Fimmtudagur 06.06.2013 - 15:21 - 10 ummæli

Ríkisstjórn forseta Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson færir enn út völd sín sem forseti Íslands. Hann telur sig hafa til þess skýrt umboð eftir tvennar kosningar, annarsvegar forsetakosningarnar í fyrra og hinsvegar alþingiskosningarnar í vor þar sem óskakandídat forsetans vann góðan sigur og hefur nú myndað ríkisstjórn í umboði og eftir tilmælum Ólafs Ragnars. Við bætist að ekki tókst að skilgreina verksvið forsetans og valdmörk í nýrri stjórnarskrá — vegna andstöðu Sjálfstæðisflokks- og Framsóknarflokksmanna við stjórnarskrárbreytingar.

Nú talar Ólafur Ragnar nokkurnveginn hreint út um andstöðu sína við aðildarumsóknina að Evrópusambandinu — sem þó hefur ekki verið dregin til baka — og leggur hinni nýju ríkisstjórn línurnar í utanríkismálum. Það er nýtt.

Ólafur Ragnar hefur með þessu unnið mikinn sigur. Í utanríkismálum eru allar hugmyndir og stefnumið nýju stjórnarinnar runnar af rótum Ólafs Ragnars, úr ,,útflutningsleiðinni“ 1994-95, frá Kína- og Indlandslínu síðari ára, og af ævinlegri tortryggni Ólafs Ragnar í garð Evrópusambandsins. Meira að segja sérstök hlýja nýju stjórnarinnar í garð Bandaríkjanna á sér samhljóm í hjarta forsetans sem þar þekkir miklu betur til en í meginlands-Evrópu.

Skondið að sjá Sjálfstæðisflokkinn sitja og gnapa án þess að leggja til þessara mála. En við skiljum auðvitað að Bjarni þurfti að komast inn í Stjórnarráðið.

Franskir tímar?

Menn hafa furðað sig aðeins á utanríkisráðherravali Sigmundar Davíðs — af því nýi utanríkisráðherrann hefur ekki mika reynslu á því sviði þótt hann sé hinn vaskasti að öðru leyti. En kannski þarf hann ekki mikla reynslu? Hún er næg á Bessastöðum!

Frakkar hafa þingbundið forsetaveldi einsog menn þekkja. Staða utanríkisráðherra innan pólitíska kerfisins í Frans hefur — óháð því hvað mennirnir heita eða flokkarnir þeirra — lengi verið sú að hann er fyrst og fremst trúnaðarmaður forsetans. Forsætisráðherra Frakklands fæst við mál innan landamæranna og lætur utanríkisráðherrann í friði.

Ætli hér séu að renna upp franskir tímar í  utanríkispólitík?

 

Flokkar: Dægurmál

«
»

Ummæli (10)

  • Árni Finnsson

    „Því er í senn ábyrgt og nauðsynlegt að deila þeirri sýn [forsetans] með þingi og þjóð að litlu kann að skipta hvort Ísland kýs að halda viðræðum áfram; mótaðilann virðist í reynd skorta getu eða vilja til að ljúka þeim á næstu árum.“

    Í enskri útgáfu:
    It is therefore both responsible and necessary to share the view with the Parliament and the nation that it may be of little significance whether or not Iceland chooses to continue negotiations, since in fact the counterparty seems to lack the ability or the will to conclude them in the next few years.

    Forsetinn talar líka fyrir hönd þjóðarinnar gagnvart umheiminum sem fær að vita að þungamiðja heimsmála hefur nú færst til norðurslóða þar sem Ísland getur í krafti landfræðilegra stöðu sinna notið ávaxta góðra samskipta við voldugustu ríki heims. „We should none the less rejoice over the fact that our position with regard to international cooperation is now stronger than ever before: we are linked through alliances and collaborative programmes with our closest neighbours and all the leading nations of the world.“

  • Ísland, farsældarfrón, fyrir suma, ekki alla og brjálaðislegt „lýðræðisríki“. Svei því bæði aftan og framan.

  • Haukur Kristinsson

    Þetta gengur ekki lengur.

    Plebbi á Bessastöðum, plebbar í ríkisstjórn Kögunar gaursins.

    Til hamingju mörlandar!

  • Það var birta yfir þingsetningunni í dag og mátti greina gleði og samstöðu hjá meirihluta þingheims í húrrahrópunum eftir að forsætisráðherra sagði með sinni þróttmiklu rödd: Heill forseta vorum og fósturjörð.
    Og það lofar sannarlega góðu fyrir land og þjóð hinn augljósi samhljómur með forseta, ríkisstjórn og meirihluta þingheims og er það kærkomin breyting frá því sem var á síðasta kjörtímabili.
    Á þessari stundu ber að sýna Samfylkingunni hluttekningu; það er drengileg afstaða í garð þeirra sem minna mega sín og þurftu í dag að hlusta á forsetann fara miður notalegum orðum um helstu gæluverkefni síðustu ríkisstjórnar. Myndavélarnar sýndu valinkunna fráfarandi ráðherra engjast undir ræðu hans og um varir þeirra lék skrumskælt bros.
    Stjórnarskráin stóðst prófið á viðsjárverðum tímum, sagði forsetinn og aðildarumsókn að ESB er ekki tímabær og verður tæplega í náinni framtíð.
    Eru þessi orð hans í fullu samræmi við málefnasamning núverandi ríkisstjórnar og fullyrða má, að meirihluti þjóðarinnar er sammála forseta og ríkisstjórn að þessu leyti.
    Það eru önnur og mikilvægari mál sem brenna á þjóðinni og því ástæðulaust annað og sjálfsagt að fylgja nýrri ríkisstjórn úr hlaði með góðum óskum.
    Merði og samherjum hans verður samt sem áður að sýna skilning í þeirri von að tíminn lækni sárin.

  • Það skiptir litlu máli þó utanríkisráðherrann sé reynslulaus, þessi ríkisstjórn rekur einangrunarstefnu og því fer vel á að einangrunarsinni gegni embættinu.
    Það verður samt dálítið áhugavert að fylgjast starfi Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn undir leiðsögn leiðtogans Ólafs Ragnars.

  • Mikið óskaplega er samfylkingaliðið viðkvæmt fyrir öllu sem Ólafur segir eftir að hann tók Icesave glæpinn af þeim. Þetta var flott ræða hjá kallinum og greinilegt að hann vill að samstarfið gangi vel. Eitthvað sem samfylkingarliðið mætti alveg taka sér til fyrirmyndar.

    Munið það að það var fyrst og fremst sundrung og kosningasvik sem eyðilagði samfylkinguna. Hún mun aldrei rísa aftur – ónýtt fyrirbæri.

  • Samkvæmt Karli Th. Birgissyni, sagði ÓRG að Evrópubandalagið vildi ekki Ísland í bandalagið. Gott ef satt reynist, því ég er ekki viss um að Íslendingar hefðu þar góð áhrif.
    Íslendingar, hvort sem þeir eru með eða móti aðild, horfa einungis til þröngra sérhagsmuna Íslendinga. Menn vilja, eins og fyrri daginn, fá allt fyrir ekki neitt.
    Engum hefur dottið í hug að e.t.v. gæti Ísland reynt að koma einhverju góðu til leiðar í Evrópubandalaginu… stutt góð framfaramál og þessháttar.
    En ég er hræddur um að það yrði heldur ekki raunin, ef þeir fengju inngöngu. Sennilega myndu þeir beita sér til ills, t.d. varðandi umhverfislöggjöf og fjármálaregluverki. Þeir hefðu líka gaman að að fara aftur á hausinn og kenna öðrum svo um – heimta niðurfellingu.

  • Vinstrimenn sögðu allir HÓ einum kór þegar forsetinn setti sig upp á móti fjölmiðlalögum Davíðs Oddssonar, áttu þá hvert bein í Ólafi Ragnari. Eitthvað hefur sælan síðan farið dvínandi eftir að Ólafur kom í veg fyrir að Icesave ruglið færi í gegn. Nú er hann að verða versti óvinur þeirra sem komu honum til valda. Enginn er spámaður í sínu föðurlandi?

  • Óli nýtir sér það að enginn afgerandi er í ríkisstjórninni. Þarna er ríkjandi meðalmennska sem gefur forsetanum tækifæri til að stjórna ferðinni.

  • GunnlaugurIngvarsson

    Ætlið þið ekki að jafna ykkur á kosninga afhroðinu sem Samfylkingin hlaut í kosningunum.

    Stefnu ykkar og ESB trúboðsins var algerlega hafnað í nýliðnum kosningum.
    Reynið nú að horfast í augu við staðreyndirnar og veruleikann.
    Það má rétt vera sem GSS segir hér að ofan að það eigi að vorkenna Samfylkingunni og sýna ykkur hluttekningu.

    En nei ég get ekki gert það – ekki eftir allan hrokann og yfirganginn sem að þið sýnduð þjóðinni og andstæðingum ESB aðildr þegar að þið þóttust hafa öll ráð þjóðarinnar í hendi ykkar á nýliðnu kjörtímabili.

    Þess vegna er kosninga afhroðið sem að þið fenguð algerlega verðskuldað.

    Þegar forsetinn talaði í þingsetningunni gegn ESB aðild þá talaði hann af þekkingu og yfirvegun og alveg í góðu samræmi við yfirlýsta utanríkis stefnu Ríkisstjórnarinnar og þeirra tveggja flokka sem að henni standa.. .

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur