Mánudagur 08.04.2013 - 13:28 - 12 ummæli

Það sem hægristjórn mundi spilla

Ef heldur fram sem horfir er líklegast að næsta ríkisstjórn verði hægristjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks – gömlu helmingaskiptin rétt einusinni, eftir hrunið og alles.

Þegar komið er að kjörborðinu verða menn að athuga hvað glannaskapur við þessar aðstæður getur kostað.

Hér eru fjórir helstu árangursáfangar í náttúruvernd og umhverfismálum sem líklegt er að hægristjórn mundi spilla – undir forustu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eða Bjarna Benediktssonar, með atvinnuvegaráðherrann Jón Gunnarsson eða Sigurð Inga Jóhannesson,  með fjármálaráðherrann Gunnar Braga Sveinsson eða Illuga Gunnarsson, með umhverfisráðherrann Ragnheiði Elínu Árnadóttur eða Vigdísi Hauksdóttur:

 

1. Rammaáætlun um orku- og verndarnýtingu

Á þessu kjörtímabili komust loksins í gagnið nýjar leikreglur um orkuvinnslu og verndarnýtingu eftir fjögurra áratuga deilur. Þetta var að frumkvæði Samfylkingarinnar – eitt af kjarnamálum í stefnunni um Fagra Ísland. Fyrst voru samþykkt lög um rammaáætlun, sem voru að lokum afgreidd samhljóða, og svo fyrsta rammaályktunin – sem skilaði víðtækari verndaráformum á náttúrusvæðum en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni, þótt ýmis vandi sé vissulega óleystur. Tímamót. Ályktunin var samþykkt með góðum meirihluta, 36 atkvæðum, en 21 var á móti: Framsóknar- og Sjálfstæðismenn. Þeir hafa síðan lýst yfir að þeir vilji „taka upp“ rammaáætlun, en ekki skýrt hvað það merkir.

Ætlum við að treysta því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jón Gunnarsson fari að hinum nýsettu leikreglum um náttúruverðmætin?

 

2. Græna hagkerfið

Aðgerðaáætlunin um græna hagkerfið er í gangi, og í hana eiga að renna verulegir peningar samkvæmt fjárfestingaráætluninni. Með því erum við að styðja til þroska atvinnufyrirtæki framtíðarinnar, á sviði þekkingar, lista, náttúruverðmæta og skapandi greina, en einnig græn verkefni í hefðbundnum atvinnugreinum. Áætlunin var unnin í þverpólitískum starfshóp undir forystu Samfylkingarmannsins Skúla Helgasonar, og samþykkt samhljóða á þingi

– en ímynda menn sér að þau Gunnar Bragi Sveinsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir telji þetta forgangsmál?

 

3. Gegn loftslagsvá

Þær Þórunn Sveinbjarnardóttir og Svandís Svavarsdóttir hafa á undanförnum sex árum haft forgöngu um að Ísland er nú um heimsbyggðina talið í fyrsta flokki í loftslagsmálum. Annarsvegar með því að við höfum gengið til samstarfs við Evrópusambandsríkin um losunarmarkmið og loftslagskvóta, hinsvegar með því að vinna eftir sérstakri áætlun um aðgerðir   í loftslagsmálum á ýmsum sviðum atvinnugreina, fræða og daglegs lífs. Þau Össur Skarphéðinsson og Katrín Júlíusdóttir hafa svo hrint af stað verulegu starfi að orkuskiptum í samgöngum, sem ásamt eldsneyti á miðunum er helsti loftslagsvandi okkar. Þetta er framlag okkar til alþjóðastarfsins gegn loftslagsvánni, og skiptir um leið miklu máli fyrir orðspor og ímynd.

Telja einhverjir að innanlandsframmistaða og alþjóðasamvinna í loftslagsmálum sé einhverstaðar á pólitískri sjónarrönd Vigdísar Hauksdóttur eða Illuga Gunnarssonar – sem fyrir nokkrum árum hélt því fram að hitaaukning í heiminum stafaði af tímabundnum sólgosum?

 

4. Nýju náttúruverndarlögin

Ný náttúruverndarlög voru samþykkt í þinglok og taka við af gölluðum lögum frá 1999, frá tímum Davíðs og Halldórs. Lögin eru mikið framfaraskref – geta orðið grundvöllur alvöru-náttúruverndarpólitíkur næstu áratugina. Þau voru samþykkt með góðum meirihluta á þingi en 17 þingmenn voru á rauða takkanum: Þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, sem þó höfðu fengið í gegn að lögin taka ekki gildi fyrr en á næsta ári, en vildu annars ekki ræða málið efnislega — ég veit það, ég var framsögumaður á þinginu. Og hafa enn ekki látið uppiskátt hvaða breytingar þeir hyggjast gera á lögunum ef þeir fá tækifæri til.

Hver vill láta það ráðast af geðþótta Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannessonar?

 

Þrátt fyrir ýmsa skýjabakka hefur stjórnarmeirihlutinn náð fram verulegum breytingum á síðustu árum á þessu sviði, í félagi við náttúruverndar- og umhverfissinna, við forustumenn í nýjum greinum og stórefldri ferðaþjónustu, við fræðimenn og frumkvöðla. Við getum verið stolt af þessum framförum langt út fyrir raðir Samfylkingarinnar og samstarfs- og stuðningsflokka hennar á kjörtímabilinu.

Nú þarf að halda áfram. Það gerir ný hægristjórn ekki.

 

Flokkar:

«
»

Ummæli (12)

  • Kristján Elís Jónasson

    Allt satt og rétt Mörður, en það er sundrungarfjandinn sem ætlar að fara illa með okkur jafnaðarmenn nú eins og svo oft áður

  • Get ekki séð að maður sé eithhvað sérstaklega til hægri þó svo maður viljir breyta þessum atriðum.
    Eitt að fyrstu verkum ríkisstjórnar jafnaðarmanna verður að
    1. Rammaáætlun verði færð frá pólitískri áætlun í það form sem faghópur lagði til 2. Græna hagkerfið er draumsýn fólks um betri heim, ákaflega falleg en á engan hátt raunhæf. Því er engan veginn hægt að byggja raunveruleikann á henni 3. Stuðlað verði að atvinnustarfsemi sem raunverulega dregur úr útblæstri sbr álverum sem knúð eru með grænni orku 4. Lögin verði aðlöguð í anda jafnaðarstefnunnar og öfgarnir teknir út

  • Hafa vinstri menn gefist upp? Ætla vinstri menn ekki að berjast betur gegn valdatöku hægri flokkanna? „Hvað hefði Jósep Göbbels gert í þessari stööu“? ættu vinstri menn að spyrja sig. Ég er enginn doktor Göbbels, en ætla þó að segja að þessi grein Marðar er svolítið í áttina.
    Hann varar við að vafasamt fólk verði ráðherrar og geti skemmt það sem
    áunnist hafði í náttúruverndarmálum á kjörtímabilinu. En kjósendur eru víst ekki mjög áhugasamir um náttúruvernd. Kjósendur hugsa nú meira um eignin hag. Betra væri að reyna að sannfæra kjósendur að Sigmundur
    Davíð Sigmundsson og Bjarni Benediktsson fæddir og uppaldir í auðvaldstétt vestrænna kapitalista og einskonar borgarar Tortóla og annarra skattaskjóla, ætli að skattleggja fötin utan af Íslands fátæklingum, og brauðið af börnum þess. Þessir kupánar ætli að skattleggja millistéttina
    þannig hún lendi í fátækra gildru banka og auðmanna, þar sem lögfræðingar flokkanna geti rúið hana inn að skyrtunni eða jafnvel fláð hana svo hún beri aldrei sitt barr. Markmið Framsóknar og Sjálfstæðisflokk sé að létta sköttum og eftirliti af auðmönnunum svo þeir geti komið meira fé til þeirra raunverulegu heimalanda, skattaskjólanna. Slagorðið væri: „Hægri menn vilja skattleggja auðmenn eins og vinstri menn skattleggja fátæklinga, en skattleggja fátæklinga eins og vinstri menn skattleggja auðmenn“.

    Svo held ég að sé gott ráð þegar úrslit skoðankannana sýna ofurfylgi framsóknar að birta myndir, í fjölmiðlum sem vinstri menn hafa yfir aðráða,
    af hinum nýju þingmönnum, og segja frá störfum þeirra og bakgrunni. Birta svo myndir af þeim þingmönnum sem detta út af þingi frá vinstri mönnum. Kysu ekki færri Framsókn þegar þeir sjá þær afleiðingar að
    í stað Marðar Árnasonar kæmi einhver leiðbeinandi og pólitíkst viðrini?
    Í stað Álfheiðar Ingadóttur kæmi t.d. vafasamur verkefnastjóri? Eða í stað
    Jóns Bjarnasonar kæmi heimskur ferðaþjónustubóndi?
    Þetta held ég að mundi fæla marga kjósendur frá Framsókn. En hvaða áhrif hefiði þetta á mig sjálfan? Í hreinskilni verð ég að segja: Kannski verka öfugt, þó mér dytti aldrei til hugar að kjósa Framsóknarflokkinn.

  • Guð hjálpi okkur ef stóriðjuskrímsið Jón Gunnarsson kemst í atvinnuvegaráðuneytið. Þá streymir öll sunnlensk orka til Helguvíkur.

    Þá mun það sennilega koma í ljós að álver Norðurál þarf líka að stækka í 450.000 tonn svo að það verði samkeppnishæft.

    Þá erum við ekki bara að hugsa um Þjórsá og allt Reykjanesið heldur líka Kerlingarfjöll og eitthvað af Torfajökulssvæðinu, Hverfisfljót, Hagavatnsvirkun, Bitru, ofl.

  • Óðinn Þórisson

    Sundurlyndi vinstri – manna hefur alltaf verið ykkar aðalsmerki.

    Það sem þarf að gera er að lækka skatta á fólk og fyrirtæki.

    Hér þarf að hefjast nýtt hagvaxtar og framfaraskeið.

    Það þarf að koma atvinnulífinu aftur af stað – öflugt atvinnulíf er forsenda öflugs velferðarkersisns´

    Ég segi NEI við “ you ain’t seen nothing yet “ skattastefnu vinstri manna.

  • Sigurður

    Vá hvað þið eruð úr tengslum við raunveruleika fólks í landinu!!!

    Þetta eru EKKI málin sem fólk er að hafa áhyggjur af þessa dagana.

  • „Hvað myndi Jósep Göbbels gera?“ Þessi Ágúst á ummæli dagsins á þessari síðu. Eftir að hafa lesið kommentið hans var ég fyrir löngu búinn að gleyma innihaldi pistilsins.

  • Veistu Mörður – ég held að hinum almenna borgara og skuldara finnist bara allt í lagi að þessi mál bíði aðeins – svona rétt á meðan það er verið að bjarga heimilum fólks.

    Skjaldborgin – þú mannst kannski ekkert eftir því loforði en við munum það svo sannarlega. Svik Samfylkingar við almenning munu aldrei gleymast og það sjálf Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrimur J hafi gefið fjármálaöflunum veiðileyfi á heimilin mun enn síður gleymast.

    Samfylking er ónýt – það er kannski það EINA góða við svikin. Flokkur sem lygur og svíkur sig inná þjóð sína á slíkri ögurstund á aldrei skilið eitt einasta atkvæði framar. Einungis skömm og fyrirlitningu okkar.

  • Margret S.

    Já, „hvað myndi Jósep Göbbels gera“ eru sannarlega ummæli dagsins. En fylgishrun Samfylkingar og VG er eingöngu vegna svika þeirra flokka við heimilin sem var fórnað á altari fjármagnseigenda. Ég fæ aulahroll í hvert skipti sem SF og VG fólk spyr „hver á að borga“ á nú að láta „gamla fólkið“ borga? Nú hafa verðtryggð húsnæðislán hækkað um 70% frá janúar 2006. Það getur vel verið að Samfylkingarfólki finnist þetta mjög sanngjarnt og sjálfsagt, en fylgishrunið er vegna þess að þegar upp er staðið þá kýs fólk þann flokk sem er líklegastur til að passa upp á budduna þeirra. Ég hef sjálf alltaf kosið Samfylkingu og þar á undan Alþýðuflokkinn. Ég og mín fjölskylda höfum nú yfirgefið þennan flokk sem sveik öll sín loforð, flokk sem gaf okkur von árið 2009. Vaxtabótakerfið er svo óréttlátt. Fólk með lágar tekjur, ef það á fáeinar milljónir eftir í hreina eign á skattframtali þá falla vaxtabætur niður! Fólk sem hefur þrælað í áratugi og situr uppi með stökkbreytt lán eftir hrun fjármálakerfis landsins. Það er með óbragð í munni sem ég kveð gamla flokkinn minn.

  • Blessuð konan hún Margrét ruglar illa saman væntingum og loforðum. Í mínum huga hefur ríkisstjórnin náð árangri framar minum fremstu vonum. Hún lofaði mér engu öðru en að gera sitt besta. Ég get nefnt nokkur dæmi: Verðbólgan komin í 4% úr 18%. Atvinnuleysi í 4.6% en stefndi þegar stjórnin tók við í 20%. Búin að vinna okkur upp úr ruslflokki og skuldatryggingarálag komið í 150 en var 1500. 200 mja hafa farið til að bæta stöðu húsnæðislána. Gjaldeyrisforði fer stöðugt vaxandi. Ekki var til gjaldeyrir fyrir meðulum þegar stjórnin tók við.

    Erlendis er talað um Íslenska kraftaverkið. En það er víst engin spámaður í sínu föðurlandi.

  • Þorleifur H. Gunnarss.

    Guð hjálpi okkur ef við fáum áframhaldandi vinstristjórn!

    Þá fáum við meira af því sama næstu 4 árin og við höfum haft síðustu 4 ár.

    Áframhaldandi viðvarandi atvinnuleysi upp á 5-6%.

    Áframhaldandi háa skatta.

    Áframhaldandi þjóðfélagslegt tilraunabú.

    Áframhaldandi rifrildi og fólk á jaðrinu sem fær alla athygli.

    Millistéttin verður áfram aðþrengd og pínd.

    Vinstrivinum komið á ríkisspenann í alls konar feitar stöður og sérverkefni.

    Áframhaldandi efnahagslega píslargöngu…….

  • Gleymdu ekki Þorleifur – áframhaldandi björgun peningaaflana í landinu.

    Áframhaldandi einkavæðing banka svo hægt sé að selja útvöldum bestu fyrirtæki landsins.

    Áframhaldandi dusilmennska við stjórn

    Áframhaldandi svik og lygar

    Áframhaldandi niðurrif og svelti á heilbrigðiskerfinu

    Áframhaldandi niðurrif og svelti á menntakerfinu

    Áframhaldandi vinavæðing og peningaustur í spítala sem engin verður til að vinna á

    Áframhaldandi svik og ill meðferð á gamla fólkinu sem er á elliheimilum og fær nú eingöngu bað einu sinni í viku, ættingjar verða að mæta og gefa þeim að borða því ekki er til starfsfólk til þess

    Almenn fyrirlitningi á konum er starfa hjá hinu opinbera með láglaunastefnu.

    Áframhaldandi mismunun á skattkerfinu og hyggling fyrirtækja er þóknast þessu liði

    Listinn er endalaus.

    Það er lífsspursmál fyrir þessa þjóð að þetta lið setjist aldrei aftur á alþingi – ALDREI !!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur