • Snæbjörn Brynjarsson

    Ef Valgerður Bjarnadóttir væri formaður og Mörður væri varaformaður, þá gæti ég kannski kosið SF aftur eins og ég gerði eitt sinn. Eða öfugt, Mörður formaður og Valgerður varaformaður. Eða bara annað ykkar tveggja, eða bara einhver sem lúffar ekki fyrir sjálfstæðisflokknum.

    Þegar það gerist skal ég kjósa flokkinn sem hefur einu skynsamlegu stefnuna í gjaldeyrismálum.

    En því miður hefur SF brugðist. Og þess vegna eru það píratar.

  • Rósa, þetta er ekki Vallhallarvefurinn fyrir FLokksmenn, hann er á XD.is
    Ekki reyna að koma mér í gang með meint sakleysi þinna manna í FLokknum.
    Þeir eru ekkert annað en leiguþý LÍÚ og annara hagsmunaaðila.
    Enda er ekki langt að sjá hvað meirihluti af því „styrktar“fjármagni sem þitt fólk fékk til stuðngins fyrir sín prófkjör.
    Enda hefur frækna þín Ásta Ragnheiður Elín enn ekki skilað sínu uppgjöri, enda má ælta að Binni i Vinnslustöðinni hafi greitt þar vel inn.

    Ljóst má vera að FLokkurinn vann þessa orrustu en hann mun sýna sitt rétta andlit á nýtt, gjafir til FLokksmanna verða færðar, almenningi gefinn puttinn.
    Misskipting mun aukast aftur. Fiskveiðiauðlindin verður færð algerlega til þessar 510 kennitalna sem nú hafa aðgang að auðlindinni, sem nýtingarréttur.

    Og svo verður aftur bylting….

  • @Sigfús

    Það máttu vita karl minn að ég tel alla stjórnmálamenn í fjórflokkunum vera jafn slæma. Sjálfstæðisflokurinn er samansafn manna sem hafa það á stefnuskrá sinni að arðræna allt og alla. Framsókn fellur þar eins og flís við rass.

    Að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J hafi verið jafn snökk til spillingar og tangós við þetta lið, hefur komið á óvart. Jóhanna sem hefur í 30 ár gólað og galað úr púlti á Alþingi um spillingu þessara flokka, seldi þeim stjórnarskránna í hrossakaupum. Það sem er í raun alveg drepfyndið – ef það væri ekki svonara sorglegt – er að ÞEIR sátu hjá í atkvæðagreiðslunni, vitandi að allt var falt – líka frú Jóhanna.

    Nú býður hún þjóðinni upp á krókudíla tár sín og undirstrikar þannig hversu fölsk og undirförul hún er. Þessi kona sem lofaði skjaldborginni til að komast á þing en stendur nú í baktjalda makki um að selja bankaræningjum skuldir okkar á hrakvirði.

    Hún sómir sér vel í hópi Sjálfstæðismanna og Framsóknar. Versta er fyrir hana að þeir hlægja að henni og hún mun aldrei sitja með þeim til borðs því þeir hafa nýtt hana til fullnustu eins og þeim einu er lagið. Verði þeim öllum að góðu – hér er ekkert eftir nema að sjúgja beinin af Lýðveldinu Ísland.

  • Ingólfur Hermannsson

    Mörður, eigum við kjósendur ekki rétt á að vita hverjar þessar rokgjörnu eindir eru? Janfvel þó einhver þeirra kunni að vera formaður í eigin flokk?

  • Höskuldur Davíðsson

    Takk fyrir nákvæmlega ekkert, Mörður Árnason.
    Það er nákvæmlega sama hvað þú bullar.
    Þú ert til skammar fyrir alt þitt fólk.

  • Jón Einarsson

    Ég tek undir með Ingólfi Hermannssyni, ég vil fá að vita hverjar hinar rokgjörnu eindir eru og hvað rökum þær báru fyrir sig gegn stuðningl. M.v. allt það sem er á undan gengið er ekki nema eðlilegt að þetta fólk standi fyrir máli sínu, það er í raun algjört lágmark..

  • Ingólfur Hermannsson

    Ég er hugsi yfir þessum orðum:
    „Mér finnst hinsvegar svikabrigsl og formælingar út í hött.“

    Ég vona að þú eigir ekki þarna við ræðu Birgittu, Sú ræða kom nefnilega frá hjartanu. Þessu sem þú „fékkst“ ekki að fylgja.

  • Tómt Mörður. Glasið er tómt.

    Samkvæmt mínum útreikningum ertu ekki einu sinni í varamannasæti baráttusætis í þínu kjördæmi.

  • Unnur G. Kristjánsdóttir

    Takk Mörður minn fyrir stefnufestuna í náttúruverndarmálunum og pólitíkinni almennt. Fleiri eins og þú ert kæmi sér vel fyrir vinstrihreyfinguna.

    Rósa og fleiri hafa hér á undan mér klappað lastinu lof í lófa. Reiði fólks og aðrar neikvæðar tilfinningar sem fá útrás á þennan hátt er hálf ónotalegt og ekki í neinu samræmi við hið sannverðugt og einarðt innlegg Marðar.

  • Einar Steingrimsson

    Ég tek undir með Rósu að fleiri eins og þú, Mörður, gætu kannski gert „vinstrihreyfinguna“ að vinstrihreyfingu.

    Hins vegar er ástæða fyrir reiðinni (sem mér finnst fáránlegt að tala alltaf niðrandi um) og „svikabrigslunum“. Þótt þú hafir staðið þig afar vel í fjölmörgum málum á kjörtímabilinu þá er hitt alveg ljóst:

    Samfylkingin og VG sviku herfilega í sumum helstu málunum sem þau hefðu átt að koma í gegn, og þar var stjórnarskrármálið stærst. Þetta voru hrein og klár svik, og því eru þau kölluð þessu nafni.

  • í uppgjörinu eftir 4 vikur , verðum þeim varpað á dyr sem eiga það skilið………….þeir eru núna miklu fleiri en oft áður……þegar þingmenn / ráðherrar eru búnir að gleyma þjóðinni og vandamálunum sem virkilega þarf að leysa, þá ber þjóðinni að gleyma þeim sem allra fyrst……..

  • Sverrir Bollason

    Illu heilli muna menn yfirleitt ekki lengra aftur en að síðasta klúðri. Þessir síðustu dagar munu setja stóra beyglu á trúverðugleika flokksins sem verður erfitt að rétta. En þegar gamla íhaldsbandalagið er komið aftur til valda verður það lítið mál að stinga stjórnarskrárdrögum undir stólinn og hlusta ekki á nokkur mann sem mótmælir. Því það kunna þeir að neyta yfirburða sinna hversu smáir sem þeir eru.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur