Mánudagur 10.06.2013 - 15:24 - 13 ummæli

Evrópuráðsþing og landsdómur

Í tillögu sem laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins leggur fyrir næsta fund þingsins 24.–28. júní er hvatt til þess að aðildarríkin geri skýran greinarmun á pólitískri ábyrgð stjórnmálamanna – sem þeir eiga um við borgarana og kjósendurna – og sakarábyrgð þeirra, hvort sem þeir hafa brotið af sér í starfi eða sem almennir borgarar.

Í tillögunni er varað við lagabókstaf um víðtæka og óljósa sakarábyrgð. Það þurfum við sannarlega að taka til okkar og skoða í því ljósi stjórnarskrárákvæðið um landsdóm, lögin um landsdóm og lögin um ráðherraábyrgð, sem varla hafa breyst í hálfa öld.

Í ályktunardrögunum er getið eins tilviks og aðeins eins: Meðferðar Úkraínustjórnar á Júlíu Tímósjenkó og Júrí Lútsjenkó. Þarna er ekkert um Ísland, ekkert um landsdóm og ekkert um Geir H. Haarde.

Í upphaflegri tillögu hollenska íhaldsmannsins Péturs Omtzigts er hinsvegar fjallað um landsdómsmálið og felldir um það ýmsir dómar, einsog enn má sjá í greinargerð hans sem fylgir ályktunartillögu nefndarinnar. Setningar þar sem fjallað var um landsdómsmálið á Íslandi í tillögu Omtzigts voru á hinn bóginn felldar brott í umfjöllun laga- og mannréttindanefndar um málið í apríl, meðal annars vegna upplýsinga og röksemda í ítarlegu athugasemdaskjali Þuríðar Backman, sem átti sæti í nefndinni þar til hún lauk þingferli sínum í apríllok.

Sjálfsagt auðvitað að menn noti tækifærið og fjalli um landsdómsmálið – sérstaklega ef það yrði til þess að breyta stjórnarskrá og lögum um það einkennilega fyrirbæri.

Rétt er þó að muna í þeirri orðræðu að textinn sem Hollendingurinn Pétur Omzigt skrifaði um landsdómsmálið er bara eftir Pétur Omtzigt. Evrópuráðsþingið fjallar í mánaðarlok um tillögu þar sem meðal annars eru gerðar alvarlegar athugasemdir  við réttarhöldin gegn Júlíu Tímósjenkó og Júrí Lútsjenkó í Úkraínu. Í þeirri tillögu er ekkert fjallað um Ísland, landsdóminn eða Geir Haarde.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Helgi Ingason

    Ertu þeirrar skoðunar Mörður, að pólitík í þeim flokki sem við báðir kusum í þarsíðustu alþingiskosningum hafi ekki ráðið því að Geir hafi einn sætt ákæru í landsdómsmálinu?

  • Mörður skipti eftirminnilega um skoðun í ræðupúltinu og sleppti því að ákæra pólitíka samferðamenn sína. Þuríður Backman var sjálf pólitískur ákærandi í málinu og hefur hennar skoðun um málið nákvæmlega ekkert vægi.

  • Þessi pistill er ekki efnislega um landsdómsmálið. Um afstöðu mína í því geta menn lesið bæði í alþingistíðindum og í fyrri pistlum hér á Eyjuvefnum, þar á meðal um meint skoðanaskipti. Minni bara á að ég taldi sem þingmaður með fyrir framan mig stjórnarskrá, landsdómslög, ráðherraábyrgðarlög, rannsóknarnefndarskýrslu og tillögur þingmannanefndar að rétt væri að allir fjórir fyrrverandi ráðherrar væru undir.

    Í staðinn fyrir að ráðast persónulega að Þuríði Backman, ágæti ,,Pétur“, skaltu lesa athugasemdaskjal hennar. Sami tengill og á tillöguna. Komdu svo aftur og ræddu þetta sæmilega málefnalega.

  • Haukur Kristinsson

    Ég held að við séum komin í mjög alvarlega stöðu eftir alþingiskosningarnar 2013. Líklega höfum við aldrei haft eins marga vanhæfa og lítið siglda menn í einni ríkisstjórn. Þetta fólk er hinsvegar fremur ungt að árum, því reynslulítið en metnaðarfullt. Getur því orðið samfélaginu hætturlegt.
    Það sem gerir hlutina einnig ísjáverða er sú staðreynd að á Bessastöðum situr forseta ræfill með magalómaníu, sem skeytir hvorki um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu né vilja fólksins, en virðist hafa vilja og getu til að hafa áhrif á dilettantana í ríkisstjórninni.
    Ég skora á stjórnarandstöðuna að sýna Kögunarstjórninni fulla hörku og hika ekki við að beita málþófi og öðrum brögðum til að koma í veg fyrir að þjóðarskútan fái aftur á sig brotsjó, jafnvel sökkvi.
    Ekkert víst að AGS og ESB nenni að koma okkur aftur til hjálpar.

  • Andrés Magnússon

    Þetta er ekki allt rétt. Og eitt og annað, sem vert er að gera athugasemdir við.

    Í fyrsta lagi blasir við að Þuríður Backman hefur alls ekki greint rétt frá öllu í þessu máli, sbr. http://www.ruv.is/frett/skyrsla-thingmanns-ekki-nefndar

    Í öðru lagi skautar Mörður framhjá því að Geirs Haarde og máls hans er rækilega getið í greinargerð ályktunardraganna, skýrslunni góðu. Það er hins vegar ekki talið sambærilegt við mál þeirra Júlíu og Júrís, enda var Geir var ekki handtekinn, hann var sýknaður af flestu og ekki gerð refsing. En það breytir ekki eðli málsins, að pólitískir andstæðingar hans sammæltust um að beita dómsvaldinu sem pólitískum refsivendi. Verði þeim að góðu.

    Það er svo beinlínis rangt, að „að textinn sem Hollendingurinn Pétur Omzigt skrifaði um landsdómsmálið er bara eftir Pétur Omtzigt.“ Í opinberum útskýringum á gangverki Evrópuráðsþingsins á vef þess er vikið sérstaklega að þessu: “Although the explanatory memorandum is drafted in the name of the Rapporteur, he has to take into account dissenting opinions voiced in the committee.”

    En hitt er rétt, að sérálit Þuríðar var eina andófið við skýrslunni í 84 manna nefnd. Hver er þá einn í sinni afstöðu?

  • Andrés — Þá skulu menn vitna í geinargerð Péturs Omtzigts — þar sem tekið hafi verið tillit til gagnrýni innan nefndarinnar, sem ég leyfi mér að vísu að draga í efa — en ekki í ályktunartillögu nefndarinnar. Sú gagnrýni kemur f.o.f. fram í umræðum í nefndinni og sést á samþykktum breytingum á texta rapportörsins — sem í þessu tilviki voru þær að Ísland og landsdómur koma hvergi fyrir í tillögutextanum. Það er einfaldlega málið hér — afstaða Omtzigts lá fyrir í september í fyrra (sérstakt memorandum) og var sagt afar rækilega frá henni þá, m.a. á forsíðu Moggans einsog núna. Fréttin um Omtzigt er sumsé ekkifrétt, svipuð ýmsum þeirra sem þú fjallar oft um í pistlum þínum (sé ég að tala við þann Andrés Magnússon). Fréttin um afstöðu laga- og mannréttindanefndarinnar er svo frá því í apríllok, en fréttin um afstöðu Evrópuráðsþingsins verður vonandi sögð að lokinni næstu þingsetu 24. til 28. júní.

  • Ómar Kristjánsson

    Eg hef lesið þetta sem nefnt er – og ég verð að segja að mér finnst það sem Mörður segir lýsa betur því sem hægt er að lesa úr nefndum dögum heldur en fréttaflutningur fjölmiðla.

    Þessi sérstka greinargerð Omtzigt sem fylgir með er alveg sama greinargerðin og lá fyrir í sepember í fyrra.

    Maður allavega verður að spyrja sig hvort greinargerð hans sé í nafni nefndarinnar. Mér finnst það ólíklegt, án frekari gagna sem styðja það.

    Ennfremur er líkt og það sem frá nefndinni kemur fjalli aðeins um Tímósjenkó.

    Þetta er þó að vísu hlutverk fjölmiðla að skýra betur út.

  • Andrés Magnússon

    Ég tek alveg undir það, að maður áttar sig ekki fyllilega á tilefni þessara frétta nú, nema svona til upphitunar fyrir þingsetuna í þarnæstu viku, en það getur þó varla verið af því að maður sá hvergi minnst á það. (Og jú, Mörður, ég er sá Andrés Magnússon. — Áfram KR!)

    Það er hins vegar ekki umræðuefni færslunnar að ofan eða athugasemda minna, sem þú lætur alveg eiga sig að svara.

    Því skal ég bæta enn einum vinklinum við: Fannst þér ekki einkennilegt, svo ekki sé sterkar til orða tekið, af Þuríði Backman sem einum kærenda í Landsdómsmálinu, að víkja ekki sæti í nefndinni þegar skýrsla Omzigt var til umfjöllunar?

  • Viðtæk og óljós sakabrigði er einmitt það sem flækir málið.

    Alþingi ákvað að fingurbenda á ákveðna menn einmitt í þeim tilgangi — augljóslega í pólítískum og þess venga var ekkert að marka Landsdómsmálið.

    Landsdómur var algjört rugl eins og alþingi kaus að höndla þetta einstaka tækifæri og gera þetta pólitísk mál.

    Skömm sé Atla Gísla og hnas skósveinum.

    Pólitík og réttlæti ná aldrei saman á Y og X ásnum — og þess vegna var þessi vegferð dauðadæmd frá upphafi.

  • Í hnotskurn: Landsdómur var leikrit vegna þess að það var komin annar meirihluti á alþingi. Og pólitík er pólitík. Þess vegna sluppu sumir.

    Atkvæðisgreiðslan minnti á fegurðarsamkeppi í öfgum skilings þess orðs.

    Þar fór tækifæri forgörðum.

    Reyndar var aldrei neitt tækifæri fyrir sannleikan niður við Austurvöll:

    Maður kastar ekki káfli inn í úlfagreni og bíður þess að hann sjúgi spena úlfynju og gangi loks út á sem úlfur.

  • Sumsé: Áfram KR!

  • Uss, það má búast við miklum aur í kringum þetta mál, Mórinn á eftir að velta sér upp úr þessu fori, sem mest hann má. Algerlega óháð því hvort að það sé e-ð tilefni til þess í skýrslunni. Bara að e-r Hollenskur þingmaður hafi komi frá sér sínum drögum er nóg. FLokkurinn skal varinn út í hið óendanlega. Geri orð Bubba að mínum „ekki benda á mig….þetta kvöld var ég að æfa lögreglukórinn“

  • Kristbjörn Árnason

    Þingmenn að dæma um eigin mál

    Þessi Laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins getur ekki verið marktækur aðili til að fella einhvern dóm um stjórnarskrárbrot Geirs Haarde. Um hvenær réttlættlætanlegt sé að láta stjórnmálamenn sæta refsiábyrgð .

    Þessi nefnd er hreinræktaður hagsmuna aðili þar sem í eiga sæti 84 þingmenn frá misjafnlega lýðræðislegum ríkjum Evrópu.

    Þótt ríkisstjórn hafi viðhaft svipuð vinnubrögð sem hafi verið viðhöfð árum saman segir það nákvæmlega ekkert hvort þessi vinnubrögð hafi verið eðlileg og eða rétt.

    Eitt er alveg víst, að almenningur vissi ekki um að svona vinnubrögð væru viðvarandi enda í andstöðu við það sem stendur í námsbókum.

    Það var auðvitað fyrst og fremst ,,Rannsóknarnefnd Alþingis“ sem Geir sjálfur skipaði sem komst að þeirri niðurstöðu að hann hafi brotið stjórnarskránna í nokkrum atriðum.

    Reyndar einnig fleiri ráðherrar bæði í hans ríkisstjórn og í eldri ríkisstjórnum. Eðlilegt hefði verið að allir þessir 4 fyrrum ráðherrar sem rannsóknarnefndin nefndi á nafn hefðu farið fyrir dóminn, en ekki bara Geir.

    Nú hefur hann verið dæmdur af Landsdómi, sem kjörinn var þegar hann var forsætisráðherra og enginn aðili úti í heimi getur þvegið af honum þennan dóm.

    Það er bara alls ekki verkefni þingmanna þótt þeir séu 84 og frá mismunandi löndum að kveða upp dóm um íslenska stjórnarskrá.

    Það er að sjálfsögðu verkefni almennings á Íslandi og þeirra aðila sem hann tilnefnir til þess, það ætti einnig að vera verkefni almennings að breyta íslenskri stjórnarskrá sem þarf að gera miklar umbætur á.

    Ekki veit ég hvort gerðar hafi verið úrbætur á þessum vinnubrögðum, en það er að sjálfsögðu bráðnauðsynlegt, að það verði gert ef það hefur ekki þegar verið gert.

    Þetta mál hafði nákvæmlega ekkert með hatur að gera eða með flokkspólitík að gera, nema þegar ekki mátti færa alla þessa nafngreindu ráðhera fyrir dóminn.

    Menn mega auðvitað ekki gleyma því að aðeins nokkrum árum fyrr brutu tveir ráðherrar einnig stjórnarskránna en þeirra mál voru fyrnt.

    Þetta mál hafði ekkert með pólitísk afglöp Geirs að gera. Bara að það komi fram, aðrétt í lokin stóð hann sig afburða vel.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur