Miðvikudagur 26.02.2014 - 08:47 - 10 ummæli

Ef-afsökun

Þegar maður biðst afsökunar þá biðst maður afsökunar í alvöru — og lætur það annars eiga sig. Í afsökunarbeiðninni felst ekki endilega nein sérstök viðurkenning á mannkostum þess sem afsökunar er beðinn heldur fyrst og fremst að maður hafi sjálfur farið yfir strikið þannig að bitni ósæmilega á öðrum.

Ef-afsökun er engin afsökun. Ef-afsökun er í rauninni athugasemd um að sá sem beðinn er afsökunar sé hálfgerður kjáni, viðkvæmnisgrey sem sá sem afsakar sig vill ekki sparka meira í, eða getur ekki sparkað meira í.

Afsökunarbeiðni Gunnars Braga í gærkvöldi var dæmigerð ef-afsökun. Hann sakaði Steingrím J. um að hafa logið að þinginu, og neyddist svo til að biðjast afsökunar:

Virðulegur forseti. Mér þykir miður ef ég hef vegið nærri þingmanninum, háttvirtum Steingrími J. Sigfússyni, og bið hann afsökunar á því.

Þ.e.a.s.:

1. Hann laug.

2. Hann vildi ekki viðurkenna það þegar ég sagði það.

3. Ég hef rétt fyrir mér en núna er hann farinn að grenja og stóru strákarnir ætla að fara að lemja mig. 4. Best að biðjast ef-afsökunar.

Mikið tekið þessi misserin.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Þarna er ég mjög sammála Merði Árnasyni.

    Þetta færist í vöxt, eins konar skilyrt afsökunarbeiðni.

    Kemur ekki á óvart að utanríkisráðherrann kjósi þetta orðalag. Og þó – ummæli hans flest virðist eiga það sameiginlegt að lítil hugsun búi þar að baki, að ekki sé talað um þekkingu og mannþroska.

    Sennilega var einhver hugsunarvottur á bakvið skilyrta afsökunarbeiðni hans.

    Annars er dapurlegt að fylgjast með þinginu þessa dagana.

    Getur verið að það sé þjóðarspegill?

    Það er ekki uppörvandi hugsun.

    Þakkir og kveðja
    R.G.

  • Haukur Kristinsson

    Það er ekki endilega hrokinn og vanhæfnin sem gerir þessa ríkisstjórn svo auma og lágkúrulega, heldur hversu „banal“ þetta lið allt er.

    „The banality of politics“.

  • Ef Gunnar Bragi hefur beðist afsökunar á framferði sínu þá er afsökunarbeiðni hans tekin til greina.

  • Þetta er smámál. Tittlingaskítur á þúfu. Afhverju ertu að elta ólar við þetta — maður á miðjum aldri?

  • Ingi Gunnar Jóhannsson

    EF Gunnar Bragi veit eiithvað í sinn haus þá er EF-afsökun í raun engin afsökunarbeiðni. Gunnar Bragi er hins vegar of mikill kjáni til að skilja þetta.

  • Hrafn Arnarson

    Tilgáta: ég tel að Gunnar Bragi hafi ætlað að segja :“ … mér þykir miður að hafa vegið að þingmanninum…“ en reiðin hafi náð yfirhöndinni á langri leið í ræðustól Alþingis og þess vegna hafi hann valið annað orðalag þegar á hólminn var komið 😉

  • Þetta minnir á kaþólsku kirkjuna á Íslandi, hvar vissir yfirmenn hennar beiddu skólabörnum miskunar- og hömlulausu kynferðisofbeldit á sjötta og sjöunda áratugnum. Kirkjan var til í að biðja fórnarlömbin afsökunar ef þau teldu að á sér hefði verið brotið. Þetta er ekki afsökun.

  • Haukur Kristinsson

    Jónas Kristjánsson, ritstjóri, var að birta pistil, sem á erindi til allra.
    „Við endum í siðhruni“.
    Ég er hinsvegar þeirrar skoðunar að „siðhrunið“ sé þegar byrjað og hvort okkur takist að stöðva fallið.

    „Eftir síðustu daga er mér allur ketill fallinn í eld. Staðfestur er grunur minn um, að pólitíska kerfið sé ónýtt. Frammistaða Sigmundar Davíðs loddara og Bjarna Benediktssonar svikara í sjónvarpi er hörmuleg. Aðrir ráðherrar og minni spámenn eru ýmist fól eða fávitar, nema hvort tveggja sé. Að baki hins siðferðilega hruns eru kjósendur, sem eru ekki með fullu viti. Staðan er sú, að Ísland getur ekki mannað fullveldi sitt. Hér er einfaldlega skortur á hæfileikum. Þurfum aðstoð að utan til að reka lýðræði. Þurfum fleiri lög og reglugerðir, svo og kontórista frá Bruxelles. Annars endum við í siðhruni.“

  • Önnur grein af svipuðum meiði sem fer ákaflega í taugarnar á mér og fjölmiðlar ýta undir er þegar fólk kemst upp með að kalla augljós ásetnings- eða gáleysisverk „mistök“. Í mínum huga eru það mistök þegar maður skrifar á stafsetningaprófi „firir“ í stað „fyrir“ af því maður vissi ekki betur en ekki þegar maður slær einhvern utan undir eða gefur barni áfengi.

  • Þetta er auðvitað rétt athugað hjá þér Mörður, GBS baðst í raun ekki afsökunar á neinu. Enda ekki sérstaklega skrýtið, hér er um að ræða GBS og hann hefur sínar takmarkanir sem manneskja. Eins og við öll, en kannski eilítið meira áberandi í hans fari.

    Hins vegar fátt sem fer meira í taugarnar á svona topp-gæjum eins og GBS en þegar fólk tekur svona kjána komment, svona „ef“ afsökun sem alvöru fullgilda afsökun.

    „Takk GBS fyrir að biðjast afsökunar, það er ekki auðvelt að viðurkenna að maður hafi haft rangt fyrir sér og viðgangast við því eins og þú nú gerðir.“

    Þegar maður kemur fram við aðra eins og tíu ára tuddar í frímínútum, þá er það eina rétta í stöðuni að svara þeim sem slíkum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur